23.02.1955
Sameinað þing: 38. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (2579)

148. mál, nýjar atvinnugreinar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 360 við þáltill. þá, sem hér er til umræðu.

Breyting sú, sem ég fer fram á að gerð verði á till., er þess efnis, að þeim tæknilegu vísindastofnunum, sem nú eru starfandi í landinu og kostaðar af ríkissjóði og hafa yfir fullkomnustu sérfræðilegri þekkingu að ráða, bæði tæknilegri og hagfræðilegri, sem völ er á hér í þessu landi, verði falið að vinna það verk, sem í þáltill. er farið fram á að unnið verði. — Mér þykir við þessa umr. rétt að gera nokkra grein fyrir þessari brtt. minni, svo að n. þeirri, sem fær málið til afgreiðslu, sé ljóst, hvers vegna brtt. er fram borin.

Það kom fram í ræðum þeirra hv. þm. Str. (HermJ) og hv. 2. þm. Reykv. (EOl), að þeir töldu mjög mikla þörf og mjög æskilegt, að skipuð yrði nefnd í þetta mál sérstaklega. Raunar var það meginkjarninn í framsöguræðu hv. þm. Str. að sanna það, að n. væri nauðsynleg og sjálfsögð, en hitt atriðið var miklu veigaminna, og fyrir því fór miklu minna í framsöguræðu þessa hv. þm., hver nauðsyn þjóðinni í sjálfu sér og efnahagslífi landsmanna væri á þessum aðgerðum. Um þetta atriði vil ég það segja, að við Íslendingar höfum ýmiss konar reynslu af nefndarskipunum og nefndarstörfum í þessum málum. Báðir vitnuðu þeir hv. þm. Str. og hv. 2. þm. Reykv. til skipulagsnefndar í atvinnumálum, sem leysti ágætt starf af höndum, skilaði mjög merkilegu nál., en hvorugur þeirra gat þess, að starf þessarar n. og nál. hennar var að þakka þeim mönnum, sem fyrir n. unnu, en ekki þeim mönnum, sem kosnir voru í n. Og það er nákvæmlega reynslan, sem við Íslendingar höfum af nefndarskipunum í þessi mál, að sjálf nefndarstörfin eru bitlingar og annað ekki fyrir þá flokksmenn, sem taldir eru bitlinga verðir, en störfin, hvort sem þau eru góð eða ekki góð, eru unnin af mönnum, sem n. fá sér til aðstoðar. Og það liggur í hlutarins eðli, og það hljóta allir að skilja, að störf eins og þau, sem hér um ræðir, verða ekki unnin af öðrum en mönnum, sem hafa sérfræðilega þekkingu á því að vinna þessi störf, bæði tæknilega og hagfræðilega. Hins vegar er það rétt og mikil ástæða til að taka það fram, að það er gleðilegt tímanna tákn að sjá þá menn, sem hafa átt mjög drjúgan þátt í því undanfarin ár að skapa það ástand og þá þróun íslenzkra efnahags- og atvinnumála, sem við horfum á nú í dag, vera að vakna til skilnings á því, að eitthvað annað þyrfti nú að gera og væri jafnvel nauðsynlegra að gera en gert hefur verið á undanförnum árum af þessum sömu mönnum. Það er mjög gleðilegt tímanna tákn að sjá það, að menn, sem tekið hafa mjög drjúgan þátt í að skapa það ástand á vinnumarkaði sveitanna, að kröfur bænda um innflutt vinnuafl verða sífellt háværari, vegna þess að atvinnuvegur þeirra er að riðlast af vinnuaflsskorti, — að menn, sem hafa tekið verulegan þátt í að skapa það ástand, að íslenzk útgerð er fyrst og fremst rekin nú í dag vegna þess, að bræðraþjóð okkar á Norðurlöndum bjó við það ólán, að atvinnulíf hennar sjálfrar var komið í slíkt öngþveiti, að borgararnir þurftu að leita út fyrir landsteinana til að afla sér lífsviðurværis, — það er mjög gleðilegt að sjá það, að menn, sem hafa átt drjúgan þátt í að skapa þetta ástand, skuli nú vera að vakna til vitundar um, að það þurfi að gera einhverjar ráðstafanir til að efla íslenzkt atvinnulíf. Við hinu er svo ekki að búast, að þessir menn öðlist í einni svipan fullkominn skilning á því, hvað gera þarf og hvernig, enda ber till. þeirra hv. þm. Framsfl. þess ljósan vott, að þeim er verkefnið ekki eins ljóst og skyldi.

