27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (2945)

175. mál, óháðir alþýðuskólar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf., sem er 1. flm. þessarar till. og enn fremur frsm. allshn., hefur gert svo skýra grein fyrir þessu máli, að í raun og veru er lítil ástæða til af minni hálfu að bæta við það. En mér virtist það koma fram í ræðu hæstv. menntmrh., að með þessari till. væri farið fram á að stofna einn eða fleiri skóla, sem störfuðu með lýðháskólasniði, og í annan stað, að starfsemi slíks skóla mundi ekki samrýmast lagaákvæðum um starfsemi gagnfræðastigsskóla í landinu. Það er út af þessu tvennu, sem ég vildi leyfa mér að bæta fáeinum orðum við þær umr., sem hér hafa farið fram, og benda á viss atriði í þessu sambandi.

Í tillgr. er komizt svo að orði að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að á næsta skólaári starfi einn eða fleiri æskulýðsskólar með svipuðu sniði og fylgt var áður í héraðsskólum. Hér er ekki talað um að stofna skóla, heldur að einn eða fleiri skólar starfi með ákveðnu sniði. Þetta orðalag er á till., til þess að það sé skýrt, að það sé ekki ætlun fim., að ráðizt sé í að reisa að nýju skóla í þessu skyni. Enn fremur er talað um í tillgr., að ríkisstj. hlutist til um, að á næsta skólaári verði starfseminni hagað á þennan hátt. Næsta skólaár hefst ekki síðar en 1. okt. þessa árs, og það væri að sjálfsögðu ekki sanngirni í garð framkvæmdavaldsins að ætlast til þess, að á þeim stutta tíma, sem eftir er, þar til næsta skólaár hefst. yrði stofnaður einn eða fleiri skólar í ákveðnum tilgangi. Í grg. er þetta sjónarmið áréttað, þar sem segir berum orðum: „Hér er því lagt til, að Alþingi beini því til ríkisstj., að hún hlutist til um, að á næsta skólaári starfi einn eða fleiri æskulýðsskólar með svipuðu sniði og héraðsskólarnir gerðu, áður en þeir voru gerðir að hlekk í skólakerfinu.“ Og í ræðu þeirri, sem hv. 1. flm. till. hélt, þegar málið var hér fyrst til umr. í Sþ., komst flm. að orði þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Með þessari till. er alls ekki ætlunin að koma upp nýjum skóla eða nýjum skólum. heldur er ætlunin sú. eins og till. ber með sér, að samið verði við einn eða fleiri skóla, sem nú eru til, um það að starfa á þeim grundvelli, sem till. segir til um. Þar af leiðandi er ekki ástæða til að gera ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð. þó að þessi till. verði samþ. og framkvæmd. Með þessu ætla ég að þegar í öndverðu, er málið var lagt hér fyrir hv. Sþ.. hafi 1. flm. þess tekið af öll tvímæli um tilgang flutningsmanna með þessari tillögu.

Nú liggur hér fyrir og hefur verið kynnt hv. þingmönnum umsögn frá fræðslumálastjóra um málið, þar sem hann lætur þá skoðun í ljós. að til þess að slíkri framkvæmd verði komið á, þurfi lagaheimild af hálfu Alþingis. En það er eftirtektarvert í þessu bréfi, að þar er miðað við að stofna nýjan skóla. Bréfið er í fimm töluliðum. Í 1. tölul. segir fræðslumálastjóri: „Ég væri því fylgjandi, að stofnaður yrði skóli hér á landi.“ Og í 3. tölul. segir fræðslumálastjóri: „Þá virðist mér, að fá þurfi lagaheimild til stofnunar og rekstrar alþýðuskóla.“ Í 4. tölul. segir fræðslumálastjóri: „Þótt hluti ríkissjóðs í stofnkostnaði og rekstri alþýðuskóla yrði hliðstæður því, sem gildir um gagnfræðaskóla“ o. s. frv. Og í 5. tölul. segir fræðslumálastjóri: „Eins og sjá má af því, er að framan greinir, miða ég við það, að aðeins verði stofnaður einn alþýðuskóli á framangreindum grundvelli.“ Umsögn fræðslumálastjóra virðist mér þannig, að út af fyrir sig megi það allt til sanns vegar færa. En þessi umsögn er í raun og veru ekki um þá till., sem hér liggur fyrir, því að umsögnin er um að stofna nýjan skóla, en till. einungis um að breyta starfsháttum í einum eða fleiri æskulýðsskólum, sem fyrir eru í landinu. Um stofnkostnað í sambandi við slíkt er því ekki að ræða.

