09.05.1955
Sameinað þing: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur — ef einhverjir skyldu vaka enn úti um byggðir landsins, sem ég er nú ekki alveg viss um. Ég mun að mestu leyti nota þann tíma, sem ég hef til umráða hér að þessu sinni, til þess að skýra frá nokkrum málum og framgangi þeirra, sem núverandi ríkisstjórn sérstaklega lofaði að vinna að og hrinda í framkvæmd, þegar hún tók við störfum fyrir rúmlega hálfu öðru ári.

Stjórnarandstæðingar hafa valið sér þann kost, eins og oft áður, að skamma núverandi ríkisstj. fyrir allt, sem hún hefur gert. Engin rök hafa þeir þó fært fyrir þessum árásum, heldur slagorð og glamur, sem gripið er til, þegar rökin þrýtur. Ég mun leitast við án allra stóryrða að láta verkin tala og gefa hv. útvarpshlustendum á þann hátt kost á að mynda sér sjálfir rétta og óhlutdræga skoðun um þau mál, sem ég mun hér eftir taka til meðferðar.

Ég vil þá, áður en komið verður að einstökum málum, minna á það, að eftir alþingiskosningarnar vorið 1953 gerði Framsfl. það að till. sinni, að mynduð yrði samstjórn lýðræðisflokkanna þriggja, þ.e.a.s. Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. Beitti flokkurinn sér fyrir því, að sú leið yrði farin, og tjáði sig fúsan til þess að taka þátt í slíku samstarfi, ef málefnasamningar næðust. Þessi tilraun Framsfl. strandaði á fullum óvilja beggja hinna flokkanna að ganga til sameiginlegs stjórnarsamstarfs. Að því er Alþfl. snertir var þetta að vísu aðeins framhald þess óyndisúrræðis, sem flokkurinn greip til um áramótin 1949–1950, þegar stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar gafst að fullu upp vegna margvíslegra erfiðleika, en þá neitaði Alþfl. algerlega allri þátttöku í stjórnarmyndun. Að mínum dómi var sú afstaða ekki stórmannleg og þá einkum vegna þess, að hún mótaðist af því, að flokkurinn treysti sér alls ekki til þess að taka þátt í því mjög svo erfiða, en bráðnauðsynlega endurreisnarstarfi, sem beið þeirrar ríkisstjórnar, er þá tók við. Þessari neikvæðu og óvirku afstöðu hefur Alþfl. haldið æ síðan. Hann hefur nítt niður og torveldað framgang viðreisnartillagna ríkisstjórnarinnar án þess að benda á raunhæf ráð til úrbóta. Ég bendi á þetta hér nú til þess að mínna fólk á, að Framsfl. beitti sér eindregið fyrir myndun ríkisstjórnar á sem breiðustum lýðræðislegum grundvelli, en það strandaði algerlega á hinum lýðræðisflokkunum, eins og ég hef hér skýrt frá. Engum kom til hugar, sem hugleiddi þessi mál í alvöru, að til greina gæti þá komið samstarf við kommúnistaflokkinn. Einræðishneigð hans og alger undirgefni og þjónusta við hin austrænu einræðisríki hefur aldrei komið betur í ljós en hin síðustu árin. Hið sama má raunar segja um flokksnefnu þá, er kailar sig Þjóðvarnarflokk og hefur orðið fyrir því óláni að finna aldrei þá kjósendur, er í einhverju fljótræði eða ógáti köstuðu atkvæðum sínum þangað í kosningunum 1953. Ef firra átti þjóðina upplausn og stórvandræðum, sem á fyrsta stigi hefðu lýst sér í nýjum kosningum eða setningu utanþingsstjórnar og síðar í frekari upplausn ríkisvaldsins, urðu sömu flokkar, þ.e. Framsfl. og Sjálfstfl., að fara með völd áfram. Aðrir möguleikar voru ekki fyrir hendi.

