10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í D-deild Alþingistíðinda. (2995)

83. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Ég vildi aðeins leiðrétta þann misskilning hjá hv. þm. Barð., að ég hafi á einn eða annan hátt verið að telja, að þau slys, sem þegar hafa orðið og eru að sjálfsögðu allt of mikil, og ég veit að okkur greinir ekki á um að séu of mikil meðan þau eru nokkur, væru fyrst og fremst því að kenna, að ekki hefðu verið til reglur til að forðast þau, heldur tók ég hér upp orðrétt eftir fulltrúa efnahagssamvinnustofnunarinnar það, sem hann sagði við brottför sína héðan árið 1950 um þessi mál. Ég taldi, eins og hv. þm. Barð. og er honum fyllilega sammála um, að það væri fyrst og fremst eftirlitsleysi, sem orsök þess væri. En hins vegar er því ekki heldur að leyna, að það hefur verið viðurkennt af hv. Alþingi, að lögin um þessi efni séu ekki nægjanlega góð og skýr, og þess vegna held ég, að hv. iðnn. Ed. hafi á sínum tíma ætlazt til, að sett yrði öflug og sterk reglugerð um þessi mál.

Ég vil svo að lokum þakka ráðherra mjög greinargóða ræðu, sem hann flutti, og svör við mínum spurningum og tek undir þær óskir hans, að þessi reglugerð megi sem fyrst koma til framkvæmda, og ítreka það, sem ég sagði í minni framsöguræðu, að verkamönnum og öðrum vinnandi stéttum í landinu er farið að lengja eftir henni, og þeim finnst harla lítill árangur vera í verki af framkvæmd þessarar löggjafar, sem sett var á sínum tíma. Með það í huga gerði ég þessa fsp. til þess að fá upplýst, eins og ráðh. gerði á mjög skilmerkilegan hátt, hvað liði þessum reglum, og ég vænti þess, að það liggi nú ljósara fyrir mönnum en áður, að það er verið að vinna í þeim, það er verið að gera það fyrir nýja reglugerð, sem mögulegt er til endurbóta, í samráði við hin Norðurlöndin. Ég tek því undir óskir hans um, að það líði ekki langur tími þangað til hinar vinnandi stéttir megi sjá einhvern árangur af setningu þessarar löggjafar í raun og sannleika.