09.05.1955
Sameinað þing: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

Almennar stjórnmálaumræður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þjóðfræg eru skipti framsóknarmanna við hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktsson. Nokkru fyrir síðustu alþingiskosningar samþykktu þeir á flokksþingi, að þessi ráðherra væri með öllu óhæfur til að gegna embætti dómsmálaráðherra, og blöð flokksins lýstu því með sterkum orðum, hvílíkt skaðræði það væri, ef hann héldi því embætti stundinni lengur. Eftir kosningar var það eitt fyrsta verk Framsfl. að tryggja Bjarna Benediktssyni embætti dómsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn. Öllum er í fersku minni, með hvílíkum ákafa blöð Framsfl. hömuðust s.l. haust að Bjarna Benediktssyni í embætti menntamálaráðherra og lýstu því í fjölda greina, hve freklega hann misbeitti þar völdum og trúnaði.

Við þjóðvarnarmenn gáfum þá Framsóknarforkólfunum tækifæri til að standa við stóru orðin, og þeir gerðu það á þann hátt, að þeir kingdu þeim öllum í áheyrn alþjóðar. Síðan hafa þeir naumast ýjað í þá átt, að Bjarna Benediktssyni séu nokkru sinni svo mikið sem mislagðar hendur.

Bjarni Benediktsson var utanrrh. Íslands um hríð, svo sem eftirminnilegt er. Margir hinir heilskyggnari framsóknarmenn litu svo á, að utanríkisstefna hans og Sjálfstfl. væri eigi aðeins varhugaverð, heldur stórum hættuleg Íslendingum. En raddir þessara framsóknarmanna voru eftir föngum þaggaðar niður, enda voru forkólfar Framsfl. samábyrgir Sjálfstfl. um meginstefnuna, höfðu ásamt honum stigið öll þau ógæfuskref, sem leiddu þjóðina út í hernaðarbandalag, nýtt hernám og hermang. En þegar leið að alþingískosningum 1953, þóttust forustumenn Framsóknar einnig hafa margt við utanríkisstefnuna að athuga, einkum framkvæmd herstöðvasamningsins. Skáru þeir nú upp herör og kunngerðu gervallri þjóðinni, að hernámsmálin í höndum Bjarna Benediktssonar og Sjálfstfl. væru öll í hinum mesta ólestri, en nú ætti íslenzka þjóðin sterkan leik á borði, sögðu þessir miklu kappar; hann væri sá að efla Framsfl., þá skyldi hann taka í traustar hendur sínar alla meðferð utanríkismála. Hefði þjóðin vit á því, mundi brátt ljóst verða, að innleiddir yrðu nýir og betri siðir í skiptum við hernámsliðið og Bandaríkjastjórn; þá liði eigi á löngu unz gæfusól Framsfl. tæki að verma þjóðhollum Íslendingum um hjartarætur. Þjóðin hlýddi að nokkru þessu kalli Framsfl. Þó að hernámsflokkarnir töpuðu að vísu nokkru fylgi, fengu þeir að því sinni ekki þá útreið, sem komið gæti í veg fyrir það, að Sjálfst.- og Framsfl. gengju að nýju saman í eina sæng og mynduðu ríkisstjórn. En forustumönnum Framsóknar var þó ekki rótt. Að öllu óbreyttu hefðu þeir vafalaust lagt yfir það blessun sína eftir kosningar, að Bjarni Benediktsson yrði áfram utanrrh., og kingt öllum stórum orðum um vanhæfni hans til starfans, en þeir höfðu séð letrið á veggnum.

Kominn var til sögunnar nýr flokkur, Þjóðvarnarflokkur Íslands, óháður öllum erlendum sjónarmiðum, flokkur með þjóðlega, róttæka lýðræðisstefnu. Þrátt fyrir byrjunarerfiðleika hafði hinum nýja flokki tekizt að afla sér slíks brautargengis, að þjóðarathygli vakti, og það sem hættulegast var frá sjónarmiði hinna æfðu stjórnmálamanna, ekki sízt framsóknarmanna: þessi nýgræðingur stjórnmálanna, stefna hans og málflutningur, hafði fundið hljómgrunn í brjóstum þúsunda Íslendinga, sem ekki komust svo langt áleiðis í þessari fyrstu lotu að brjótast út úr vítahring gömlu flokkanna. Nú voru góð ráð dýr. Framsóknarforingjarnir voru að vísu óðfúsir að mynda ríkisstjórn með Bjarna Benediktssyni og Ólafi Thors, en utanríkismálin kusu þeir flokki sínum til handa. Þar skyldi sýnt, til hvers Framsókn dygði.

