10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

Almennar stjórnmálaumræður

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virðast ræður þriggja síðustu ræðumanna bera þess ljósan vott, að liðið sé á nótt, menn orðnir syfjaðir og nokkuð grobbnir sumir. Mæli ég þar til síðasta hv. ræðumanns, hæstv. fjmrh., og ekki síður til míns fróma vinar og hálfskoðanabróður, Gils Guðmundssonar alþm. Við hann vil ég segja þetta sérstaklega: Alþfl. mun ekki spyrja Þjóðvfl. eða nokkurn annan flokk um það, hverja hann velur til þess að flytja mál sitt í útvarp eða á málþingum, og Alþfl.menn munu ekki heldur ráðgast við hann um það, hvort þeir tali við útvarpsumræður eða ekki. Alþfl. mun ekki heldur skipta sér af því, hversu tvímenningarnir í Þjóðvfl., sem allir eru hræddir við, allir skjálfa af ótta fyrir, að því er hv. þm. sagði áðan, skipta með sér ræðutíma. Ég vil líka leiðrétta þann misskilning hjá þessum mínum fróma vin, að ég hafi boðið Þjóðvfl. að ganga í Alþfl. Þetta er hinn mesti misskilningur. Jafnvel svo ágætur maður sem hann er hefði áreiðanlega gott af að taka nokkurn reynslutíma, áður en hann gengi í Alþfl. Það, sem ég sagði, var þetta, orðrétt: Fáist hins vegar Þjóðvfl. eða þeir, sem hann hafa stutt, til þess að hverfa frá villu sins vegar, hætta að styðja íhaldið með klofningsframboðum og ganga til samstarfs við Alþfl. og Framsfl., þá horfir stórum vænlegar um þingfylgi. Með þessu er hv. þm. og hans flokksmönnum boðið upp á samstarf, en ekki að ganga í Alþfl., þótt ég sé fús til að ræða um það við hann á síðara stigi málsins.

Honum féllu illa hnútur, sem hann taldi að Kristinn Gunnarsson alþm. hefði kastað til flokksins. Þeim sárindum vildi ég reyna að eyða með því að mega minna hann á það, að það er mikil gleði yfir þeim, sem er á villtum vegi og hverfur til rétts vegar, og að þeim, sem bera hlýjan hug til annarra, hættir til að aga þá og reyna að leiða þá á réttar brautir, og þann veg ber með velvilja að skilja þau ummæli, sem féllu í þeirra garð.

Svanasöngur hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssonar, virtist mér einnig bera vott um það, að hann væri orðinn syfjaður og næsta vonlítill um, að óskadraumar íhaldsins um meiri hluta mundu rætast. Svanurinn syngur fegurst á sinni dauðastundu. Og ég hygg, að þessi orðfagra ræða Bjarna Benediktssonar, hæstv. dómsmrh., hafi boðað, að því sé mjög fjarri, að óskadraumar íhaldsflokksins um meiri hluta eigi að rætast.

Hér hefur verið rætt um verkfallið allmjög, og m. a. gerði hæstv. fjmrh. Eysteinn Jónsson það nú í sinni síðustu ræðu. Þetta gefur mér tilefni til þess að geta þess, að það er algert ranghermi í Morgunblaðinu, að Eggert Þorsteinsson hafi framið nokkurt trúnaðarbrot með því að segja frá því, hver flutti fyrst till. um atvinnuleysistryggingar í samningaviðræðunum. Það gerðu hvorki kommúnistar né ríkisstj., það vita allir. Mér er sjálfum kunnugt um, að Emil Jónsson var sá fyrsti, sem hreyfði þessu máli. Hann hafði rætt um það við mig og Eggert Þorsteinsson sama daginn og hann flutti till. um það efni í sáttanefndinni.