Núverandi ríkisstj. Ólafs Thors var mynduð um miðjan september 1953 og hefur farið með völd síðan. Málefnasamningur sá, er núverandi stjórnarflokkar gerðu með sér þá, er helzti grundvöllur að starfi ríkisstj. síðan, þótt fjölmargt fleira og það mörg stór nýmæli önnur hafi komið til. Ég mun nú nefna nokkur þeirra mála, er þá var samið um að hrinda í framkvæmd, og skýra frá, hvað þeim er nú komið áleiðis.

Ég vil fyrst nefna raforkumál. Eitt allra mesta og mikilvægasta nýmæli málefnasamningsins var að lögfesta tíu ára áætlun um raforkuframkvæmdir, þar sem áætlað sé að verja að meðaltali 25 millj. kr. á ári til þessara framkvæmda, en þó hærri upphæð fyrstu árin. Þessu fjármagni skyldi varið til þess að reisa orkuver, dreifingu raforku og fjölgun einkastöðva vegna byggðarlaga í sveit og við sjó, sem ekki hafa raforku eða hafa hana ófullkomna. Þær 250 millj. kr., sem í fyrstu var reiknað með til framkvæmda þessara, tíu ára áætlunarinnar, hefur ríkisstj. tryggt að fullu, að nokkru leyti með auknu framlagi í fjárlögum hvers árs og að nokkru leyti með samningum við bankana um lán. Endurskoðun þessarar allsherjar rafvæðingaráætlunar hefur leitt í ljós, að hækka verður hana nokkuð, svo að það muni þurfa eitthvað yfir 300 millj. kr. til þess að ljúka þessu verki. Er nú verið að vinna að því að tryggja það fjármagn. Að sjálfsögðu er miðað við, að verðlag raskist ekki til muna, ef unnt á að vera að ljúka verkinu fyrir þessa upphæð. Nú er annað starfsár þessarar 10 ára áætlunar hafið og unnið nú af kappi að framkvæmdum þeim, sem ákveðið er að gera á þessu ári. Takist að ljúka þeim framkvæmdum, sem ákveðið er að gera nú í ár, eins og telja má fullvíst, hefur á tveimur fyrstu árum áætlunarinnar verið unnið sem hér segir. Ég skal taka það fram, að tölur eru ekki hárnákvæmar:

Raforka lögð til rúmlega 800 notenda í sveitum frá stórum orkuverum. Nokkrir tugir bænda fengið lán til raforkueinkastöðva, þar sem samvirkjun kemur ekki til greina. Hafizt handa um að reisa orkuver, annað á Vestfjörðum fyrir þann landshluta og hitt á Austfjörðum fyrir meginhluta Austfjarða. Skal þeim orkuverum lokið á næsta ári, 1956, og má þá undireins fara að dreifa raforku um ýmsar byggðir þessara landshluta. Það má því fullyrða, að fyrstu 2 ár rafvæðingaráætlunarinnar verður framkvæmt öllu meira en hægt var að gera ráð fyrir í upphafi. Ekkert þráir fólk í sveitum og annað strjálbýlisfólk eins og að fá raforku með viðráðanlegum kjörum. Þess vegna verður að koma raforku á hvert það býli, sem haldast á í byggð, og það nú á allra næstu árum. Núverandi ríkisstj. og þeir flokkar, sem hana styðja, hafa stigið stærri skref í þessum efnum en gert hefur verið nokkru sinni fyrr, og mun það vissulega marka tímamót í byggðarsögu okkar.

Í málefnasamningi ríkisstj. er sagt, að gera skuli ráðstafanir til þess að hraða áframhaldandi virkjun Sogsins. Að undirbúningi þessa nauðsynjamáls hefur verið unnið, og er nú svo komið, að fullyrða má, að hafin verði vinna við þriðju virkjun Sogsins á þessu ári. Er það gleðileg og bráðnauðsynleg þróun í raforkumálum okkar.

