28.02.1955
Sameinað þing: 39. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (3158)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til þess að færa hæstv. fjmrh. þakkir fyrir það framtak, sem hann hefur sýnt með því að birta hinu háa Alþ. niðurstöður ríkisreikninganna fyrir 1954 nú þegar, ekki tveim mánuðum eftir að reikningsskilaárinu lýkur. Þetta er til fyrirmyndar og ætti að vera svo framvegis, að kappkostað væri að ljúka reikningsskilunum fyrir liðið ár sem allra fyrst, þannig að þingmenn gætu glöggvað sig á afkomu ársins, sem er liðið, og haft það til hliðsjónar við bollaleggingar sínar um árið, sem er að líða. Jafnframt vildi ég taka undir það, sem hv. 5. landsk. þm. (EmJ) sagði áðan, að í framtíðinni væri mjög æskilegt, að áður en slík ræða er flutt, fengju menn reikningsyfirlitið fjölritað í hendur, því að þá er miklu auðveldara að ræða bæði málið í heild og einstök atriði, — það síðara er raunar mjög torvelt nú, vegna þess hve hér er auðvitað um margbrotnar tölur að ræða. En örfáar athugasemdir vildi ég gera í framhaldi af ræðu hæstvirts fjármálaráðherra.

Hann skýrði frá því, að rekstrarafgangur ársins 1954 hefði verið um 96 millj. kr., en 1953 hafði hann verið 87 millj. kr. Bæði þessi ár hefur því verið mikill tekjuafgangur hjá ríkissjóði. Hæstv. ráðh. undirstrikaði þetta mjög og gaf í skyn, að þetta bæri vott um heilbrigða fjármálastefnu hæstv. ríkisstj. Það virtist jafnvel svo, að hann vildi nota tækifærið sem allra fyrst til þess að skýra frá þessum mikla tekjuafgangi ríkissjóðs til þess að geta lagt áherzlu á, hversu heilbrigða fjármálapólitík núverandi hæstv. ríkisstj. ræki.

En með þessu er sagan alls ekki sögð öll. Sannleikurinn er sá, að rekstrarafgangur ríkissjóðs, eins og íslenzku ríkisreikningarnir eru gerðir upp, gefur engan veginn fullnægjandi eða tæmandi, jafnvel alls ekki rétta mynd af áhrifum ríkisbúskaparins á hagkerfið, einfaldlega vegna þess, hversu mikið af beinum útgjöldum er á eignahreyfingareikningi, en ekki á rekstrarreikningi. Svo sem kunnugt er, er hafður mjög mismunandi háttur á því í ýmsum nágrannalandanna, hvaða gjöld eru færð á rekstrarreikning og hvaða gjöld eru færð á eignahreyfingareikning, og hefur það að sjálfsögðu áhrif á rekstrarniðurstöðuna, hvaða venjur eru viðhafðar í þessum efnum. Hér er sú venja að færa fjölmörg útgjöld til fjárfestingar á eignahreyfingareikning, en ekki rekstrarreikning, og á þeim árum, þegar mikið kveður að slíkum fjárfestingarútgjöldum, hefur það að sjálfsögðu þau áhrif, að rekstrarreikningurinn sýnir mjög hagkvæma niðurstöðu. En þegar talað er um heilbrigða fjármálastefnu í þessu sambandi, þá er að sjálfsögðu átt við það, hversu mikinn kaupmátt ríkissjóður tekur úr umferð með skatta- og tollakerfi sínu og útgjaldapólitíkinni, en þá verður auðvitað að bæta hreinum fjárfestingarútgjöldum á eignahreyfingareikningi við rekstrarútgjöldin og miða við þá niðurstöðu, sem þá fæst. En þannig var á árinu 1953 og hefur áreiðanlega verið á árinu 1954, þótt ég hafi að sjálfsögðu ekki haft aðstöðu til þess enn að ganga úr skugga um það, að á eignahreyfingareikningnum hafa verið mjög mikil fjárfestingarútgjöld, sem draga verulega úr gildi þeirrar staðhæfingar hæstv. fjmrh., að þessi mikli tekjuafgangur beri í sjálfu sér vitni um heilbrigða fjármálastefnu.

