14.12.1954
Sameinað þing: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (2469)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hluta utanrmn. hélt nú áðan sína fyrstu efnislegu ræðu um þetta mál, og duldist þó engum, að hann var nálega annars hugar meðan hann flutti þá ræðu og engu líkara en hann væri með hendur fyrir aftan bak. En þetta er þó einasta viðleitni hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar til þess að ræða efnislega það mál, sem hér liggur fyrir.

Þrátt fyrir það að hv. frsm. utanrmn. gerði að þessu sinni ofur litla tilraun til að koma inn á málið sjálft, þá gaf hann þó engar skýringar, færði engin rök fyrir því, að Íslandi væri nauðsyn, að þetta mál yrði afgreitt fyrir jól. Til þess var engin tilraun gerð af hv. frsm. nefndarinnar. Hann gerði heldur enga tilraun til þess að afsaka það, að málið er knúið fram þrátt fyrir fjarveru bæði hæstv. utanrrh. og hv. form. utanrmn. En það hefði verið full ástæða til, að hæstv. stjórn hefði beðið um, að málinu yrði frestað og það tekið út af dagskrá, meðan utanrrh. og formaður utanrmn. væru erlendis og gætu ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins. Það hefði verið eðlilegast af öllu eðlilegu í sambandi við afgreiðslu málsins, eins og hér er ástatt, að báðir þessir menn eru í útlöndum.

Hv. frsm. vék að því, að það væru líkur til þess, að flestar bandalagsþjóðirnar í Atlantshafsbandalaginu mundu afgreiða málið seinni hluta janúarmánaðar, og virtist hafa skilið orð mín svo. Ég sýndi fram á það, að flestar bandalagsþjóðirnar mundu ekki taka málið til afgreiðslu fyrr en einhvern tíma í janúarmánuði að afloknum jólafríum, en hvorki ég né neinn annar veit um það, hvort málinu verður lokið, hvort það fær afgreiðslu í janúarmánuði. Það getur vel dregizt mánuðum saman, og aðalóvissan snýst svo um þetta, að við vitum ekki nema málið kunni algerlega að stranda á einhverri bandalagsþjóðinni, og það þarf ekki nema að ein af 16 þjóðum segi nei við fullgildingu samningsins. Þetta viðurkenndi hv. frsm. líka algerlega. Hann sagði: Það er óvissa um, hvaða úrslit málið fær hjá Frökkum og hjá Þjóðverjum, þ. e. a. s. hjá þeim þjóðum, sem málið skiptir langmestu. Nú hygg ég, að flestir muni fallast á það, að það er eins og svar út í hött meðan aðrar þjóðir eru að segja já eða nei, áður en vitað er, hvert svar Þjóðverja og Frakka verður. Ef þær neita, þá eru öll svör af hendi annarra þjóða ekki aðeins óþörf, heldur nærri því hláleg. Það er eins og þau vilji taka að sér að svara fyrir barnið.

Hv. frsm. utanrmn. viðurkenndi berum orðum, að það væri vafasamt um úrslit málsins hjá þessum tveimur höfuðaðilum, Þýzkalandi og Frakklandi, og hann sagði í beinu framhaldi af því, að málinu hefði verið frestað hér fram yfir áramót, ef það væri ekki fyrirhugað að fresta þingi jafnlengi og nú er fyrirhugað, þ. e. a. s., að ég hygg, til 1. febr. Þó hefur engin tilkynning komið út um það enn þá. Þar með undirstrikaði hann enn á ný fyrri ummæli sín um það, að það væri nokkur ástæða til að láta málið bíða, en á þeirri játningu hóf hann sína framsöguræðu, þegar málið var lagt hér fyrir. Hv. frsm. vék svo nokkrum orðum að aðalefni þessa máls, og skal ég á þessu stigi ekki ræða það, en er honum þó ekki alveg sammála um, hvert sé aðalefni þessa máls. Ég tel, að það sé aðalefnið nú að gera sér það ljóst, hvort sé betra með tilliti til viðkvæmustu mála Evrópu í dag að fullgilda Parísarsamningana tafarlaust eða fresta fullgildingu þeirra, en ganga heldur strax rösklega fram í því að reyna allt, sem gert verði til sameiningar Þýzkalandi og til þess að knýja fram friðarsamninga við Austurríki.

