23.02.1955
Sameinað þing: 38. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (2578)

148. mál, nýjar atvinnugreinar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Mig langaði til að segja hér nokkur orð í tilefni þeirrar þáltill., sem hér er nú til umræðu. Að vísu mun hún nú fara til n. og gefast tækifæri til þess að athuga hana þegar hún kemur þaðan, en mér þótti þó rétt að segja nokkur orð þegar á frumstigi málsins.

Það er alveg rétt, sem hv. frsm. till. sagði, að það er vitanlega mjög mikilvægt fyrir þjóðfélagið það verkefni, sem hann gerir ráð fyrir að þessi fyrirhugaða nefnd vinni að. Þar er blátt áfram um að ræða undirstöðu að framtíðarþróun atvinnulífs okkar, sem vitanlega hlýtur að varða hvern þjóðfélagsborgara og alla þá, sem einhverju láta sig skipta framfarir í landinu á sviði atvinnumála. Það hlýtur auðvitað alltaf að vera höfuðviðfangsefni bæði þings og ríkisstj. að reyna á hverjum tíma að efla svo atvinnulífið, að það geti verið þess umkomið að framfleyta þjóðinni, taka við fólksfjölguninni og að þjóðin geti haft af atvinnuvegum sínum það lífvænlega afkomu, að mannsæmandi megi teljast. Það hlýtur auðvitað að vera jafnan viðfangsefni Alþingis og hverrar ríkisstjórnar að vinna að þessum málum. Hitt geta menn svo um deilt, og um það er alltaf deilt, hvernig þessu verði bezt fyrir komið, og enn fremur það, hvaða verkefni eigi að sitja fyrir og hver að bíða. Jafnvel þó að menn séu sammála um það, að nauðsynlegt sé að framkvæma marga hluti, þá hefur til þessa reyndin orðið sú í okkar þjóðfélagi, að það er miklum mun meira, sem menn jafnan óska eftir að framkvæmt sé, heldur en hægt er að gera, vegna þess að okkur skortir því miður fjármagn til að hrinda öllu því í framkvæmd, sem við vildum gjarnan koma í verk. Af þessu leiðir, að það eru vitanlega á öllum tímum uppi deilur um það og ágreiningur, hvað helzt eigi að leggja áherzlu á og hvernig eigi að málunum að vinna, og þarf sá ágreiningur vitanlega ekki að benda til þess, að allir aðilar séu ekki áhugasamir um að efla atvinnulífið, heldur hitt, að það er svo um þetta sem önnur efni, að menn hafa á þeim mismunandi skoðanir og erfitt jafnan um það að segja afdráttarlaust, hvað sitja eigi í fyrirrúmi og hvað eigi að bíða.

Till. sú, sem hér er til umræðu, fjallar því um mál, sem eðlis síns vegna getur ekki verið neitt deiluefni. Það eru allir sammála um, að það þurfi að efla atvinnuvegi okkar, hafa á þeim sem bezt skipulag og stuðla að því, að öll landsins börn geti haft sómasamlegt framfæri og lífvænlega atvinnu, en þá kemur aftur að hinu atriðinu, hvort till. sú, sem hér er um að ræða, geti fengið miklu áorkað í þá átt að hraða enn meir en verið hefur ýmsum framförum í landinu og leggja grundvöll að því, að hægt verði fyrr en ella að hefjast handa um ýmsar þær framkvæmdir, sem menn munu nú almennt vera sammála um að þurfi að hrinda í framkvæmd.

Ég þori ekki á þessu stigi málsins að segja um það, hvort þessi nefndarskipun sé líkleg til farsællar lausnar og til þess að hraða meir umbótum á sviði atvinnuframkvæmda en ella mundi vera, þó að engin slík nefnd væri til, en mér sýnist þó, að ýmislegt af því, sem á undan er gengið, bendi til þess, að ekki sé, því miður, ástæða til að halda, að það muni valda neinum verulegum umbreytingum í framkvæmdum, þótt slík nefnd yrði sett á laggirnar.