Það er enginn ágreiningur meðal sérfróðra manna um það, að á tímum sem þeim, sem við nú lifum, eigi að reka ríkisbúskapinn með verulegum tekjuafgangi. Þegar verðlag allt er á hreyfingu upp á við og þensla mikil í viðskiptakerfinu öllu, er heilbrigt, að áhrifa ríkisvaldsins gæti í þá átt að draga úr þessari þenslu með því að hafa mjög verulegan raunverulegan rekstrarafgang á sínum búskap, á sama hátt og eðlilegt er, að á krepputímum hiki ríkisvaldið ekki við að halda uppi atvinnu og komi í veg fyrir fallandi verðlag með því að hafa verulegan halla á búskap sínum.

Nú kynnu ýmsir að halda, ef menn athuguðu tölur hæstv. ráðh. gagnrýnislaust, að þannig hefði einmitt verið farið að hér. Tvö ár eru nýliðin, 1953 og 1954, þar sem tekjuafgangurinn hefur verið 90–100 millj. hvort árið. En þá þarf til þess að taka tillit jafnframt, hver raunveruleg útgjöld hafa verið á fjárfestingarreikningi, og draga þau frá. Afgangurinn einn ber vott um þau áhrif af svonefndri heilbrigðri fjármálastefnu, sem hæstv. fjmrh. virtist vilja láta í veðri vaka með hinum háu tölum, sem hann nefndi.

Þó að ég hafi auðvitað ekki haft aðstöðu til þess að virða neitt fyrir mér ríkisreikninginn fyrir 1954, þar sem einu upplýsingar um hann eru þær tölur, sem hæstv. ráðh. las áðan, þá má mynda sér nokkra hugmynd um hina raunverulegu rekstrarniðurstöðu ríkissjóðs með því að virða fyrir sér viðskipti ríkissjóðs við seðlabankann og hina bankana og þá fyrst og fremst sparisjóðsdeild Landsbankans. Hinn raunverulegi rekstrarafgangur ríkissjóðs á með eðlilegum hætti að safnast fyrir sem aukin inneign ríkissjóðs eða sem minnkuð skuld hans í seðlabankanum. Það, sem menn eiga við með heilbrigðri fjármálastefnu, er það að flytja kaupgetu frá góðum tímum til vondra tíma, ef svo mætti segja, fyrst og fremst með því, að ríkissjóður auki inneignir sínar í seðlabankanum á góðum tímum í því skyni að hafa þær til ráðstöfunar á erfiðum tímum.

Ef athuguð eru skuldaskipti ríkissjóðs við seðlabankann á s. l. ári, einmitt á því ári, sem hæstv. fjmrh. skýrði frá með nokkru stolti að hefði haft 96 millj. kr. í rekstrarafgang, þá yrðu þau í mjög stórum dráttum eftirfarandi:

