19.10.1954
Neðri deild: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2094)

42. mál, brúagjald af bensíni

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. samhljóða þessu var flutt á síðasta Alþingi, en varð þá ekki útrætt. Efni þess er, að lagt verði aukagjald á innflutt benzín, fimm aurar á lítra, og verði þessu gjaldi varið til að endurbyggja stórbrýr, sem eru orðnar svo ótraustar, að slysahætta getur stafað af að dómi vegamálastjórnarinnar. Í 3. gr. frv. eru ákvæði um, að fyrstu tekjunum af þessu gjaldi skuli varið til endurbyggingar Jökulsárbrúar í Öxarfirði. Það er gert ráð fyrir því, að þetta aukagjald renni í brúasjóðinn og að það verði svo greitt úr brúasjóðnum til þessara sérstöku framkvæmda.

Á síðasta Alþingi gerði ég nokkra grein fyrir þessu máli og þeirri nauðsyn, sem ég hygg á því vera að verja nú nokkru fé til endurbyggingar á brúm, sem slysahætta stafar af, og skal ég ekki hafa langt mál um þetta að þessu sinni.

Það er, eins og ég gat um áðan, lagt til í 3. gr. frv., að fyrstu tekjum brúasjóðs af þessu gjaldi verði varið til að endurbyggja brúna á Jökulsá í Öxarfirði. Þessi brú á Jökulsá í Öxarfirði er nú hálfrar aldar gömul. Bygging hennar var, ef ég man rétt, hafin vorið 1904. Hún er hengibrú og var í öndverðu ekki sterklega byggð, enda ekki ætluð fyrir þá umferð, sem hún hefur orðið að bera síðustu áratugina. Fyrir 50 árum voru engar bifreiðar hér á landi, og umferð um brýr eins og þessa var þess vegna í þann tíð umferð gangandi manna og hesta, einstaka sinnum hestvagna, og þess var vart að vænta, að þær brýr, sem byggðar voru á stórvötn landsins í þann tíð, væru miðaðar við þá styrkleikaþörf, sem nú er.

Það munu nú vera 20–25 ár síðan bifreiðar fóru að fara austur fyrir Reykjaheiði, og um skeið var ákaflega mikil umferð um Jökulsárbrú í Öxarfirði af áætlunarbifreiðum, sem fóru milli Norður- og Austurlands, því að áður en vegur var lagður um Mývatnsöræfin og áður en efri brúin var byggð á Fjöllum, þá lá áætlunarleiðin milli landsfjórðunga um Reykjaheiði og Kelduhverfi og austur. yfir Jökulsá og þaðan upp á Hólsfjöll. Þessar áætlunarbifreiðar milli Norður- og Austurlands fara að vísu ekki lengur um Jökulsárbrú í Öxarfirði, en umferð annarra bifreiða hefur hins vegar mjög aukizt í seinni tíð, og þetta hefur reynt mjög á þessa tiltölulega veikbyggðu hengibrú, sem í öndverðu var alls ekki byggð fyrir þá umferð sem hún hefur orðið að þola í seinni tíð. Eftir að þau tíðindi urðu, sem flestum landsmönnum eru minnisstæð, að brúin á Ölfusá hrundi, eða um það leyti, sem var haustið 1944, ef ég man rétt, voru gerðar ráðstafanir til þess að hafa vörzlu við Jökulsá í Öxarfirði til þess að tryggja það, að bifreiðar færu ekki með þungan farm um brúna, og það var þá um tíma sameinað, að vörðurinn við brúna, sem hafði eftirlit með því, að ekki færu of þungar bifreiðar um brúna, var jafnframt girðingarvörður vegna fjárpestanna. Síðan fjarskipti voru höfð á milli Jökulsár og Skjálfandafljóts, hefur ekki verið talin þörf á að hafa þarna vörzlu vegna fjárpestanna, og nú í seinni tíð hefur engin varzla verið við brúna, enda er það í sjálfu sér ekki neitt úrræði í þessu máli, þó að varzla sé við brúna. Það, sem nú liggur fyrir og ekki verður komizt hjá, ef menn vilja ekki loka augunum fyrir þeirri slysahættu, sem þarna er á ferðinni, er að endurbyggja þessa brú.

Ég hef nýlega verið staddur á þessum slóðum og hef átt tal við marga bifreiðarstjóra, sem að staðaldri flytja um brúna bæði vörur og farþega. M. a. hef ég talað við bifreiðarstjóra af Austurlandi, sem er í ferðum milli Austfjarða og Akureyrar, fer ekki um þessa brú að staðaldri, en þó einstaka sinnum. Það er sammæli allra þessara manna, að hér sé svo mikil hætta á ferðum, að með engu móti geti talizt forsvaranlegt að láta við svo búið standa. Ályktanir, sem samþykktar hafa verið á fundum þar í nærsveitum, bera hins sama vott. Og það er vaxandi beygur í öllum, sem einhver kynni hafa af þessum málum, við það, að framkvæmdir þarna kunni að verða of seint á ferðinni. Það er alkunna, hvernig fór með Ölfusárbrúna. Það var lán, það var sérstök heppni, að ekki varð slys á mönnum, þegar brúin hrundi undan bifreiðum um miðja nótt í myrkri. Það var lán og sérstök gæfa, að þar varð ekki slys á mönnum. Nú er Jökulsá í Öxarfirði þvílíkt vatnsfall á þessum slóðum, þar sem brúin er yfir hana, að það eru ekki neinar líkur til þess, að menn, sem væru í farartæki, sem lenti út í það vatnsfall, mundu geta borgið sér úr ánni.

Margt af því, sem ég hef sagt nú um þessa brú og hættuna í sambandi við hana, hef ég áður sagt í framsöguræðu minni um þetta frv. í fyrra. Ég vil nú vænta þess, þó að mörgu sé að sinna á þessu þingi að venju, að hv. þm. gefi gaum að þessu máli, því að ég tel, að það verði nú með engu móti lengur dregið, svo að forsvaranlegt megi teljast. Það gjald, sem hér er lagt til að lagt verði á benzín, eða fimm aurar til viðbótar við benzínskattinn eins og hann er nú, er að vísu nokkur upphæð fyrir þá, sem bifreiðar eiga eða nota. En ég hygg, að þeir, sem þarna eiga hlut að máli, muni þó heldur kjósa að inna af hendi þetta tiltölulega lága viðbótargjald en að láta þessa brú standa þarna eins og hún er. Og vitanlegt er það, að hér er ekki um sérmál héraðs að ræða. Það er ákaflega mikil umferð á þessum slóðum, sérstaklega á sumrin, fólks víðs vegar að af landinu. Endurbygging Jökulsárbrúar er því miklu fremur landsmál en héraðsmál. Auk þess er í frv. gert ráð fyrir; að fleiri brýr verði endurbyggðar fyrir viðbótargjaldið af benzíni.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.