23.02.1955
Sameinað þing: 38. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (2576)

148. mál, nýjar atvinnugreinar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég álít, að sú till., sem hv. þm. Str. (HermJ) hefur lagt hér fram og félagar hans, sé mjög merkileg till., sem Alþ. beri að taka vel undir og beri frekar að bæta við og auka verkefni þeirrar n., sem hann leggur til að sé komið á laggirnar samkv. tillgr., enda virtist mér af framsöguræðu hans, að hann raunverulega hugsaði þessari n. allmiklu meira verkefni en það, sem felst í sjálfri ályktunargreininni. Og ég held, að það sé mjög vel farið, að Alþ. athugi einmitt nú nokkuð reynslu sína af fyrri tilraunum í þessum efnum og hafi það nokkuð til hliðsjónar við þær ákvarðanir, sem það nú tæki um skipun svona n. og verkefnis hennar. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Str. sagði, að það verður engin slík n. skipuð til þess að rannsaka þessi mál, án þess að hún hafi um leið eigi aðeins tæknileg, heldur líka þjóðhagsleg og þjóðfélagsleg viðfangsefni, og hún taki þannig að sér að reyna að marka þá stefnu hvað snertir atvinnulíf og þar með að mjög miklu leyti þjóðlífið framvegis. Og þá er náttúrlega ekki að undra, þó að við hér á Alþ. verðum að búa okkur vel undir skipun slíkrar n. og reyna frá okkar hálfu með þeim umræðum, sem við tökum þátt í, að sjá um, að þau vandamál, sem alltaf koma upp í sambandi við þessi stórvægilegu þjóðfélagsmál, séu rædd sem ýtarlegast.

Það er rétt, eins og hv. þm. Str. ræddi um, að það er ekki í fyrsta skipti sem lagt er til að skipa slíka n. hér hjá okkur heima. Fyrsta n. í þessum efnum, sem sett var, skipulagsnefnd atvinnumála eða Rauðka, eins og hún var nú fyrst kölluð af andstæðingunum til háðs, en tók það nú upp svo að segja sem heiðursheiti síðar, — skipulagsnefnd atvinnumála, á tímum Framsóknar- og Alþýðuflokksstjórnarinnar 1934–37, var mjög merkilegt viðfangsefni í þessum hlutum, enda tóku þá þátt í henni margir af mest áberandi stjórnmálamönnum landsins, og þær hugmyndir, sem settar voru fram í skýrslu Rauðku, hafa ekki einu sinni allar komizt í framkvæmd enn sem komið er. Þó vann skipulagsnefnd atvinnumála þá undir mjög erfiðum kringumstæðum, áhrifum heimskreppunnar, áhrifum þeirrar almennu kreppu auðvaldsskipulagsins í veröldinni, átti þar að auki við það að búa, að þeirri stjórn, sem hafði forgöngu um að skipa hana þá, Framsóknar- og Alþýðuflokksstjórninni. voru þá þegar í upphafi skapaðar mjög erfiðar kringumstæður með því lánsbanni, sem brezku bankarnir þá komu á hér á Íslandi, og með þeim búsifjum, sem brezk verzlunaryfirvöld ollu Íslendingum með takmörkuninni á fisklönduninni í Englandi þá, þó að hún væri með öðrum hætti en nú. Engu að síður var þar með gerð fyrsta tilraunin í þessum efnum.