Ég verð að víkja nokkrum orðum að verkfallinu sjálfu og aðgerðum ríkisstj. í því sambandi. Fyrst er þá að minnast þeirra staðreynda, að kaupgjald Dagsbrúnarmanns með 8 stunda vinnudag var ekki nema 2960 kr. á mánuði, áður en samið var. Það er líka staðreynd, sem allir verða að viðurkenna, að á þeirri upphæð er ekki unnt að lifa mannsæmandi lifi fyrir mann með meðalfjölskyldu hér í Reykjavík. Þessari staðreynd treystir sér enginn að neita. Annaðhvort var þá að gera, að reyna að fá aukið raunverulegt kaupgildi launanna eða að fá launin hækkuð. Um þetta voru verkamenn sammála. Helzt hefðu þeir kosið að fá þessu fram komið án vinnustöðvunar, en fengist það ekki á þann hátt, voru þeir einhuga um, að ekki yrði hjá því komizt að beita verkfallsvopninu. Það er því hin mesta blekking og öfugmæli, sem fram hafa komið í tveimur ræðum hjá Eysteini Jónssyni, hæstv. ráðh., að verkfallið hafi verið kommúnistískt, að þeir hafi einir að því staðið og að sá árangur, sem að lokum náðist, hafi fengizt fyrir þeirra tilverknað. Slík ummæli eru alröng og gera kommúnistum allt of hátt undir höfði og þeirra hlut í þessum málum. Verkfallið var ekki verk kommúnista, það var nauðvörn verkalýðsfélaganna, knúin fram af atvinnurekendum og ríkisstj. Meðlimir verkalýðsfélaganna, sem í hlut áttu, stóðu þar allir að, allir saman, Alþýðuflokksmenn, kjósendur Sjálfstfl., Þjóðvfl., Framsfl. og kommúnistaflokksins. Allir voru þeir sammála um, að eins og komið var, væri verkfallið eina leiðin til að knýja fram bætur á kjörum sínum, alllr sammála um að standa saman, þar til yfir lyki, og láta innri ágreining og skoðanamun, jafnvel um framkvæmdaatriði, ekki koma fram, meðan á deilunni stæði og farið væri löglegar leiðir. Það er því algerlega rangt að eigna kommúnistum niðurstöðuna eða þann árangur, sem að lokum náðist og nú er um deilt. Hitt er rétt, að stjórn verkfallsaðgerðanna sjálfra var í höndum kommúnista einna. Ýmis mistök, sem urðu í sambandi við framkvæmd og tilhögun verkfallsins, mega því skrifast á þeirra reikning.

Hversu löng vinnustöðvunin varð og dýr bæði verkfallsmönnum og þjóðinni allri má og án efa skrifast á syndareikning ríkisstj. Tilboð hæstv. ríkisstj. um skipun nefndar til að rannsaka gjaldgetu atvinnuveganna var bersýnilega fyrirsláttur einn, til þess fram borið að tefja tímann.

Krafa ríkisstj. um, að kaupgjaldið ætti að miðast við gjaldgetu einstakra atvinnugreina eingöngu, var fjarstæða. Ráðh. hafa á borðum sínum yfirlit og skýrslur um gjaldgetu togaraútgerðarinnar, sem hún hefur látið rannsaka sérstaklega. Samkvæmt niðurstöðum þessara rannsókna hefur stjórnin ákveðið með samþykki Alþ. að veita hverjum togara 2 þús. kr. styrk á úthaldsdag, sem er sú lágmarksupphæð, sem ríkisstj. telur að þurfi að veita sem beinan styrk, til þess að þeir geti haldið áfram rekstri. Hver er gjaldgeta þessara fyrirtækja? Við hvað á að miða kaupgjald þeirra samkvæmt kenningu ríkisstj.? Á að lækka kaup sjómannanna, sem á togurunum vinna, um þessar 2 þús. kr. á dag, þ. e. a. s. 60–70 kr. hjá hverjum manni? Nei, sjálf ríkisstj. segir nei. Hún vill heldur greiða styrkinn, dagpeningana, heldur en að miða við það, sem útgerðin getur borið án styrks. Svipað er ástatt um bátaútveginn. Ríkisstj. lét sér ekki til hugar koma, að hægt væri að miða hlut eða kaup fiskimannanna við gjaldgetu bátaútvegsins eftir „bjargráð“ gengislækkunarinnar. Þess vegna ákvað hún að veita útvegsmönnum bátagjaldeyrisálagið og skattleggja aðra til þess að leggja það fram. Það vita allir, að það er fleira en kaupgjaldið, sem hefur áhrif á afkomu útvegsins og gjaldgetu. Hvað fá útgerðarmenn og sjómenn fyrir fiskinn? Hvað greiða þeir fyrir olíu, fyrir veiðarfæri, fyrir beitu, fyrir viðgerðir, í vátryggingargjöld, í skatta, í vexti, í lóðagjöld, fyrir rafmagn, og svona mætti lengi telja? Hve mikið taka þeir í sinn hlut, sem kaupa fiskinn og selja útgerðinni þessa þjónustu og nauðsynjar, af raunverulegu verði fisksins? Og einnig má spyrja:

