09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í D-deild Alþingistíðinda. (2757)

93. mál, lækkaðrar dýrtíðar

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Atvinnumál og dýrtíðarmál eru einhver allra þýðingarmestu málin, sem íslenzk ríkisstj. hlýtur á hverjum tíma að fást við og helga krafta sína. Það er varla til réttlátari mælikvarði, að minni hyggju, á stjórnarfarið en það, hvernig atvinnulífinu vegnar og hvernig verðlagsmálunum er stjórnað. Hér er nú atvinnuleysi í þremur landshlutum, og það vil ég fullyrða að sé nokkuð þungur áfellisdómur á stefnu hæstv. ríkisstj., því að þetta ástand verður ekki afsakað með því, að árferði hafi verið erfitt, og þrátt fyrir lækkandi verðlag á heimsmarkaðnum er það staðreynd, að dýrtíð heldur hér áfram að hækka ár frá ári. Slík þróun getur ekki endað nema með skelfingu. Verði hún ekki stöðvuð, verður endirinn sá, að framleiðsluatvinnuvegir okkar verða ekki samkeppnisfærir á erlendum mörkuðum, og þegar svo er komið, hefur stjórnarstefnan í rauninni leitt hrun yfir þjóðina.

Síðan verðlagsákvæði voru afnumin, hefur álagning á ýmsar vörur og þjónustu — og ekki sízt það síðarnefnda — hækkað miklu meira en góðu hófi gegnir. Mörg hundruð prósent álagning er ekki óþekkt fyrirbrigði, og nú er svo komið, að flestar greinar milliliðastarfsemi eru öruggur gróðavegur hér á landi, en hins vegar er nálega öll framleiðslustarfsemi rekin með töpum, stórfelldum töpum, en síðan er svo látið heita, að framleiðslustarfseminni sé bjargað með ölmusum og styrkjum frá ríkinu. Flestir munu vera sammála um, að út í ófæru sé stefnt og að aðeins sé um tvær leiðir að velja: í fyrsta lagi að setja aftur á lögskipuð verðlagsákvæði með ströngu verðlagseftirliti, eða þá í annan stað að reyna að þrýsta verðlaginu niður með frjálsum samningnum ríkisvaldsins við alla þá aðila, sem mest áhrif geta haft á verðlagið í landinu. Það er skoðun okkar flm. að þessari till., að það sé að öllu leyti ánægjulegra, ef unnt reyndist með frjálsum samningum að halda verðlagi á vörum og þjónustu innanlands innan hóflegra takmarka og draga úr dýrtíðinni. Þess vegna leggjum við til, að sú leið verði reynd þegar í stað í dýrtíðarmálunum og Alþ. feli þegar ríkisstj., eins og í till. segir, að leita þegar samninga um lækkað verðlag við Samband íslenzkra samvinnufélaga, Verzlunarráð Íslands. Samband smásöluverzlana, Eimskipafélag Íslands, Félag íslenzkra iðnrekenda, Sláturfélag Suðurlands, Stéttarsamband bænda og alla aðra hliðstæða aðila, sem áhrif geti haft á verðlag í landinu, og freista þess að fá þá til að lækka alla álagningu í heildsölu og smásölu og gera ráðstafanir til að draga úr hvers konar milliliðakostnaði öðrum, sem nú á þátt í hærra verðlagi en brýn nauðsyn krefst. Í till. segir enn fremur, að í samningum þessum skuli lögð höfuðáherzla á, að verðlaginu sé haldið eins lágu og mögulegt sé á öllum helztu nauðsynjavörum landsmanna.

Að lokum er það tekið fram í till., að kosta beri kapps um, að samningum þessum geti verið lokið fyrir næstu áramót, en það lokaákvæði ber að skilja þannig, að samningunum yrði lokið fyrir þau áramót, sem nú eru liðin, því að till. var borin fram hér á Alþ. um miðjan nóvember s.l. Það er þannig átt við áramótin 1954–55, en ekki 1955–56.