Ég vil þessu næst fara nokkrum orðum um landbúnaðinn, aðstöðu hans s.l. ár og hvað hefur verið gert til þess að bæta hann og efla. Umbætur í sveitum, svo sem íbúðarhúsabyggingar, ýmiss konar ræktunarframkvæmdir og fleira þess konar, hafa farið hraðvaxandi hér síðustu ár, og urðu þessar framkvæmdir meiri árið 1954 en nokkru sinni fyrr. Það er langmesta framkvæmdaár í sögu íslenzks landbúnaðar. Þetta er mjög gleðilegt, ber dugnaði og stórhug íslenzkra bænda vitni, enda má svo telja, að mörg landbúnaðarhéruð breyti árlega um svip vegna þeirra miklu verka, sem þar eru unnin. Þessar stórfelldu framkvæmdir krefjast mikils lánsfjár. Það eru byggingarsjóður og ræktunarsjóður, sem einkum leggja fram lánsfé til bænda. En er líða tók á síðasta ár, 1954, var sýnilegt, að það fjármagn, er þessar deildir þá höfðu til umráða, mundi alls ekki hrökkva neitt nándar nærri til þess, að allir, sem rétt áttu til byggingar- eða ræktunarlána, gætu fengið viðunandi úrlausn. Ríkisstj. varð að leysa þetta örðuga vandamál.

Framsfl. hefur frá öndverðu krafizt þess, að sjóðir Búnaðarbankans gætu fullnægt, eftir því sem unnt er, þörfum landbúnaðarins til lánsfjár. Það, sem gert hefur verið í þessu skyni nú, er í samræmi við það og í sem allra stytztu máli þetta:

Byggingarsjóði sveitanna hafa næstu ár verið tryggðar 12 millj. kr. árlega í gegnum nýsetta löggjöf á þessu þingi um öflun fjár með sérstökum hætti gegnum veðiánakerfi, sem verður lánsstofnun fyrir íbúðarhúsabyggingar, og mun ég síðar koma nokkru nánar inn á þetta mál. Þessar 12 millj. kr. ásamt eigin fé byggingarsjóðs eiga að vera nægilegt fjármagn til þess að tryggja eðillegar íbúðarhúsabyggingarframkvæmdir í sveitum næstu árin. En um leið rýmkar þetta fjárráð ræktunarsjóðs til mikilla muna, þar sem hann þá fær til umráða því nær allt framlag mótvirðissjóðs, sem Framkvæmdabankinn veitir til sveitanna. Þetta er því geysimikilvæg framkvæmd og veitir mikið öryggi fyrir bændur um, að lánsfé fáist til framkvæmda.

Veðdeild Búnaðarbankans hefur verið fjárvana að mestu. Lítils háttar úrbót var gerð með lögum frá Alþingi í fyrra, þar sem veðdeildinni þá var tryggð um 1 millj. kr. árlega, sem orkaði þó tiltölulega litlu. Nú hefur veðdeildin fengið 4 millj. kr. af tekjuafgangi s.l. árs, og er það nokkur úrbót.

Þá vil ég leyfa mér að nefna, að á þessu þingi hafa verið gerðar breytingar á jarðræktarlögunum, er hækka verulega framlag til skurðgraftar og nokkuð einnig til almennrar ræktunar. Þá er og í þessum lögum þeim býlum, er skemmst eru á veg komin með ræktunarframkvæmdir, tryggt allverulegt aukaframlag. Er það að mínum dómi það mikilvægasta við þessa löggjöf. Þá var og fé það, sem Alþingi hefur veitt ræktunarsamböndum til þess að kaupa á félagslegum grundvelli stórvirkar vinnsluvélar til ræktunarstarfa, aukið um 6 millj. kr. Allt er þetta til mikilla bóta fyrir landbúnaðinn og mun stuðla að enn auknum framkvæmdum.

Af tekjuafgangi síðasta árs fékk ræktunarsjóður fyrir síðustu áramót 8 millj. kr., sem að sjálfsögðu strax var varið til útlána. Þá er og framlag til ræktunarsjóðs í fjárlögum aukið úr 1/2 millj. kr. í 1.1 millj. kr.

Samkv. því, sem ég hef drepið á að framan, hefur á margvíslegan hátt verið unnið að því að efla lánsstofnanir landbúnaðarins og auka framlög til landbúnaðarframkvæmda, að nokkru leyti með löggjöf og að nokkru leyti með ríkisstjórnarráðstöfunum. Hefur aldrei á einu ári verið meira gert til þess að greiða fyrir og bæta aðstöðu landbúnaðarins og þeirra, er við hann starfa.

