22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja þær umræður, sem hér eru að hefjast um þetta mál, enda hefur það verið svo margrætt að undanförnu og hv. þm. hefur gefizt kostur á að kynnast það rækilega öllum atriðum varðandi Kópavog, bæði sögulega, menningarlega og jarðfræðilega, að þess gerist ekki mikil nauðsyn að bæta við þær upplýsingar. Ástæðan til þess, að ég tek hér til máls, er sú, að hv. 5. þm. Reykv. hafði ekki aðstöðu til að mæta hér á fundinum í kvöld, og bað hann mig því að koma hér á framfæri atriði, sem hlýtur að hafa mikla þýðingu fyrir afstöðu manna til þessa máls.

Svo sem vitað er, eru þrjár leiðir, sem koma til greina varðandi skipun sveitarstjórnar í Kópavogi, þ.e. að velja þá leið, sem frv. það, er hér liggur fyrir hv.d., gerir ráð fyrir, að stofna þar sérstakan kaupstað; í annan stað, að sú leið verði valin, sem einnig hefur borið allmikið á góma, að Kópavogshreppur verði sameinaður Reykjavíkurkaupstað; og í þriðja lagi, að þar ríki áfram „status quo“, þ.e.a.s., að skipan sveitarmálefna verði þar með sama hætti og verið hefur til þessa, að þar verði hreppsnefnd starfandi og sveitarstjórnarmálum verði skipað svo sem er í öðrum hreppum landsins.

Nú sýnast allar umræður hér á Alþingi hafa hnigið í þá átt, að menn séu horfnir frá því að hugsa sér, að sú skipan geti áfram verið, a.m.k. til langframa, á málefnum Kópavogs, að þar verði áfram hreppsnefnd með þeirri skipan, sem nú er, enda mun reyndin vera sú, að sú skoðun sé efst í huga mikils meiri hluta Kópavogsbúa, að horfið verði frá þeirri skipan mála, þannig að því hefur ekki beint verið haldið hér fram af þeim mönnum, sem talað hafa f.h. oddvita Kópavogshrepps í þessum umræðum, að þeirri skipan verði áfram haldið, sem nú er, heldur lögð á það mikil áherzla, að þá leið beri að fara að sameina Kópavog Reykjavík. Þetta bendir ótvírætt í þá átt, sem enda virðist nokkuð augljós, að ekki sé þess kostur að halda áfram þeirri skipan mála þar, sem nú er, enda vitanlegt, að í svo mjög fjölmennu sveitarfélagi er þess naumast að vænta, að slíkt geti gengið til lengdar.

Það varð því niðurstaða vegna þeirra umræðna, sem fram hafa farið um þetta mál, að hv. heilbr.- og félmn. þessarar deildar taldi rétt að leita um það álits bæjarráðs Reykjavíkur, hvort mundi vera fyrir því vilji hjá bæjaryfirvöldum hér, að sú leið yrði farin að sameina Kópavogshrepp Reykjavíkurkaupstað. Að vísu vildi svo kynlega til, að það mun hafa verið andstaða gegn þeirri fyrirspurn frá andstæðingum kaupstaðarmálsins hér í þinginu, þótt það væri lítt skiljanlegt, að ekki skyldu allir telja sjálfsagt að leita álits og úrskurðar þess aðila, sem hlýtur að hafa um það úrskurðarvald, hvort Kópavogur verði sameinaður Rvík eða ekki, ekki sízt þar sem það liggur fyrir, að það muni vera ætlunin í þeim kosningum, sem hugsað er að efna til í Kópavogi nú, að því er mér skilst, á sunnudaginn kemur, að þar verði einmitt spurt um vilja hreppsbúa til þess að sameinast Reykjavík. Það getur verið gott og blessað, að hreppsbúar láti uppi þann vilja sinn, en sá vilji hefur enga raunhæfa þýðingu, ef ekki liggur fyrir, að bæjaryfirvöld Rvíkur séu til viðtals um það efni. Það þótti því rétt og sjálfsagt að leita þess álits, og það álit hefur borizt frá bæjarráði Reykjavíkur. Vil ég leyfa mér að lesa það upp hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi bæjarráðs Reykjavíkur í dag var lagt fram bréf hv. n., dags. 16. þ.m., þar sem leitað er umsagnar bæjarráðs um sameiningu Kópavogs við Reykjavík. Bæjarráðsmenn Sjálfstæðisflokksins báru fram svo hljóðandi tillögu að svari:

Engar málaleitanir hafa borizt til bæjarstjórnar Reykjavíkur frá Kópavogshreppi um sameiningu hreppsins við Reykjavík, og innan bæjarstjórnar hefur þetta mál ekki komið til umræðu. Bæjarráð telur ekki tímabært að hefja viðræður eða samningaumleitanir um sameiningu hreppsins við Reykjavík, enda torveldar það ekki aðstöðu til sameiningar síðar, þótt Kópavogur hefði þá öðlazt kaupstaðarréttindi.