Allmikla athygli vakti það, að hvorugur forustumanna flokksins, hvorki formaður hans né ritari, vildi leggja sig í þá karlmennskuraun að standa fyrir hinni nýju siðabót í utanríkismálum. Maður getur naumast að sér gert að spyrja, hvort að þeim hafi læðzt sá grunur, að sá maður, er gerðist merkisberi hernámsflokkanna, mundi geta sér litla frægð. Fyrir valinu varð skattstjóri norðan af Akureyri, doktor að nafnbót, hrekklaus maður og gegn að allra kunnugra dómi. Dreg ég ekki í efa, að hann hafi í upphafi trúað því, að hann gæti kippt í lag einhverjum framkvæmdaratriðum, sem úrskeiðis höfðu gengið. En brátt kom í ljós, að þar var við ramman reip að draga. Það, sem örlögum réð, var þó sú augljósa staðreynd, að hvorki hæstv. núverandi utanrrh. sjálfur né forustumenn stjórnarflokkanna hugðu á neina stefnubreytingu, sem máli skipti.

Tilburðum hæstv. utanrrh. má helzt líkja við atferli þess manns, sem stritast við að ausa með botnlausu austurtrogi, meðan báturinn er að fyllast, en dettur ekki í hug að reyna að sigla til lands. Stefnan var hin sama og áður: Þátttaka í hernaðarhandalagi, herseta, síaukið hermang. Nokkrar vanmáttugar og fálmkenndar tilraunir til að sýnast breyttu þar engu um. Fáein sjónarspil, sem Framsfl. hefur sett á svið, áttu að friða óánægða flokksmenn — og hafa ef til vill gert það að nokkru skamma stund, en nú er tjaldið fallið og allir heilskyggnir menn gera sér ljóst, að við Íslendingar erum í dag rammari hernámsfjötrum reyrðir en nokkru sinni fyrr. Sá er árangurinn af siðbót Framsfl. Hann hefur dyggilega fylgt utanríkisstefnu Bjarna Benediktssonar og með því móti vottað honum sérstakt traust, einnig varðandi stjórn hans á utanríkismálum.

Nú er það fjarri mér að vilja skella allri skuld af ógæfuþróun íslenzkra utanríkismála síðastliðin tvö ár á Framsfl. einan. Sá flokkurinn, sem vanhelgar hið göfuga nafn sjálfstæðisins með því að nota það sem veifu við hún á stjórnmálasnekkju braskaranna, ber vissulega ábyrgðina að sínum hlut. Aldrei hefur svokallaður Sjálfstæðisflokkur staðið neinum að baki, heldur oftast fremstur, þegar ráð voru á lögð eða samið var um ógæfu og óhæfuverk. Þess skyldi enginn ganga dulinn. En það sýknar ekki Framsfl. Ábyrgðarhluti hans er ærinn, og hefur mörgum fylgismanni flokksins runnið til rifja það giftuleysi foringjanna, hversu fast þeir hafa sótt þann róður, að einnig á sviði hermangsins skuli gilda hin alræmda helmingaskiptaregla stjórnarflokkanna tveggja.

Ég mun nú rekja stuttlega, hver orðið hefur árangurinn af hinni boðuðu siðabót Framsfl. í utanríkismálum.

