01.11.1954
Neðri deild: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2154)

72. mál, olíueinkasala

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á seinasta þingi og hafði þá verið flutt nokkrum sinnum áður, og eru flm. nú þeir sömu og á síðasta þingi.

Um það eru ekki skiptar skoðanir, að ég hygg, að olíuverzlun hér á landi í því formi, sem hún er nú rekin, sé mikil gróðalind. Þessi grein verzlunarinnar er í höndum þriggja olíufélaga, eins og kunnugt er, og þessi olíufélög eru öll í miklum uppgangi og hafa byggt upp íburðarmikil dreifingarkerfi um land allt á tiltölulega skömmum tíma. Öll þessi uppbyggingarstarfsemi olíufélaganna ber ljóslega miklu ríkidæmi vott.

Þá eru mönnum þær upplýsingar, sem stjórnarblöðin gáfu blaðalesendum fyrir seinustu kosningar, líka í fersku minni. Þar var upplýst, að gróðinn af olíuverzluninni skipti mörgum hundruðum þúsunda af hverjum olíufarmi, og er þannig víst, að hann skiptir allmörgum milljónatugum á hverju ári. Þessir milljónatugir eru að þarflausu teknir af viðskiptavinunum og þannig ekki að óverulegu leyti af útgerðinni, sem þó berst í bökkum og liggur jafnvel við gjaldþroti. Það er engum vafa bundið, að útgerðin þyrfti, ef hún fengi olíur og aðrar nauðsynjar sínar á réttu verði, ef til vill engrar ríkisaðstoðar með. Það virðist líka vera bókstaflega hlægilegt, að ríkisstjórnin, sem nú kaupir allar olíur, sem notaðar eru hér á landi, af Rússum, skuli framselja olíufélögunum þessa hagkvæmu samninga einungis til þess að verðið verði stórhækkað á olíum og öllum atvinnuvegum þar með gert þyngra undir fæti. Það virðist vera einsætt, að ríkið eigi að verzla sjálft með þær olíur, sem það gerir heildarsamninga um að kaupa og fær þannig vegna hins mikla magns, sem keypt er, á hagstæðara verði en þrír aðilar, sem hver um sig keypti þriðjung þess magns. Þessa vöru er ódýrast að flytja til landsins í stórum tankskipum. Menn segja, að það ættu að vera 16–18 þús. tonna tankskip. Um það stendur ríkið sem einkainnflytjandi stórum betur að vígi en þrír smærri innflytjendur. Alóþarft er líka að láta kaupendur olíunnar kosta nema eitt dreifingarkerfi, en nú standa þeir bæði undir stofnkostnaði og rekstrarkostnaði þriggja dreifingarkerfa. Í þriðja lagi er útvegun slíkrar nauðsynjavöru sem olíunnar fyrir atvinnulífið alveg sjálfsögð í ágóðalausri þjónustu ríkisins, en ekki sem gróðalind fyrir einstaklinga eða einstök auðfélög. En það er auðvitað alls ekki hægt að ætlast til slíkrar ágóðalausrar þjónustu af einstaklingum eða fjárgróðafélögum. Þar kemur ríkisrekstur einn til greina.

Í 1. gr. þessa frv. er lagt til, að frá 1. júlí 1955 fái íslenzka ríkið einkaleyfi til innflutnings á öllum olíum og stofni fyrirtæki, sem heiti olíueinkasala ríkisins. Olíurnar, sem hún flytur inn, skal hún selja beint olíusamlögum sjómanna og útvegsmanna, kaupfélögum og öðrum verzlunarfélögum, kaupmönnum og félögum bifreiðaeigenda og fyrirtækjum, sem eru eign ríkis og bæjarfélaga, og einnig iðnaðarfyrirtækjum, en ekki öðrum, þ. e. a. s. vörurnar eiga að seljast milliliðalaust. Olíueinkasalan á að reka beina verzlun við notendur. Olíufélögin eru með þessu ákvæði frv. útilokuð sem kaupendur.

Í frv. er ríkisstj. heimilað að leigja, kaupa eða láta byggja stórt olíuflutningaskip til þess að annast olíuflutningana til landsins og einnig skip til þess að sjá um dreifingu innanlands með sem ódýrustum hætti, en eitt slíkt olíu flutningaskip er nú til í eigu ríkisins og hefur verið rekið með góðum hagnaði. Í frv. er ríkisstj. enn fremur heimilað að taka eignarnámi eða leigunámi hverja þá fasteign eða tæki, sem nú er notað hér á landi til verzlunarrekstrar með olíur og benzín. Með þessu er hægt að gera eitt fullkomið dreifingarkerfi úr þeim þremur, sem fyrir eru. Ákvæði er í frv. um það, að þjónusta olíueinkasölu ríkisins skuli vera ágóðalaus þjónusta, og eru ákvæðin um það á þessa leið í 10. gr. frv.:

„Ágóði sá, sem verður af rekstri einkasölunnar, eftir að hæfilegur hluti hans, fyrirtækinu til öryggis, hefur verið lagður í veltufjár- og varasjóði, fyrningar- og byggingarsjóði, skal geymast til næsta árs og notast það ár til lækkunar á verðlagi þeirra vara, sem olíueinkasalan verzlar með, að svo miklu leyti sem eigi reynist unnt að verja ágóðanum til verðuppbótar á því sama ári sem ágóðinn varð til.“

Þetta, sem ég nú hef sagt, er meginefni frv., og miða öll ákvæði þess að því, að atvinnuvegunum verði tryggðar olíuvörur með eins lágu verði og mögulegt er. Þetta verður að gerast með því að komast hjá óþörfum milliliðum og útiloka óþarfa álagningu, flytja olíurnar til landsins í stórum tankskipum og gera dreifingarkerfið eins einfalt og ódýrt og verða má. En þetta allt teljum við flm. að bezt fáist tryggt með ríkiseinkasölu á olíum.

Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. sjútvn.