10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (3147)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, ræddi hér nokkuð um skattalækkun á félögum. Hann sagði í því sambandi, að ég hefði sagt á Alþingi, að það munaði ekkert um að lækka skattinn á félögunum um 20%, hann væri svo lágur, en svo hefði ég sagt aftur í gærkvöld, að skattarnir væru ofsalega háir á félögum. Bergur Sigurbjörnsson fer hér með algerlega rangt mál. Það, sem ég sagði, var, að frv., sem í var þessi 20% lækkun á sköttum félaga, hefði að geyma aðrar skattahækkanir á móti, sem gerðu það að verkum, að það hafði engin áhrif á heildartekjur ríkissjóðs, hvort frv. var fellt eða samþykkt. Svona er málflutningur hv. þm. Þetta er sýnishorn af honum. En hitt stendur, sem ég upplýsti í gærkvöld, að skattar á félögum eru nú margfalt hærri en þeir voru fyrir stríð, og hér er aðeins um litla leiðréttingu að ræða á sköttum félaga í staðinn fyrir umreikning, sem einstaklingar hafa búið við í mörg ár. Um Eimskipafélagsskattfrelsið er það að segja, að stjórnarflokkarnir sömdu um óbreytt ástand í þessum málum, skattamálum félaga, til eins árs, vegna þess að þeir höfðu ekki komið sér saman um framtíðarskipan þessara mála.

Hv. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, ræddi hér nokkuð um vexti og gerði þá að miklu rógsmáli. Vextir í ræktunar- og byggingarsjóði verða nú settir í það sama og þeir voru fram að 1946, þ. e. a. s. í 3½% í byggingarsjóði, en í kaupstöðunum verða menn að borga 7% af byggingarlánum. Greiðsluhalli þessara sjóða, sem hér lána, er svo stórfelldur, að af tveimur hagfelldustu lánunum, sem þeir hafa tekið, nemur greiðsluhallinn 26 millj. næstu 15 árin. Það var aðeins um tvennt að velja, áður en langt leið, að lána fáum og lítið hverjum, en með mjög lágum vöxtum, eða lána mörgum og allríflega hverjum með dálítið hærri vöxtum en áður hafði veríð gert, og það ráð var tekið að lána fleirum, þótt vextirnir væru nokkru hærri. Þessi hv. þm. talaði um, að vaxtahækkun kæmi hart niður á fátækum, sem ættu margt ógert, en þingmaðurinn gleymdi að segja frá hækkun jarðræktarframlagsins, sem gerð er á þessu þingi, fyrirhuguðum hækkunum á útlánum úr ræktunarsjóðnum út á jarðrækt og útihúsabyggingar og út á íbúðarhús í sveitum. Og hverjum ætli aukin útlán komi til góða, ef ekki einmitt þeim, sem eru fjárvana, en eiga mikið ógert? Og mundi það vera betra fyrir þá, að haldið væri hinum lágu vöxtum og þeir fengju sáralítil lán, áður en langt um líður? Það gefur auga leið um þetta mál, að allir fulltrúar bænda á Alþingi hafa verið sammála um, að það væri nauðsynlegt að hækka vextina.

Þá brá þessi hv. þm. sér í Gróupilsið og upplýsti tvennt: Annað, að lánað hefði verið Faxaverksmiðju mjög stórt lán með afar góðum vöxtum. Þó veit þessi hv. þm., að þetta mál kemur þessari ríkisstj. ekkert við. Það var afgreitt áður en hún kom að völdum. Hitt var, að Framsfl. hefði beitt sér fyrir hækkun á skattmati búpenings. Þetta eru hrein ósannindi. Framsfl. hefur vitanlega engin afskipti haft af þessu máli af þeirri einföldu ástæðu, að það er ríkisskattanefndin, sem ákveður þetta ein og án nokkurra afskipta annarra. Hvorki fjármálaráðuneytið, Alþingi né neinir aðrir hafa nein afskipti af því. Það er ríkisskattanefndarinnar verk að ákveða þessi möt. Þetta veit hv. þm., þó að hann leyfði sér að segja öðruvísi frá.

