26.04.1955
Neðri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

193. mál, vegalög

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Eins og ég gat um við 2. umr. málsins hér í hv. þd. í gær, fóru samgmn. beggja d. yfir frv. með vegamálastjóra milli 1. og 2. umr. og gerðu á því einungis orðabreytingar og leiðréttingar, en efnisbreytingar engar. Niðurstaðan varð sú, að n. taldi, í samráði við skrifstofu Alþ., ekki þörf á því að bera fram sérstakar brtt. á nýju þskj. um þessar leiðréttingar og lagfæringar, heldur var frv. prentað upp með leiðréttingunum, og hefur því nú verið útbýtt þannig.

Ég vil aðeins minnast á örfáar þessara leiðréttinga, rétt til þess að sýna, hvers eðlis þær eru. Á bls. 3 í frv. er t.d. breyting gerð á 49. lið, þar sem settur er Vorsabær í staðinn fyrir Ossabæ. Þessi bær mun í daglegu tali yfirleitt vera nefndur þessu nafni, og töldu staðkunnugir menn og vegamálastjóri betur fara á því, að þetta nafn væri notað. Við 68. lið í Suðurlandsvegum er sú breyting gerð, að bætt er inn í, þar sem stendur „hjá Flatey með álmu yfir Hornafjarðarfljót ytra“: undan Bjarnanesi og á Mýraveg. Vegurinn verður nákvæmlega hinn sami og gert var upprunalega ráð fyrir. Enn fremur er í 70. lið sett inn: hjá Reyðará — í staðinn fyrir „hjá Svínhólum“; vegurinn einnig hinn sami og upprunalega var gert ráð fyrir.

Þessa eðlis eru þessar brtt. yfirleitt. Ein leiðrétting er t.d. við 32. lið í Vesturlandsvegum, þar er um hreina prentvillu að ræða, þar sem stendur Vesturlandsvegur, átti að vera Norðurlandsvegur. Enn fremur er á nokkrum stöðum talað um vegi á væntanlegar brýr, þar sem búið er að byggja brýrnar. Hefur þar orðið að fella út orðið „væntanlegur“.

Ég hygg, að ekki beri nauðsyn til þess að fara frekari orðum um þessar lagfæringar og leiðréttingar, sem n. taldi í samráði við skrifstofu þingsins ekki nauðsyn bera til að flytja sérstakar brtt. um, heldur beri eingöngu að líta á þær sem lagfæringar.

Það er þó rétt að benda á það, að á einum eða tveimur stöðum hefur vegum verið steypt saman; úr tveimur vegum hefur verið gerður einn liður í frv., en vegirnir látnir halda sér nákvæmlega eins og upprunalega var ráð fyrir gert í frv.

Að lokum vil ég svo ítreka það, sem ég gat um f.h. nefndarinnar í gær, að n. beinir því mjög til hv. þdm. að samþykkja þetta frv. eins og það liggur nú fyrir, flytja ekki við það nýjar brtt., enda hafa þær engar borizt utan sú eina, sem lýst var við 2. umr. frv. og tekin var þá aftur til 3. umr.

Ég endurtek það, sem ég sagði um þá brtt. í gær, að nefndin gerir sér ljóst, að sá vegur er nauðsynlegur eins og fjöldamargir aðrir vegir, sem hv. þm. gjarnan vildu hafa fengið tekna upp í þjóðvegatölu, en ekki hefur verið talið tímabært eða mögulegt að taka upp að þessu sinni. Svipaður háttur mun verða á hafður um afgreiðslu vegalaga og opnun þeirra í framtíðinni og verið hefur undanfarin ár. Það liða sennilega 3–4 ár þangað til þeim verður breytt næst, og þá koma nýir tímar og ný ráð. Þá verða margir þeirra vega, sem þm. nú hafa ekki fengið tekna upp, en hafa áhuga fyrir, vafalaust teknir upp í vegalög.

Ég leyfi mér svo f.h. nefndarinnar að óska þess, að frv. verði samþykkt við þessa umræðu eins og það nú liggur fyrir, með þeim leiðréttingum, sem á því hafa verið gerðar.