Sú hugmynd, sem fram kemur í þessari till., er vitanlega ekki ný, hún hefur oft áður verið framkvæmd. Hv. frsm. minntist á nefnd, sem á sínum tíma vann að athugun á atvinnumálum, skipulagsnefnd atvinnumála. Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) minntist enn fremur á aðra mjög mikilvæga tilraun, sem gerð var í þá átt að efla atvinnulíf þjóðarinnar, og það stórfelldasta átak, sem í því efni hefur verið gert, en það var þegar nýbyggingarráð starfaði og því var falið að leggja grundvöll að eflingu atvinnuveganna, en þá var, sem öllum hv. þm. er kunnugt, í framhaldi af því starfi gert stórfelldasta átakið í eflingu okkar atvinnulífs. Það er því hér um að ræða að ganga troðnar götur að þessu leyti til. En það kemur hér ýmislegt fleira til athugunar, sem ég tel nauðsynlegt að menn íhugi, áður en afstaða er tekin til þessa máls. Fyrst og fremst er nú það, að það er ekki heldur nýtt, að hér á þingi hafi verið gerðar ályktanir um ýmis þau atriði, sem þessi till. fjallar um. Árið 1947 bar núverandi hæstv. viðskmrh. fram till. hér á þingi, sem samþykkt mun hafa verið, um að skora á ríkisstj. að fela rannsóknaráði ríkisins að rannsaka, hvaða dýrmæt jarðefni eða málmar kynnu að vera hér í jörðu, sem gætu lagt grundvöll að því, að hægt væri að koma upp iðnaðarrekstri í sambandi við hagnýtingu slíkra efna. Síðan hafa ýmsar till. um svipuð atriði komið fram. Hv. frsm. minntist á till., sem nokkrir hv. þm. hér báru fram á þingi 1952 og þá var samþykkt, um athugun á náttúruauði landsins, með það í huga að gera sér grein fyrir, hversu hann mætti helzt hagnýta til eflingar atvinnulífinu. Þá vil ég enn fremur leyfa mér að minna á tvær aðrar till. og ályktanir, sem samþykktar voru hér frá Alþ. nú ekki fyrir löngu. Önnur var um hagnýtingu jarðhitans, þar sem ríkisstj. var falið að láta undirbúa löggjöf um það efni og gera athuganir á því, hversu hann yrði bezt hagnýttur, og enn fremur var till., sem einnig var samþ., um það að skipa nefnd manna til þess að gera till. um, hversu efla mætti atvinnulífið í hinum ýmsu byggðarlögum landsins á þann hátt, að það gæti tryggt sem bezt jafnvægi í byggð landsins og komið í veg fyrir það, að fólk leitaði á óeðlilegan hátt til fárra staða á landinu. Það var þá sammæli manna, að ég hygg, hér á hinu háa Alþingi, þegar sú till. var samþ. hér, að hér væri um hið brýnasta og mikilvægasta mál að ræða, og reynslan hefur enda síðar leitt það í ljós, að hér er mikil þörf, ekki aðeins ályktana, heldur einnig ákveðinna ráðstafana, til þess að koma í veg fyrir, að veruleg röskun, og verulegri röskun en nú er þegar orðin, verði í byggð landsins.

Þá er einnig rétt að minna á, að gerðar hafa verið ýmsar athuganir í þessa átt. Þó að ekki hafi nú kannske mikið verið framkvæmt af þeim till., sem samþ. hafa verið hér á Alþingi, hafa þó verið gerðar vissar ráðstafanir í sambandi við þetta mál. M. a. var hér fyrir nokkru starfandi atvinnumálanefnd, sem kynnti sér atvinnulíf um allt land og gerði mjög ýtarlega greinargerð og skýrslur um það efni og till. til ríkisstj. um það, hvað nauðsynlegt væri að framkvæma á hverjum stað til þess að tryggja fulla atvinnu, og er í þeirri skýrslu að finna ýmsar eftirtektarverðar tillögur.