Hv. 9. landsk. þm., Karl Guðjónsson, ræddi hér talsvert áðan um húsnæðismálin og gerði afar lítið úr ráðstöfunum ríkisstj. í húsnæðismálum. Það væri ástæða til að minna þennan hv. þm. á það, hvað kommúnistar gerðu í húsnæðismálum, þegar þeir áttu sæti í stjórn hér á árunum. Þá var meira fjármagn til ráðstöfunar til eins og annars en nokkru sinni hafði áður verið í sögu landsins. En þá var ekkert gert í húsnæðismálunum, bókstaflega, blátt áfram ekki neitt, og þegar þeir hrökkluðust úr ríkisstj., var þannig ástatt í þessum málum, að það þótti stórkostlegt nýmæli, að Framsfl. beitti sér fyrir því, að menn gætu átt kost á 30 þús. kr. láni út á íbúðir í kauptúnum og kaupstöðum. Svo geta þessir herrar sett sig nú á háan hest og sagt, að það sé bara smámál, að þessar 30 þús., sem áður hafa verið lánaðar út á íbúð og voru 30 þús. meira en lánað var þegar þeir voru í stjórn, því að þá var ekkert lánað, — að það sé bara smámál, að þessar 30 þús. verði á næstunni hækkaðar upp í 70–100 þús. kr. á íbúð. Þá minntist þessi hv. þm. auðvitað ekki á það, að í þessum nýju lögum er einnig sérstakur kafli um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, og er í honum gert ráð fyrir því, að lagt sé fram fé sérstaklega til þess að útrýma braggaíbúðum og öðru heilsuspillandi húsnæði. Sannleikurinn í þessum málum er sá, að Framsfl. hefur nú á nokkrum árum, síðan framsóknarmenn fóru að fara með stjórn félagsmála, gerbreytt ástandinu í þessum efnum og beitt sér fyrir hverri ráðstöfuninni eftir aðra til þess að koma hér á umbótum. Er þar mest að minnast smáíbúðalánanna, mikilla framlaga til íbúðalána af greiðsluafgangi ríkissjóðs á undanförnum árum og svo loks þetta frv. um íbúðalán, sem nú er að verða að lögum. Auðvitað hefðu menn gjarnan viljað hafa vextina lægri en 7% af íbúðalánum, en það er ekki hægt að hafa vextina lægri nema með því að borga stórkostleg framlög af ríkisfé til þess að lækka vextina, og vegna þess, í hversu mörg horn er að líta, þótti ekki fært að leggja út á þá braut að hafa „styrktar“-vexti á þessum lánum. Þess er líka rétt að geta í þessu sambandi, að vextir af smáíbúðalánunum hafa verið 6½%, þannig að vaxtahækkunin er ekki nema ½% frá því, sem hefur verið, enda þótt lánin eigi að hækka svo mikið sem ráð er fyrir gert.

Ég vil þá að þessu sinni nota það, sem ég á eftir af tíma mínum, til þess að minnast nokkuð á varnarmálin. Það hafa verið gerðar miklar endurbætur á framkvæmd varnarmálanna, eins og hv. þm. Str. gat um í þessum umræðum. Það hefur verið breytt um stefnu og samið um, að því sambýli verði lokið, sem áður var á varnarsvæðunum; samið um það, hversu margir varnarliðsmenn og erlendir starfsmenn við varnarmálin skuli hafa orlof á hverjum degi, og stórkostlega dregið úr þeirri tölu frá því, sem áður var. Auk þess hafa verið settar mjög strangar reglur um ferðir Íslendinga inn á varnarsvæðin. Með öllu þessu móti og fleiri ráðstöfunum hefur ástandið í þessum efnum gerbreytzt. Enn fremur hafa framkvæmdirnar verið teknar í vaxandi mæli í hendur íslenzkra aðila. Undanfarið hafa sem sé fundizt úrræði til þess að minnka með margvíslegu móti þau vandkvæði, sem fram komu í öndverðu vegna dvalar varnarliðsins í landinu. Þessar umbætur hafa reynzt þannig í framkvæmd, að enginn, sem til þekkir, leyfir sér að draga gildi þeirra í efa, enda hafa allir mátt heyra, hve máttur er dreginn úr þjóðvarnarmönnum, þegar þeir ræða sambúðarþátt varnarmálanna.

