04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í D-deild Alþingistíðinda. (2747)

31. mál, hagnýting brotajárns

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. viðskmrh. fyrir það, að hann tók yfirleitt, að mér fannst, jákvætt í það mál, sem hér er til umr., og kvaðst hafa hug á því, að þeir möguleikar væru rannsakaðir, sem kynnu að vera fyrir hendi í sambandi við járnbræðslu hér á landi. Það er að sjálfsögðu megintilgangur okkar, að fram fari á þessu hlutlaus athugun, þar sem ekki er byrjað fyrir fram af athugendum með neina fordóma á því, að þetta sé ekki hægt, það sé enginn grundvöllur, heldur rannsakað frá rótum og ekki verið með neinar bollaleggingar fyrir fram um það, hverjar niðurstöður yrðu af slíkri rannsókn. Þetta er að sjálfsögðu meginatriði málsins.

Hæstv. ráðh. skýrði frá því, að hann hefði minnzt á það við tvo verkfræðinga að athuga þetta mál, og hafði raunar um það ekki sterkari orð en svo, að hann hefði beðið þá að hafa málið á bak við eyrað. Ég vil vona, að þeir taki þetta hlutverk sitt samt nokkuð alvarlega, og efast ekki um að það séu hæfir menn, sem muni gera það. Ég vildi þó vænta þess, að hæstv. ráðh. sæi svo um í frekari viðtölum við þá, að þeir rannsökuðu þetta mál til þeirrar hlítar, sem nauðsynleg er.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði talað um það, að enginn íslenzkur verkfræðingur eða íslenzkur maður mundi vera fær um að gera athugun og rannsókn á þessu máli. Ég hygg, að ég hafi komizt að orði eitthvað á þá leið, að nú á stundinni sé enginn maður í landinu sérfróður um þessi efni, og ég held, að það sé rétt. Hins vegar efast ég ekki um það, að góðir verkfræðingar mundu geta sett sig inn í málið og komizt til sæmilegs botns í því, ef þeir gæfu sér tíma til þess að rannsaka það til hlítar. Þó verð ég að benda á það, að rannsóknir og athuganir bæði á framleiðslu stáls svo og á rekstri slíkra fyrirtækja munu vera sérstök fræðigrein, a. m. k. rannsóknir á gerð stáls. Þær munu vera sérfræðigrein innan verkfræðinnar, og ýmsir útlendir verkfræðingar, t. d. norskir og þó kannske einkum sænskir, hafa þessa sérfræðiþekkingu til að bera, en enginn íslenzkur verkfræðingur, svo að mér sé kunnugt, hefur hana sérstaklega.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh. og hv. frsm. nefndarinnar, að þó að ég hafi bent á það magn, sem við hefðum flutt út undanfarin ár af brotajárni, er ekki þar með sagt, að það sé algerlega réttur mælikvarði á það, hvað til fellur árlega. Athugasemdir þeirra um það eru að nokkru leyti réttar. En eins og ég benti á, hefur nú skipastóll okkar vaxið mjög, og þegar þau skip fara að ganga úr sér, mun falla til töluvert af brotajárni frá skipum. Enn fremur er vélakostur landsmanna, bæði á sjó og landi, í mjög miklum vexti, og þar mun falla til afar mikið magn á næstu árum og áratugum af því, sem almennt er kallað brotajárn.

Einn misskilning vil ég leiðrétta hjá hæstv. ráðh. Hann var að tala um verðið á brotajárni og sagðist halda. að það hafi verið flutt út fyrir 2 kr. kílóið. Þetta er alger misskilningur. Það eru að minnsta kosti ekki nema allra dýrustu tegundir af eir og svokölluðum potti, sem nálgast það að komast í slíkan verðflokk. Ég held, að ég megi fullyrða, að venjulegt brotajárn, t. d. ónýt skip og annað þess háttar, hafi verið flutt út, ekki fyrir 2 kr. kílóið, heldur fyrir 20–30 aura, eða mjög lága upphæð. Þetta held ég að ég megi fullyrða. Og þar sem við flytjum inn járn fyrir 3–4 kr. kílóið í ýmsum myndum, gefur auga leið, að verðmunurinn á þessu tvennu er gífurlegur.

Hv. frsm. nefndarinnar sagði, að slíkt fyrirtæki sem hér um ræðir hljóti alltaf að verða mjög dýrt fyrirtæki. Það má til sanns vegar færa, en fer þó eftir því, við hvað við miðum í þessu efni. Ef hann miðar við það, að komið yrði upp fullkominni stálverksmiðju, líkt og þeirri miklu verksmiðju, sem Norðmenn hafa verið að koma upp hjá sér og kostar líklega 1000 millj. kr. eða eitthvað þar yfir, þá er þetta auðvitað stórkostlegt fyrirtæki og okkur langsamlega ofvaxið, að öllum líkindum. En ég veit til þess, að járnbræðsluofnar, sem framleiða ýmsar einfaldar tegundir af steypujárni, eru starfræktar mjög víða hjá nágrannaþjóðunum, t. d. í flestum stærri borgum Noregs og Svíþjóðar, og má segja, að það séu nokkuð dýr fyrirtæki. Stofnkostnaðurinn er nokkrar milljónir, kannske allt upp í 10–20–30 millj., þar sem þeir eru stærstir. En það er þó allt annað fyrirtæki en hitt, sem mér virðist að hv. frsm. hafi helzt átt við.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en vil að lokum ítreka það, sem ég áðan sagði, að ég er hæstv. ráðh. þakklátur fyrir þær góðu undirtektir, sem hann veitti þessu máli, og vil mega vænta þess, að sú athugun fari fram, sem hér er lagt til að gerð verði, og þá liggi fyrir um það nokkuð ákveðnar niðurstöður, áður en mjög langt líður, hvort ástæða sé til að ráðast í slíkt fyrirtæki sem þetta eða hvort það bíður seinni tíma. En sannfærður er ég um, að það líða ekki margir áratugir þangað til við Íslendingar höfum komið hér upp járnbræðslu.