05.11.1954
Efri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (1969)

26. mál, náttúruvernd

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. um náttúruvernd, 26. mál þessarar d., sem hér liggur fyrir nál. um ásamt rökstuddri dagskrá á þskj. 113, er fram komið að tilhlutan fyrrv. menntmrh., en samið af þeim Ármanni Snævarr prófessor og dr. Sigurði Þórarinssyni, en dr. Finnur Guðmundsson hefur farið yfir frv. og tekið þátt í viðræðum um það.

Málið er flutt af ríkisstj. með framsögu hæstv. menntmrh. við 1. umr. Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir að vernda ýmsar náttúruminjar, um leið og almenningi er gefinn kostur á að njóta þeirra og brýnd fyrir fólki góð umgengni til að afstýra spjöllum á merkilegum náttúrufyrirbrigðum og vakin athygli fólks á gildi þeirra. Að vísu eru til lög um friðun, sbr. lög um friðun Þingvalla frá 1928. Svo má nefna fuglafriðunarlögin, sem nýlega voru endurskoðuð. Frv. þetta er víðtækt og ýtarlegt, og hafa þeir, sem það hafa samið, lagt í það mikla vinnu, kynnt sér löggjöf og framkvæmd slíkra laga erlendis.

Frv. með aths. og skýringum er alls 39 bls. Er í aths. um frv. bent á ýmsa staði, þar sem spillt hafi verið sérstæðum náttúruminjum og eigi gengið svo snyrtilega um sem skyldi. Í sambandi við þetta eru aðallega fordæmdar framkvæmdir í Grænavatni í Krýsuvík, notkun gjalls úr Helgafelli í Vestmannaeyjum og úr Rauðhólum við Reykjavík, einnig sams konar not af gígnum Grábrók í Norðurárdal. Flm. telja, að umgengni á þessum stöðum mætti sums staðar vera betri en er, þ. e. snyrtilegar gengið um að verki loknu, og er enn hægt að bæta þar um. En á hinn bóginn ber að líta á, að Rauðhólar við Reykjavík og eins, sunnan Hafnarfjarðar hafa mjög verið notaðir til vega- og flugvallagerða og væri ekki hægt að banna slíkt, meðan ekki er annað hægara efni fyrir hendi, Líkt mætti segja um Grábrók, en efni þaðan er mjög notað í steinsteypu og steinagerð, og sama má segja um vikurhóla þá, sem eru norðan Vatnsskarðs við Krýsuvíkurveg. Þaðan er flutt efni í allstórum stíl, bæði til ofaníburðar og holsteinagerðar. Víðar eru steinefni, svo sem hraunbruni sunnan Hafnarfjarðar, sem mjög eru notuð til ýmissa gagnlegra hluta, einkum eftir að mönnum lærðist að nota jarðýtur til þess að geta hagnýtt sér slík efni með góðum árangri. Ég er sannarlega ekki að mæla því bót, að illa sé gengið um úti í guðsgrænni náttúrunni, og fer fjarri því, en hitt tel ég ekki heppilegt, að löggjafarvaldið skipti sér um of af slíku að þarflitlu. Ekki veitir af að nota sér þá hraun- og vikurhóla, sem hér hefur verið minnzt á, án þess að ég vilji gera lítið úr náttúruverndinni, því að hún er sjálfsögð og virðingarverð innan vissra takmarka. En ætlazt er til í frv., að náttúruverndarráð og náttúruverndarnefndir hafi úrskurðarvald í þessu.

Þetta mál þarf að undirbúa rækilega, og því mælir nefndin með því, að þeir aðilar, sem getið er um í nál., eigi kost á að láta álit sitt í ljós. Hefur n. því orðið ásátt um að afgreiða það með eftirfarandi rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. leiti umsagnar sýslunefnda, bæjarstjórna og Búnaðarfélags Íslands um málið og leggi fyrir næsta þing niðurstöður sínar, að undangenginni endurskoðun á frv., tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“