28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir það, að hann hefur borið af mér þær sakir, sem hæstv. forsrh. leyfði sér að bera á mig, að ég hefði haldið hér uppi málþófi um þetta mál. Ég veit ekki nákvæmlega, hvað lengi ég talaði um það nú við 2. umr. þess, en það var meining mín, eins og hæstv. forseti gat um, að tala ekki svo lengi, að ekki væri hægt þess vegna að ljúka jafnvel afgreiðslu málsins nú um kl. 7, svo að ekki þyrfti að verða kvöldfundur, og ég hef takmarkað einmitt mál mitt með tilliti til þess.

Hitt er rétt, að ég leyfði mér að tala óvenjulega lengi um þetta mál, þegar það kom fyrst til umræðu hér í hv. d., og eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá gerði ég það vegna þess, að ég óskaði, að hv. þdm. fengju þegar af minni hálfu öll þau meginrök, sem ég hef fram að færa í þessu máli. Og það er langt frá því, að ég sjái neina ástæðu til þess í þessu máli frekar en öðrum að vera að margendurtaka þau rök, sem fyrir liggja, enda veit ég, að hv. þdm. þekkja mig ekki að því að halda hér uppi málþófi í neinu máli og tefja framgang mála með því.

Hitt var eðlilegt, að það yrðu miklar umræður um þetta mál í hv. Nd., þar sem það var flutt fyrst, vegna þess að það mátti ætla af ýmsu, að það væri tilgangur hv. flm. frv. að berja það í gegnum þingið og gera það að lögum áður en kjósendum í Kópavogshreppi gæfist tími til þess að láta í ljós vilja sinn um málið við atkvgr., sem auglýst var að fram færi 24. apríl s. l. Það var aðeins af því, að það leit út fyrir, að þetta ætti að leyfa sér að gera, að afgreiða málið á Alþingi, til þess að það væri ekki ástæða til að láta atkvgr. um málið fara fram. En þegar þetta tókst ekki, var gripið til hins ráðsins, sem er einsdæmi í kosningum á Íslandi, að þeir flokkar, sem hafa hafið þetta mál, tekið það upp og látið bera það fram hér á hv. Alþingi, neituðu að taka þátt í atkvgr. um málið og gerðu allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að kjósendur létu ekki í ljós vilja sinn í málinu og neyttu atkvæðisréttar síns. En það var gert í ákveðnum tilgangi. Það var gert til þess að koma í veg fyrir, að það sæist svart á hvítu, hve margir af kjósendum í Kópavogshreppi eru með því, að hann verði gerður að kaupstað, hve margir á móti. Það var vegna þess, að þrír lýðræðisflokkar þorðu ekki að eiga undir úrslítum í algerlega frjálsri atkvgr., sem báðir sæktu af fullu kappi, eins og gengur og gerist í kosningum.

Hæstv. forsrh. leyfir sér enn að fullyrða, að það liggi fyrir mikill meiri hluti kjósenda í Kópavogshreppi, sem óski eftir því, að hann verði gerður að kaupstað. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvaða kjósenda? Eru það kjósendur til sveitarstjórnarkosninga í ár, þeir sem eru löglegir, atkvæðisbærir kjósendur til sveitarstjórnarkosninga í ár, eða er það löglegur meiri hl. kjósenda til sveitarstjórnarkosninga, sem kynnu að fara fram á árinn 1956 eða í janúar 1957 — hvort heldur?

Hæstv. forsrh. leyfir sér líka að segja hér, að ég og mínir samstarfsmenn í Kópavogshreppi höfum frá upphafi barizt á móti því, að vilji kjósenda kæmi fram. Hæstv. forsrh. hefur líklega ekki haft fyrir því að lesa öll þau þskj., sem komin eru fram um þetta mál, ef hann leyfir sér að koma fram með slíka staðhæfingu. Það er prentað hér í nál. minni hl. í Nd., að þann 9. marz s.l., tveim dögum eftir að umsögn sýslunefndar Kjósarsýslu lá fyrir í þessu máli, og sýslunefnd vildi láta það velta á meiri hluta atkvæðishærra manna í Kópavogshreppi, hver yrðu úrslit þessa mál, að hreppsnefnd Kópavogshrepps samþ., að fram skyldi fara opinber atkvgr. um málið. (Gripið fram í.) Nei, því að það vissu allir fyrir páska, áður en þingi var frestað hér fyrir páska, að það mundi halda áfram út aprílmánuð. Það vissu allir, og gáfu mönnum þær upplýsingar ágætir menn úr stjórnarflokkunum, enda hefur það komið á daginn, að það var ekkert því til fyrirstöðu, að Alþ. réði þessu máli til lykta á því þingi, sem nú situr, þó að atkvgr. færi ekki fram fyrr en 24. apríl. En það var ekki hægt að hafa slíka atkvgr. nema með nokkrum fresti, og það voru styttir frestir eins og mögulegt er og meira en dæmi eru til um fresti til að láta kjörskrá liggja frammi o.s.frv.

