20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í D-deild Alþingistíðinda. (2823)

22. mál, rányrkja á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum

Einar Olgeirsson:

Það er engum efa bundið, að hér er um nauðsynjamál að ræða, sem verður að reyna að finna úrlausn á og það nú þegar á þessu þingi.

Hv. frsm. kom nokkuð inn á það — og að því er mér fannst frekar óheppilega — að setja þetta mál að einhverju leyti í andstöðu við útvíkkun landhelginnar. Það má ekki verða. Þetta er nauðsynjamál, hvernig sem um landhelgina fer, og við skulum ekki láta neina af þeim eðlilegu óskum og kröfum, sem gerðar eru til þess að auka útgerðina og fiskiðjuverin, verða til þess á neinn hátt að draga úr þeim till., sem fram koma um, að Íslendingar nú þegar kveðji sér alvarlega hljóðs um sinn rétt til landgrunnsins.

Hv. frsm. virtist að nokkru leyti vilja fara inn á þessa leið með tilliti til þess, að það væri svo óbilgjörn klöpp, sem stæði í okkar vegi hvað snerti útvíkkun landhelginnar. Hann nefndi að vísu ekki klöppina, en við þekkjum hana. Við vitum ósköp vel, að það gamla brezka auðvald með sínum yfirgangi á hafinu heldur mjög sterkt á því valdi, sem það hefur einu sinni rænt sér, og hefur allvolduga bandamenn gagnvart okkur smælingjunum í þessu efni. En ég held, að við megum bara ekki láta neitt slíkt hræða okkur frá því að segja alveg fyllilega, hvern rétt við höfum í þessum efnum, og taka okkur hann, eins og við erum frekast menn til.

Ég held, að okkur beri ekki á neinn hátt að víkja þar, og Bretar hafa nú gert okkur þann stóra greiða, þó að þeir hafi ætlað að gera okkur illt, að skella á okkur þessu löndunarbanni í Bretlandi, sem raunverulega hefur orðið til þess og verður til þess í ríkari mæli að sýna okkur Íslendingum, hve vel við getum komizt af án brezks markaðs og að það er heppilegra fyrir okkur að fá að vinna úr öllum okkar afla hér innanlands heldur en að nokkru leyti að þurfa að vera upp á ísfisksmarkað í Bretlandi komnir, þannig að það er sízt ástæða til þess að vægja í landhelgismálinu vegna löndunarbannsins eða á nokkurn hátt að vera yfirleitt að setja það í samband við okkar landhelgiskröfur.

Ég er alveg fyllilega sammála einmitt því, sem fram kom líka hjá hv. frsm., að fiskiðjuverin og fjölgun þeirra er mál, sem leysir algerlega úr öllum þeim vandræðum, sem ætlunin var fyrir Breta að setja okkur í með löndunarbanninu. Höfuðmálið hins vegar, sem þessi þáltill. fer fram á, er raunverulega að koma í veg fyrir eyðingu Vestfjarða, því að það er alveg rétt, sem hv. frsm. og aðrir hafa haldið fram, að það, sem raunverulega vofir yfir, ef haldið er áfram eins og nú er stefnt, er eyðing slíkra landshluta. Nú hefur það ekki aðeins gildi fyrir Vestfirðinga, að þar sé hægt að auka togara- og bátaútgerð og byggja þar fiskiðjuver, heldur hefur þetta líka stórkostlegt gildi fyrir þjóðarbúið allt, fyrir alla landsfjórðunga. Við vitum það vel, að okkar að mörgu leyti beztu fiskimið eru úti fyrir Vestfjörðum, ef hægt er að sækja þau, og það er þess vegna litlum efa bundið, að ef til væru nægileg fiskiðjuver á Vestfjörðum, þá hefur það ekki aðeins gildi fyrir þá togara og báta, sem gerðir væru út frá Vestfjörðum, heldur líka fyrir togara annars staðar á landinu, sem mundi þykja mjög gott, a. m. k. á ýmsum tímum ársins, að leggja þar upp.

Ég held þess vegna, að það sé alveg nauðsynlegt, að athugaðar séu nú af meira raunsæi og alvöru er gert hefur verið á undanförnum þingum þær till., sem fram hafa komið um aukningu togaraflotans, og það gleður mig, hvernig hv. frsm. tók undir þörfina á því. Við sósíalistar höfum flutt, bæði á síðasta þingi og fyrr, till. um kaup á 10 nýjum togurum, þar af tveim smíðuðum hér innanlands, þar sem nú er komið í ljós, að við Íslendingar getum vel smíðað stálskip sjálfir og ættum ekki að vera í neinum vandræðum með að geta smíðað togara. Við lögðum til, að 10 togarar yrðu keyptir á næstu tveim árum, og ég býst við, að á því sé full þörf, bara miðað við sæmilegt viðhald á togaraflotanum. Það, sem er ekki síður þörf, eins og hv. frsm. kom inn á líka, bæði á Vestfjörðum og annars staðar, er bygging fiskiðjuvera.