Hvað taka þeir í sinn hlut, sem fá umráð yfir andvirði aflans, kaupa fyrir hann vörur og selja þær svo til landsmanna og raka saman fé á slíkri starfsemi? Væri ekki þetta fé betur komið hjá útgerðinni, og hver væri þá hagur útgerðarinnar, og hver væri hennar gjaldgeta, ef þetta fé kæmi í réttan stað niður? Það, sem um var deilt, var ekki aðeins skipti einstakra atvinnugreina og verkamanna, heldur heildarskipting þjóðarteknanna milli launastétta og gróðastétta. Eiga eigna- og auðstéttirnar, gróðastéttir þjóðfélagsins, að taka jafnmikinn hluta af afrakstri þjóðarbúsins í sinn hlut og þær hafa gert? Eða á að auka við hlut vinnandi stéttanna, sem verðmætið skapa? Það er það, sem um er deilt. Það er viðurkennt, að hlutur launastéttanna hafi lækkað undanfarin ár hlutfallslega við vaxandi þjóðartekjur. Segjum, að þjóðartekjurnar séu milli 2500 og 3000 millj. kr. Ríkisstj. virðist álita það eins konar guðsdóm eða náttúrulögmál, sem ekki verði haggað, að ekki skuli skerða hlut gróðamannanna af þjóðartekjunum, heldur verði hann að haldast óbreyttur eða aukast ekki minna en í hlutfalli við kauphækkunina. Þess vegna, segir ríkisstj., hljóta kauphækkanirnar að leiða til þess, að krónan smækkar hlutfallslega við það, sem kaupið hækkar. Það er hægt að gera þessa hrakspá að veruleika og ýmsir óska, að hún rætist. Það er hægt með því, að stjórnin láti fyrirtækjum og einstaklingum haldast uppi, eins og t. d. olíufélögunum, að hækka þjónustugjöld sin um 30–40% undir yfirskini kauphækkunar þeirrar, sem verkamennirnir hafa fengið. En hvaða vit er í slíku eða sanngirni? Mér skildist á hæstv. forsrh. í gær, að hann gæfi í skyn, að vörurnar, sem nú liggja á hafnarbakkanum, mundu hækka stórkostlega í verði vegna kauphækkananna. Mér er spurn: Hversu mætti réttlæta slíkt athæfi?

Ég sé ekki heldur ástæðu til að leyna því í sambandi við þessi verkfallsmál, að Alþfl. hefur jafnan talið, eins og blað hans hefur röggsamlega gert grein fyrir, að heppilegri og skynsamlegri leið til þess að bæta kjör verkamanna hefði verið að halda áfram stefnunni frá 1952 og knýja fram kjarabætur með lækkun á verðlagi og þar með minnkaðan gróða milliliðanna. Þegar hins vegar sýnt var, að ríkisstj. lokaði þeim leiðum, þá töldu Alþýðuflokksmenn í verkalýðssamtökunum ekki aðra leið færa, eins og ég áður sagði, heldur en að standa með sínum stéttarbræðrum og reyna að knýja það fram, sem fáanlegt var.

Ég skal ekki reyna meira á þolinmæði hæstv. forseta, þingmanna og annarra áheyrenda. Þessum umræðum er nú að verða lokið. Ég vil því mega óska þess, að hv. hlustendur vildu af þeim upplýsingum, sem þeir hér hafa fengið, af þeim málflutningi, sem hér hefur verið fram borinn, láta eigin dómgreind ráða, láta hana meta menn og málefni, meta ástand þjóðarinnar í dag og hverjar leiðir eru líklegar til þess úr að bæta.

Að svo mæltu óska ég öllum, sem orð mín heyra, árs og friðar.