Þegar um það bil hálft ár var liðið frá myndun núverandi hæstv. ríkisstj., voru þau boð látin út ganga, að fyrir dyrum stæðu samningaumleitanir við Bandaríkjastjórn um breytingar á herstöðvasamningnum eða a.m.k. á reglunum um framkvæmd hans. Var boðskapur þessi tilkynntur með ærinni drýldni, óspart gefið til kynna, að mikils árangurs væri að vænta. Nú skyldu menn aðeins bíða rólegir, unz þeir sæju í fyllingu tímans, hve vel doktorsráðin gæfust. Alþingi sat að störfum um þessar mundir. Fyrir því lágu þrjú þingmál, er snertu herstöðvasamninginn, tvö um uppsögn hans, eitt um endurskoðun og breytingar. En þessi mál fengust ekki tekin á dagskrá sakir ofríkis ríkisstjórnarinnar og flokka hennar.

Stjórnarandstæðingar bentu á það hvað eftir annað, að svo framarlega sem ráðherrar mæltu það af nokkrum heilindum, að þeir vildu knýja fram endurbætur á herstöðvasamningnum og framkvæmd hans, ættu þeir þann leik sterkastan á borði, að Alþ. léti ótvíræðan vilja sinn í ljós og markaði stefnuna um þær kröfur, sem fram skyldu bornar, það væri hinn traustasti bakhjarl, sem fáanlegur væri við samningagerð. En ekkert slíkt máttu stjórnarherrarnir heyra nefnt. Vakti það vissulega grunsemdir um það, að litil alvara byggi að baki hjalinu um nauðsyn bættrar framkvæmdar samningsins.

Liðu nú fram tímar, og var haldið uppi samningaþófi, sem hvorki virtist reka né ganga. Loks kom þar hinn 26. maí s.l. vor, að hæstv. utanrrh. gaf út tilkynningu um það, að nýtt samkomulag hefði verið gert við Bandaríkin. Tilkynning þessi var furðulega ónákvæm, orðalag loðmullulegt og afsleppt, svo að þar var naumast bitastætt. Þrjú virtust þó þau meginatriði, sem orðið höfðu árangur af fjögurra mánaða samningaþófi. Í fyrsta lagi: Ferðir setuliðsmanna út fyrir herstöðvarnar skyldu takmarkaðar. Í öðru lagi: Hið misjafnlega þokkaða Hamiltonfélag skyldi hætta öllum störfum á Keflavíkurflugvelli og hverfa af landi brott. Í þriðja lagi: Íslenzkir aðilar skyldu taka að sér stórauknar byggingarframkvæmdir og aðra mannvirkjagerð fyrir herinn.

Mörgum þótti furðu gegna, að ekki skyldi verða meiri árangur af þessari samningagerð, svo digurbarkalega sem Framsóknarkapparnir höfðu talað, þá er viðræður hófust. Ýmsir hugguðu sig við það, að litið væri betra en ekki neitt. Hamilton ætti þó a.m.k. að fara og takmarkið yrði hvimleitt ráp setuliðsmanna til Reykjavikur og út um byggðir landsins. En brátt kom í ljós, að þó að árangur samninganna væri næsta rýr, skorti hæstv. ríkisstj. annað tveggja vilja eða manndóm til að framkvæma þessa samninga. Þó að Bjarni Benediktsson væri horfinn úr embætti utanríkisráðherra, vottuðu framsóknarmenn honum enn einu sinni traust með þeim hætti að láta utanrrh. sinn fylgja dyggilega þeirri stefnu og því fordæmi, sem hann hafði gefið.