Í till. er blandað saman á óæskilegan hátt tvenns konar málum. Annars vegar er talað um atvinnu þá, sem Íslendingar hafa nú um skeið haft hjá varnarliðinu, og að sú atvinna muni senn líða undir lok, og þess vegna þurfi að sjá því fólki, sem þar hefur verið, fyrir atvinnu, og hins vegar er talað um, að þjóðinni fjölgi árlega um rúmlega þrjú þúsund manns og að gera þurfi ráðstafanir til að sjá þessu fólki fyrir atvinnu. Þetta eru tvö og tiltölulega lítið skyld mál. Fyrra málið, hvað gera þurfi í sambandi við það fólk, sem unnið hefur hjá herliðinu, þegar það verður að leita þaðan, er tímabundið mál. Hitt málið, hvað gera þurfi til þess að skapa fjölgun þjóðarinnar atvinnu- og lífsbjargarmöguleika, er mál, sem ekki verður leyst í einni svipan, heldur krefst það lausnar allan þann tíma, sem þjóðinni fjölgar, og er því ótímabundið mál. Um fyrra atriðið flutti hv. 8. þm. Reykv. ásamt mér till. þegar í þingbyrjun, sem prentuð er á þskj. 30 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa eftir tilnefningu þingflokkanna fimm manna nefnd til að gera allsherjaráætlun um hagnýtingu vinnuafls í þágu íslenzkra atvinnuvega, þannig að unnt verði að veita þeim þúsundum Íslendinga, er nú starfa á vegum erlends herliðs, atvinnu í þjóðnýtum starfsgreinum. Skal n. hraða störfum og skila áliti og tillögum eigi síðar en 1. júlí 1955.“

Þessi till. hefur legið fyrir hv. Alþ. síðan í byrjun október, og það verður því miður ekki sagt, að skilningur hv. þingmanna á því, að nauðsyn væri að leysa þetta verkefni, hafi verið mjög mikill, því að ekki hefur þessari till. þokað neitt áfram, svo að mér sé kunnugt um. En þetta er verkefni, sem fela má nefnd að vinna, vegna þess að þetta er tímabundið verkefni.

Hitt verkefnið, hvernig beri að undirbúa það, að árleg fjölgun þjóðarinnar geti komizt í atvinnu og skapað sér viðunandi lífsmöguleika í landinu, verður ekki unnið af nefnd. Það er verkefni, sem þessi þjóð verður að vinna að ár eftir ár um alla þá framtíð, sem hún á fyrir höndum. Það er því verkefni, sem fela verður fastri og stöðugri stofnun að hafa með höndum. Og þetta hafa ráðamenn þjóðarinnar séð, og þetta hafa þeir gert tilraun til að framkvæma með stofnun Iðnaðarmálastofnunar Íslands. Sú stofnun á að hafa með höndum flestöll eða öll þau verkefni, sem snerta síðari lið í till. þeirra hv. þingmanna Framsfl., sem prentuð er á þskj. 356. Það er líka auðséð við athugun till., að þannig hlýtur þetta að eiga að framkvæmast, því að í grg. fyrir till. á þskj. 356 segir svo meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt ætti nefndin að athuga möguleika á aukinni tækni í núverandi atvinnugreinum landsmanna.“

Þeir, sem nokkurt inngrip hafa í þessi mál, tækni í atvinnugreinum landsmanna, hljóta að skilja, að þetta mál verður aldrei leyst af nefnd. Tækni og tækniþróun er ekkert slíkt viðfangsefni, sem hægt er að leysa á einum degi eða skömmum tíma af nefnd. Það vita allir, að tækni er sífelldum breytingum háð, sífelldri framþróun. Fyrirtæki, sem væri tæknilega séð fullkomið í dag, verður eftir nokkur ár orðið langt á eftir, ef það fylgist ekki með þróun málanna. Þannig er það náttúrlega fullkomlega út í hött að ætla nefnd að hafa slíkt verkefni með höndum, enda algerlega ástæðulaust, ef hið háa Alþingi Íslendinga vill ekki eingöngu vinna eftir þeirri reglu að láta ekki vinstri höndina vita, hvað sú hægri gerir, — því að Alþ. hefur þegar veitt fé á fjárlögum til Iðnaðarmálastofnunar Íslands, sem ætlað er einmitt meðal annars þetta verkefni. En því miður verð ég að segja, að þannig er málum háttað hjá okkur, allt of alvarlega mikið. Það er unnið þannig, að „hægri höndin veit ekki, hvað sú vinstri gerir“.