Næsta skrefið, sem stigið var í sambandi við þessi mál og um munaði, var þær ráðstafanir, sem gerðar voru af svonefndri nýsköpunarstjórn og myndun nýbyggingarráðs. Með þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar, voru í fyrsta skipti stigin þau spor að búa til alveg ákveðnar áætlanir um þjóðarbúskap Íslendinga á vissum sviðum og láta ekki aðeins við þær áætlanir sitja, heldur líka framkvæma þær. Þá voru gerðar ráðstafanir til að auka togaraflota Íslendinga með till., sem gerðar voru, og þær till. voru líka að mjög miklu leyti framkvæmdar. Þá voru gerðar ráðstafanir til að auka stórum vélbátaflota Íslendinga, og þær till. voru framkvæmdar. Þá voru gerðar till. um að auka verulega afköst hraðfrystihúsanna á Íslandi og að byggja ný fiskiðjuver, og þær till. voru framkvæmdar, og gerðar voru samþykktir um að vélvæða miklu betur en verið hafði íslenzka iðnaðinn, ekki sízt járniðnaðinn og slíkan, og voru þær till. framkvæmdar. Gerð var áætlun um flutningaskipaflotann íslenzka, sem þá þótti allstórfengleg, þegar hún var gerð, og var framkvæmd meira en 100%. M. ö. o., gerðar voru áætlanir og gerðar voru ráðstafanir til að framkvæma hluti, sem atvinnulíf Íslands byggist á í dag. Þó að sú n., nýbyggingarráð, sem þá starfaði, hafi aðeins starfað um tvö ár og sú stjórn, sem stjórnaði þessum framkvæmdum, hafi aðeins setið að völdum í tvö ár, þá er það samt svo, að grundvöllurinn að framleiðslulífi Íslands, hvað snertir sjávarútveginn og iðnaðinn, byggist að allmiklu leyti og ég býst við, ef farið væri nákvæmlega út í að reikna það viðvíkjandi sjávarútveginum, að 90% á því, sem þá var ákveðið og framkvæmt.

Það voru að ýmsu leyti góðar aðstæður til þess að framkvæma þetta. Það var sá munur, að sú stjórn, sem þá sat að völdum, hafði viljann til þess að vinna að þessu og sá, að ef það átti að undirbyggja þjóðfélagslegar umbætur á Íslandi, varð að byrja á því að auka framleiðslutækin og þar með afköst landsmanna. Hún hafði yfir nokkru fé að ráða, sem fékkst notað í þessu augnamiði, og hún opnaði markaði fyrir þeim afurðum, sem átti að framleiða með þeim framleiðslutækjum, sem verið var að kaupa, og sýndi fram á, að hægt væri að skapa markaði fyrir allt það, sem Ísland gæti framleitt.

ríkisstj. og það nýbyggingarráð, sem þá hafði með þessa hluti að gera, tóku þá ákvörðun að ráðast í togarakaupin, þegar allir brezkir útgerðarmenn og allir íslenzkir útgerðarmenn, eða svo að segja allir, voru á þeirri skoðun, að það væri ekki rétt að kaupa togara til Íslands, og vildu bíða í hálft annað til tvö ár eftir slíku. Þá hafði íslenzk stjórn og íslenzk n. þá fyrirhyggju að sjá um að gera þessa hluti og gera þá í tíma.

Eftir að nýbyggingarráð var lagt niður og nýsköpunarstjórnin hafði farið frá, kom það mjög greinilega í ljós, að hjá þeim aðilum, sem á árinu 1947 tóku að skipta sér af íslenzkum stjórnmálum, var ekki vilji til þess að auka sjávarútveg Íslendinga. Við urðum þá varir við það, að Ameríkanarnir og fulltrúar þeirra hér á Íslandi lögðust á móti aukningu sjávarútvegsins. Það kom greinilega í ljós, að sá maður, sem nú um nokkur ár hefur verið ráðunautur þeirra ríkisstj., sem undanfarin ár hafa setið að völdum, um íslenzkt atvinnulíf, Benjamín Eiríksson, lagði fram till. um framleiðslulífið hér á Íslandi, sem fólu það í sér, að hefðu slíkar till. verið gildandi 1944 og 1945, hefði þótt fásinna að ráðast í að kaupa togaraflotann íslenzka. Það sýndi sig, að þessi afstaða hans var afstaða húsbændanna, þegar það kom í ljós, að Marshallstofnunin ameríska neitaði þeirri ríkisstj., sem sat að völdum 1947–1948, um lán út á þá 10 togara, sem hún tók ákvörðun um að kaupa til viðbótar við nýsköpunartogarana. Sú ríkisstj. varð að taka lán í Bretlandi fyrir 10 togurum, sem keyptir voru þá til viðbótar, vegna þess að Marshalllánið fékkst ekki. Það hafði sem sé komið í ljós, að hjá þeim amerísku máttarvöldum var andstaða gegn þessari miklu aukningu á íslenzka sjávarútveginum, sem tekin hafði verið ákvörðun um. Árið 1947, þegar breytt var um stefnu í þessum efnum, var sett nýtt ráð á laggirnar, fjárhagsráð. Þá fóru fram umræður hér á Alþ., 1947, um, hvert verkefni þessa ráðs skyldi vera, og það stóð í 2. gr. þeirra l., sem þá voru samþ., að þetta ráð skyldi undirbúa áætlunarbúskap hér á Íslandi, þó að hins vegar væri vitað, að innan þáverandi stjórnarherbúða væri engan veginn samkomulag um slíkt.

