27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

216. mál, áburðarverð

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 8. landsk. þm. (BergS), sagði, að það væri ánægjulegt, að nú skyldi loks vera svarað þeirri fsp., sem þm. hefur borið fram fyrir allmörgum vikum. Ég skal játa það, að ég tel það ekki heppilegt, að svo langt líði frá því að fsp. komi fram og þangað til henni er svarað, og að það hefur dregizt þetta lengi, stafar ekki af því, að ég hefði ekki viljað gefa þær upplýsingar fyrr, en það er ekki nema svo stutt síðan ákveðið hefur verið um verð áburðar hér innanlands, að það var ekki hægt að gefa svör við hálfri fsp. fyrr en það lá fyrir. Í síðasta fyrirspurnatíma, miðvikudaginn var, var ég í erindum utanbæjar, hefði þá í raun og veru getað gefið þessar upplýsingar. En það hefur nú verið að því vikið í blöðum og jafnvel víðar, að óheppilegt væri, hve seint væru gefnar upplýsingar um verð á áburði til bænda. Er það að sumu leyti rétt, þó að það hafi ekki komið að neinni sök nú af þeim ástæðum, að það er ekki hægt að afsetja neinn áburð eins og er vegna verkfallsins. En hitt er annað mál, að í venjulegu árferði, þegar slíkar hömlur væru ekki á, er heppilegra og verður áreiðanlega framvegis ákveðið áburðarverðið fyrr.

Mér virðist, að það þurfi í raun og veru engan að undra það, þó að nú á fyrsta framleiðsluári áburðarverksmiðjunnar geti verið dálítið vafasamt að sumu leyti að ákveða áburðarverð, og það er ekki eins auðvelt og mér virtist hv. fyrirspyrjandi kannske álíta, að segja ákveðið, hvað kostnaðarverð áburðarins er, eftir eins árs starfrækslu. Þar kemur svo margt til greina, m. a. þau lán, sem áburðarverksmiðjan hefur, og lánskjör, og það er nokkuð af því fé, sem áburðarverksmiðjan var reist fyrir, sem enn er í svo óhagstæðum lánum, að það hefur að sjálfsögðu nokkur áhrif á það, hvað ætti að segja nú að kostnaðarverð áburðarins væri. Breytingar á slíku geta haft allmiklar breytingar í för með sér á kostnaðarverði áburðarins. En áburðarverksmiðjunni, svo að ég segi það bara almennt, eru lagðar þær skyldur á herðar að greiða niður þau lán, sem hún hefur fengið, mjög ört, og eru þó vitanlega fyrstu árin alltaf þau erfiðustu í þessu sambandi.

En ég skal svo ekki hafa fleiri almennar hugleiðingar um þetta, en taka það fram, að það sem hv. fyrirspyrjandi vildi nú koma fram með sem þriðju fyrirspurnina, þ. e. a. s. um raunverulegt kostnaðarverð áburðarins, treysti ég mér ekki til að segja í ákveðnu krónutali og það m. a. af þeim ástæðum, sem ég hér hef nefnt. Ef það kemur fram formleg fsp. um það, þá mun ég að sjálfsögðu leita til áburðarverksmiðjustjórnarinnar og óska eftir því, hvað hún getur um það sagt á þessu stigi málsins. En í jafnstóru fyrirtæki og algerlega nýju hér á landi og áburðarverksmiðjan er, þá virðist mér að engan þurfi að undra það, þó að jafnvel eitt framleiðsluár sé tæplega nægur tími til þess, að hægt sé að segja ákveðið, hvað er framleiðsluverðið raunverulega, ef um full afköst er að ræða, og það getur a. m. k. verið mismunandi eftir ýmsu, sem fram yrði að koma í slíkum svörum, svo að þar væri að öllu leyti greint rétt frá.

Ég skal þá snúa mér að fyrirspurnum hv. fyrirspyrjanda, og eru þær upplýsingar fengnar frá stjórn eða framkvæmdastjóra áburðarverksmiðjunnar.

Fyrri fsp. er þetta: Hvaða verð fékk Áburðarverksmiðjan h/f fyrir þann áburð f.o.b., sem fluttur hefur verið úr landi? Þessar upplýsingar get ég gefið varðandi það, að sá áburður, sem seldur var úr landi, nam að magni til 3910 smálestum; hann var seldur á 27 £, þ. e. a. s. á 1234 kr., pr. tonn frítt um borð í Gufunesi.

Um þetta verð má annars segja það, að þó að það sé nokkru lægra heldur en áburðarverð það, sem nú hefur verið ákveðið á innanlandsmarkaði, þá er það ekki nokkur vafi, að frá fjárhagslegu sjónarmiði var það að öllu leyti hagkvæmara fyrir verksmiðjuna að framleiða þetta magn fyrir þetta verð, sem hér hefur verið nefnt, en að stöðva framleiðslu verksmiðjunnar tilsvarandi tímabil, og það er ekki nokkur vafi á því, að sá hagnaður, sem af þessu verður hjá því að stöðva verksmiðjuna um tíma, nemur mörg hundruð krónum á tonn, a. m. k. þori ég að fullyrða ekki minna en 200 kr. á tonn, án þess að ég þori að öðru leyti að nefna alveg ákveðna tölu.

Síðari fyrirspurnin hljóðar þannig: Hvaða verð hefur verið greitt fyrir áburð frá sömu verksmiðju á innanlandsmarkaði, kominn í skip í Reykjavíkurhöfn? Því er svarað á þann hátt, að enn hefur enginn áburður verið seldur á innanlandsmarkaði á þessu ári. Að vísu var, áður en skip stöðvuðust vegna verkfallsins, búið að flytja töluvert magn áburðar út á ýmsar hafnir á landinu, en það situr þar enn og verður þá flutt þaðan vitanlega, þegar eðlilegir tímar skapast aftur, en það hefur ekki verið selt neitt af honum raunverulega enn þá. Það var bara flutt til geymslu. En nú nýlega hefur verið gengið frá áburðarverði fyrir innanlandsmarkað og þannig, að á þessu vori verður köfnunarefnisáburðurinn, sem nefndur er Kjarni, seldur á 1700 kr. hvert tonn, kominn á bíl í Gufunesi eða á hafnir úti á landi, og uppskipun er innifalin í þessu, þó eigi yfir 3 kr. pr. 50 kg, og er þetta verð ekki hærra en tilsvarandi erlendur áburður mundi kosta hér innfluttur.

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég get gefið, og vænti ég, að þær fullnægi hv. fyrirspyrjanda, þótt ég viðurkenni, að ég hefði frekar kosið að hafa getað gefið þær nokkru fyrr.