Þó að hæstv. forsrh. leyfi sér að fara með slíkt, þá verður honum erfitt um að sanna það. Ég vil minna hann á, að einn mætur flokksbróðir hans, sem mætti á hreppsfundi Kópavogshrepps þann 9. marz, þegar atkvgr. var samþ., greiddi atkv. með því. Þá var gert ráð fyrir, að fram færi einnig umræðufundur um málið, sem var ekki ætlazt til að tæki neina efnislega ákvörðun í málinu, og mér skildist, að þessi flokksbróðir hæstv. ráðh., sem ég gat um, væri því einnig samþykkur, að það væri ekki verið að leita eftir fylgi við till. eins eða annars efnis um efnishlið þessa máls á þessum ráðgerða borgarafundi. Ég held, að flokksbróðir hans hafi verið mér sammála um, að það væri lítt framkvæmanlegt að láta borgarafund skera úr í málinu, en sjálfsagt hins vegar að halda hann,til þess að það færu fram umr. af hálfu beggja aðila í áheyrn hreppsbúa um málið.

Ég veit ekki, á hvern hátt hefði verið hægt að fara lýðræðislegar með þetta mál heima í héraði en gert hefur verið. Það kom fram fyrst þann 26. febrúar s.l., og viku seinna, hinn 9. marz, er búið að ákveða að fara þessa leið í málinu, láta ræða það opinberlega af hálfu beggja aðila í sveitarstjórn, sem ekki voru um það sammála, í áheyrn hreppsbúa á opinberum borgarafundi, láta ekki leggja það þar fyrir til atkvgr., heldur leggja það fyrir við opinbera, leynilega atkvgr. Eftir að komið var í ljós, að ágreiningur var innan sveitarstjórnarinnar um þetta mál, sem var svo snögglega fram komið, og sýslunefnd benti á þá leið, sem var sjálfsögð, að leggja það fyrir atkvæðisbæra kjósendur, þá stóð ekki á því, að sveitarstjórnin veldi þessa leið í málinu.

Hitt, að berjast svo gegn því, að slík atkvgr. færi fram með eðlilegum hætti og sem flestir tækju þátt í henni, er svo alveg út af fyrir sig á reikningi þessara þriggja lýðræðisflokka, sem standa að þessu máli.

Nei, það er fjarri því, að ég hafi barizt á móti því, að vilji kjósenda í þessu máli kæmi fram. En ég hef ekki séð fært að fara aðra leið en að leggja það fyrir þá sömu kjósendur sem mundu kjósa sér bæjarstjórn í nýstofnuðum Kópavogskaupstað samkv. þessum lögum, hvort það eigi að stofna þessa bæjarstjórn. Þetta hefur verið mín skoðun á því atriði, fyrir hvaða kjósendur eigi að leggja það, og þess vegna ekki fyrir væntanlega kjósendur, sem verða kjósendur samkv. lögum þann 24. jan. 1956, enda hef ég bent á hér í umræðum, að það var augljós tilgangur löggjafans, sem hægt er að sanna, þegar lög um sveitarstjórnarkosningar, þau sem nú gilda, voru sett og ákvæði um kjörskrá sett þar með þeim hætti, sem í lögunum er, að það liði nokkur tími, nokkrir mánuðir, frá því að íbúi flyttist inn í sveitarfélag þangað til hann hlyti þar atkvæðisrétt. Svona hefur þetta verið áratugum saman í okkar landi, þó að þessi frestur, sem menn eiga að hafa til að kynna sér mál í einu sveitarfélagi, áður en þeir eru taldir af löggjafanum bærir til þess að greiða atkvæði um þau, hafi alltaf verið að styttast, og hann er núna í mesta lagi 11 mánuðir.

