10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í D-deild Alþingistíðinda. (3005)

207. mál, sparifjáruppbætur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Hv. fyrirspyrjandi vildi harma það, að greiðslu á uppbótinni væri ekki lofað fyrr en einhvern tíma á næsta ári, en ég gat um, að það yrði í byrjun næsta árs, í janúar eða febrúar. Og þótt það sé staðreynd, að nú séu liðin fjögur ár síðan lögin voru sett og bæturnar ákveðnar, þá skilst mér á hv. fyrirspyrjanda, að hann telji eftir atvikum eðlilegan þann drátt, sem orðið hefur á þessu, þegar allt er athugað ofan í kjölinn. Eða er hægt að ásaka skattanefndirnar, er hægt að ásaka bankana og aðra, sem hafa haft með innheimtuna að gera, fyrir það, að þeir hafi unnið slælega að þessu máli? Ég held ekki. Hitt er svo aftur annað mál, þegar talað er um verðminnkun peninganna og dýrtíðina. Það út af fyrir sig kemur ekki þessu máli við. Og ég hélt, að hv. fyrirspyrjandi mundi ekki blanda því saman.

Við getum út af fyrir sig verið sammála um það, að til jafnaðar 800 kr. bætur til sparifjáreigendanna séu ekki háar bætur. Við getum verið sammála um það, að það sé út af fyrir sig raunalegt, að verðgildi peninganna hafi farið minnkandi og að til þess þurfti að grípa að lækka gengi íslenzku krónunnar, til þess að íslenzkt atvinnulíf strandaði ekki. En ég vil aðeins taka það fram við þessar umræður, úr því að minnzt var á peningamál og verðlagsmál, að það kemur úr hörðustu átt, þegar þessi maður og hans flokkur fara að gagnrýna verðlagsmálin og dýrtíðarmálin, vegna þess að þeir, sem eru kunnugir þingsögunni, þeir sem eru kunnugir íslenzkum atvinnumálum og íslenzkum stjórnmálum, minnast ekki, að frá þessum hv. þm. eða þessum flokki hafi komið raunhæfar till. til bjargar íslenzkum gjaldmiðli eða nokkur sú till., sem gæti komið í veg fyrir verðrýrnun peninganna.

Ég tel rétt að taka þetta fram að gefnu tilefni, enda þótt það út af fyrir sig komi ekki þessari fsp. við, þar sem spurt var um það, hvað liði greiðslu uppbóta á sparifé.