Meðal annars vegna þess mikla fjár, sem lánadeildir Búnaðarbankans hafa fengið til útlána, og af öðrum ástæðum, sem skýrðar skulu hér á eftir, varð ekki hjá því komizt að breyta útlánsvöxtum bæði hjá byggingarsjóði og ræktunarsjóði. Hefur það verið gert á því þingi, sem nú er að ljúka, og það á þann hátt, að útlánsvextir byggingarsjóðs hækka úr 2% í 31/2%, en útlánsvextir ræktunarsjóðs úr 21/2% í 4%.

Hv. stjórnarandstæðingar, sem aldrei þessu vant þykjast í þessu máli vera miklir vinir landbúnaðar og sveitafólks, hafa lagzt gegn þessu og hafið áróður mikinn um, að Framsfl. sé nú að svíkja sveitirnar og bændastéttina. Reyna þeir að nota þessa nauðsynlegu og óumflýjanlegu ráðstöfun í pólitískum áróðurstilgangi. Það er þess vegna sérstök ástæða til þess að skýra þetta mál allrækilega, svo að ekki geti misskilningi valdið. Eins og alkunnugt er, hefur frá því að útlánsvaxtakjör þessara sjóða voru ákveðin, árið 1946–47, orðið mjög mikil hækkun á öllum almennum vöxtum, bæði innláns- og útlánsvöxtum. Þá voru innlánsvextir sparifjár aðeins um 2%, en nú eru innlánsvextir í venjulegum sparisjóðsreikningum hjá bönkum 5% — og 6% af fé því, er óhreyft stendur í sex mánuði. Útlánsvextir bankanna hafa svo hækkað um 2% á þessu tímabili.

Þótt aðeins þetta sé athugað, er ekki nema eðlilegt og öllum skiljanlegt, að ekki yrði hjá því komizt að hækka nokkuð útlánsvexti hjá þessum lánsstofnunum landbúnaðarins og öðrum hliðstæðum. En því miður er þetta ekki eina ástæðan til þess, að nauðsynlegt reyndist að hækka vexti af þessum útlánum, enda hefði það eitt ekki verið látið ráða. Það, sem var miklu alvarlegra í þessu sambandi, er, að með þeirri vaxtapólitík óbreyttri, sem rekin hefur verið, mundu þessar lánsstofnanir, byggingarsjóðurinn og ræktunarsjóðurinn, éta sjálfar sig upp á tiltölulega skömmum tíma vegna gífurlegs halla á vaxtareikningum stofnananna, eins og ég skal nú skýra nokkru nánar.

Þegar vaxtabreytingarnar voru gerðar á útlánum sjóðanna 1946–47, störfuðu sjóðir þessir svo að segja eingöngu með eigið fé, enda voru lánveitingar þá litlar, miðað við það, sem síðar hefur orðið. Framkvæmdir í sveitum hafa, eins og kunnugt er, vaxið gífurlega og lánsþörfin vaxið að sama skapi. Sjóðirnir starfa því nú að mjög miklu leyti með lánsfé. Af því verður að greiða miklu hærri vexti — allt upp í 6% — en sjóðirnir fá af útlánum sínum. Skuldir ræktunarsjóðs voru þannig um síðustu áramót um 52 millj. kr., en byggingarsjóðs um 25 millj. kr. Til nánari skýringar skal hér dæmi nefnt um tvö lán, sem tekin voru í Alþjóðahankanum handa byggingarsjóði og ræktunarsjóði. Lánin frá Alþjóðabankanum voru 38 millj. kr., vextir af þeim 41/2% og 5%, lánstími 20 ár. Hálf þessi upphæð var lánuð úr ræktunarsjóði með 21/2 % til 42 ára og hálf upphæðin úr byggingarsjóði með 2%. Til þess að endurgreiða Alþjóðabankanum lánin að fullu á umsömdum tíma þurfa sjóðirnir að leggja fram um 26 millj. kr. umfram það, sem þeir fá innborgað á sama tíma í vexti og afborganir af lánsfénu. Að vísu er þá enn óinnheimt nokkuð af lánum byggingarsjóðs, þar sem hann lánar til 42 ára, en hreinn halli að lokum verður þó um 10 millj. kr. Það er nú hverjum manni ljóst, að með slíku áframhaldi mundu eignir sjóðanna eyðast í vaxtahalla á skömmum tíma og afleiðingin óhjákvæmilega verða sú, að lánveitingar þeirra til framkvæmda stöðvuðust. Vextir af þeim lánum, sem sjóðir Búnaðarbankans verða nú að taka, munu verða 61/2–7%, og þar sem þeir þurfa um 30 millj. kr. ný lán árlega til þess að fullnægja nokkurn veginn lánaþörf landbúnaðarins, miðað við þær reglur, sem gilt hafa, sjá allir, hvert slíkt stefnir. Vaxtahalli ræktunarsjóðs af hverri milljón, sem hann tekur að láni með 61/2 % vöxtum, er um 40 þús. kr., en eftir þá vaxtahækkun, er nú hefur verið lögfest um hækkun útlánsvaxta úr 21/2% í 4%, verður hallinn þó enn um 25 þús. kr. af hverri milljón. Það skal tekið fram, sem í sjálfu sér er augljóst, að vaxtahækkunin tekur aðeins til lána, sem veitt verða hér eftir.

