04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (2778)

53. mál, sementsverksmiðja o. fl.

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir, er um það, að Alþingi feli ríkisstj. að leita fyrir sér um möguleika á því við stjórn Austur-Þýzkalands, að þaðan verði keyptar vélar til sementsverksmiðjunnar á þeim grundvelli, að vélarnar verði greiddar í fiskafurðum, sem héðan yrðu seldar til Austur-Þýzkalands, og að á þennan hátt yrði hægt að fá fram nokkurn greiðslufrest á vélunum.

Það hefur komið í ljós, að viðskipti Íslendinga við Austur-Þýzkaland eru á margan hátt hagstæð. Þar er greinilega fyrir hendi allmikill markaður fyrir íslenzkar sjávarafurðir, og verð það, sem fengizt hefur fyrir sjávarafurðir þar í landi, hefur verið mjög hagkvæmt. Hins vegar hafa viðskiptin við þetta land verið þannig, að til greiðslu á þeim fiskafurðum, sem þangað hafa verið seldar, hefur að miklu leyti þurft að taka ýmsar vörur frá þessu landi.

Það hefur hins vegar verið nokkrum örðugleikum bundið að fá þaðan það mikið af vörum, sem samsvarar að öllu leyti þeim möguleikum, sem annars eru fyrir hendi til þess að selja fiskafurðir okkar inn á þetta landssvæði.

Nú er ekki um það að villast, að málin standa þannig hjá okkur, að það væri til verulegra bóta fyrir okkur að auka fisksöluna til Austur-Þýzkalands. Það mundi bæta afkomu sjávarútvegsins allmikið, og framleiðendur eru þessu mjög meðmæltir. Af þeim ástæðum hefur mönnum eðlilega komið til hugar, hvort ekki væri hægt að beina til þessa lands einhverjum þeim viðskiptum, sem ákveðið er að ráðast í af hálfu Íslendinga, og þá hefur m. a. komið til athugunar að kaupa þaðan vélar í sementsverksmiðju. Það er sem sagt kunnugt, að Austur-Þýzkaland framleiðir þekktar og viðurkenndar vélar til slíkrar starfsemi, og fulltrúar þessa lands hafa lýst því yfir. að þeir væru reiðubúnir til samninga um að útvega vélar til sementsverksmiðju hér á landi.

Við, sem stöndum að flutningi þessarar till., töldum því alveg sjálfsagt, eins og þessum málum var varið hér, að nú yrði reynt af hálfu stjórnarvaldanna til hins ýtrasta að greiða fyrir sölu á sjávarafurðum til þessa lands, m. a. með því að kaupa þessar vélar þaðan og fá einnig fram um leið nokkurn greiðslufrest á vélunum. sem við töldum að miklar líkur væru á. Þó að hæstv. ríkisstj. hafi verið kunnugt um þessa möguleika, þá hefur hún ekki sinnt því á neinn hátt enn að athuga, hvernig þessum málum væri varið, og af þeim ástæðum fluttum við þessa till., ef Alþingi vildi fela ríkisstj. að bregðast þannig við sem lagt er til hér í till.

Meiri hl. hv. fjvn. telur eftir atvikum ekki rétt að samþykkja till. eins og hún liggur fyrir, en mér skilst þó, að meiri hl. n. vilji gjarnan afgreiða till. á fremur jákvæðan hátt með því að vísa henni til ríkisstj., í von um það. að hún athugi þetta mál til hlítar, og tel ég það að vísu bót. En ég, sem er í minni hl., vildi hins vegar leggja til, að till. yrði samþykkt eins og hún er, þar sem ríkisstj. væri beinlínis falið að leita eftir þessum samningsmöguleikum. Mér er það að vísu ljóst, að þó að þessi leið væri farin, þá leysir hún ekki til hlítar það vandamál, sem er bundið við það að útvega sementsverksmiðjunni frambúðarlán, sem sementsverksmiðjan síðan gæti miðað sinn rekstur við. Hér yrði fyrst og fremst um bráðabirgðalán að ræða, sem aftur yrði að snúa yfir í lengra lán í sambandi við rekstur verksmiðjunnar. En þar sem slík lánveiting sem þessi gæti væntanlega greitt fyrir byggingunni nú í byrjun, en auk þess greitt verulega fyrir sölu á sjávarafurðum, þá álít ég, að það eigi að samþykkja till. eins og hún liggur fyrir, og hef lagt það til.