Varðandi hagnýtingu náttúruauðlinda er einnig á það að minnast, að um margra ára skeið hefur verið starfandi sérstök stofnun í landinu undir sérstakri yfirstjórn, þ. e. a. s. atvinnudeild háskólans, og þó öllu heldur yfirstjórn hennar, rannsóknaráð ríkisins, sem sérstaklega hefur af Alþingi verið falið að rannsaka náttúruauðlindir landsins og gera beinlínis um það till., hversu hagnýta megi þessar auðlindir, þannig að þær geti orðið atvinnulífi þjóðarinnar til eflingar og til þess að bæta afkomu almennings í landinu. Til þessarar stofnunar hefur á ári hverju verið varið allmiklu fé, og maður skyldi ætla, að út af því starfi hefðu komið margar mikilvægar athuganir, því að hér er um mjög langan undirbúning að ræða og tímabil, sem þessi stofnun hefur haft til að vinna að sínu hlutverki. Það er kunnugt, að það eru mörg atriði, sem þar hefur borið á góma, margar athuganir verið gerðar, og ég hygg, að ýmislegt af því, sem framkvæmt hefur verið á sviði iðnaðarþróunarinnar, hafi að nokkru leyti verið fyrir tilstyrk þeirrar stofnunar.

Það skal játað, að ég hygg, að það sé mikil nauðsyn að gera breytingar á skipulagi þeirrar stofnunar og skipan rannsóknaráðsins og ef til vill endurskoða þá löggjöf, sem um þau efni fjallar, og gæti verið tilefni til að íhuga það í sambandi við þessa till. En þarna er sem sagt um að ræða stofnun, sem lengi hefur starfað og hefur haft beinlínis það hlutverk að gera till. um a. m. k. eflingu iðnaðarins og hagnýtingu náttúruauðlinda landsins, sem fyrst og fremst hlýtur auðvitað að koma til álita í sambandi við starf nefndar sem þeirrar, sem hér er gert ráð fyrir, vegna þess að um landbúnaðinn og sjávarútveginn liggur það ljóst fyrir nokkurn veginn, hvers er þar þörf, og það er miklu einfaldara mál, ef á annað borð er til fjármagn til að hrinda þeim umbótum í framkvæmd.

Það er vafalaust öllum hv. þm. kunnugt, að eins og sakir standa nú í okkar þjóðfélagi, þá hygg ég, að það sé mikið vafamál, hvort beinlínis er fyrir hendi skortur á tillögum um ýmiss konar framkvæmdir, sem allir viðurkenna að séu mjög líklegar til þess að bæta afkomu þjóðarinnar og skynsamlegt af þeim sökum að hrinda í framkvæmd. Það er okkur öllum kunnugt, að t. d. á sviði landbúnaðarins er um að ræða miklu meiri framkvæmdir en fjármagn hefur verið til til þess að standa undir og framkvæmdaviljinn þar miklu meiri en fjárhagsleg efni hafa leyft.

Um sjávarútveginn er einnig það sama að segja, að það eru óskir og vilji fyrir hendi víðs vegar á landinu um kaup fjölmargra fiskiskipa og að koma upp hraðfrystihúsum og ýmsum fiskiðjuverum og nú einnig síðustu árin að segja má vaxandi áhugi á því að fjölga togurum. Allt þetta hefur gengið seinna en óskir manna hafa staðið til af þeirri einföldu ástæðu, að ekki hefur verið fjármagn til þess að framkvæma þetta. Það hefur verið komið upp hér stóriðjuveri, sem er áburðarverksmiðjan, sem menn binda miklar vonir við, og hefur nú um nokkurra ára skeið verið unnið að því að koma hér upp öðru miklu fyrirtæki, sementsverksmiðjunni, en því miður hefur einnig seinkað framkvæmdum, vegna þess að ekki hefur tekizt að fá nauðsynlegt fjármagn, sem á hefur skort.