Vegna þess, að þjóðvarnarmenn hafa með bættu ástandi þessara mála misst spón úr aski sínum, hafa bæði þeir og kommúnistar orðið að leita að nýjum vígstöðvum í varnarmálinu. Þeir hafa nú upp á síðkastið gripið til þess úrræðis að flytja hinar furðulegustu ævintýrasögur um Keflavíkurflugvöllinn. Tröllasögur um flugvöllinn eru fluttar í Þjóðviljanum og Frjálsri þjóð og svo á þessum vísindum byggður málflutningurinn í þeim umræðum, sem hér hafa farið fram. Kjarni þessara furðusagna er sá, að Keflavíkurflugvöllur sé einn örfárra flugvalla í veröldinni, sem stærð hafi til þess að koma að notum sem árásarflugvöllur í kjarnorkustyrjöld, enda sé stærð hans blátt áfram við það miðuð. Sumir spekingar Þjóðviljans og Frjálsrar þjóðar bæta svo við, að slíkir flugvellir séu hvergi hafðir í hinum stærri menningarlöndum, heldur aðeins meðal frumstæðari þjóða, „þar sem ekki þarf að taka tillit til borgaranna“, eins og hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, komst að orði í gærkvöld. Í blaðinu Frjálsri þjóð hefur birzt um þetta í viðhafnarsæti blaðsins einn hinn furðulegasti samsetningur, sem hér hefur á prenti sézt langa hríð. En því nefni ég þessa grein, að auðheyrt er, að málflutningur þjóðvarnarmanna og kommúnista er byggður á því, sem þar er fram borið. Þar segir t. d. að engir flugvellir af svipaðri stærð og Keflavíkurflugvöllur séu í námunda við stórar borgir, svo sem London, París og New York, og orðrétt sagt: „Þar eru að vísu flugvellir, en þess hefur verið vandlega gætt, að þeir hefðu ekki hinar löngu, breiðu brautir, sem sprengjuflugvélar þurfa á að halda og einkennandi eru fyrir Keflavíkurflugvöll.“ Á þessum grundvelli er því svo haldið fram blákalt, að Keflavíkurflugvöllur sé einstakur í sinni röð, einn af örfáum nothæfum til árása. Hann sé alls ekki miðaður við þörf farþegaflugs.

Það er ómögulegt að gera sér grein fyrir því, hvort meira má sín í þessum málflutningi öllum saman: vanþekkingin eða ófyrirleitnin. Þó held ég, að ófyrirleitnin sé sterkari þáttur, vegna þess að tæplega er leyfilegt að álykta, að menn, sem gera varnarmálin að höfuðmálum sínum og byggja þjóðmálastefnu sína á þeim eingöngu, viti ekki betur.

Ég hef í höndum upplýsingar um þessi efni frá íslenzku flugmálastjórninni. Þar segir m. a.: „Á Keflavíkurflugvelli eru fjórar flugbrautir 1700–3000 m langar og 65 m breiðar. Á stórum flugvelli rétt í grennd við New York eru sex brautir frá 2000–3600 m langar og 65 m breiðar. London Airport hefur sex brautir frá 2500–3000 m langar og 100 m breiðar. Orlyflugvöllur við París hefur fjórar brautir frá 2000–2700 m langar og 65 m breiðar. Tveir aðrir flugvellir í Frakklandi hafa brautarlengd allt að 3000 m annar og hinn 3500 m. Um tuttugu flugvellir í Bretlandi hafa svipaða flugbrautarlengd og Keflavíkurflugvöllur. Þá eru þrír flugvellir á Ítalíu af svipaðri stærð og Keflavíkurflugvöllur, þ. á m. flugvöllurinn við Rómaborg sjálfa. 3 km langar flugbrautir, eins og eru á Keflavíkurflugvelli, eru orðnar algengar á stærri millilandaflugvöllum.“ Þetta eru auðvitað engan veginn tæmandi upplýsingar, en meira en nóg til að sýna í réttu ljósi þann blygðunarlausa róg, sem um þessi mál er uppi hafður.

Hinar vestrænu þjóðir ráða yfir fjölda flugvalla, sem vegna legu sinnar eru þeim hentari til afnota sem árásarflugvellir en Keflavíkurflugvöllur, ef til styrjaldar skyldi draga, enda hefur Churchill, sem sennilega veit eins mikið um þetta mál og hinir „samvizkusömu“ herfræðingar Þjóðvfl. og kommúnista, nýlega lýst yfir því, að vestrænu þjóðirnar hafi ráð á hundruðum stöðva, sem hægt sé að gera árásir frá, ef til stórstyrjaldar komi. Jafnframt lét hann þess getið, að hann hefði trú á því, að hinar óttalegu vetnissprengjur mundu kenna mönnum að lokum, að enginn gæti framar unnið styrjöld. Þó væri því aðeins von um slíkt, að lýðræðisþjóðirnar væru nógu sterkar.

