25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

193. mál, vegalög

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forsetl. Ég beindi ummælum mínum við 1. umr. þessa máls til hv. samgmn. og óskaði eftir, að hún endurskoðaði afstöðu sína til þeirrar brtt., sem ég flutti við vegalögin um Hafnarskeiðsveg. Ég leitaðist við í stuttu máli að gera grein fyrir þýðingu þessa vegarkafla, en vitnaði að öðru leyti til þeirra röksemda, sem ég færði fyrir málinu á síðasta þingi, þegar talað var um brúargerðir.

Mér þykir mikið fyrir því að heyra það af vörum hv. frsm., að n. muni ekki hyggjast bera neinar brtt. fram um efni málsins, því að leiðréttingartillögur raska vitaskuld ekki efni þess, en færa það aðeins til réttari vegar, eins og vera ber.

Hv. frsm. sagði, að með því að vilja ekki verða við óskum mínum um þetta væri n. ekki að dæma um þýðingu þessa vegarkafla út af fyrir sig og þá ekki heldur borið saman við hennar tillögur um nýja vegi. Það læt ég mér í léttu rúmi liggja og hef enda ekki neinn áhuga fyrir því, að það sýni neinn meting um slíkt, hvort þessi vegur hefur meira gildi fyrir fólk en hinn. En vitaskuld, þegar verið er að gera umbætur og nýjar framkvæmdir, verður á það að lita, hvert gildi slík umbót hefur fyrir þá, sem fyrst og fremst eiga að því að búa, og þá þori ég fyrir fram að staðhæfa, og undan því getur hv. samgmn. ekki skotið sér, að ekki einn einasti vegarspotti, sem hún leggur til að samþ. verði nú á vegalögum, hefur slíkt gildi frá atvinnulegu sjónarmiði og verðmætissjónarmiði og þessi vegur. Og ég skora á hv. samgmn., ef hún þykist vera þess umkomin að rökstyðja það, að 12 km kafli á einhverri annarri vegalengd, sem hún leggur nú til að samþ. verði inn í vegalög, komi þar til jafns við, þá segi hún til þess, hver hann er.

Þessi till. mín er ekki fyrir mig fyrst og fremst gerð. Hún er að vísu fyrir umbjóðendur mína, en þeir eiga rétt á því, að þessu máli sé sinnt. Enginn útgerðarstaður hér á landi er verr settur hvað aðstöðu áhrærir að sækja sjó en Eyrarbakki og Stokkseyri, en með hinni nýju hafnargerð í Þorlákshöfn veitist þeim möguleiki á að stunda sjó frá Þorlákshöfn. Það torveldar þeim það þó mjög, ef þeir þurfa að aka 40-50 km leið á milli þessara staða. En 12 km er leiðin, ef vegurinn verður lagður á móts við Óseyrarnes frá Þorlákshöfn, og mundi þá verða skroppið með mennina á bil að austan út að ánni og aftur að vestanverðu sóttir að Þorlákshöfn. Eftir að ég talaði um þetta við 1. umr. málsins, hefur sýnt sig, að menn hafa suma daga þríhlaðið í Þorlákshöfn. Ég vil mega vænta þess, að hv. samgmn. liggi ekki í léttu rúmi, hvað gerist í þessum efnum eða til hvers eigi að nota vegina.

Ég skil mætavel afstöðu hv. n. En að hennar till. séu svo hnitmiðaðar, að öllu réttlæti sé fullnægt með því, sem hún leggur til í þessu máli, en að allt annað raski því, nær ekki til þessarar greinar, sem við tölum nú um. Ég hefði gjarnan viljað verða við tilmælum hv. samgmn. um að bera fram enga tillögu, en svo mikinn óleik get ég ekki gert hv. samgmn. og sjálfum mér að verða við þessum óskum. Það get ég ekki á mig lagt, og ef ég gæti með atkv. mínu og till. afstýrt því óhappi, sem nú er stefnt að með því að hafa á móti því að samþykkja þessa till., vil ég gjarnan hjálpa til þess að afstýra slíku óhappi.

Ég vil nú enn á ný skírskota til hv. samgmn., að hún endurskoði mjög vel við 3. umr. þessa afstöðu. Ef einhvers staðar kynni að vera tillaga um umbót, sem ætti jafnmikinn rétt á sér til viðbótar við það, sem hv. n. leggur til, þá verð ég að segja það, að það er réttlætismál að verða við þeirri ósk. É'g neyðist því til að leggja fram brtt., og hljóðar hún á þessa leið, — það er brtt. við frv. til l. um breyt. á vegalögum, nr. 34 22. apríl 1947, að á eftir A. 12 í 2. gr. kemur nýr liður: Hafnarskeiðsvegur: Frá Þorlákshöfn austur Hafnarskeið að brúarstæði hjá Óseyrarnesi og þaðan á þjóðveginn hjá Eyrarbakka.

Ég dró að setja þessa till. í prentun í þeirri von, að hv. n. íhugaði málið betur. Ég verð því að biðja hæstv. forseta um að fá afbrigði fyrir till. og sé mér ekki annað fært en að leggja hana fram. Ef hv. samgmn. vill íhuga enn betur og gaumgæfilegar en henni hefur unnizt tími til þetta atriði, þá mun ég verða við óskum hv. n. um að fresta því, að mín till. verði borin upp, þar til við 3. umr. Ég vil sem sé á allan hátt sýna hv. samgmn. allt tillit til hins ýtrasta, fram á yztu nöf, sem ég sé mér fært að gera, en lengra náttúrlega kemst ég ekki.