Einn var sá liður samninganna, sem ekki var látinn úr hömlu dragast, að fullnýta tækifærið, sem gefizt hafði til að veita gæðingum stjórnarliðsins aðstöðu til að gera hernám landsins, niðurlægingu þjóðarinnar, að stóraukinni gróðalind. Í ágúst eða september s.l. sumar tilkynntu íslenzk stjórnarvöld, að stofnuð hefðu verið ný og öflug samtök til að annast margvíslegar framkvæmdir fyrir bandaríska hernámsliðið. Að samtökum þessum stóðu ýmsir helztu auðmenn Sjálfstfl., Samband íslenzkra samvinnufélaga ásamt nokkrum framsóknargæðingum og sjálfur ríkissjóður Íslands. Að vísu hafði það kostað harðar deilur milli stjórnarflokkanna, á hvern hátt skyldi skipta hernámsgróðanum, og blossa þær deilur jafnan upp öðru hverju, þegar öðrum aðilanum þykir hinn vilja gína yfir of miklu, en oftast næst samkomulag um að mætast í miðju trogi. Það skiptir þessa herra engu, þótt hernámsgróði þeirra sé fenginn með því móti, að íslenzka þjóðin sé sett í geigvænlega hættu, þótt hann sé fenginn á kostnað íslenzkra atvinnuvega, sem eiga í vök að verjast af völdum stjórnarstefnunnar, svo að sums staðar liggur við fullkominni landauðn. Það er engu líkara en boðorðið sé þetta: Kosti það hvað sem kosta vill, kosti það sívaxandi fólksflótta úr kauptúnum og sveitum, kosti það verðbólgu og dýrtíð, þó að hún ríði sjávarútveg, landbúnað og iðnað á slig, kosti það vansæmd og niðurlægingu þjóðarinnar. Færeyinga á togarana, meðan einhver baslar við að gera út, þýzkt verkafólk í sveitirnar, meðan einhver fæst til að búa, en Íslendinga á Keflavikurflugvöll. Sú skipan færir hermöngurum skjóttekinn gróða. Og svo spretta upp fyrirtæki, gorkúlurnar á hernámshaugnum, Sameinaðir aðalverktakar, hlutafélagið Reginn, hlutafélagið Byggir, hlutafélagið Tungufell, allt niður í sjoppur, sem öngla saman smáskildingum á því að selja hermönnum kóka-kóla og jórturleður. Hvort stofnað hefur verið hlutafélagið Stúlka, veit ég ekki, en vel getur það verið.

Framkvæmdir á öðrum greinum samninganna frá því í fyrravor hafa orðið næsta litlar. Um hinar boðuðu takmarkanir á ferðum hermanna er það að segja, að þar hefur sjón orðið sögu ríkari. Þeir fóru eftir sem áður um allar jarðir. Hvað eftir annað hefur verið skorað á hæstv. utanrrh. að birta reglur þær, sem hann segir að um þessar ferðir gildi, en þær eru hulinn leyndardómur enn í dag. Einhverju sinni sagði blaðið Tíminn, að ástæðurnar til þess, að reglurnar hefðu ekki verið birtar, væru þær, að það mundi ergja amerísku hermennina. En í umræðum hér á Alþ. í vetur sagði hæstv. utanrrh., að vísu nokkuð aðþrengdur orðinn, að reglur þessar væru hið strangasta hernaðarleyndarmál og skyldu aldrei birtar. Mun þetta vera hið eina hernaðarleyndarmál, sem ráðherranum hefur verið trúað fyrir, og er þess þá varla að vænta, að hann vilji glopra því út úr sér. En að leyndarmáll ráðherrans hafa menn hlegið landshornanna milli.

Hvað er að segja um Hamiltonfélagið, sem gera átti landrækt? Er það ekki löngu farið? Fyrst var gefið í skyn, að það mundi hverfa héðan eigi síðar en í árslok 1954, en bæði fyrir og ettir áramót bárust þær fregnir, að félagið hygðist síður en svo til brottfarar, það héldi stöðugt áfram að ráða nýtt starfslíð í þjónustu sína, þar á meðal marga ameríska verkfræðinga. Og hverjar eru síðustu fréttirnar sunnan að? Þær eru á þá leið, að Hamitonfélagið sé að breiða yfir nafn og númer eins og veiðiþjófar í landhelgi. Svo er látið heita, að stofnað hafi verið nýtt félag, en er þó naumast annað en Hamilton í dulargervi. Þetta nýja félag mun nú eiga að taka við starfsliði Hamilton og verkefnum þess. Er ekki að efa, að þessi skollaleikur er leikinn í fullu samráði við íslenzk stjórnarvöld. Þætti mér jafnvel líklegt, að einhverjir íslenzkir hernámspostular, sennilega úr ráðherrastólunum, sem oft eru auðir, hafi brugðið sér suður á völl til að vera skírnarvottar, þegar hvítvoðungurinn var vatni ausinn. Er þessi grínleikur í fullu samræmi við önnur vinnubrögð íslenzkra stjórnarvalda, þegar hernámslíðið á í hlut, og má segja, að hann kóróni framkvæmd þeirrar siðabótar, sem Framsfl. boðaði í Keflavíkurmálum.