Það er nú fyrst, sem þessi till. hefur komið til umr., þótt hún hafi verið nokkrum sinnum á dagskrá, og var að minni hyggju ekki hægt að leggja það út öðruvísi en að það hefði ekki ríkt sá æskilegi áhugi fyrir því að taka hana til meðferðar. því að ólíkt betur hefði nú hæstv. ríkisstj. staðið að vígi, ef hún hefði stutt að því á s.l. hausti, að þessi till. yrði þegar rædd og afgreidd, og ríkisstj. þannig fengið í hendur það hlutverk að leita fast eftir samningum við þau fyrirtæki, sem nefnd eru í till., um það, að þau beittu sér af alefli fyrir lækkuðu verðlagi, því að það vakti sannarlega fyrir okkur flm., að árangur af slíkum samningavíðræðum ríkisstj. við atvinnu- og viðskiptafyrirtæki lægi fyrir, áður en til þess kæmi, að verkalýðsfélögin í landinu segðu upp kaupgjaldssamningum. Það var það, sem þurfti að liggja fyrir, því að vitanlega byggja verkalýðssamtökin í landinu nokkuð mikið kröfur sínar á því, hvernig verðlagsmálunum er háttað og hverjar breytingar verða á verðlagi, þ. e. a. s. byggja mikið á því, hvort verðlagið lækkar eða hækkar, hvort nýting kaupmáttarins í launum rýrnar eða vex.

Því miður fór það svo, að hæstv. ríkisstj. notaði ekki haustmánuðina til þess að vinna að þeim verkefnum. sem mörkuð eru í þessari till. Nú er tíminn liðinn hjá án aðgerða, og ekkert hefur í þessum málum gerzt fram að þessu, sem teljandi sé.

Verkalýðsfélögin eru búin að segja upp samningum, og þau eru, hygg ég. nú að leggja síðustu hönd á að ákveða, hvaða kröfur þau geri í kaupgjaldsmálunum, og þetta hlaut svona að fara. Grg. till., þegar hún var lögð fram í haust, endaði á þessum orðum:

„Það má því segja, að enn þá eigi ríkisstj. kost á því að velja um leiðir í verðlags- og kaupgjaldsmálunum, en óvíst er, að tækifærið bíði lengi við dyr stjórnarráðsins, ef till. verður engu sinnt.“

Tækifærið hefur beðið við stjórnarráðsdyrnar síðan um miðjan nóvember a. m. k., og það er alveg óvíst, að það sé þar enn á tröppunum. (Gripið fram í: Til hvers er þá að samþ. till.?) Það hefði a. m. k. ekki verið ástæðulaust að samþykkja hana, þegar hún kom fram. Ég tel það miklu þýðingarminna nú, og er það ekki mín sök.

Ríkisstj. hefur þó nú fyrir nokkru. eftir áramót, tilkynnt stjórn Alþýðusambands Íslands það, að hún hafi nú í huga að reyna þá leið, sem í till. felst, og í framhaldi af því hefur ríkisstj. enn fremur — og því hefur hæstv. forsrh. skýrt frá hér á Alþ. nú fyrir nokkrum dögum skrifað átta eða níu fyrirtækjum, flestum þeim sömu sem upp eru talin í þessari till. og olíufélögunum þar að auki, á þá leið, að þau séu beðin að tilnefna tvo menn til þess að taka þátt í samningum við ríkisstj. um vissar aðgerðir í verðlagsmálum. Enn fremur er tilkynnt, að félögin hafi öll tekið jákvætt undir þessi tilmæli ríkisstj. og tilnefnt menn, og samkvæmt seinustu upplýsingum hæstv. forsrh. áttu þessir samningar ríkisstj. og atvinnu- og viðskiptafyrirtækjanna að hefjast upp úr síðustu helgi, þ. e. a. s. rétt þessa dagana. Þetta bendir til þess, að það sé þó viðurkennt af ríkisstj., að þessi leið sé reynandi, og að nú eigi að fara að þreifa fyrir sér um framkvæmd hennar.