Ég ætla ekki að halda uppi deilum um þetta atriði. Það er augljóst öllum mönnum, sem það vilja vita, að hér hefur verið rétt að farið. Ég hef átt tal um þetta við hina mætustu menn, sem sinna þessum málum og eru þessum málum allra kunnugastir í Reykjavíkurbæ, hvaða reglur þar hafa gilt og hvaða skilningur á þessum lögum, sem gilda, og hæstv. forsrh. mundi ekki rengja þá menn, sem eru mætir flokksbræður hans, ef hann vildi láta svo lítið að leita þeirra álits um þessi mál, hverjir séu kjósendur réttilega hverju sinni í sveitarstjórnarmálum.

Hæstv. forsrh. fullyrðir, að ég sé enn að berjast móti því, að þetta mál fái framgang. Það er rétt, að ég tel af ýmsum ástæðum, sem ég hef fært full rök að, óskynsamlegt af Alþ. að setja þessi lög, vegna þess að ég tel það óskynsamlegt, eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan, að aðgreina frekar en þegar er þau byggðarlög, sem liggja næst Reykjavíkurbæ og eru augljóslega hluti af atvinnulífssvæði bæjarins og efnahagssvæði. Ég álít hina einu skynsamlegu leið í því að leita þar frekar sameiningar heldur en aðgreiningar, og ég hef ekki farið dult með þessa skoðun árum saman, öll þau ár, sem ég hef starfað að málum í Kópavogshreppi. Ég hef rætt hana við forráðamenn Reykjavíkurbæjar og forráðamenn sveitarfélaganna í kringum Reykjavík. Ég hef talið hina aðferðina, sem Reykjavíkurbær hefur beitt til þess að fullnægja þörfum sínum fyrir landrými og hæstv. forsrh. hefur stundum stutt, að því er mér skilst, þá leið að innlima hluta af þessum sveitarfélögum eftir þörfum Reykjavíkurbæjar, ranga og ósanngjarna. Ég álít, að það eigi að leita eftir sanngjörnum leiðum í þessu máli og skynsamlegum til frambúðar. Það er allt. Ég skal fallast á, að þetta frv. verði að lögum, en framkvæmd laganna verði frestað, þangað til búið sé að fá um þetta mál álit nefndar, sem skipuð væri aðilum frá öllum þessum byggðarlögum.

Ég játa það, að ég berst á móti þessu frv. Ég játa það, að ég hef gert það heima í héraði og hér á Alþ. Ég geri það af þessum ástæðum og með þessum rökum.

Hæstv. forsrh. spurði, hvers vegna ég hefði ekki látið mér detta í hug sameiningu við Reykjavík fyrr en nú. Ég hef verið að svara þessu, ég hef látið mér detta það í hug, en ég hef hins vegar sagt og orðið að segja við mína sveitunga: Við verðum að berjast áfram. — Kópavogshreppur var stofnaður gegn okkar vilja 1948, sem þar vorum þá, og skilinn frá Seltjarnarneshreppi, bókstaflega gegn okkar vilja, en við sögðum: Við verðum að berjast áfram. Við verðum að gera allt, sem í okkar valdi stendur, og meira jafnvel en hægt væri að ætlast til. Við verðum að varna því, að þetta byggðarlag verði til vansæmdar sem úthverfi Reykjavíkur í næsta nágrenni höfuðstaðarins. Við verðum að varna því, að það verði pestarbæli, vegna þess að fólkið þar hafi ekki vatnsveitu. — Og við gerðum það. Fólkið gerði það svo stórmyndarlega; það lagði fram hundruð þúsunda af sinni fátækt til þess að koma því máli fram, og það hefur engan styrk hlotið til þessa dags frá ríkissjóði til þess. En það er fyrir þær framkvæmdir og aðrar, sem eru meiri en eru dæmi til í nokkru byggðarlagi öðru á jafnskömmum tíma, að nú búa 3000 manns í Kópavogshreppi og auðið að bæta þar við þúsundum. En hitt verður aldrei, að atvinnumöguleikar í þessu byggðarlagi rísi upp í nokkru hlutfalli við íbúafjöldann eins og hann er í dag eða verður fyrirsjáanlega á næstu árum. Það er engin von til þess, og þess vegna er það, að þetta svæði í næsta nágrenni Reykjavíkur á að vera hluti af hinni atvinnulegu heild og ekki reisa nýja múra með kaupstaðartakmörkum milli þess og Reykjavíkur. Þetta er ekki ný skoðun mín. Ég hef ekki farið dult með hana árum saman og get kallað marga menn til vitnis um það.