Þegar hæstv. utanrrh. hirti grg. sína um samningana við Bandaríkjastjórn, munu flestir hafa gert ráð fyrir því, að sú skýrsla væri aðeins til bráðabirgða, áður en langt um liði yrðu samningarnir birtir orðrétt og í heild, svo sem lög standa til. Nú er senn ár liðið, og þessir samningar eru óbirtir enn. Þegar að því var spurt hér á Alþ. í vetur, hvort nokkrir lögformlegir samningar hefðu verið gerðir á s.l. sumri milli Íslands og Bandaríkjanna, fullvissuðu hæstv. utanrrh. og hv. þm. Str. þingheim um, að svo hefði verið. Dreg ég ekki í efa, að þeir hafi farið þar með rétt mál.

Nú er það algerlega óheimilt að íslenzkum lögum að gera leynilega milliríkjasamninga. Það er stranglega og afdráttarlaust fyrirskipað, að allir slíkir samningar skuli birtir í Stjórnartíðindum. Vil ég því til sönnunar vitna í lög nr. 64 frá 16. des. 1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Í 1. gr. þeirra laga segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í A-deild Stjórnartíðinda skal birta lög öll, tilskipanir, opin bréf, auglýsingar, samninga við önnur ríki og aðrar tilkynningar almenns efnis, sem út eru gefnar af æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins.“

Hér fer ekkert milli mála. Með því að skjóta sér undan því að birta samninginn, sem gerður var við Bandaríkin s.l. sumar, hefur hæstv. ríkisstj. gert sig seka um óumdeilanlegt lagabrot. Lagaákvæðið um skilyrðislausa birtingu allra milliríkjasamninga er einn af hornsteinum lýðræðisins og á að hindra það, að stjórnarvöld geti gert leynisamninga við önnur ríki og falið þá fyrir þjóðinni. Allir leynisamningar, sem ríkisstjórn Íslands kann að hafa gert við Bandaríkin og aðrar þjóðir, eru því algerlega löglaust athæfl. Skora ég á hæstv. ríkisstj. að lýsa yfir í þessum umræðum, að hún muni tafarlaust láta birta samningagerðina við Bandaríkjastjórn frá 1954 svo og aðra þá milliríkjasamninga, sem kunna að hafa verið gerðir, en eru óbirtir. Ríkisstjórnin er að vísu þegar orðin brotleg við íslenzk lög með því að hafa í nálega heilt ár þrjózkazt við að birta samningana, en ef hún þverskallast enn, eftir að þetta hneykslismál hefur verið gert lýðum ljóst, er það enn ein átakanleg sönnun þess, að núverandi valdhafar víla ekki fyrir sér að traðka lögum og rétti í þjónkun sinni við erlent vald.

Árið 1949, þegar meiri hluti Alþ. samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalagi, var því mjög á lofti haldið af forgöngumönnum þeirrar ráðstöfunar, að slík ákvörðun væri oss með öllu hættulaus, hún táknaði fyrst og fremst þá viljayfirlýsingu íslenzku þjóðarinnar, að hún vildi hafa samstöðu með vestrænum veldum. Þegar stigið var hið örlagaríka spor að kalla hingað á Bandaríkjaher vorið 1951, tóku ýmsir Íslendingar góða og gilda þá kenningu, að slík ráðstöfun væri ill nauðsyn til að styrkja varnarkerfi vestrænna þjóða og tryggja samgönguleiðir um Atlantshaf. Færri voru hinir, sem trúðu þeim falsrökum, að liðskostur þessi væri hingað sendur í því skyni að verja íslenzku þjóðina í hugsanlegri styrjöld. Okkur, sem frá upphafi vorum andvígir aðild að Atlantshafsbandalagi og herstöðvasamningi, gengur löngum illa að skilja sjónarmið þeirra manna, sem á þessum tveimur örlagastundum gátu sætt sig við að fórna svo miklu af sjálfstæði Íslendinga og þjóðarheiðri sem fórnað var, til þess að land vort gæti orðið hlekkur í hernaðarkeðju vestrænna þjóða. Þó vil ég segja það, að skiljanlegri var slík afstaða á þeim tíma heldur en sú forherðing að berja enn höfðinu við steininn og neita að viðurkenna þann sannleika, að síðan 1951 hefur öll hernaðaraðstaða í heiminum gerbreytzt. Hverjum Íslendingi er lífsnauðsyn að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd.