Um það leyti, sem till. var flutt á s.l. hausti, var kunnugt um það, að ríkisstj. Finnlands, sem þá var að setjast að völdum, hafði það einna efst á stefnuskrá sinni, að hún ætlaði að reyna að gera ráðstafanir til þess með frjálsum samningum að þoka verðlagi þar í landi niður, og um sama leyti eða nokkru fyrr hafði norska ríkisstj. undir forustu þáverandi forsætisráðherra, Oscars Torp, hafið samninga við 15 áhrifamikil fyrirtæki í verzlun og iðnaði í Noregi um, að þau gerðu ráðstafanir til verðlagslækkunar. Norska ríkisstj. fylgdi þessu máli svo fast eftir, að forsætisráðherrann gekk sjálfur í þessa samninga og tilkynnti hverju þeirra. að ef með frjálsu móti og að samningaleiðum fengjust ekki lækkanir á verðlagi, þá mundi ríkisstj. beita ákvæðum í Prisloven — í verðlagslöggjöfinni norsku — og hika ekkert við að nota allar lagalegar heimildir til þess að þrýsta verðlaginu niður, — boðaði sem sé strangt verðlagseftirlit og verðlagsákvæði, ef atvinnulífið og viðskiptalífið legðu ekki góðvilja fram í frjálsum samningum um verðlagsmálin. Norska stjórnin náði strax nokkrum árangri í þessa átt, en önnur fyrirtæki tóku þannig málaleitun stjórnarinnar. að þau stóðu föst við sinn keip og fengust ekki til þess að lækka verðlagið, og beitti þá ríkisstj. norska hörðu og lét ákvæði verðlagslaganna koma til framkvæmda gagnvart þeim. Þannig urðu sérstaklega mikil átök milli ríkisstj. norsku og skógeigendanna í Noregi, þar sem þeir vildu ekki lækka verðlag á timbri eins og ríkisstj. og hennar sérfræðingar töldu vera hægt.

Stjórn Einars Gerhardsens, sem nú hefur tekið við völdum í Noregi, hefur tekið þetta mál upp af krafti á ný. eða réttara sagt haldið þessum samningaaðgerðum áfram, og það standa sakir mjög svipað í Noregi og hér, að kaupgjald kemur til með að hækka í marzmánuði stórkostlega, ef verðlækkunarráðstafanir ríkisstj. hafa ekki borið árangur, því að þar var kaupgjaldið bundið samningum við atvinnurekendasamböndin með því skilyrði, að dýrtíðin yxi ekki á samningstímabilinu.

Ég flutti þessa till. líka að nokkru leyti sökum þess, að við höfðum aðeins fengið innlenda reynslu af því, að nokkru mætti um þoka í verðlækkunarátt með samkomulagsaðgerðum, því að í verkfallinu mikla haustið 1952 var að síðustu farið inn á þá leið að reyna að ná samkomulagi við ríkisstj. um lækkað verðlag á nokkrum nauðsynjavörum. Ríkisstj. fékk það fram, þó að hún hefði nauman tíma, því að hún snerist seint við þessari málaleitun, að fá samkomulag við nokkur fyrirtæki um verðlækkanir, og þar á meðal voru Samband ísl. samvinnufélaga og Verzlunarráð Íslands, og það varð til þess að auðvelda lausn deilunnar. Verðlækkun á mjólk var ein af þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar, og sú ráðstöfun hefur staðið fram á þennan dag. Aðrar ráðstafanir, sem þá voru gerðar, hafa reynzt miður haldgóðar sumar hverjar og einstöku vanefndir verið á þessu, en nokkurn árangur bar þetta þó í bili og að vissu leyti enn í dag, og þessi leið var gleðilegur atburður og olli að nokkru tímamótum í þessum málum. Það var einn liður þessa samkomulags, að Samband íslenzkra samvinnufélaga, Samband smásöluverzlana og Verzlunarráð Íslands skuldbundu sig til vissrar hámarksálagningar á nokkrum tegundum álnavöru og á búsáhöldum og leir- og glervöru, og var verðgæzlustjóra fyrirskipað að athuga, hvernig þessum skuldbindingum væri framfylgt. Þær athuganir, sem verðgæzlustjóri hefur gert á þessu, benda til þess, að þær vörur, sem síðan hafa verið undir þessum samningsbundnu ákvæðum, séu heldur ódýrari en þær, sem samningsákvæðin náðu ekki til. Seinasta skýrsla hans greindi frá því, að 9.8–10.4% álagning væri meðalálagning á ýmsa vöruflokka, sem hin samningsbundna álagning tók til, en aftur á móti aðrar vörur, sem voru ekki undir þeim ákvæðum, væru nú með 17.744.5% álagningu. Það virtist vera auðsætt, að þetta hafði að nokkru leyti haldizt og verkað sem hömlur á verðhækkanir á þessum vöruflokkum.