Nú er spurningin, og það er það, sem alltaf hefur sýnt sig, um leið og einhverjar svona till. koma fram, að áhuginn fyrir samsvarandi aðgerðum í öðrum landshlutum er svo mikill, að þarna bætist alltaf ákaflega mikið við af till., og síðan stöðvast allt að lokum. Ég held, að við verðum að reyna að finna einhverjar leiðir í þessum efnum. Það dugir ekki að láta þetta ganga svona þing eftir þing, það sé kvakað hér með bænaskrár á ríkisstj., hún geri ekki neitt, fari kannske fram á í hæsta lagi að fá 5 eða 10 millj. kr. á fjárlögum til þess að útbýta á milli þægra kjördæma eða þægra staða sem eins konar atvinnubótafé, útdeilir þeim þess vegna eftir hinum undarlegustu reglum, ef reglur skyldi kalla, en raunverulega sé ekkert gert, sem eitthvað munar um, viðvíkjandi þessum stöðum, sem út undan eru og út undan hafa orðið hvað fjármagn snertir, a. m. k. allt síðan á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, því að það er auðséð, eins og hv. frsm. kom inn á, að það, sem þessir staðir eins og Vestfirðirnir byggja á enn þá, eru togararnir, sem þeir fengu með þeim lögum, sem þá voru sett, og með þeim aðgerðum, sem þá voru framkvæmdar.