Það væri fróðlegt að vita, í hvers þágu íslenzkir menn flytja þá staðleysu, að Keflavíkurflugvöllur sé ein „aðalbækistöð tortímingartækja“, eins og Finnbogi R. Valdimarsson, 6. landsk. þm., hefur orðað rógsmál sitt í Þjóðviljanum um þessi efni nú fyrir skemmstu. Þessir menn vita þó vel, að auk þess sem Keflavíkurflugvöllur er ekkert veraldarundur að gerð eða stærð, heldur alveg hliðstætt mannvirki öðrum farþegaflugvöllum, þá er þar engan útbúnað að finna til árása, hvað þá til þess að greiða fyrsta höggið í atómstyrjöld. Hvers vegna leggja íslenzkir menn kapp á að útbreiða þau ósannindi, að í þeirra landi sé aðalbækistöð útrýmingartækja? Eitt er víst, að ekki þjóna þeir íslenzkum hagsmunum með slíku háttalagi.

Hvaða ályktanir draga svo þessir menn af rakalausum fullyrðingum sínum um, að Keflavíkurflugvöllur sé einn örfárra staða á jörðinni, sem nothæfur sé til kjarnorkuárása? Ályktun þeirra er: Íslendingar segi sig úr varnarbandalaginu, og varnarliðið fari heim. Þá fá Íslendingar að vera í friði, hvað sem á dynur. — Margur mundi þá vilja spyrja þessa spekinga: Á varnarliðið þá að fara með flugvöllinn með sér? Eða halda þeir, að opinn flugvöllur af þessari tegund, sem þeir segja að Keflavíkurflugvöllur sé, mundi einskis freista, ef til átaka ætti að koma? Eða ætti með þessu að bjóða einhverjum öðrum sæti á flugvellinum, ef þeir vildu þiggja það? Eða vildu þeir láta eyðileggja flugvellina hér og gera ófært að lenda hér stórum farþegaflugvélum, enda þótt þeir þykist auðvitað hafa allra manna mestan áhuga á eflingu flugsamgangna? Eða er þetta allt saman einfaldlega samhengislaus þvæla, þar sem eitt rekur sig á annars horn, enda tilgangurinn sá einn að rugla dómgreind manna í málum þessum?

Þá segja þessir menn og sálufélagar þeirra um allan heim: Allar varnarráðstafanir eru þýðingarlausar, síðan vetnissprengjan kom. Leggið þær allar niður, opnið allar stöðvar. — Leiðtogar lýðræðisþjóðanna vara sterklega við þessum áróðri. Væri þetta gert, segja þeir, án afvopnunar, mundi árásarþjóð geta leikið þann leik að sölsa undir sig stöðvar og jafnvel einstök lönd í trausti þess, að hvert átak um sig gæti ekki talizt nógu mikið tilefni af hendi lýðræðisþjóðanna til þess að hefja gereyðingarstyrjöld. Má og nærri geta, að lýðræðisþjóðir mundu ekki grípa til slíks fyrr en í síðustu lög.

Í þessu sambandi er rétt að minna á, að ekkert hefur um það frétzt, að kommúnistaríkin ætli að leggja niður allan vígbúnað, þvert á móti auka þau hann sem ákaflegast.

Íslendingar eiga mikið undir því, að ekki verði styrjöld. Undir því eigum við kannske allt. Við verðum að vona, að það takist að koma á friði í heiminum. Við höfum byggt okkar stefnu í varnarmálum á því, að við eigum samstöðu með vestrænu þjóðunum, enda verður ekki fram hjá þeirri staðreynd komizt. Við þurfum að halda vel á varnarmálunum og fylgjast sem bezt með í þeim efnum, halda fram endurbótastefnunni í framkvæmd þeirra, á meðan við teljum óhjákvæmilegt að hafa varnarlið í landinu, en vænta þess, að svo muni rætast úr í heimsmálunum, að ekki þurfi á slíku að halda.