Við lifum nú á tímum hinna skelfilegu vetnissprengjuvopna, og allar eldri hugmyndir og kenningar um hertæki og möguleika til sóknar og varnar í styrjöld eru gersamlega úreltar. Ég veit, að þeim Íslendingum fjölgar stöðugt, sem hafa gert sér þetta ljóst. Margir þeirra, sem árið 1951 töldu hersetu Bandaríkjamanna hér illa nauðsyn, líta nú svo á, að hún sé ægilegur þjóðarvoði. En valdamenn þjóðarinnar virðast annaðhvort vera öðrum sljóskyggnari á hina gerbreyttu aðstöðu eða svo forhertir orðnir, að þeir víla ekki fyrir sér að reyna að fela sannleikann fyrir landsmönnum.

Hinn 1. marz 1954 má vera gervöllu mannkyni eftirminnilegur. Þann dag framkvæmdu Bandaríkjamenn vetnissprengjutilraun þá á Kyrrahafi, sem í einu vetfangi gerði mönnum ljóst, hve ólýsanlegar skelfingar yrðu kallaðar yfir heiminn, ef til nýrrar styrjaldar kynni að draga, og sýndi eðli allrar vopnaverndar í því ljósi, að jafnvel blindir hlutu að fá sýn. Tugir japanskra fiskimanna fórust, áhafnir margra fiskibáta urðu fyrir geigvænlegum geislaverkunum, og hundruð manna á eyjum í allt að 500 km fjarlægð frá sprengingarstað biðu tjón af geislaáhrifum. Hættusvæðið var talið um 300 þús. km2, þrefalt stærra en allt Ísland.

Atburðir þessir sönnuðu svo ljóst sem verða má, í hvílíkan háska þeim þjóðum er stefnt, sem eiga í landi sínu útvirki hugsanlegra styrjaldaraðila, — útvirki, sem nothæf eru og ætluð til árása í kjarnorkustyrjöld. Hér á landi hafa verið gerð mikil hernaðarmannvirki. Stöðugt er haldið áfram að stækka Keflavíkurflugvöll. Er stærð haus og gerð við það miðuð, að hann sé tiltækur til afnota hinum stærstu helsprengjuvélum. Bandarískir hernaðarsérfræðingar og bandarísk blöð hafa verið ófeimin að lýsa því, hve Keflavíkurflugvöllur veiti góða aðstöðu til árása á meginland Evrópu. Þar vestra hafa birzt óteljandi kort og myndir, sem sýna flugleiðir sprengjuflugvéla frá Keflavík til stærstu borga Rússlands. Frá því er skýrt hvað eftir annað, jafnvel í hlakkandi tón, að frá íslandi til Moskvu geti hinir hraðfleygustu loftdrekar flogið með vetnissprengjufarm á fjórum klukkustundum.

Það er deginum ljósara, að í styrjöld hugsa Bandaríkjamenn sér Keflavíkurflugvöll sem árásarbækistöð. Þaðan á að láta helsprengjum rigna yfir lönd og borgir. Sér ekki hver maður, að slíkar árásir mundu kalla gagnárásir yfir Ísland, tortímandi vetnissprengjuárásir, sem þurrkuðu árásarstöðvar Bandaríkjanna út og tortímdu íslenzku þjóðinni um leið?

Án herstöðva og risaflugvallar á Íslandi eru hverfandi líkur til þess, að hér yrði varpað kjarnorku- eða vetnissprengjum. Þeim yrði naumast fleygt út í bláinn, heldur yrðu skotmörkin fyrst og fremst þeir staðir, sem þættu hernaðarlega mikilvægir og bein árásarhætta stafaði frá.