Það er þess vegna vafalaust mjög gott og nauðsynlegt að herða á hæstv. ríkisstj. um aðgerðir í þessum efnum, um aðstoð og hjálp til að kaupa togara og annað slíkt, og það eru fyllilega réttmætar líka þær till., sem fram hafa komið af hálfu Alþfl. viðvíkjandi togurum til atvinnujöfnunar. En ég vildi, um leið og ég tek undir þær till., sem fram hafa komið frá þeim mönnum, sem hér hafa talað á undan í slíkum efnum, leyfa mér að beina því til hv. þm., sem áhuga hafa á þessum efnum og hafa reynsluna af, hvernig gengur, þ. e. a. s. hver árangurinn verður, hve lítill hann verður af því að biðja hæstv. ríkisstj. ósköp fallega og fá aldrei neitt svar, — ég vildi biðja þá um að athuga, hvort við gætum nú ekki orðið sammála á þessu þingi um aðgerðir, sem bókstaflega leyfðu þessum fjórðungum og þessum aðilum að bjarga sér sjálfir. Það er talað um óbilgjarna klöpp í sambandi við okkar landhelgismál, en sannleikurinn er sá, að í ýmsum þeim málum, sem landsfjórðungarnir eru að beita sér fyrir, hefur sjálf ríkisstj. reynzt óbilgjarnasta klöppin, þ. e. a. s. þar, á hennar einokunarvaldi, hefur strandað það, sem ef til vill væri mögulegt að gera fyrir einstök bæjarfélög og einstaka fjórðunga. Ríkisstj. hefur tvenns konar vald í þessum efnum nú sem stendur. Hún hefur annars vegar það vald, að öll bæjarfélög landsins þurfa að sækja til hennar um leyfi til þess að taka lán erlendis. Áður fyrr gátu íslenzk bæjarfélög tekið lán erlendis, og þau þurftu aðeins til ríkisstj. að sækja að svo miklu leyti sem það snerti þá gjaldeyrisyfirfærslu, eða þau þurftu að biðja um ríkisábyrgð. Ég álít, að í fyrsta lagi ætti að gefa bæjarfélögunum og fjórðungunum og þeim samtökum, sem bæjarfélögin þannig mynduðu sín á milli í einstökum fjórðungum, leyfi til þess að mega sjálf reyna að bjarga sér í þessum efnum. Í öðru lagi hefur ríkisstj. það vald, að hún getur neitað þessum fjórðungum um rétt til þess að selja sinn fisk út úr landinu, sökum þess að hún hefur samkv. lögunum frá 12. febr. 1940 ein leyfi til þess að veita leyfi til útflutnings á íslenzkum afurðum. Ég álít, eins og ég hef margoft lagt til á undanförnum þingum, að það ætti að veita bæjarfélögunum leyfi til þess og þeim samtökum, sem þau mynda, að mega sjálf flytja út fisk, m. ö. o., það ætti að leyfa þessum fjórðungum og þessum aðilum, sem eru að drepast undir þeirri fjármálapólitík, sem rekin er og stjórnað héðan frá Rvík, að bjarga sér sjálfir. Í öðru lagi er það vitanlegt, að það er ekki nóg að gefa þeim þetta frelsi. Það er rétt að gefa þeim meira, og það er fyllilega að öllu leyti forsvaranlegt. Það, sem þessi bæjarfélög þyrftu, eru eðlileg lán út á togara og hraðfrystihús, sem þau kæmu sér upp. Með lögunum um stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands var það tryggt, að hægt væri að fá þar 75% af andvirði togara að láni, og núna eru lánin í stofnlánadeildinni 67 millj. kr. Það þýðir, að það hafi verið borgað niður um 33 millj. kr. af þeim 100 millj. kr., sem það var upphaflega og raunverulega var alltaf tilgangur Alþingis þá að ætti að vera áfram 100 millj. kr., þó að það hafi hins vegar verið framkvæmt þannig, að það hafi verið minnkað. Ég álít, að í fyrsta lagi væri rétt að setja stofnlánadeildina aftur í gang, þannig að það væri hægt að veita úr henni lán samkv. þeim fyrirmælum, sem þar eru. En þar sem vitað er, að hún mundi hrökkva skammt, þá álit ég, að það væri rétt, að ríkið tæki á sig samsvarandi ábyrgð gagnvart þeim bæjarfélögum eða samtökum bæjarfélaga, sem keyptu togara eða kæmu sér upp hraðfrystihúsum, eins og ríkið veitir Landsbankanum núna. Ríkið ábyrgist þessi lán, sem stofnlánadeildin veitir. Og ef ríkið léti bæjarfélögunum og þeim samtökum, sem þau kynnu að mynda, í té samsvarandi ábyrgð, sem sé ríkisábyrgð fyrir a. m. k. 75% af þessu, — það hefur nú farið raunverulega upp í 85% með ýmislegt af því, — þá mundi það þýða, að mörg af þessum bæjarfélögum og samtökum manna í þessum fjórðungum mundu á grundvelli slíkrar ríkisábyrgðar og frelsis til þess annars vegar að mega taka lán erlendis og hins vegar að mega sjálf selja út úr landinu sinn fisk, reyna að bjarga sér með að koma upp þessum tækjum, og í staðinn fyrir að fá hér þá halarófu, sem talað hefur verið um hér á Alþ. undanfarið, að það sé bætt alltaf við eina þáltill. eins og þá, sem nú kemur, ótal samsvarandi till., þangað til loksins er svo komið, að ríkisstj. segir: Ja, nú get ég ekki lengur tekið við þessum till. — þá mundu þau fá ákveðna skuldbindingu ríkisstj., ákveðna ríkisábyrgð, sem gildir gagnvart öllum bæjarfélögum, og möguleika fyrir þessi bæjarfélög til þess að hagnýta sér þessa ríkisábyrgð innanlands og utan með því að reyna svo af fremsta megni að leggja þarna nokkuð fram sjálf á móti.

Ég held, að þetta sé atriði, sem við ættum alvarlega að athuga, hvort ekki væri hugsanlegt, að hægt væri að ná samkomulagi um á þessu þingi. Ég býst við, að menn séu orðnir sammála um það, að togaraútvegurinn og hraðfrystihúsin séu það örugg undirstaða undir íslenzku atvinnulífi, að það sé ekki aðeins óhætt, heldur líka rétt og skylt af ríkisvaldinu að veita slíkan almennan stuðning eins og slík ríkisábyrgð mundi þýða.

Með þessu vil ég sízt draga úr því, að ríkisstj. væri falið að gera stórar aðgerðir í þessum efnum. Við höfum sjálfir lagt það til undanfarið, sósíalistar, að ríkisstj. keypti inn 10 togara og úthlutaði þeim, þannig að við stöndum náttúrlega með því eftir sem áður. En við höfum bara allir þm. orðið þess varir, hve erfitt er að fá hæstv. ríkisstj. ti1 þess að fallast á slíkt, og þess vegna vil ég segja, ef ekkert tækist að fá fram á þessu þingi í því að knýja fram aðgerðir ríkisstj. sjálfrar, þá finnst mér eðlilegt, að þingmeirihluti segði hér við hana: Ef þið viljið ekkert gera sjálfir, þá lofið þið okkur að bjarga okkur, þá standið þið ekki í veginum fyrir því sem aðalhöftin og aðalfjöturinn á framtakssemi landsmanna, að þeir fái að bjarga sér í þessum efnum, en það er ríkisstj. nú sem stendur.