11.05.1955
Sameinað þing: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

200. mál, leit að fiskimiðum fyrir Norðurlandi og Austfjörðum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að lengja ekki umr. um þetta mál, enda situr það sízt á mér, þar sem ég er einn af flm. þess og vil gjarnan greiða fyrir því, að það verði samþ.

En þar sem ég er einn af flm. málsins og hef nú hlýtt á þessar umr., sem hér hafa farið fram nú um stund, vildi ég aðeins leyfa mér að benda á það, að þessi till. er flutt hér af þm. 5 kjördæma norðanlands og austan og er um það að skora á ríkisstj., — sem er mjög venjulegt orðalag í þáltill., — að beita sér fyrir því, að fram fari skipuleg leit að nýjum togaramiðum fyrir norðan land og austan.

Það er að vísu rétt, að í fjárl. yfirstandandi árs er veitt nokkurt fé til leitar að fiskimiðum. Sú heimild er almennt orðuð, en till. okkar þessara norðlenzku og austfirzku þm. lýtur að alveg sérstakri leit að fiskimiðum fyrir norðan land og austan. Ég vildi aðeins leyfa mér að benda á þetta. Hins vegar gleður mig mjög sá stuðningur, sem þetta mál hefur fengið og virðist eiga von á, bæði sá ágæti stuðningur, sem það hlaut í gær frá hv. þm. Borgf. (PO), og eins að heyra það, að hæstv. ráðh. muni taka þessu máli með velvilja og hafi jafnvel þegar haft á prjónum ráðstafanir í því sambandi, eins og nú hefur komið fram. Vænti ég þess þá, að till. okkar verði til styrktar í því efni.