Mér sýnist því, að enda þótt það geti við nánari athugun þótt rétt að setja nú nýja nefnd til þess að gera nýjar tillögur um ýmiss konar framkvæmdir í ýmsum atvinnugreinum þjóðarinnar, þá sé hætt við, að það komi að litlu haldi, ef ekki sé hægt að leysa þann vandann, sem er á öllum þessum sviðum langerfiðastur og öllum hv. þm. er fullkunnugt um, en það er fjárskorturinn, bæði varðandi innlent og erlent lánsfé. Má ef til vill segja, eins og hv. frsm. kom inn á, að það sé mikið íhugunarefni og kannske ástæða fyrir Alþ. sem slíkt að leggja um það ákveðnar línur eða taka ákveðna stefnu varðandi fjáröflun til þessara framkvæmda allra saman, þ. e. a. s., að hve miklu leyti talið er fært að fara inn á þá braut að hagnýta erlent fjármagn til framkvæmda í landinu, því að það er í rauninni það, sem öllu máli skiptir. Það, sem okkur fyrst og fremst skortir til að koma upp því, sem er kallað stóriðjuver og kostar hundruð milljóna, er erlent fjármagn, því að það er augljóst mál, að við höfum ekki í landinu sjálfu fé til þess að koma þeim framkvæmdum á laggirnar. Um það hafa staðið miklar deilur, hvað langt eigi að ganga í þessu efni. Ýmsir hafa talið, að það væri mjög varhugavert að taka mikið af erlendum lánum, þar sem það gæti bundið okkur nokkurn myllustein um háls og svipt okkur sjálfræði yfir málum okkar. Vitanlega getur svo verið, ef of langt er gengið í þessu efni, en ég hygg þó, að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, og flestir munu nú vera orðnir þeirrar skoðunar, að ekki verði hjá því komizt, ef við ætlum að byggja upp okkar atvinnulíf, að hagnýta í allríkum mæli erlent fjármagn í því skyni, ef það á annað borð er fáanlegt með viðunandi kjörum.

Ég minntist áðan á það, að nú væri nefnd starfandi til þess að gera tillögur í sambandi við ályktun þá, sem samþykkt var hér á Alþ. um ráðstafanir til að viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Ég held, að öll athugun á eflingu atvinnuvega okkar verði að miðast við að hafa hliðsjón einnig af þessu atriði, hvaða áhrif uppsetning vissra atvinnufyrirtækja eða efling vissra atvinnugreina hafa á byggðina í landinu, og þess vegna sýnist mér í raun og veru, að það sé a. m. k. fullkomið íhugunarefni í sambandi við þessa tillögu, hvort ekki sé nauðsynlegt, ef á annað borð mönnum sýnist eðlilegt að setja upp nefnd til athugunar á þessum málum, að sameina þetta að einhverju leyti starfi þeirrar n., sem nú starfar að því að rannsaka og gera tillögur um margvíslegar atvinnuframkvæmdir til þess að tryggja jafnvægi í byggð landsins. Ég hygg a. m. k., að vera muni viss hætta í sambandi við það, ef ekki eru höfð þessi tvö sjónarmið sameiginlega í huga, auk þess sem hér getur þá orðið um hreinan tvíverknað að ræða hjá þessum n. báðum. Ég vildi því að lokum benda á það til athugunar fyrir þá n., sem fær þetta til meðferðar, að nauðsynlegt er að taka þessi atriði einnig til íhugunar og þá að athuga, hvort ekki geti verið rétt, að það starf, sem þessi tillaga fjallar um, verði falið þeirri nefnd, ef til vill í einhverju breyttu formi, eða a. m. k. að starf þessara nefnda verði samræmt, þannig að ekki verði þar um árekstra eða tvíverknað að ræða.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég í upphafi sagði, að hér er vissulega um efni að ræða, sem er í eðli sínu mjög mikilvægt og er undirstaðan að okkar efnahagslegu afkomu í framtíðinni, og því er sjálfsagt að ræða þetta mál ýtarlega og gera sér grein fyrir því, hvað er farsælasta lausnin og hvað geti bezt stuðlað að því að hraða framkvæmdum meir en verið hefur til þessa, en hins vegar er ég mjög hræddur um það, að nefndarskipan ein út af fyrir sig hafi ekki ýkjamikla þýðingu, ef ekki kemur þar fleira til.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi að vera að ræða brtt. þær, sem komið hafa fram við aðaltill., en brtt. benda einnig til þess, að mikilvægt sé að íhuga þetta mál allt rækilega, áður en það verður endanlega afgreitt.