Ég tel, að hæstv. ríkisstj. hafi mjög góða aðstöðu til þess að orka því, að flestir þeir aðilar, sem nefndir eru í till., gerðu ráðstafanir til nokkuð lækkaðs verðlags, því að sannleikurinn er sá, að síðan verðlagsákvæði voru numin úr gildi og verzlunar- og viðskiptafyrirtækjum þannig gefið sjálfdæmi í verðlagsmálunum, hefur verðlagið hækkað, álagning aukizt, og hin frjálsa samkeppni, sem sagt var að mundi láta til sín taka, þegar vöruþurrð væri ekki lengur í landinu, hefur ekki reynzt sá hemill á verðlagsmyndunina, sem menn gerðu sér vonir um. Algert frjálsræði í þessu hefur leitt til hækkaðs verðlags að ófyrirsynju, og það er nú viðurkennt með byrjandi aðgerðum hæstv. ríkisstj., að hún er þeirrar skoðunar, að sé hægt að fá stjórnendur þessara fyrirtækja til þess að draga úr ágóðahlut sínum. þá sé hægt að lækka verðlagið í landinu að frjálsum samningaleiðum, og það er vissulega sannfæring okkar flm.

Ég tel hins vegar, að ef ekki verður sýndur þarna fyllsti góðvilji og skilningur í því að lækka verðlagið með samningum við ríkisstj., þá verði að setja hámarksákvæði aftur á ákveðnar vörutegundir, sem mesta þýðingu hafa að því er snertir verðlagið í landinu.

Það var auðséð á s.l. ári, að það var ekki hið almenna verkafólk í verkalýðsfélögunum eitt, sem undi illa sínum hlut. Það var svo komið. að allir launamenn, jafnt í þjónustu bæjarfélaga og ríkisins, töldu sig ekki geta komizt af með þau laun, sem þeir höfðu haft, þó að þeir ættu að stöðugri atvinnu að ganga. og svo var komið, að einstaka launastéttir í þjónustu ríkisins lögðu niður vinnu, ef þær fengu ekki launakjör sín lagfærð. Það fór svo, að viss stétt manna, ekki meðal þeirra lægstlaunuðu hjá Reykjavíkurbæ, lagði niður vinnu og knúði fram stórfellda hækkun á launum sínum. Hin sama stétt í þjónustu ríkisins greip nokkru síðar til sömu aðgerða, lagði niður vinnu, réð sig annars staðar, og með því móti tókst þeim starfsmönnum einnig að knýja fram hækkanir á kaupi sínu og ýmsar ráðstafanir, sem verka sem bein kauphækkun. Þegar þetta hafði gerzt, gekk fyrir ríkisstj. einn af prófessorum háskólans, sem er forseti sambands opinberra starfsmanna og hefur þó sem fræðimaður haldið því fram, að kauphækkanir væru ekki til raunverulegra kjarabóta fyrir verkalýðinn undir vissum kringumstæðum í þjóðfélaginu, og þær kringumstæður hefur hann allt fram til þessa talið vera fyrir hendi, en nú brá svo við, að hann — einnig hann — var orðinn sannfærður um það, að ekki væri hægt að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna í samtökum opinberra starfsmanna með öðru móti en því að krefjast hækkaðra launa, og það knúði hann fram og meðstjórnendur hans í þeim samtökum með samkomulagi við hæstv. ríkisstjórn. Samkvæmt því var gengið frá því máli hér á Alþingi fyrir hátíðarnar og laun opinberra starfsmanna hækkuð nokkuð með uppbót á laun síðasta árs og þess, sem nú er byrjað.

