30.03.1955
Sameinað þing: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í D-deild Alþingistíðinda. (2953)

177. mál, fiskveiðalandhelgi

Flm. (Einar Olgeirsson):

Till. á þskj. 490, sem við flytjum þrír þingmenn Sósfl., fer fram á það, að ríkisstj. beiti áhrifum sínum til þess, að haldin verði sameiginleg ráðstefna þeirra ríkja, sem hafa sameiginlega hagsmuni af víðtækri landhelgi hvað fiskveiðitakmarkanir snertir.

Það þarf ekki að fjölyrða um, hvílíkt hagsmunamál útvíkkun landhelginnar hvað fiskveiðitakmarkanirnar snertir alveg sérstaklega er fyrir okkur Íslendinga. Ég býst við, að það sé öllum orðið ljóst — þjóðinni í heild og þinginu — að við erum að berjast fyrir því máli að geta tryggt okkur yfirráð helzt yfir öllu landgrunninu og ráðið þar fiskveiðitakmörkunum, eins og við börðumst áður fyrir okkar sjálfstæði. Það er sama sem að tryggja okkar rétt til frambúðar yfir sjónum í kringum land okkar, eins og við höfum áður öldum saman háð baráttu fyrir því að tryggja okkur réttinn yfir landinu sjálfu.

Þessi till. fer fram á, að við reynum að leita okkur bandamanna í þessari sjálfstæðisbaráttu okkar fyrir yfirráðunum á sjónum. Við erum ekki eina þjóðin í heiminum, sem hefur hag af því að hafa stóra landhelgi hvað fiskveiðitakmarkanir snertir, þó að fáar séu eins háðar sínum fiskimiðum og við, sem þurfum þess vegna að vinna að því að tryggja okkar lögsögn yfir öllu okkar landgrunni. Það eru margar aðrar þjóðir í veröldinni, sem ýmist nú heyja þessa baráttu eða nú þegar hafa knúið þessa baráttu fram til sigurs, eru ýmist það sterkar, að þær í krafti valds hafa getað framfylgt þeim fyrirmælum, sem þær hafa sett um fiskveiðitakmarkanirnar og um yfirráð yfir landgrunninu, eða eru að heyja slíka baráttu, eins og við heyrum núna svo að segja daglega frá ríkjunum í Suður-Ameríku. Hins vegar höfum við að því leyti staðið illa að vígi í þessari baráttu, að einn voldugasti nágranni okkar, Bretland, hefur einmitt verið það land í veröldinni, sem öldum saman hefur haft aðstöðu til þess að skammta svo og svo mörgum þjóðum, hvað þeirra fiskveiðitakmörk skyldu vera stór, og meðan við ekki fórum með okkar utanríkismál sjálfir, þá gátu þeir knúið slíkt fram gagnvart okkur með samningum við Dani. Við höfum þess vegna átt meira en ýmsar aðrar þjóðir undir högg að sækja og orðið að heyja þennan hluta okkar sjálfstæðisbaráttu alveg sérstaklega við Breta, og sama hafa ýmsar fleiri þjóðir — líka nágrannar okkar — orðið að gera, eins og kunnugt er.

Það er engum efa bundið, að það gæti hjálpað okkur verulega á alþjóðavettvangi, ef við gætum fengið samstarf við þær þjóðir, sem þarna hafa samsvarandi hagsmuna að gæta, og slíkar þjóðir eru, eins og við vitum, bæði í Evrópu, Asíu og Ameríku. Og ég álít, að það væri mjög heppilegt, að ríkisstj. athugaði það, hvort ekki væri hægt að ná slíku samkomulagi við þessi ríki. Ég veit, að nú þegar liggja fyrir hjá utanrrn. og ríkisstj. í heild upplýsingar um, hvaða ríki þetta eru. Og tillaga okkar, þessara þriggja þm., fer fram á, að ríkisstj. snúi sér til ríkisstjórna þessara þjóða og ræði við þær um möguleika á því, að gengizt verði fyrir slíkri ráðstefnu.

Ég verð að segja það frá mínu brjósti, að ég held, að það sé meiri þörf á, að Ísland reyni að gangast fyrir eins konar bandalagsmyndun um þetta mál og að afla sínum sjálfstæðismálum framgangs og öryggis, heldur en um nokkur önnur mál, sem alls konar bandalög hafa verið mynduð um upp á síðkastið. Þetta eru margs konar ríki og með margs konar þjóðskipulag, eins og við vitum, sem þarna eiga hlut að máli, og það dugir ekki fyrir okkur að horfa í slíkt; þau eru mjög dreifð á jörðinni. En að svo miklu leyti sem þau hafa þegar knúið fram stærri landhelgi en 3 mílur og haft sínar fiskveiðitakmarkanir miðaðar við stærra, — og það er, eins og við vitum, 4, 10, 12 mílur og þaðan af miklu meira, sem þessi ríki nú þegar hafa knúið fram, og meira að segja lönd eins og Bretland hafa orðið að láta í minni pokann fyrir slíkum ríkjum, — þá held ég, að það ætti að vera möguleiki til, að þessi ríki vildu ræða við okkur og önnur, sem samsvarandi hagsmuna hefðu að gæta, um það, hvaða ráðstafanir væri hægt að gera, hvernig hægt væri að berjast á alþjóðavettvangi fyrir viðurkenningu á þessum rétti. Ég veit að vísu, að sum þessara ríkja þurfa máske ekkert að sækja undir aðra í þessum efnum, þau eru sjálf nógu sterk og nógu voldug til þess, en hins vegar væri hugsanlegt, að þau væru þó til í að standa með öðrum ríkjum í því að berjast fyrir sama rétti og þau hafa í krafti síns valds og sinna áhrifa getað aflað sér sjálf.

Við flm. viljum þess vegna leyfa okkur að vona, að þessari okkar till. verði vel tekið og að hún hljóti samþykki Alþingis. Það væri nokkuð eðlilegt mál að vísa svona till. til nefndar, og ég býst þá við, að það mundi vera heppilegast út frá fenginni reynslu, að henni væri vísað til allshn. Ég skal að vísu viðurkenna, að það væri sumt, sem mælti með því, að henni væri vísað til utanrmn., en þar sem reynsla þingmanna er sú, yfirlýst af þingmönnum úr stjórnarherbúðunum, að sú nefnd sé alger kirkjugarður allra mála, sem til hennar fara, en þessi till. hins vegar þess eðlis, að hún á skilið að fá afgreiðslu, og snertir þar að auki mál, sem er miklu meira en utanríkismál, er stórkostlegt efnahags- og sjálfstæðismál fyrir okkur, þá held ég, að sé réttast að vísa henni til allshn. í því trausti, að sú nefnd bregði fljótt og vel við og afgreiði hana til framhaldandi umræðu og afgreiðslu í þinginu.