Tillagan samþykkt með 3:2 atkv.

Guðmundur Vigfússon og Bárður Daníelsson óskuðu bókað:

Það er skoðun okkar, að framtíðarskipan sveitarstjórnarmála í Kópavogshreppi eigi að ráða til lykta í samræmi við vilja meiri hluta kjósenda í hreppnum. Allsherjaratkvgr. um afstöðu íbúanna til málsins hefur verið auglýst n.k. sunnudag, 24. apríl, og er þess að vænta, að vilji kjósenda komi þá skýrt í ljós og verði ekki deiluefni lengur. Reynist það skoðun meiri hluta þess fólks, er atkvæði greiðir um málið, að leita beri samninga við bæjarstjórn Reykjavíkur um sameiningu Kópavogshrepps við Reykjavík í náinni framtíð, teljum við einsætt, að bæjarstjórn beri að taka slíkum tilmælum af velvild og lýsa sig reiðubúna til viðræðna um þessi mál.“

Þetta er það bréf, sem borizt hefur frá borgarstjóranum í Reykjavík, þar sem skýrt er frá afgreiðslu bæjarráðs og afstöðu þess til þessa sameiningarmáls. Af því verður ljóst, að meiri hluti bæjarráðs telur ekki tímabært á þessu stigi málsins eða eðlilegt, að Kópavogur verði sameinaður Reykjavík, og tekur það einnig skýrt fram, að það telur ekki neitt vera því til fyrirstöðu, að sú sameining fari fram síðar, enda þótt sá kostur verði valinn, sem gert er ráð fyrir í frv. því, sem hér liggur fyrir hv. deild, að Kópavogshreppur verði gerður að sérstökum kaupstað.

Ég mun ekki að öðru leyti efnislega ræða þetta mál. Það hefur verið gert ýtarlega og rækilega við fyrri umræður þess.

Það hefur verið mikið um það talað, að undirskriftir þær, sem safnað hefur verið, sýni ekki ótvíræðan vilja meiri hluta hreppsbúa. Þær undirskriftir munu nú vera komnar á níunda hundrað, sem hingað hafa borizt. Það hefur verið talið, að allmargt af því fólki sé ekki á kjörskrá, sem samin er eftir manntali 1953, og er það rétt, vegna þess að kjörskrá sú, sem átti að hafa verið samin þá, lá ekki fyrir, þegar undirskrifta var safnað. Var því sá kostur valinn að fara eftir manntali í haust sem leið, enda verður að segja það, að það er ekkert, sem gerir það ótvírætt, að það eigi að greiða atkv. um ákvörðun sem þessa, hvort sameina skuli hrepp kaupstað eða gera hrepp að sérstökum kaupstað, eftir kjörskrá þeirri, sem gert er ráð fyrir við bæjarstjórnarkosningar, heldur virðist vera raunhæfari leið að láta það fólk, sem býr í hreppnum, þegar sú ákvörðun er tekin, segja til um það, hvað það vilji um sína framtíð. Það er vert að upplýsa það, að um 150 manns af því fólki, sem talið er á kjörskrá þeirri, sem lögð var fram nú fyrir skömmu, en átti að leggjast fram 1954, og er miðuð við manntal 1953, er nú flutt úr hreppnum, og það virðist a.m.k. ekki goðgá að hugsa sér, að það fólk, sem flutt hefur inn í hreppinn fyrir alllöngu og hefur byggt sér þar hús og hugsar sér að dvelja þar framvegis, hafi eigi síður, heldur fremur ákvörðunarrétt um það, hvað verði um framtíð þessa sveitarfélags, en það fólk, sem endanlega er þaðan burtu flutt.

Ég mun svo ekki orðlengja frekar um þetta mál, en bendi aðeins á, að úr því að það liggur upplýst hér fyrir ótvírætt, að það sé ekki grundvöllur til sameiningar við Reykjavík að svo stöddu, þá virðist sýnt, að sú leið komi naumast til álita við afgreiðslu þessa máls, og enn fremur, að það geti á engan hátt, nema síður sé, tafið fyrir eða komið í veg fyrir, að sú sameining kynni að fara fram síðar, ef það yrði talið æskilegt, þó að Kópavogur yrði nú gerður að sérstökum kaupstað.