Þá kem ég að hinu atriðinu, sem mér virtist koma fram í ræðu hæstv. menntmrh., að starfsemi æskulýðsskóla með því sniði, sem till, gerir ráð fyrir, muni ekki samrýmast lagaákvæðum um gagnfræðastigsskóla. Fræðslulögin skipta öllu skólakerfinu í 4 stig, barnafræðslustig, gagnfræðastig, menntaskóla- og sérskólastig og háskólastig. Sú breyting var gerð, þegar skólakerfinu var skipt í þessi 4 stig, að gert var ráð fyrir því, að barnaskólarnir störfuðu einum vetri skemur en áður hafði verið, en sá bekkur, sem áður hafði verið efsti bekkur barnaskóla, færðist inn í gagnfræðaskólana og að gagnfræðaskólarnir yrðu á þann hátt 4 ára skólar, en landsprófið yrði tekið upp úr 3. bekk þeirra skóla. Þessi skipun er þegar komin á hér í Reykjavík og yfirleitt í kaupstöðum landsins. Þar er nemendafjöldinn svo mikill, að það er auðvelt að koma slíkri skiptingu við, og skólarnir í kaupstöðunum starfa yfirleitt með þessu sniði. En í sveitum landsins og hinum smærri þorpum er þetta miklu meira á reiki. Þar er nemendafjöldinn oft ekki meiri en svo, að það er erfitt að fá fullskipaðan bekk í unglingaskóla, og er þá að því ráði hnigið að hafa unglingafræðsluna í sambandi við barnaskólana, og er hún þá venjulega framkvæmd af barnakennurunum að meira eða minna leyti. Og þar sem þessi nýja skipan er ekki komin til framkvæmda á annan veg en þetta, þá lýkur barnaskólanáminu sums staðar í sveitum í raun og veru enn þá með fullnaðarprófi á sama hátt og áður var eftir hinum eldri fræðslulögum. En þar sem nemendur hafa setið í barnaskóla einum vetri lengur en framkvæmt er hér í Reykjavík og í öðrum kaupstöðum, þá er litið þannig á, að þeir hafi þar með lokið í raun og veru 1. bekkjar námi á gagnfræðastiginu eða námi, sem samsvarar 1. bekkjar námi á gagnfræðastiginu.

Meðal annars af þessu leiðir það, að héraðsskólarnir í sveitunum eru yfirleitt 3 ára skólar og landsprófið, sem haldið er í héraðsskólunum, er lokapróf frá þeim. Samkvæmt fræðslulögunum eiga skólar gagnfræðastigsins að skiptast í deildir, þ. e. bóknámsdeild og verknámsdeild, og nær sú skipting vitanlega til héraðsskólanna alveg eins og skólanna í kaupstöðunum, og ákvæðin um landspróf, sem veita rétt til inngöngu í menntaskóla, gilda einungis um þá nemendur, sem sitja í bóknámsdeild. Nemendur, sem sitja í verknámsdeildum, öðlast ekki rétt til þess að ganga inn í menntaskóla og til þess hefur ekki verið ætlazt.