Ég held, að það væri miklu affarasælla fyrir friðarmálin í Evrópu, ef hægt væri að fá samkomulag um frestun á fullgildingu Parísarsamninganna og að stjórnmálamenn Evrópu legðu sig alla fram á næstu vikum að reyna að ráða þessum tveimur málum til lykta, því að þá væru friðarhorfurnar miklu betri í álfunni en þær eru nú og margfalt betri en þær yrðu, eftir að búið væri að knýja fram heimildir til handa Vestur-Þjóðverjum til þess að hervæðast.

Ef auðnast mætti að ná samkomulagi um frjálsar kosningar í öllu Þýzkalandi og þá dregið úr vopnun austur-þýzku lögreglunnar í sambandi við það, stæði Evrópa miklu nær því, að það væri von um frið, heldur en með því að hervæða Vestur-Þjóðverja og auðvitað herða þá á hervæðingarkapphlaupi í Austur-Þýzkalandi líka og leiða borgarastyrjaldarhættu yfir hina þýzku sundruðu þjóð.

Fyrir nokkrum dögum hefði enginn efazt um það, að Parísarsamningurinn yrði fullgiltur af öllum aðildarríkjunum, en við kosningaúrslitin að undanförnu í Þýzkalandi verða allir að játa, að það sé mjög tvísýnt, hvort Þjóðverjar samþykki Parísarsamninginn eða ekki. Svona hafa viðhorfin breytzt í þessu máli á rúmlega einni viku, og þau geta enn breytzt í næstu viku og vikum, og einmitt meðan málin standa svo, er verið að ræða þetta mál á Alþingi Íslendinga, og verður þá ekki hægt að segja annað en að viðhorfin í þessum málum séu á hverfanda hveli og þá sé skynsamlegra að doka við og sjá, hvernig hjólið snýst, áður en Ísland tekur sína endanlegu ákvörðun í svo afdrifaríku máli.

Ég spurði sérstaklega um það, en hef ekkert svar fengið við því, hvaða tryggingar það væru, sem minnzt er á í till., sem hér liggur fyrir, hvaða tryggingar það væru, sem Vestur-Þýzkaland hefði gefið fyrir því, að það tæki ekki til að hervæðast af kappi á sama hátt og það gerði eftir fyrri heimsstyrjöldina, ef það yrði nú tekið í Atlantshafsbandalagið og fengi heimildir til að hervæðast. Það er talað um það í till., að Þýzkaland hafi gefið slíkar tryggingar, en hæstv. ríkisstj. hefur ekki gefið neinar upplýsingar um það, í hverju þessar tryggingar eru fólgnar, og mundi það þó skipta miklu máli fyrir mig og aðra að fá fullkomnar upplýsingar um það, hverjar þessar tryggingar eru.

