10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (2993)

83. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. sú, sem nú er verið að ræða um viðvíkjandi setningu reglugerðar, sem sé til verndar heilbrigði og velferð verkamanna, er vinna í verksmiðjum, verkstæðum eða við sérhverja aðra starfsemi, og gert var ráð fyrir að sett yrði samkv. III. kafla laga frá 1. febr. 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, er mál, sem eðlilegt er að beri á góma og athugað sé, og það er enn fremur eðlilegt, að það sé nú farið að kalla eftir reglugerðinni, þar sem nú eru liðin meira en tvö ár síðan lögin voru sett. En eigi að síður eru eðlilegar orsakir til, að þessi reglugerð hefur ekki enn verið sett.

Það var snemma á árinu 1953 byrjað að vinna eftir hinum nýju lögum um öryggisráðstafanir á vinnustöðum og unnið eftir hinum eldri reglugerðum svo langt sem þær ná, þar til endurskoðun þeirra er lokið, en að því er nú stöðugt verið að vinna. Mjög hefur verið tekið upp náið samstarf við hinar Norðurlandaþjóðirnar á sviði öryggismála. Koma forstjórar þeirra reglulega saman til þess að ræða það, sem hverju sinni er efst á baugi í þessum málum, með það fyrir augum að samræma reglur og framkvæmd eftirlitanna.

Höfum við á þennan hátt getað notfært okkur dýrmæta reynslu þjóða, sem komnar eru miklu lengra í þessum málum en við. Í þessu augnamiði eru á Norðurlöndum starfandi tvær nefndir. Önnur þeirra er skipuð fulltrúum frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en Finnland og Ísland, sem ekki eiga fulltrúa í nefndinni, eiga þess kost að fylgjast með störfum hennar og gera sínar athugasemdir, áður en hún sendir nokkuð endanlega frá sér. Hefur n. þessi þegar sent frá sér þrjár reglugerðir, sem eru þessar:

1. Almennar reglur um öryggisútbúnað véla, þ. e. leiðbeiningar fyrir þá, sem selja og setja upp vélar.

2. Reglur um öryggisútbúnað á hjámiðjupressum.

3. Reglur um prófun og öryggisútbúnað á dráttarsteina.

Hafa reglur þessar hlotið samþykki forstjóra eftirlitanna, en viðkomandi stjórnarvöld eiga eftir að staðfesta þær. Er nú verið að snúa þeim á íslenzku. Auk framangreindra reglna hefur n. næstum fullunnar reglur um öryggisútbúnað landbúnaðarvéla, kjötiðnaðarvéla og tréiðnaðarvéla. Hefur íslenzka eftirlitið fengið till. að reglum þessum til athugunar.

Hin nefndin, sem starfandi er og hefur það hlutverk að samræma kröfur og prófunarreglur fyrir persónuhlífar, er skipuð fulltrúum frá öllum Norðurlöndunum. Á síðasta fundi sínum, sem haldinn var í september s.l., sendi n. þessi frá sér:

1) Reglur um höfuðhlífar.

2) Reglur um heyrnarhlífar.

3) Reglur um augnhlífar.

4) Bráðabirgðatillögur að reglum um öndunarhlífar.

Ekki hafa reglur þessar enn þá hlotið samþykki forstjóra eftirlitanna, en þess má vænta mjög bráðlega.

Snemma á næsta vori er ákveðið að nefndin komi saman til fundar, og er þá gert ráð fyrir, að hún gangi endanlega frá reglum um öndunarhlífar, sem nú liggja fyrir í bráðabirgðatillögum, eins og áður er sagt. Er þess þá einnig að vænta, að hún sendi frá sér reglur um arm- og fótahlífar, vinnuföt og líflínur og öryggisbelti. Ekki hefur þótt rétt að ganga endanlega frá reglum um hollustuhætti á vinnustöðum, fyrr en gengið hefur verið frá reglum um persónuhlífar, svo tengt sem þetta er hvað öðru. Reglur um öryggisútbúnað breytast lítið, en inn í þær verður bætt hinum nýju vélareglum. Má búast við, að reglur þessar verði tilbúnar á öndverðu komandi sumri. Unnið er einnig að samningu reglna um öryggisráðstafanir við byggingarvinnu. Þegar hafa verið gefnar út reglugerðir um öryggisráðstafanir við fermingu og affermingu skipa, öryggisráðstafanir og hollustuhætti í bifreiðaverkstæðum, öryggisráðstafanir við vinnu í geymum og kerjum. —- Aðalstarf eftirlitsins er nú sem fyrr að líta eftir öryggisbúnaði og hollustuháttum á vinnustöðum. Hefur þó meir en áður verið lögð áherzla á bættan almennan aðbúnað verkamanna á vinnustað. Er stöðugt unnið að bættum loftræstiskilyrðum, auknum hreinlætistækjum, fatageymslum og bættum aðbúnaði, þar sem verkafólki er ætlað að matast á vinnustað. Hefur mikið unnizt á í þessu efni, þó að víða sé enn mjög ábótavant. Er hér hvoru tveggja um að kenna, áhugaleysi vinnuveitenda og slæmri umgengni verkamanna.

Þá var á öndverðu þessu ári tekið upp eftirlit með losun og lestun skipa, og er það komið allvel af stað hér í Rvík, enda mest nauðsyn eftirlitsins hér, því að tæki þau, sem notuð eru við þessa vinnu, eru að mestu eign skipafélaganna, svo að afgreiðslur úti á landi leggja þau ekki til nema að mjög litlu leyti. Eftirlit þetta er þó lítið eitt komið af stað á stærri stöðum úti á landi.

Að lokum má geta þess, að tekið hefur verið upp miklu fyllra eftirlit með alls konar farandvélum en áður var.

Ég ætla, að þegar þetta hefur verið sagt, geri hv. þm. sér ljóst, að ekki er eðlilegt, að reglugerð sé enn komin út samkv. lögunum frá 1952, og það væri vissulega rangt af okkur, ef við vildum ekki hafa samvinnu við hin Norðurlöndin og notfæra okkur þá reynslu, sem þau hafa. En eins og sagt hefur verið, eru nefndir starfandi á Norðurlöndum til þess að semja og undirbúa reglur á sama hátt og hér á að gefa út og má búast við, að þetta geti verið fullgert á öndverðu næsta sumri.