En framkvæmd kennslunnar og prófanna í héraðsskólunum hefur verið sú alla stund síðan nýju fræðslulögin voru sett, að ekki nærri allir nemendur bóknámsdeildanna hafa gengið undir landspróf. S.l. vor var þessu þannig háttað í héraðsskólunum, sem allir eru fjölmennir, að í Reykholti voru einungis 12 nemendur úr bóknámsdeild, sem gengu undir landspróf, á Núpi 12, á Reykjum 5, á Laugum 9, á Eiðum 6. í Skógum 25 0g í héraðsskólanum á Laugarvatni 13, en þar við bættist, að þar gengu undir landspróf 4 menn, sem höfðu stundað nám utanskóla, svo að alls útskrifuðust þaðan landsprófsnemendur 17 að tölu. Allir aðrir nemendur þessara skóla, sem sátu þó í bóknámsdeildum, gengu ekki undir landspróf, heldur undir annað próf, sem sumir kalla gagnfræðapróf, og það próf, þetta gagnfræðapróf í héraðsskólunum, veitir ekki rétt til inngöngu í menntaskólana. Eigi að síður er það mikilvægt fyrir þessa nemendur að hafa aflað sér þessarar fræðslu. Þeir fá á þann hátt allgott veganesti út í lífsbaráttuna, og þeim eru ekki allar bjargir bannaðar á námsbraut, þó að þeir hafi ekki með þessu sérstaka prófi öðlazt rétt til inngöngu í menntaskóla. Það eru ekki enn þá ákvæði, svo að mér sé kunnugt, í lögum um bændaskóla, sem kveði á um það, að til inngöngu í þá þurfi að hafa lokið landsprófi, og hið sama hygg ég að sé að segja um sjómannaskólann. Og það er eftirtektarvert, að í frv., sem hv. Alþ. fjallar nú um til laga um iðnskóla, er ekki gert ráð fyrir því, að það verði skilyrðislaust skylda til inntöku í iðnskóla að hafa lokið landsprófi, því að þar er gert ráð fyrir því, að iðnskólum verði heimilt að taka nemendur, sem ekki hafa lokið miðskólaprófi, ef þeir með inntökuprófi sýna, að þeir hafi nægilega undirstöðuþekkingu í íslenzku og reikningi til þess að fylgjast með kennslu í 1. bekk skólans. Þessir nemendur, sem hafa lokið námi í bóknámsdeildum héraðsskólanna, en ekki tekið landspróf, eiga þess kost að ganga út í atvinnulífið og ganga í sérfræðiskólana, bændaskóla, sjómannaskóla og iðnskóla, að loknu námi í héraðsskólunum. Sé sú skoðun, sem mér virtist koma fram í ræðu hæstv. menntmrh., rétt, að kennsla eða þeir starfshættir, sem að er stefnt með þessari till., sem hér liggur fyrir, samrýmist ekki lagaákvæðum um gagnfræðanám, þá virðist mér liggja nærri að draga þá ályktun, að sú starfsemi, sem nú þegar fer fram í héraðsskólunum, þar sem nám í bóknámsdeildum endar ekki með landsprófi hjá mörgum nemendum, samrýmist ekki heldur lagaákvæðum um gagnfræðanám, en framkvæmdinni hefur alla stund síðan nýju lögin tóku gildi verið hagað á þennan veg, sem ég hef nú lýst.