Það væri kannske gaman að taka upp viðræður við hæstv. forsrh. um þetta mál og fleiri mál, sem kynnu að snerta það, því að þetta er fyrsta verulega málið, sem hann ber fram fyrir sitt kjördæmi eða vegna síns kjördæmis, síðan ég tók sæti hér á hv. Alþ., en ég vil samt ekki lengja umræður um þetta mál, þó að hæstv. forsrh. komi nú inn í þær á þessari stundu.

Ég var, þegar hann kom inn í hv. deild eða nálægt henni, að tala síðast í ræðu minni um þá brtt., sem ég leyfði mér að flytja um það, að ríkissjóður afhenti hinum nýja kaupstað verzlunarlóðir hans, afhenti honum það landssvæði, sem ríkissjóður á og byggðin í Kópavogi hefur risið upp á. Ég veit, að það eru allir sammála um, að það er eitt af því allra nauðsynlegasta fyrir sveitarfélag að eiga landið, sem það stendur á, ekki sízt þegar byggðin eykst svo hröðum skrefum sem í Kópavogi. Hæstv. ráðh. er kunnugt um þetta mál; það hefur verið borin fram við hann ósk af hálfu sveitarstjórnarinnar í Kópavogi um að flytja þetta mál og tryggja því framgang á Alþ. með sínu áhrifavaldi. Að þeirri ósk stóðu einnig fulltrúar flokks hans, Sjálfstfl. í Kópavogi, en hæstv. forsrh. hefur ekki gert þetta enn, að taka upp það mál. Hins vegar hefur hann tekið upp fyrir þrjá flokka þetta mál, sem hér liggur fyrir. Og þá segi ég: Hví þá ekki að ákveða í þessu frv., að hinum nýja kaupstað verði afhent það land, sem ríkissjóður á og kaupstaðurinn stendur á? Það liggur fyrir samþykkt um það frá sveitarstjórninni í Kópavogshreppi, ekki aðeins frá þeim vonda meiri hluta, heldur með þátttöku fulltrúa Sjálfstfl. Það er elndregin ósk sveitarstjórnarinnar, eins og hæstv. forsrh. er kunnugt.

En þar að auki leyfi ég mér að leggja til, að ríkissjóður leggi hinum nýja kaupstað 2 millj. kr., vitanlega þá í eitt skipti fyrir öll, og þar leyfi ég mér að vitna til ummæla hæstv. forsrh. í ávarpi til Kópavogsbúa, sem hann lét prenta og útbýta meðal Kópavogsbúa fyrir tæpum tveimur árum. Það var fyrir kosningar. En ég vil gera hæstv. forsrh. þann heiður að álíta, að það megi taka mark á orðum hans, jafnvei þeim, sem eru sögð fyrir kosningar. Og hérna eru þessi ummæli. Mér heyrðist á honum, að hann myndi ekki eftir þeim. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að lesa upp örfáar setningar, sem fjalla um þetta atriði.

Hæstv. forsrh. segir í ávarpi til Kópavogsbúa í blaðinu Vogar, sem gefið er út af sjálfstæðisfélagi Kópavogshrepps í júní 1953:

„Ég vil vekja athygli á því, að það liggur í hlutarins eðli, að Kópavogsbúar eru hvergi nærri einfærir um að rísa undir stofnkostnaði við að skapa fólki svipaða aðstöðu í Kópavogi sem íbúar Reykjavíkur ern aðnjótandi.“ Og síðan feitletrað:

„Tel ég, að Kópavogshreppur eigi siðferðislega kröfu á hendur ríkissjóði í þeim efnum og ef til vill einnig Reykjavík, sem nýtur góðs af vinnuafli Kópavogsbúa. Ræðir hér ekki um smámuni, heldur um milljónir króna.“

Hæstv. forsrh. hefur viðurkennt í opinberu ávarpi til Kópavogsbúa, að þeir eigi siðferðislegan rétt á hendur ríkissjóði um milljónir króna. Ég leyfi mér að leggja til, að þeir fái aðeins 2 millj. kr., um leið og þeim verða með þessum lögum skapaðar enn auknar byrðar, óneitanlega verulegur kostnaður vegna kaupstaðarstofnunar.

Hæstv. forsrh. getur svo átt valið um, hvaða fyrirskipanir hann gefur nú sínum flokksbræðrum um þetta atriði, um leið og hann skipar þeim að fylgja þessu máli fram, svo að hann verði sér ekki til meiri minnkunar en hann þegar er orðinn.