Skuld ríkissjóðs við seðlabankann var í árslok 1953 110 milljónir, en í árslok 1954 121 milljón. Skuld ríkissjóðs við seðlabankann hefur með öðrum orðum vaxið um 11 milljónir á árinu 1954, því ári, sem samkvæmt ríkisreikningnum sýnir 96 milljóna kr. tekjuafgang. Í þessu sambandi ber þó auðvitað að taka tillit til þess, að ríkissjóður á ýmsa inneignareikninga í seðlabankanum, og þar hefur orðið breyting til batnaðar. Í árslok 1953 átti ríkissjóður á ýmsum innstæðureikningum 4 millj., en í árslok 1954 37 millj., þ. e. a. s. innstæður hafa vaxið um 93 millj. á móti 11 millj. kr. skuldaraukningu, þannig að innstæðuaukningin er þó ekki nema 22 millj. kr. aðeins. Þetta eru hin hreinu viðskipti við seðlabankann, þau sem í fljótu bragði eru einna nærtækasti mælikvarðinn á það, hvort ríkissjóður hefur raunverulega rekið heilbrigða fjármálastefnu eða ekki. En svo hefur verið tekið upp á því nú á þessu ári af alveg sérstökum ástæðum, að ríkissjóður er einnig farinn að hafa viðskipti við viðskiptabankana í sambandi við raforkuframkvæmdirnar, því að ríkissjóður hefur sem kunnugt er gert samning við viðskiptabankana um að kosta raforkuframkvæmdirnar, en það eru auðvitað fjárfestingarútgjöld. Þessar lánveitingar hjá viðskiptabönkunum, að sparisjóðsdeild seðlabankans meðtalinni, — þar er mestur hlutinn, — nema 18 millj. kr. Þannig er skuldaaukningin 18 millj. kr., svo að á móti 22 millj. kr. innstæðuaukningu hjá seðlabankanum kemur 18 millj. kr. skuldaaukning hjá viðskiptabönkunum, þannig að fljótlegt yfirlit um þetta sýnir þá niðurstöðu, að skuldaskipti ríkissjóðs við bankana sýna ekki hagstæða útkomu nema um 4 millj. kr. á því sama ári og fjmrh. skýrði frá því með stolti, að rekstrarafgangurinn hafi numið 96 millj. kr. Nú vil ég engan veginn draga það í efa, að þessi ráðstöfun á tekjuafganginum sé gagnleg í sjálfu sér, a. m. k. verulegur hluti hennar, en það er ekki hægt að guma af hvoru tveggja í senn, að ráðstafa fé til gagnlegra framkvæmda og svo jafnframt af hinu að reka heilbrigða fjármálapólitík í þeirri merkingu að vinna gegn óeðlilegri þenslu í fjárhagskerfinu, að vinna gegn hækkandi verðlagi og þenslu á vinnumarkaðnum. Sú stefna virðist hafa orðið ofan á hjá hæstv. ríkisstj. að standa undir fjárfestingunni, þó að það kosti þenslu á vinnumarkaðinum og í verðlaginu, og þá á hæstv. ríkisstj. að segja, að það sé svo, en ekki að reyna að ávinna sér viðurkenningu fyrir hvort tveggja, því að það á hún ekki skilíð. Hún á að láta sér nægja að reyna að fá með heiðarlegum málflutningi viðurkenningu fyrir annað hvort og taka þá á sig ámæli fyrir það, sem henni ekki tekst.

En sannleikurinn er sá um fjármálapólitík hæstv. ríkisstj. undanfarin ár, þrátt fyrir mikið tal um það, að hún hafi átt að vera og verið heilbrigð í þeim skilningi að halda inni kaupmætti til varðveizlu til erfiðari tíma, að hún hefur verið óheilbrigð, því að tekjuafganginum hefur jafnan verið ráðstafað til margvíslegra fjárfestingarútgjalda, þannig að niðurstaðan hefur orðið ósköp svipuð því, sem mundi hafa verið, ef mjög lítill tekjuafgangur hefði orðið á rekstrarreikningi ríkissjóðs. Þetta er auðvitað ein af ástæðunum fyrir því ástandi í efnahags- og viðskiptakerfi landsins, sem nú á sér stað. Það er þensla í verðlaginu og ekki hvað sízt á vinnumarkaðnum, og hún hefur verið vaxandi, hún er orðin svo mikil, að böndin eru að springa og í uppsiglingu eru kaupkröfur af hálfu vinnustéttanna. Hæstv. ríkisstj. á einmitt með fjármálapólitík sinni sinn þátt í ábyrgðinni á því, að eins er komið og nú er.