Við höfum um mörg undanfarin ár varið talsvert miklu fé til rannsókna á ýmsum hlutum, mjög nauðsynlegra rannsókna. Ég vil nefna tilraunabú landbúnaðarins, ég vil nefna Fiskifélag Íslands, atvinnudeild háskólans, rannsóknaráð ríkisins, nú síðast Iðnaðarmálastofnun Íslands og ótalmargar nefndir, sem hafa átt að rannsaka og rannsaka. Til þess arna hefur verið varið miklu fé, en mjög óskynsamlega. Alltaf hefur hver einasta stofnun og hver einasta nefnd haft of lítið fé til umráða, svo lítið, að hún gat ekki leyst það verkefni af höndum, sem henni var ætlað að gera. Það hefur aldrei verið fyrir hendi skilningur á því að veita einhverri stofnun eða einhverju tilraunabúi nægilega mikið fjármagn til þess, að það væri nokkur skynsamleg ástæða til að krefjast þess eða ætlast til þess, að þessi stofnun eða þetta tilraunabú skilaði þeim árangri, sem það hefði átt að geta gert. Og hér virðist þessi skoðun enn og þessi stefna enn vera upp á teningnum. Það á að stofna nefnd til að vinna verk, sem hún sjálf getur ekki unnið. Og það er flm. till. algerlega ljóst, að n. getur ekki unnið störfin, því að þeir setja inn í till. atriði, sem svo hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndinni er heimilt að ráða sérfróða menn til að vinna úr gögnum, sem fyrir hendi eru, eða að vísindalegum rannsóknum, eftir því sem hún telur nauðsynlegt vegna starfa sinna.“

M. ö. o., það er sýnilegt, að flm. till. ætlast til þess, ef nokkurt vit á að vera í till., að hér verði sett á ný stofnun, algerlega hliðstæð Iðnaðarmálastofnun Íslands, Fiskifélagi Íslands, rannsóknaráði ríkisins, atvinnudeild háskólans, tilraunabúunum o. s. frv., o. s. frv. Og til þessa á að veita fé úr ríkissjóði, þó að hér á Alþ. hafi a. m. k. tvisvar sinnum verið felldar till. um að veita Iðnaðarmálastofnun Íslands það fé, sem hún taldi sér nauðsynlegt til að geta starfað. Og þá er fé fyrir hendi, þegar algerlega hugsunarlaust á að stofna nýjar nefndir.

Þetta mál er þess eðlis, að það væri ástæða til að tala um það mjög langt mál. En þessar umræður hafa dregizt nokkuð á langinn, og mun ég því ekki gera það að þessu sinni, enda gefst tækifæri til að ræða málið betur síðar. Ég vil þó aðeins drepa á örfá atriði í framsöguræðu hv. þm. Str. Hann sagði m. a.: Ríkisstj. hefur ekki nægilega starfskrafta til að vinna það verk, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. þá rannsókn, sem till. felur í sér, og þess vegna er till. flutt um að skipa nefnd í málinu.

Nú spyr ég: Hvers vegna hefur ríkisstj. ekki nægilega starfskrafta til að vinna þetta verk? Hún hefur þó allar þær stofnanir, sem greint er frá í brtt. minni á þskj. 360 og talið er æskilegt að væri falið að vinna þetta verk, þ. e. a. s. Iðnaðarmálastofnun Íslands, rannsóknaráð ríkisins, atvinnudeild háskólans, Fiskifélag Íslands og jarðborunardeild ríkisins. Þessar stofnanir hefur hún allar undir sinni stjórn, og hún getur og hefur heimild til og möguleika að ráða til þessara stofnana eins mikla starfskrafta og hún telur sér nauðsyn og þörf á. Hvers vegna gerir hún það ekki? Er nauðsynlegt, að Alþ. geri einhverjar ályktanir um það, að auknir skuli starfskraftar hjá þessum stofnunum? Ef svo er, væri miklu skynsamlegra að gera slíka ályktun um það að fjölga sérfræðilegum ráðunautum þessara stofnana en að gera till. um að stofna nýja nefnd með auknu starfsliði, algerlega hliðstæða öllum þeim stofnunum, sem fyrir eru.