Þegar svona er komið, er vitanlega algerlega eðlilegt, að fólkið, sem býr við lægri launakjör og sumt af því við óstöðuga atvinnu í ofanálag, telji sér ekki heldur fært að búa við óbreytt launakjör og segi upp sínum kjarasamningum og krefjist hækkunar á kaupi. Það á ekki annars kost.

Menn hafa verið mjög að ræða um það að undanförnu, að það sé um tvær leiðir fyrir verkalýðssamtökin að ræða í kaupgjalds- og kjaramálunum, það sé að biðja um hækkað kaup eða krefjast lækkaðs verðlags. Þetta byggist á nokkrum misskilningi. Verkalýðssamtökin eiga um ekkert að ræða annað en að óska eftir hækkuðu kaupgjaldi. Hvert verkalýðsfélag um sig hefur samning um launamál sinna félagsmanna við atvinnurekendur á því félagssvæði. Í þessum samningi er ekki um annað að ræða en kaupgjaldsliði, samningsákvæði um kaupgjald og samningsákvæði um vinnutíma og vinnuöryggi og ýmiss konar réttarbætur og öryggi við vinnuna. Þegar svona samningi er sagt upp, er eingöngu um það að ræða að ganga að samningaborði við atvinnurekendurna um lagfæringar til bættra kjara að því er snertir kaupgjaldsákvæðin og réttindaákvæðin. En ef stjórn verkalýðsfélags færi fram á það við sína atvinnurekendur, að þeir sæju hinu vinnandi fólki fyrir álnavöru á lækkuðu verði, fyrir lækkuðu húsnæði, fyrir ódýrari kartöflum, fiski og kjöti o. s. frv., þá segðu atvinnurekendurnir auðvitað undireins: Þetta er utan við ramma þess samnings, sem á milli okkar er, og hefur ekkert með hann að gera og liggur á því sviði, sem mér er gersamlega ómögulegt að gera neitt við eða semja neitt við þig um. — Sú leið er því ekki fær af hendi hinna einstöku verkalýðsfélaga. Þau eiga eingöngu kost á því að segja upp sínum samningi til þess að fá þá liði, sem samningurinn fjallar um, hækkaða og komið þeim í hagfelldara horf.

Þá vitna menn til þess, sem gerðist 1952, en þá hagaði málum þannig, að flest verkalýðsfélög landsins sögðu upp samningum á sama tíma og samræmdu sínar kröfur, sem voru kauphækkunarkröfur og ekkert annað og réttindakröfur, og fólu einni sameiginlegri stjórn að fara með þessar kröfur og ganga til samninga, ekki við hina einstöku atvinnurekendur, heldur við Vinnuveitendasamband Íslands. Og þegar þeir samningar höfðu verið þreyttir um hríð og atvinnurekendurnir sögðu, að þeir gætu ekki orðið við neinum kröfum verkalýðssamtakanna, þá var það sem Vinnuveitendasambandið og atvinnurekendurnir voru spurðir að, hvort þeir gætu leitað til nokkurs aðila, sem gæti þá leyst vandann með þeim á þann hátt, að kaupmáttur launanna ykist eða lífskjör fólksins, sem var verið að semja fyrir, yrðu á einhvern hátt bætt. Þá var af hvorum tveggja aðilanum, Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands, leitað á fund ríkisstj. um þessi mál, sem í fyrstu hélt því fram, að þetta mál væri henni óviðkomandi, hún væri þarna ekki samningsaðili að, en síðan tók þó til meðferðar ýmsar þær uppástungur. sem frá verkalýðssamtökunum komu um ráðstafanir til lækkaðs verðlags á ýmsum nauðsynjavörum, á sköttum og ýmiss konar þjónustu, þar á meðal á farmgjöldum. Og sú varð niðurstaðan eftir nokkurt samningaþóf, að árangur náðist á þessu sviði og deilan var að nokkru leyti leyst að þeirri leið.