Ég vil aðeins minna á það í dag, að gefnu tilefni úr ræðu hv. þm. Str., þar sem hann kom inn á það, að miklar umbætur þyrftu langan undirbúning og góðan, að það var tækifæri líka þá, 1947, til að gera þann undirbúning. Við umræðurnar um lagafrv. þáverandi ríkisstj. um fjárhagsráð lagði ég fram till. í hv. Nd. um, hvert hlutverk þess ráðs skyldi vera, þar sem því var beinlínis falið, ef ég má lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Höfuðtakmark ráðsins skal vera að tryggja sem fullkomnasta hagnýtingu auðlinda, framleiðslutækja, vinnuafls og fjármagns þjóðarinnar á grundvelli beztu rannsókna á þessum sviðum, sem hægt er að gera á hverjum tíma.“

Síðan lagði ég fram till. um það, að fjárhagsráð skyldi ljúka við þá áætlun, sem nýbyggingarráð hafði gert um aukningu sjávarútvegsins fram til 1950, og hafa lokið nýsköpun sjávarútvegsins á þeim tíma með myndun allmargra fiskiðjuvera, auk þess sem þyrfti að koma upp togurum og vélbátum, og síðan lagði ég til, að á tímabilinu 1950–55 skyldi verða hafizt handa um stóriðju hér á Íslandi.

Till. mínar, sem voru við 5. gr. í þáverandi l., hljóðuðu á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhagsráð skal undirbúa sem eitt aðalverkefni sitt uppkomu stóriðju í landinu á grundvelli ódýrrar raforku og skal því leggja höfuðáherzlu á að láta fram fara nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir og tilraunir, til þess að hægt verði á árabilinu 1950–55 að reisa slík raforkuver, er geti framleitt orkuna ódýrast og svo mikla, að hún nægi jafnt til sköpunar stóriðju hér sem til rekstrar vélrekins landbúnaðar og fiskiðju. Skal hvort tveggja athugað til hlítar: að reisa stærstu vatnsvirkjunarstöð, er völ sé á með tilliti til framleiðslu mikillar, ódýrrar orku, sem og að hagnýta gufuhverina og jarðhitann í framleiðsluþarfir. Sérstaklega ber fjárhagsráði að sjá um, að viðkomandi ríkisstofnanir láti rannsaka til fulls virkjunarskilyrði við Urriðafoss í Þjórsá.

Þá skal ráðið annast rannsóknir á því, hverjum greinum stóriðju sé vænlegast að koma hér upp, bæði til framleiðslu fyrir innlendan markað, svo sem áburðarverksmiðju, og til útflutnings, og skulu í því sambandi einnig rannsakaðir möguleikar til innflutnings hráefna til þess að vinna úr hér svo og til vinnslu hvers konar efna úr sjó.“

Síðan voru fyrirmæli um að efla innlendan iðnað.

Það voru útvarpsumræður um þetta mál, þegar það kom fyrir þá, og það var lagzt mjög mikið á móti öllum þeim hugmyndum, sem ég var þá með um stóriðjuna og þóttu skýjaborgir. Ég held hins vegar, að hefði þá verið byrjað að vinna að því af fullum krafti að undirbúa og framkvæma rannsóknir á grundvelli stóriðju hér á Íslandi, þá hefðum við getað verið komnir lengra en við erum nú í dag, þegar hv. þm. Str. (HermJ) og félagar hans verða nú að leggja fram till. að nýju um nýja nefnd til þess að taka þessi mál til athugunar, þegar þessi till. nú kemur fram til að bæta úr þörf, sem hefur verið vanrækt að bæta úr á undanförnum árum. Við skulum gera okkur það ljóst, að á undanförnum 7 árum hafa ríkisstjórnir Íslands haft margfalt meira fé úr að spila, bæði af gjafafé og öðru, heldur en því, sem nýsköpunarstjórnin hafði úr að spila á sínum tímum, og samt hefur það fé, sem á þessum 6–7 árum hefur verið til ráðstöfunar fyrir ríkisstjórnir Íslands, ekki verið notað til að auka að neinum verulegum mun framleiðslutækin á Íslandi eða grundvöll okkar atvinnulífs. Við verðum að muna eftir því, að þó að raforkuver okkar við Sog og Laxá séu góð, þá eru þau fyrst og fremst hlutur, sem eykur svo að segja okkar lífsnautn, en skapar okkur ekki í stórum stíl þær afurðir, sem við getum flutt út úr landinu og tekið inn stórfé fyrir.