Noregur og Danmörk eru bæði þátttakendur í samstarfi vestrænna þjóða. Skemmra er þaðan til Leningrad og Moskvu en frá Íslandi. Þar eru þó engar bandarískar herstöðvar og engir tröllauknir flugveilir fyrir helsprengjuvélar. Er það af því, að Bandaríkin hafa ekki kært sig um slíka aðstöðu? Nei. Þau hafa farið fram á að fá hana, en þeim hefur verið neitað. Er ástæðan sú, að ríkisstjórnir þessara landa séu fjandsamlegar Bandaríkjunum? Engan veginn. Ástæðan er sú ein, að þessi ríki líta réttilega svo á, að komi til kjarnorkustyrjaldar, mundu slíkar bækistöðar kalla yfir þessar þjóðir ólýsanlegar ógnir og skelfingar.

Kjarnorkufræðingar og aðrir vísindamenn hafa lýst því eftirminnilega, hve gífurlegum breytingum tilkoma vetnissprengjunnar hefur valdið á sviði hernaðartækni og þó einkum hervarna. Tímans vegna læt ég nægja að nefna eitt dæmi. Hinn heimsfrægi eðlisfræðingur Patrick Blackett hefur fært óyggjandi rök að því, að gegn vetnissprengjuárásum séu engar varnir til, nema því aðeins að takast mætti að tryggja það, að engin óvinaflugvél kæmist í námunda við sprengjumarkið. Svo öflugum vörnum verði þó nálega hvergi við komið, hversu gífurlegum fjármunum og mannafla sem til þess yrði varið. Blaekett segir enn fremur: Önnur mikilvæg afleiðing af fullkomnun vetnissprengna er sú, að mjög dregur úr hernaðarlegu gildi margra flugstöðva.

Sé vafamál, að stöðvar á Bretlandseyjum verði varðar, hversu miklu síður mun takast að verja stöðvar á Íslandi, Tyrklandi, Kýpur, fyrir botni Miðjarðarhafs, á Filippseyjum, Formósu eða Japan. Jafnvel þótt sjálf herstöðin væri nægilega varin, er ekki líklegt, að svo yrði um borgir þeirra landa, sem herstöðvarnar eru í. Þróunin mun því verða sú, að treyst verður í vaxandi mæli á tiltölulega öruggar stöðvar í Bandaríkjunum sjálfum eða útvirki í lítt byggðum löndum, þar sem ekki þarf að taka tillit til óbreyttra borgara.

Þessi ummæli hins mikla vísindamanns hljóta að verða okkur Íslendingum ærið umhugsunarefni. Af þeim verða dregnar þær ályktanir fyrst og fremst, að ókleift muni reynast að verja herstöðvar á Íslandi gegn vetnissprengjuárásum og stöðin á Reykjanesskaga kalli yfir íslenzku þjóðina ægilega tortímingarhættu. Getur hugsazt, að enn sé til sá Íslendingur, sem trúi þeirri kenningu, að íslenzka þjóðin muni í styrjöld njóta verndar vegna tilvistar bandarískra herstöðva hér á landi? Sá maður hlyti að vera undarlega gerður. Blekkingar og hugtakafalsanir eru tíðar á þessum áróðurstímum, en engin hættulegri en sú að kalla sjálfan voðann vernd.

Að lokum tvær staðreyndir:

Haldist friður í heiminum, og gefi hamingjan, að svo verði, þá er augljóst, að við Íslendingar höfum enga þörf fyrir hervernd af neinu tagi.

Komi hins vegar til þess, að barizt verði með kjarnorkuvopnum, er jafnljóst, að herstöðin á Keflavíkurflugvelli veitir okkur enga vernd. Hún býður heim þeirri hættu, að víð þurrkumst út úr tölu þjóða.

Hvort sem friður helzt eða styrjöld geisar, er hag Íslendinga þá skaplegast borgið, að þeir segi upp herstöðvasamningnum og allur her hverfi á brott úr landi þeirra. — Góða nótt.