Nú blasir þetta mál ekki þannig við. Einstök verkalýðsfélög hafa að vísu sagt upp samningum, en það er engan veginn yfir alla línuna, eins og heita mátti 1952. og verkafólkið í þessum félögum hefur ekki kosið sameiginlega stjórn yfir þær samningaaðgerðir, sem fyrir dyrum standa, og hvert verkalýðsfélag um sig heyir nú sína baráttu og ber fram sínar kröfur við eigin atvinnurekanda, sem auðvitað getur ekki sinnt neinum kröfum öðrum en þeim, sem eru innan ramma stéttarfélagasamningsins og fjalla um kaupgjaldsmálin og öryggismálin í sambandi við atvinnureksturinn. Það, sem hins vegar fyrir mér vakti og hv. 1. landsk. (GÞG), sem með mér flytur þessa till. var að reyna að knýja ríkisstj. til að vera búna að gera ráðstafanir í verðlagsmálunum áður en verkalýðsfélögin segðu upp sínum samningum, svo að grundvöllurinn væri annar, þegar að samningaborðinu væri gengið, og hægt væri að miða við hagkvæmara verðlag á lífsnauðsynjunum, meðan setið væri að samningunum og einmitt þegar kröfurnar væru mótaðar, heldur en nú verður hægt að horfast í augu við, þegar gengið er nú til samninga og kröfurnar eru mótaðar.

Ég hefði fagnað því mjög, ef hæstv. ríkisstj. hefði brugðizt fljótt við á s.l. hausti og reynt þetta, og það hefði verið allt öðruvísi um að litast nú og horft með allt öðru hugarfari fram til 1. marz, ef ríkisstj. hefði verið búin fyrir s. l. áramót að húka slíkum samningum, þrautreyna þá við öll þau fyrirtæki, sem nú á að reyna samninga við, og árangurinn hefði legið á borðinu. Það er kannske aldrei of seint að reyna að gera það rétta, en það er þó miklu skynsamlegra að fresta ekki því til morguns, sem gera ber í dag. Og það, sem átti að gera í þessum málum, átti að gerast á síðustu haustmánuðum, en ekki eftir að út í deilur væri komið. En það er áreiðanlegt, að það liggur enginn árangur fyrir í þessum málum. Hvort sem þessi till. verður nú samþykkt eða ekki, þá liggur enginn árangur fyrir í þessum málum fyrr en í óefni er komið og ágreiningurinn er risinn og erfiðara er að fást við hlutina á allan hátt. Ég álít, að það sé þó, þrátt fyrir allan þann drátt, sem orðið hefur á því, að Alþ. afgreiddi þessa till., rétt, að Alþ. geri það, því að eins og tekið var fram hér í umræðum fyrir nokkrum dögum, eru þetta þó heimildir fyrir ríkisstj., og það er bakhjarl, það er yfirlýsing um það, ef þessi till. verður samþ., að ríkisstj. hafi Alþ. á bak við sig í viðleitni hennar í samningunum við atvinnu- og viðskiptafyrirtækin, og að það sé lagt mikið upp úr því, að árangur náist af þeim samningatilraunum ríkisstj. Ég skal því ekki orðlengja frekar um þetta að mínu áliti þýðingarmikla mál, en ég vil óska þess, að hv. Alþ. hraði sem mest afgreiðslu till., þannig að ríkisstj. hafi, frá því að samningaumræðurnar byrja við atvinnu- og viðskiptafyrirtækin, fullt umboð Alþ. á bak við sig, njóti stuðnings í þessu máli.

Ég legg svo til, að þessi till. fari til allshn., sennilega, ef nauðsynlegt er, að hún fari til n., og ekki þætti rétt að afgreiða hana við eina umr. nú í stað, svo að ekki yrði frekari dráttur á afgreiðslunni.