Við verðum að muna það, þrátt fyrir alla okkar drauma um stóriðju á næstunni, að í dag er sjávarútvegurinn enn þá sá grundvöllur, sem gefur Íslendingum mest í aðra hönd, vegna þess að með því að beita okkar vinnuafli við sjávarútveg, afkastar hver hönd meiru en með því að beita henni við nokkurn skapaðan hlut annan, að stóriðju ekki undantekinni, að minnsta kosti þegar um togarana er að ræða. Við verðum þess vegna að gera okkur það ljóst, ef við ætlum að bæta okkar þjóðarhag, leggja raunhæfan grundvöll að bættum lífskjörum í landinu, að þá verðum við í öllum slíkum áætlunum að reikna með mikilli aukningu sjávarútvegs okkar.

Allar okkar ágætu fyrirætlanir og framkvæmdir viðvíkjandi raforkuverum, áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og öllu slíku yrðu yfirbygging, sem jafnvel gæti sligað okkur, ef við létum halda áfram að vanrækja að treysta þann grundvöll, sem þetta allt saman byggist á, sjávarútveginn, sem framleiðir 95% af öllum útflutningsverðmætum landsmanna og skapar þar með gjaldeyrinn að mestöllu því, sem við þurfum að flytja inn í landið.

Og ég held, að það sé ákaflega nauðsynlegt, þegar við nú að gefnu tilefni ræðum um stefnu okkar viðvíkjandi atvinnulífinu og aukningu þess í framtíðinni, að við gerum okkur það ljóst, að aukning framleiðslugrundvallar íslenzka þjóðfélagsins hefur verið vanrækt á undanförnum 6–7 árum og fyrsta stóra verkefnið, sem liggur fyrir þeim aðilum, sem eiga að móta stefnuna á næstunni, er að sjá til þess, að bætt verði úr þessari vanrækslu, að okkar sjávarútvegur, okkar landbúnaður verði stóraukinn, jafnhliða því sem við undirbyggjum okkar iðnað og leggjum grundvöll að komandi stóriðju. Við skulum muna, að það hefur enginn nýr togari verið keyptur frá því 1948 og vélbátaflotinn hefur máske staðið í stað, bátasmíði innanlands að miklu leyti lagzt niður á nokkrum árum, þó að vonandi sé, að byrjað verði nú aftur, og þrátt fyrir mjög miklar og ánægjulegar framfarir í landbúnaði okkar og iðnaði, þá eru þetta ákaflega alvarlegar staðreyndir.

Við þurfum þess vegna, eins og hv. þm. Str. kom réttilega inn á, þegar við nú einmitt stjórnmálamennirnir hér á Alþ. þurfum að móta, hvaða afstöðu eigi að taka um atvinnulíf Íslands á næstunni, að gera okkur grein fyrir, hvað við leggjum fyrir þær stofnanir og þá sérfræðinga, sem eiga að annast um útbúningu áætlana okkar og forma stefnu okkar í einstökum atriðum, — við þurfum að gera okkur alveg grein fyrir, hvað við ætlum að leggja fyrir þá.