Ég veit, að bændur muni fljótt átta sig á þessu máli og sjá í gegnum það blekkingarmoldveður, sem stjórnarandstæðingar hafa leitazt við að þyrla upp í sambandi við það. Vaxtabreytingar þessar eru nauðvörn, til þess að sjóðir Búnaðarbankans geti eftirleiðis eins og hingað til orðið sterkar lánsstofnanir, sem geta fullnægt því mikla hlutverki að veita lán til landbúnaðarins. Til þess þarf geysimikið fjármagn næstu ár vegna þeirra miklu framkvæmda, sem að er unnið í sveitum. Enn meira ríður á, að hægt sé að fullnægja lánsfjárþörf landbúnaðarins, en þótt nokkur vaxtabreyting verði, sem er þó aðeins nokkur hluti af öðrum vaxtahækkunum, sem orðið hafa undanfarin ár. Þessar vaxtabreytingar gera mögulegt að auka útlán úr sjóðum Búnaðarbankans. Afar nauðsynlegt er að hækka lán úr byggingarsjóði til hvers íbúðarhúss. Þessar vaxtabreytingar gera það mögulegt. Munu þeir, sem eftir eiga að reisa íbúðarhús, að sjálfsögðu leggja miklu meira upp úr því að geta fengið hærri lán, þótt vextir séu nokkru hærri. Áróður stjórnarandstæðinga stoðar því ekki í þessu máli. Bændur munu fljótt átta sig á því, að þessar breytingar á útlánsvöxtum sjóða Búnaðarbankans voru nauðsynleg vörn til þess að tryggja áframhaldandi starfsemi þeirra á þann hátt, sem bezt hentar landbúnaðinum og þeim, sem þar starfa.

Ég vil svo að lokum geta þess, að vextir af útlánum verkamannabústaðasjóðs. sem bjó við sömu lánskjör og byggingarsjóður sveitanna, hafa verið hækkaðir á sama hátt. Hið sama gildir um fiskveiðasjóð. Undanfari hans var stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem lánaði gegn 21/2% eins og ræktunarsjóður, en í nýsamþykktum lögum um fiskveiðasjóð eru útlánsvextir hans ákveðnir 4%. Þessi nýju lög um fiskveiðasjóð eru merk, og hafa verið gerðar miklar breytingar til bóta frá eldri lögum. Fjárráð sjóðsins hafa verið aukin. Fær hann 2 millj. kr. árlega næstu 10 árin, og auk þess fékk hann 8 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs s.l. ár, eða sömu upphæð og ræktunarsjóður, enda er hlutverk fiskveiðasjóðs hliðstætt fyrir sjávarútveginn og ræktunarsjóðs fyrir landbúnaðinn. Í þessum nýju lögum um fiskveiðasjóð er heimilt að lána út á báta, sem keyptir eru erlendis frá, allt að 2/3 hlutum af verði þeirra, en út á báta smíðaða innanlands allt að 3/4 hlutum. Er hér um hækkun að ræða frá því, sem áður var. Þessi löggjöf er öll hin merkasta.

