11.11.1954
Neðri deild: 16. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

12. mál, yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o. fl.

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. — Það virðist koma dálítið kynlega fyrir, að lög, sem hafa verið gefin út, skuli vera þannig úr garði gerð, að rétt á eftir skuli þurfa að fara að gefa út brbl. til þess að leiðrétta áður út gefin lög. Þá virðist hafa legið mikið á þessu, þar sem þessi brbl. eru gefin út á Sauðárkróki. Það mátti ekki biða eftir því, að forseti kæmi úr reisu sinni hingað suður. Að öðru leyti er um þetta mál það að segja, að það er eins og flest það, sem kemur við Keflavíkurflugvelli, það er eintómt vandræðafálm við það allt saman, og ég mun við þessa atkvgr. ekki greiða atkv., hvorki með né móti málinu.