Sjávarútvegurinn er sem stendur okkar mesti auðgjafi. Eins og oft hefur verið tekið fram, en ég held, að það verði aldrei tekið of oft fram, eru afköst hvers íslenzks sjómanns sjöfalt meiri en sjómannsins hjá þeirri þjóð, sem næst okkur kemur í veröldinni. Við þurfum hér ekki að miða við fólksfjölda að tiltölu, eins og við stundum erum að gera og stundum er gert grín að okkur fyrir; við tölum hér um aðeins fjölda sjómanna. Íslendingar standa fremst allra þjóða í veröldinni hvað snertir afla fisks. Á hvern sjómann, sem veiðar stundar, nemur meðaltalið um 70 tonnum á hvern sjómann. Næsta ríkið, sem ég býst við að sé Noregur, er með 10 tonn. Við erum þarna sjöfalt hærri, og á hverju byggist þetta? Þetta byggist á því, að af þeim um 5000 manns, sem vinna á íslenzka fiskiskipaflotanum, vinna 1200 manns á togurunum og þeir 1200 menn framleiða helminginn af okkar fiskafla eða einhvers staðar frá 150 tonnum upp í 240 tonn á hvern sjómann, og það er það, sem gerir gæfumuninn í þessum efnum. Það er það, sem skapar þessa gífurlegu yfirburði okkar. Það eru okkar góðu fiskimið, okkar stórvirku tæki og okkar duglegu sjómenn. En þetta þýðir um leið, vegna þess að vinnan er uppspretta auðsins í þessum efnum, að þar sem vinnan og vinnuaflið gefur mest í aðra hönd, þar þurfum við fyrst og fremst að einbeita því að, því að með því leggjum við beztan grundvöll að auðæfum þjóðarinnar í heild. Þess vegna verðum við að auka togaraflota okkar, og er þó hrópað á okkur alls staðar utan af landinu að fá fleiri togara. Við þurfum að auka fiskiðjuverin, við þurfum að byggja okkar báta og byggja þá mikið hér innanlands. Við þurfum að færa út landhelgi okkar, og við þurfum að skapa þannig aðbúnað að þeim mönnum, sem á sjónum vinna, að íslenzkir menn sækist eftir því að vera á togurunum og vélbátunum og við getum fyllt þá af íslenzkum mönnum. Það þýðir, að það fari að verða eftirsóknarverðara að vera togarasjómaður en t. d. heildsali í Reykjavík.

Við stöndum líka við byrjun þróunarinnar í landbúnaði okkar, sem áreiðanlega á eftir að taka stórfelldum stakkaskiptum við þá vélbyltingu, sem í honum er hafin. Við verðum varir við það sama í landbúnaðinum og í sjávarútveginum, að fólkið flýi frá honum, og við þurfum að skapa þann umbreytta aðbúnað að því fólki, sem þar vinnur, að menn sækist eftir því að vera þar. Það þýðir, að við þurfum að bæta aðstöðu þeirra manna, sem í þessum atvinnugreinum eru.

Og síðast en ekki sízt: Við vitum, að í okkar fossum og hverum, eins og svo mikið er nú farið að tala um, eigum við gífurlegar auðsuppsprettur, sem við þurfum að koma okkur niður á hvernig við ætlum að nota tæknilega, eins og hv. þm. Str. (HermJ) kom nú reyndar inn á, en við þurfum líka að koma okkur niður á hvernig við ætlum að hagnýta þjóðhags- og þjóðfélagslega. Ég vil segja það strax sem mína skoðun: Ég álít, að það geti verið allt í lagi fyrir okkur og jafnvel ágæti að taka útlend lán til þess að virkja sjálfir fossa okkar og koma upp stóriðju við þá, ef við getum fengið slík lán, í fyrsta lagi með sæmilegum vöxtum, án þess að vextirnir séu slíkir, að starf íslenzkra manna við þessa stóriðju verði þrældómur fyrir erlent bankaauðvald, og í öðru lagi, ef við getum fengið slík lán án þess að þurfa að fallast á nokkur pólitísk skilyrði í sambandi við þau, sem sé, að það sé hreint verzlunaratriði fyrir okkur að taka þau. Hitt vil ég taka fram, að ég álít betra, að við biðum með okkar fossa og þær auðlindir, sem í þeim eru, og ef við reynumst ekki menn til þess sjálfir að hagnýta þá, þá eftirlátum við þá okkar börnum, heldur en við förum að selja þá erlendum félögum á leigu, því að hættan í því sambandi er sú, að þau erlendu félög, sem slíka fossa tækju á leigu, færu að taka mennina og landið á leigu líka með þeim áhrifum, sem peningarnir, sérstaklega mikið fjármagn, hefur í okkar þjóðfélagi nú á tímum. En það er eitt af því, sem við þurfum að taka ákvarðanir um, hvað við ætlum að gera í þessum efnum. En svo miklar auðlindir á Íslandi eru enn þá ónotaðar í sjó og í mold, að við getum með skynsamlegri hagnýtingu á þeim auðlindum gefið öllum landsins börnum góð lífskjör, án þess að þurfa að seilast til þess að stofna okkar framtíðaryfirráðum yfir auðlindum fossanna og hveranna í voða með því að gefa útlendum auðfélögum að einhverju leyti tök á þeim. En eins og hv. þm. Str. kom inn á í sinni ræðu, eru þetta allt mál, sem við hér á Alþingi þurfum að ræða og við þurfum að marka stefnuna með. Og ég vildi leyfa mér, líka með hliðsjón að nokkru leyti af hans ræðu og af því, sem hann segir í grg. fyrir sinni till., að gera brtt. við þessa tillgr., sem ég hins vegar vonast til að sé alveg í samræmi við bæði grg. þeirra flm. og þá ræðu, sem hann hélt hér áðan. Ég vil leyfa mér að lesa þessa brtt. upp, með leyfi hæstv. forseta, þ. e., að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 7 manna mþn.

