17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (2795)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég skal nú ekki blanda mér mikið í hinnar almennu umr., sem hér hafa farið fram út af till. á þskj. 101, vísa þar til þeirra raka, sem hv. 1. flm. hefur fært fyrir henni. En ég vil í tilefni af því, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, aðeins benda á, að þó að megi færa fram dæmi um ýmislegt það, sem að öðru jöfnu eða við fljóta yfirsýn virðist eiga jafnmikinn rétt á því að vera sett á frílista og bílarnir, þá er það vitaskuld annað, sem í aðalefnum ræður því, að þessi till. er borin fram, og það er, hversu mikil vandkvæði hafa komið í ljós á því að úthluta bílum, svo að þjóðin vilji við una, þannig að menn telji sig ekki misrétti beitta. Ég veit ekki, hvort innflutningur yrði ýkjamiklu meiri, þó að bilar yrðu gefnir frjálsir. Ég veit hins vegar, hvernig fólkið finnur til. Ég veit það, að á móttökudögum í stjórnarráðinu eru það kannske 3/4 af þeim, sem á minn fund koma, sem eru að kvarta undan, að þeir hafi verið misrétti beittir í bílaúthlutun, samanborið við ýmsa aðra, færa að því rök, sem ég kann ekki að meta. En ég kann þó vel að skilja, að þetta er tilfinning þeirra manna, sem þarna eiga hlut að máli. Og það er auðvitað ákaflega æskilegt fyrir ríkisstjórnina, ef hægt væri að létta þessum grunsemdum um misbeitingu valdsins af herðum valdhafanna. Ég teldi það mikinn kost. Ég veit hins vegar, að á þessu eru annmarkar. Og ég veit, að það gat ekki orðið samkomulag á síðasta sumri innan ríkisstj. um, hvaða leiðir bæri að fara í þessum efnum. Það er ekki fullreynt nema það megi takast, þó að ég vilji ekki um það segja, en till. er auðvitað það sjónarmið, sem flm. hennar og margir aðrir hafa.

Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að einn af þm. leyfði sér hér að hafa óvenjuleg fúkyrði í frammi, maður, sem hversdagslega vill nú vera svo dæmalaust „pen“. Það er hv. Gylfi Þ. Gíslason, 1. landsk. þm. Ég skal sleppa þeirri hlið, sem vék að hagfræði. Hann hefur nú verið að verja miklum hluta ævi sinnar til að læra hagfræði og raunar að kenna hana líka. Ég vil ekki kveða upp neinn almennan dóm yfir því starfi, en mér heyrðist þeir vera hér nokkrir, sem minna hafa kostað til sinna mennta í hagfræði, sem gátu þó kennt honum talsvert um, hvernig á að fara með tölur og hvað má draga út úr þeim, eftir því hvort þær eru skynsamlega skoðaðar eða ekki. Ég vil færa honum til afsökunar það, sem einhver mikill vitmaður einhvern tíma sagði: Fyrst er lygi, svo haugalygi og svo hagfræði. — Og ef menn líta á tölurnar, án þess að full dómgreind fylgi, þá er maður lentur í haugalyginni, og það var nú það slys, sem varð á hans vegi, og það er ekki mitt að gæta sáluhjálpar hans í þeim efnum. En ég vil hins vegar aðeins segja það, að þegar þessi hv. þm. kemur hér og lýsir yfir, ekki eins og Gróa á Leiti: Ólyginn sagði mér — heldur eins og fullkominn manndómsmaður og „pen“ maður, að það sé um stórkostlegt „svindl“, eins og hann orðaði það, að ræða í útflutningsverzlun landsmanna, þá vil ég mælast til þess, að hann færi að þessu rök opinberlega og sjái hvað kostar að vera með svona kjafthátt. Ríkisstj. hefur í þessum efnum ekki gert annað fyrir sitt leyti en að lofa útgerðarmönnum að ráða sínum samtökum. Þegar stór meiri hluti bændanna óskar eftir mjólkursamlagi, þá fá þeir það, þó að mikils metnir bændur, eins og t. d. sá ágæti maður, sem einu sinni bjó á Korpúlfsstöðum og hét Thor Jensen, hefði af því mikinn óhag, að sölusamlag var gert og hans mjólkurbú skaðabótalaust lagt niður. Hagsmunir heildarinnar voru a. m. k. taldir ráða. Það er sama um fiskinn. Það er sama um síldina. Það er fisksölusamlagið, sem fer með saltfisksöluna. Þeir hafa sinn árlega fund. Þar hefur svo að kalla einróma verið talið nauðsynlegt að hafa samtök og ágreiningur aðeins verið um það, hvort fisksölusamlagið eigi að vera fyrir sig og S. Í. S. fyrir sig, og þó náðst um það sæmilegar sættir að halda þessu í einni heild. Varðandi síldina er sama að segja. Síldarsaltendur koma saman árlega og gera sínar samþykktir um þá skipan, sem þeir telja heppilegasta. Ég held, að það sé um hraðfrysta fiskinn alveg það sama. Þar eru langflest húsanna í Sölumiðstöð íslenzkra hraðfrystihúsa, en þau, sem þar eru ekki, eru hjá Sambandinu. Þar eru sem sagt tvenns konar samtök, sem vinna vel saman, en engum blandast hugur um, að þetta hefur verið til farsældar fyrir almenning í landinu. Svo kemur hér einn þm., sem vill sérstaklega vera metinn fyrir prúðmennsku, og talar digurbarkalega um svindl.