Hv. þm. Str. sagði, að fleira en tæknilegur undirbúningur væri nauðsynlegt til að leysa þetta starf, sem hér um ræðir, af hendi. Það þyrfti að rannsaka rekstrargrundvöllinn. Það kallaði hv. þm. Str. pólitísk atriði. En það er það ekki. Það eru hagfræðileg atriði, sem varða rekstrargrundvöllinn, og það er þess vegna líka sérfræðileg vinna. Og slíka sérfræðinga hafa þessar stofnanir í þjónustu sinni og geta haft þá, ef ríkisstj. telur nauðsyn.

Hann sagði líka, hv. þm. Str., að sérfræðingar gætu ekki sagt til um það, hvað ætti að gera hverju sinni og á hverju ætti að byrja. Þetta er alveg rétt. Þeir geta ekki sagt til um þetta. En nefnd, kosin af Alþ., getur ekki heldur sagt til um þetta og mundi aldrei segja til um það. Hún mundi gera nákvæmlega sama og hinar sérfræðilegu stofnanir, sem til eru í landinu, hún mundi vinna að verkinu eða láta sérfræðingana og stofnanirnar gera það, leggja tillögur fyrir Alþ. og ríkisstj., sem Alþ. síðan samþykkti, alveg á sama hátt og ef stofnununum sjálfum væri falið að vinna verkið. Þær mundu ekki segja fyrir um það, hvað ætti að gera, en þær mundu vinna sínar till. og senda þær ríkisstj. og Alþ., sem síðan tæki ákvörðun um það, hvað skyldi gert. Þess vegna hefur nefndarstofnun í því sambandi ekkert að þýða.

Og loks sagði hv. þm. Str., að hingað til hefði engin stórframkvæmd verið nægilega tæknilega undirbúin, eða nægilega pólitískt undirbúin, eins og hann kallaði það, þ. e. a. s. verið nægilega hagfræðilega undirbúin. Það getur verið, að þetta sé alveg rétt, en af hverju stafar það? Af því að þær stofnanir, sem hafa unnið að undirbúningi þessara mála, hafa aldrei haft nægilegt fjármagn til að geta haft í sinni þjónustu alla þá sérfræðinga, sem hefði verið þörf á. Það hefur alltaf verið, eins og ég hef margtekið fram í þessum orðum mínum, skorið við nögl sér það fé, sem hefur verið veitt til þessara stofnana, með þeim afleiðingum, að þær hafa ekki komið þjóðarbúinu og þjóðarheildinni að því gagni, sem þær annars hefðu getað gert. Og þess vegna er það nauðsynlegt nú — og kannske það eitt nauðsynlegt — að veita fé, ef ríkissjóður hefur á annað borð efni á því, til þess að fullkomna starf þeirra stofnana, sem nú eru fyrir hendi, en ekki til þess að stofna nýja nefnd með að sjálfsögðu takmörkuðu fjárframlagi, sem gæti aldrei unnið á fullkominn hátt þau verkefni, sem henni væri ætlað að leysa.

Ég vona, að þessi orð, sem ég hef hér mælt, nægi til að sannfæra hv. þingmenn um, að það er meiri þörf á að breyta till. þeirra hv. framsóknarmanna í það horf, sem ég hef hér mælt með, og að auka fjárframlög, ef unnt er, til þeirra stofnana, sem fyrir hendi eru í landinu, og gera þær þannig hæfari til að leysa betur og betur af hendi þau verkefni, sem þeim er ætlað að vinna, og skal það þó ekki undan dregið, að margar þeirra hafa unnið ágætt verk, eins og t. d. Fiskifélag Íslands, heldur en að stofna nefnd, sem yrði fyrst og fremst bitlinganefnd fyrir einhverja stjórnmálamenn, sem ekki hefðu sérstaklega mikla möguleika á því að leysa þetta verk af höndum.