Verkefni n. skal vera að rannsaka og gera tillögur um, hversu auka skuli núverandi atvinnuvegi landsins að mannafla og framleiðslutækjum, svo og hverjar nýjar atvinnugreinar skuli skapa til framleiðslu- og atvinnuaukningar og hvernig bezt megi hagnýta auðæfi lands og sjávar í þjónustu þjóðarinnar. Skulu tillögur n. bæði fjalla um tæknihlið og rekstrarfyrirkomulag atvinnuveganna, og ber n. einnig að gera áætlanir um þróun atvinnulífsins á næstunni, ef hún álítur það heppilegt.

N. er heimilt að ráða sérfróða menn til að vinna úr gögnum, sem fyrir hendi eru, eða að vísindalegum rannsóknum, eftir því sem hún telur nauðsynlegt vegna starfa sinna. N. skal hafa aðgang að öllum opinberum stofnunum atvinnuveganna: Fiskifélagi Íslands, Búnaðarfélaginu, Iðnaðarmálastofnuninni, Hagstofunni og öðrum, og skulu þær láta henni í té þær upplýsingar, er þær geta, og vinna að þeim verkefnum, er hún felur þeim.

N. skal skipuð á þann hátt, að þingflokkarnir fimm tilnefna hver um sig einn mann, en tveir eru kosnir með hlutfallskosningum í sameinuðu þingi.

Nefndarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.“ Ég álít, að við skipun nefndar um svo þýðingarmikið mál sem hér er um að ræða sé rétt, að öll sjónarmið, sem til eru í þinginu, fái aðstöðu til að koma fram, þannig að það sé þess vegna heppilegt, eins og hv. þm. Str. líka minntist á, að allir flokkar þingsins fái aðstöðu til þess að eiga fulltrúa í slíkri nefnd og án tillits til þeirra stærðar og máttar, þá fái sjónarmið þeirra að njóta sin. Hins vegar finnst mér ekki nema eðlilegt, að stærstu flokkar þingsins muni vilja gera nokkra kröfu til þess að geta komið þarna fleiri mönnum í n., og mundu þeir þá fá tvo menn til viðbótar í n. með því að tveir menn væru kosnir hlutfallskosningum í sameinuðu þingi. Ég geri þetta ekki endilega með tilliti til þess, að það væru fleiri skoðanir en ein uppi í þessum flokkum, þó að það kynni að vera, heldur hins, að það sé ekki óeðlilegt, að þeir hafi þarna — og líka sem stjórnarflokkar — möguleika til þess að hafa meiri hluta í slíkri nefnd. En hitt er aðalatriðið, að við getum gert samkomulag um það hérna í þinginu, þegar við setjum svona n. á laggirnar, að það sé alveg skýrt frá upphafi, hve mikið verkefni henni sé ætlað, að þau sjónarmið, sem uppi eru hjá þjóðinni, geti komið fram í sambandi við starf slíkrar n. og að þm. geri sér það ljóst frá upphafi, hve veigamikið pólitískt starf það er, sem svona nefnd hefur með höndum.

Ég veit ekki, hvort það er nokkur þörf á að óska eftir afbrigðum fyrir þessari till. Þetta mál fer hvort sem er til nefndar, þannig að það er hægt að útbýta henni prentaðri seinna, en ég vil sem sé taka mjög vel undir það, sem hér hefur komið fram, og álít, að það eigi kröfu til þess, að þingið athugi það mjög vel og reyni að koma sér saman um heppilega lausn í þessu máli.