Í málefnasamningi núverandi ríkisstj. frá sept. 1953 segir svo:

„Tryggt verði aukið fjármagn til íbúðabygginga í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum, lögð áherzla á að greiða fyrir byggingu íbúðarhúsa, sem nú eru í smíðum, og lagður grundvöllur að því að leysa þetta vandamál til frambúðar.“

Ég vil fara nokkrum orðum um þetta mál, sérstaklega vegna óheilinda stjórnarandstöðunnar í þeim málum. Sannleikurinn er sá, að frá 1950, að fyrrverandi ríkisstj. kom til starfa, hefur miklu meira verið gert fyrir húsnæðismál þéttbýlisins en nokkru sinni fyrr, og það þegar kommar og kratar sátu í ríkisstj. og höfðu þar mikil áhrif. Þetta sviður þeim nú að vonum, þegar þeim er ljóst, að núverandi ríkisstj. og fyrrverandi hafa leyst þessi mál miklu betur en þeir gátu gert.

Lög um lánadeild smáíbúða voru sett á Alþingi 1951. Á árunum 1952–54 hefur ríkisstj. útvegað þessari lánadeild 40 millj. kr., sem allt hefur verið lánað út á smáibúðir. Með aðstoð þessarar lánadeildar hafa 1600–1700 íbúðir verið reistar. Skiptast þær nokkurn veginn jafnt á Rvík og nánasta umhverfi og landið utan Rvíkur. Hefur á þennan hátt verið stuðlað að mjög mikilli byggingarstarfsemi. Hús þessi hafa orðið tiltölulega ódýr, þar sem byggjendur mjög margir lögðu fram mikla frístundavinnu í byggingarnar, og hafa sumir komið upp íbúðum fyrir ótrúlega lítið lánsfé.

En þetta var ekki frambúðarlausn. Þess vegna var ákveðið í málefnasamningi núverandi ríkisstj. að taka byggingarmál þéttbýlisins enn fastari tökum. Þær 20 millj. kr.; sem ríkisstj. útvegaði árið 1954 til smáíbúða, voru bráðabirgðaúrlausn á þessu máli. En til þess að leita að leiðum um varanlega úrlausn skipaði ríkisstj. í fyrravor fimm manna nefnd, er gera skyldi till. um lánastofnun, er veitti lán til hóflegra íbúðarhúsa. Síðar — eða um síðustu áramót — var bætt við í n. tveimur fulltrúum frá Landsbanka Íslands, en þá hafði náðst samkomulag við hann um, að Landsbankinn tæki að sér að hafa forustu um að afla fjár til slíkrar lánastarfsemi. Í dag voru afgreidd frá Alþingi lög um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Er það árangur af starfi nefndarinnar og ríkisstj. í þessu máli. Án þess að geta verulega komið inn á efni frv., enda hefur það verið rakið í blöðum og útvarpi, vil ég þó nefna eftirfarandi atriði:

Hér skal komið á fót sérstöku veðlánakerfi, sem lánar fé til hæfilega stórra íbúðarhúsabygginga. Landsbankinn tekur að sér að hafa forgöngu um þetta og ábyrgist fyrstu tvö árin ákveðna lágmarksfjárhæð, er mun nema minnst 40 millj. kr. aukningu frá því, sem verið hefur áður.

Samkvæmt þessu kerfi ættu um 100 millj. kr. að vera tiltækar á ári í því skyni. Skipuð skal sérstök húsnæðismálastjórn; er hafi yfirumsjón þessarar starfsemi svo og skiptingu lánsfjár, en jafnframt verði tekin upp margvísleg leiðbeiningarstarfsemi fyrir húsbyggjendur. Sérstakur kafli er um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Leggur ríkissjóður fram 3 millj. kr. árlega næstu ár gegn jafnháu framlagi frá þeim sveitarfélögum, er vilja beita sér fyrir ákveðnum aðgerðum í þessu skyni.