Ég er ekki svo kunnugur starfi lýðháskóla í öðrum löndum, að ég vilji gera það hér að umtalsefni, en í bréfi fræðslumálastjóra kemur það fram, að námsdvöl í lýðháskóla veiti ekki réttindi til starfa eða náms í öðrum skólum. Lýðháskólar eru því utan við skólakerfi hlutaðeigandi landa og eiga að vera það. Og enn fremur segir hér, að próf séu ekki haldin í lýðháskólum. Héraðsskólarnir höfðu starfað allmörg ár, áður en nýju fræðslulögin um skólakerfi voru sett, og starf héraðsskólanna var nokkuð fast mótað á því árabili. Það skiptist í þrennt: bóklegt nám, verklegt nám og íþróttir. Það fór eftir lagaboði, ákveðnum lögum, sem felld voru úr gildi um leið og hin nýrri voru sett, en það er aðgætandi, að ef borin eru saman ákvæði laganna frá 1940 um héraðsskóla og ákvæði núgildandi laga um gagnfræðanám, einkum eins og ætlazt er til að það fari fram í verknámsdeildum, þá ber ekki svo mikið á milli um orðalag þeirra lagaákvæða, að það ætti að vera auðvelt að haga starfsháttum í samræmi við það, sem farið er fram á í þessari tillögu. En mér virðist, einkum eftir að fram er komið hér álit fræðslumálastjóra, að orðalag till., eins og hún var flutt, sé öllu ákveðnara en það orðalag, sem hv. allshn. leggur til í a-lið brtt. Þegar talað er um, að þeir starfi með svipuðu sniði og fylgt var áður í héraðsskólum, þá höfum við reynslu fyrir því, að þeir skólar voru allfast mótaðir, og mönnum er það kunnugt, hvernig það starf var, og því námi lauk með ákveðnu prófi, sem að sönnu veitti ekki rétt til inngöngu í menntaskóla, en, var ekki ósvipað því prófi, sem nú er haldið fyrir suma nemendur héraðsskólanna, eins og ég ræddi áðan.

Þessi till. er því að mínu viti í raun og veru till. um verkaskiptingu milli héraðsskólanna í landinu, — verkaskiptingu á þá leið, að sumir hafi fullskipaðar bóknámsdeildir þeim nemendum, sem ætla sér að ganga undir landspróf og öðlast þar með rétt til inngöngu í menntaskóla, en aðrir hafi fullskipaðar deildir með nemendum, sem ætla sér ekki að ljúka landsprófi, heldur öðru sérstöku prófi, sem ekki veitir mikinn rétt, en er þó nokkurt veganesti út í störfin, sem fólksins bíða, og nokkur vitnisburður um hæfni nemandans til náms. Ég sé ekki, að það sé sérstaklega hagkvæmt, að Laugar láti eina 9 nemendur ganga undir landspróf og Eiðaskóli 6 nemendur. Mér finnst alls ekki fjarri lagi, að það sé komið á verkaskiptingu í þessu efni, og sýnist það ekki óeðlilegt, að því sé beint til fræðslumálastjórnarinnar að taka þetta mál til athugunar nú á þessu sumri, enda er þess að gæta, að ástæður í sveitum landsins og hjá þeim, sem stunda atvinnurekstur, eru þær, að það er mjög örðugt að fá vinnufólk til atvinnurekstrarins. Af því leiðir, að það er nokkur tilhneiging hjá a. m. k. sumum þeim, er í sveitum búa, að njóta aðstoðar barna sinna fyrst eftir fermingaraldur við atvinnureksturinn, en af því leiðir. að það fólk kemst ekki inn í gagnfræðaskólana, fyrr en það hefur fengið nokkurn þroska og á þá í sjálfu sér ekki eðlilega samleið með yngri nemendum, sem hafa aldrei gert hlé á skólanámi. heldur farið brautina áfram bekk úr bekk. Með þeirri verkaskiptingu, sem við förum fram á að verði komið á samkvæmt þessari till., ætti slíkt fólk, sem hefði verið bundið við atvinnurekstur heima í sveitinni fyrst eftir fermingaraldur, að fá nokkru betri aðstöðu en ella til þess að leita í einn ákveðinn skóla eða fleiri til þess að ljúka þar stuttu námi, sem það kynni að óska eftir að geta notið síðar. Þegar verið er að ræða um það hér á hv. Alþ., að ríkisvaldið þurfi að ljá aðstoð til þess að flytja inn í landið erlent verkafólk, þá finnst mér full ástæða til þess fyrir hv. þm. að líta á þessa hlið málsins og greiða fremur fyrir því en hitt, að þroskaðir unglingar, sem hafa bundið sig við heimilin til þess að halda þar uppi atvinnurekstri, geti haft sem bezt skilyrði til þess að njóta stuttrar námsdvalar í einum eða fleiri alþýðuskólum.