Hv. þm. Str. vék ekkert að þessari spurningu, og er hún þó eitt veigamesta atriðið, sem ég tel að hæstv. ríkisstj. ætti að upplýsa, þegar um það er spurt hvað eftir annað. Hins vegar sagði hv. þm. Str., að það lægi fyrir yfirlýsing frá Bandaríkjunum um það, að ef Parísarsamningurinn yrði ekki fullgiltur, þá tækju Bandaríkin her sinn burt úr Evrópu. Þessa hótunarpólitík hefur utanríkisráðherra Bandaríkjanna oft rekið, og í hvert skipti sem hann hefur beitt slíkum hótunum gagnvart frjálsum lýðræðisþjóðum, hefur það orðið til þess að spilla málstað Bandaríkjanna, og ef það er staðreynd, að þessi hótun liggi nú fyrir, þá er það ein af meginástæðunum fyrir því, að það er full ástæða til þess að óttast um, að samningurinn verði ekki staðfestur, hvorki í Frakklandi né í Þýzkalandi. Og svo mikið er til af brezkum metnaði enn, að Bretar taka ekki með góðu við slíkum hótunum. Mér er nær að halda, að þessi yfirlýsing frá Bandaríkjunum, frá Dulles, muni vera frá því fyrir kosningarnar, þegar demókratar unnu sinn kosningasigur, en ef svo væri, þá hefði þessi hótun ekki mikla þýðingu nú, því að það er alkunnugt, að Eisenhower forseti hefur orðið að endurskoða alla sína utanríkispólitík, síðan hann gerði sér ljóst að afstöðnum kosningum, að hann ætti framgang allra mála, ekki aðeins í innanríkispólitík Bandaríkjanna, heldur líka og alveg sérstaklega í utanríkismálum, undir demókrötum. En eins og vikið var að hér áðan, ef þessi hótun yrði framkvæmd, þá er mjög vafasamt, hversu miklum harmi Evrópuþjóðir yrðu slegnar við framkvæmd slíkrar hótunar, og mér þykir líklegt, að ef Bandaríkin tækju sína heri burt af meginlandi Evrópu, þá væru þeir ekki lengur að kúldast með sitt lið hér á Íslandi, og það gætu vaknað vonir um það, að þeir tækju þá burt héðan líka. Og ég er alveg sannfærður um, að ekki yrði það til þess að hryggja íslenzku þjóðina. Ekki held ég því, að þessi hótun mundi á neinn hátt verða til þess, að íslenzka þjóðin yrði í uppnámi út af framkvæmd hennar.

Eftir seinustu fregnum, sem ég hef fengið frá Noregi um þetta mál og undirtektir almennings undir það þar, er mér tjáð, að það hvíli eins og skuggi yfir afgreiðslu þessa máls í Noregi, að það hafa ekki fengizt svör við þeirri spurningu, hvort það mundu verða þýzkir hershöfðingjar, sem yrðu settir yfir norska herinn, eftir að Þjóðverjar væru komnir í Atlantshafsbandalagið. Þessum ugg hefur skotið upp hjá Norðmönnum, af því að Þjóðverjar yrðu óneitanlega sterkasti aðilinn í Atlantshafsbandalaginu af Evrópuþjóðum, eftir að þeir væru teknir í bandalagið, og þær minningar eru enn þá vakandi í Noregi frá síðasta stríði, að Norðmenn langar ekki til þess, að þýzkir hershöfðingjar yrðu hæstráðandi yfir norska hernum. Ég hygg, að Dani langi ekki til þess heldur, að þýzkir generalar yrðu hæstráðendur yfir dönskum hersveitum, en það mun þó standa til. Og Günther mun þegar hafa gefið svar um það, að það séu líkur til þess, að þýzkir hershöfðingjar mundu verða við gæzlu og herstjórn allt upp í Suður-Jótland og ef til vill yfir danska hernum, en um Noreg hefur Günther ekki viljað svara neinu ákveðið og sagt, að þetta væri ekki ákveðið á neinn hátt, en ótta hefur það vakið í Noregi, og hann mun ekki fara dvínandi, þó að búið sé að koma málinu gegnum norska stórþingið.

Ég hygg nú, að ef þýzkir hershöfðingjar yrðu æðstu yfirráðendur yfir hersveitum á Norður-Atlantshafssvæðinu eftir upptöku Þýzkalands í bandalagið, þá mundi það ekki heldur þykja fagnaðarefni á Íslandi. En látum þetta allt saman eiga sig. Við skulum aðeins beina huganum að þessu, sem hér hefur aðallega verið rætt, og það tel ég alveg rétt: Er það nauðsyn fyrir Ísland? Eru einhverjar knýjandi ástæður fyrir íslenzku ríkisstjórnina til að knýja málið í gegnum þingið fyrir jólafrí? Þetta er atriði, sem hæstv. ríkisstjórn á að geta svarað með nokkrum setningum á ótvíræðan hátt, en hefur ekki fengizt til þess að gera enn þá. Og ef hún getur ekki svarað þessu játandi og leitt að því rök, að það sé nauðsyn að afgreiða málið fyrir jól, þá á hún að verða við almennum óskum þingmanna um að fresta afgreiðslu málsins fram yfir jólafrí. Ég tel viðeigandi að undirstrika þessa ósk mína með orðum hv. frsm. utanrmn.: Það er ekki óeðlilegt að láta málið bíða um sinn.