Samkv. frv. þessu er ætlazt til, að byggingarsjóði sveitanna og verkamannabústaðasjóði verði lánað fé til útlána úr þessari lánsstofnun. Eins og áður er fram tekið, er byggingarsjóði sveitanna tryggt tvö fyrstu árin 12 millj: kr. árlega.

Ég hef ekki tíma til þess að skýra nánar frá þessari löggjöf, sem áreiðanlega er hin merkasta og mun marka tímamót í sögu lánastarfsemi til íbúðarhúsabygginga.

Þau undur hafa skeð, að stjórnarandstæðingar hafa hamazt gegn þessari löggjöf og sumir jafnvel greitt atkvæði gegn henni. Má það teljast merkilegt, ekki meiri sögu en þeir eiga að baki í þeim efnum. Þeir hafa að vísu verið með að setja undur falleg lög um vissa þætti byggingarmála, nokkurs konar glansmyndir, sem litu vel út í fyrstu, en varð svo að afnema eða fresta öllum aðgerðum, vegna þess að sú löggjöf reyndist óframkvæmanleg. Þau lög, sem nú hafa verið sett, eru aftur á móti fyllilega raunhæf. Þar er ekki lofað meiru en við verður staðið, og mun það affarasælast, ekki sízt fyrir þá, sem erfiðast eiga í þessum efnum, að aldrei sé lofað meiru en hægt er að standa við.

Í málefnasamningi ríkisstj. segir, að haldið skuli áfram að stuðla að öflun atvinnutækja til þeirra byggðarlaga, sem við atvinnuörðugleika eiga að stríða. Þetta hefur verið gert og aldrei varið meira fé til þess úr ríkissjóði en árið 1954. Til þess var varið árin 1951–53 um 13 millj. kr. Þetta fé hefur farið til milli 40 og 50 kaupstaða, kauptúna og þorpa utan Faxaflóasvæðisins. Árið 1954 var varið í þessum sama tilgangi um 7 millj. kr., en ekkert af því hefur farið til Faxaflóasvæðisins, vegna þess að þar hefur verið næg atvinna. Fé þetta hefur orðið að hinu mesta gagni til þess að leitast við að halda jafnvægi í byggð landsins. Er þessi starfsemi hin merkilegasta, en þyrfti að vera í enn stærri stíl, svo mikið nauðsynjamál sem hér er um að ræða.

Eitt atriði í stjórnarsamningnum frá sept. 1953 er ekki að fullu búið að framkvæma. Það er það ákvæði, að framleiðendur sauðfjárafurða skuli eiga þess kost að fá rekstrarlán út á væntanlegar afurðir sínar snemma á framleiðsluárinu, sem greiðist svo þegar framleiðsluvörurnar eru seldar. Samningar hafa staðið yfir um þetta við bankana um langt skeið, án þess að að fullu sé frá þessu gengið, hvernig frambúðarlausnin verður. Hins vegar hefur sú bráðabirgðalausn fengizt á þessu, að bæði í fyrravor og eins nú fá þeir bændur, er við sauðfjárbúskap búa, að mestu leyti gjaldfrest á áburði, er þeir kaupa, til hausts. Þetta mál er því að nokkru leyti leyst, en verður þó að ganga frá á öruggari hátt síðar.

Tími minn mun nú þrotinn og vel það.

Ég skal því láta máli mínu lokið. Ég vil endurtaka það, sem ég nefndi í upphafi máls míns. Ég hef hér flutt skýrslu um nokkurn hluta af störfum ríkisstj. síðastliðin ár, þar sem staðreyndirnar eru látnar tala. Ég bið ykkur, hlustendur góðir, út frá þessum staðreyndum að kveða upp óhlutdrægan dóm um störf ríkisstj. Ég óttast ekki þann dóm. Hann verður á þann veg, að Framsfl. hafi hin síðustu ár, eins og ávallt áður, unnið eftir málefnum, starfað á þann hátt, er bezt hentaði umbjóðendum hans, hvort sem þeir áttu heima í sveit eða við sjó, og jafnframt þannig, að það væri þjóðfélaginu öllu fyrir beztu. Góða nótt.