20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (2586)

148. mál, nýjar atvinnugreinar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Við fyrri umr. þessa máls gerði ég grein fyrir brtt., sem ég flutti við till. á því stigi málsins. Sú brtt. gekk aðallega út á það, að lítil ástæða væri til að stofna hér nýja rannsóknarstofnun, eins og greinilega mátti skilja till. í sínu upphaflega formi, þar sem nægilega mikið virtist vera af rannsóknarstofnunum hér í okkar þjóðfélagi, svo mikið, að ríkið sæi sér ekki fært að búa þann veg að þessum stofnunum, að þær gætu leyst hlutverk sitt af hendi.

Ég lét það ótvírætt í ljós við þá umr., að ég hefði ekki mikla trú á því, að ein slík stofnun í viðbót gæti haft mikil áhrif eða mikið gagn í för með sér fyrir þjóðfélagið. Nú sé ég á brtt. þeirri, sem hv. fjvn. hefur flutt við málið, að sú n. hefur tekið tillit til þessarar skoðunar og að mjög verulegu leyti tekið tillit til brtt. minnar við málið.

Í brtt. hv. fjvn. kemur skýrt fram, að fjvn. ætlast til þess, að sú n., sem hér verði sett á fót, vinni í samráði við og með aðstoð þeirra rannsóknarstofnana, sem fyrir hendi eru í þjóðfélaginu. Það virðist því fyrst og fremst vera um það að ræða og það virðist vera orðið meginatriði till. að kjósa hér nefnd, sem skipuleggi og samræmi störf þeirra rannsóknarstofnana, sem fyrir hendi eru, svo og að þessi nefnd starfi eins og eins konar milliþinganefnd, skilst mér, að því að endurskoða og færa til samræmis löggjöf um hinar ýmsu rannsóknarstofnanir í þjóðfélaginu. Að öðru leyti hefur hv. fjvn. tekið meginefni brtt. minnar upp í sína brtt. Að þessu athuguðu get ég fallizt á það, að sú nefnd, sem hér er lagt til að skipuð verði, verði skipuð, því að það er áreiðanlega mjög mikil þörf á því að samræma störf þessara rannsóknarstofnana og samræma og færa í nýjan búning ýmis löggjafaratriði um þessar stofnanir, og með skírskotun til þess get ég fallizt á að taka aftur brtt. mína og mun gera það.