Ég skora á hann að koma með rök fyrir því, hvað hann meinar með þessu, hvort þarna eru þjófar að verki, hverju þeir stela, frá hverjum þeir stela og hvað miklu þeir stela.

Hitt getum við svo — sem trúum á þessi samtök, að þau hafi orðið þjóðinni til mikillar blessunar, sjómannastéttinni, útgerðarmönnum og öllum, sem hlut eiga að máli, til afar mikilla hagsbóta — náttúrlega huggað okkur við, að við vitum, að fyrri hluti ræðu hv. 1, landsk. þm., sem um þetta fjallaði, var sízt áreiðanlegri en seinni hlutinn, þegar hann var að ögra Framsfl. og gefa hér yfirlýsingar fyrir hönd allrar stjórnarandstöðunnar. Ég fullyrði, sagði þessi þm., að stjórnarandstaðan mun gera svona og svona, svona og svona og svona og svona. Ég held hann ætti að láta sér nægja að fullyrða, hvað Alþfl. mundi gera. Honum hefur ekki gengið of vel enn þá að gefa haldgóðar yfirlýsingar fyrir hönd síns flokks. Hér eru þó þrír stjórnarandstöðuflokkar, og ég held, að hinir séu þó a. m. k. ekki undir neinni yfirstjórn þessa þm. Hitt veit ég einnig, að þeir menn úr flokki þessa þm., sem eru kannske ekki síður haldreipi flokksins en hann sjálfur og eiga beina hagsmuni undir því, hvort þessi samtök haldast eða hvort þau rofna, hafa ekki haft undan samtökunum að kvarta, heldur þvert á móti stutt þau, stutt þau á réttum vettvangi og eindregið.

Ég kunni ekki við, úr því að ég varð þess heiðurs aðnjótandi að hlusta á þessa djarfmannlegu ræðu þessa prúða þm., annað en að gefa honum tækifæri til að heyra mína skoðun um þetta og bera fram þá ósk, að hann færi rök á opinberum vettvangi fyrir sínum staðhæfingum, því að ég trúi því ekki að óreyndu, að hann telji sér sæma í skjóli þinghelginnar að bera á menn svik og þjófnað, en hafi svo ekki manndóm til þess að koma með það á öðrum vettvangi, þar sem hægt er að draga hann til ábyrgðar fyrir þetta. Ég veit ekki, hvað hann meinar með orðinu svindl. Ég hef talið það vera svik eða óráðvendni, og ef hann vill gefa á því aðrar skýringar, þá væri honum það opið, og má vera, að ræninginn geti þá iðrazt fyrir dauðastundina og sloppið við þær sektir, sem hann annars verður að búa sig undir að aura saman af þingmannskaupinu til þess að borga það, sem hann verður vafalaust dæmdur til að borga, ef hann ætlar að standa við þessi ummæli sín á opinberum vettvangi.