07.03.1955
Sameinað þing: 43. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er nú komið svo með þessar umræður, að með tilliti til þeirra deilna, sem nú fara í hönd, og þess ástands, sem ríkir sem stendur í þjóðfélaginu, er auðséð, að þær eru komnar inn á þann vettvang að ræða ekki sízt um launakjör verkalýðsins og efnahagsástandið í þjóðfélaginu sjálfu. Ég álít að mörgu leyti, að slíkt sé vel farið, og það hafa síðan ég talaði hér verið fluttar fjórar ræður af hálfu hæstv. ráðherra, sem allar hafa fjallað um þessi mál, og ég verð þess vegna að biðja hæstv. forseta afsökunar, þó að ég fari nokkuð út fyrir það, sem upphaflega lá hér fyrir í þessu máli, með tilliti til þeirra ræðna, sem þegar hafa verið fluttar hér, því að ég vil taka það fram, að ég álít það ákaflega mikilvægt fyrir Alþingi, að við reynum, ef þess er nokkur kostur, að gera okkur eins óhlutdrægt og hægt er — og samt án þess að vera að fara í nokkra launkofa með okkar skoðanir í þessum efnum grein fyrir því efnahagsástandi, sem við stöndum frammi fyrir, alvarleika þeirra deilna, sem í uppsiglingu eru, og möguleika okkar þjóðfélags á að leysa þær, og ég vil þess vegna leyfa mér nokkuð ýtarlega að taka fyrir ýmislegt af því, sem hæstv. ráðherrar hér hafa komið með.

Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir á grundvelli rannsókna, sem hann taldi hafa farið fram, að kaupmáttur launa hefði svo sem ekkert breytzt, og því hefur verið haldið fram hér af mörgum ráðherrum, að opinberar stofnanir, alveg hlutlausar stofnanir, hafi framkvæmt rannsóknir, og það hefur verið sagt, þegar efazt hefur verið um gildi þessara rannsókna af hálfu stjórnarandstæðinga, að það væri verið að drótta alls konar illum hvötum að þeim mönnum, sem fyrir stofnunum standa. Við verðum að gá að í þessu sambandi, að það er hæstv. ríkisstj., sem ræður því, hvaða rannsóknir eru látnar fara fram. Það er hún, sem hefur lagt það fyrir ákveðnar stofnanir að rannsaka ákveðna hluti, og við skulum aðeins taka eitt atriði af því, sem ríkisstj. hefur látið rannsaka. Það er það, sem hæstv. fjmrh. er að tala um: kaupmáttur launa hefði svo sem ekkert breytzt og hagstofan hefði komizt að þessari niðurstöðu. Á hvaða grundvelli hefur hagstofan komizt að þessari niðurstöðu? Í grundvelli núverandi vísitölu. Og hvernig er sjálfur vísitölugrundvöllurinn, sem hagstofan þarna reiknar með, þ. e. undirstaðan undir þessum svokölluðu óhlutdrægu útreikningum? Húsaleigan í þessari vísitölu, eins og hún er nú, er reiknuð 116, og það er reiknað með 4800 kr. á ári, eða 400 kr. í húsaleigu á mánuði fyrir fimm manna fjölskyldu. Húsaleigan er sá liðurinn í vísitölugrundvellinum, sem tvímælalaust er vitlausastur. Sé húsaleigan tekin út úr og reiknað með hinum þáttunum, matvörunni, eldsneytinu og slíku, þá mundi vísitalan vera 174 í staðinn fyrir 161. En við skulum ofur lítið athuga, hvernig færi, ef við færum að reikna með húsaleigunni eins og hím er. Það eru að vísu engar skýrslur til einu sinni um, hvað húsaleigan er í dag, en við skulum segja, að við reiknuðum með 1200 kr. á mánuði fyrir 4–5 manna fjölskyldu, og ég býst við, að það væru hundruð fjölskyldna, sem mundu fagna því að geta fengið húsnæði fyrir 1200 kr. á mánuði. Hvað mundi þá verða? Ef við reiknuðum þannig, þá mundi vísitalan hækka um 47.5%. En auðvitað skal ég viðurkenna um leið, að náttúrlega skekkist allur grundvöllurinn og verður vitlaus, ef við förum að taka húsaleiguna eina þannig út úr, en svona er ástandið sem sé. Svona veikur er þessi grundvöllur, sem þarna er byggt á, þannig að þetta segir ekki neitt, þessar rannsóknir verða aðeins áróður.

Svo skulum við að síðustu taka sjálfan grundvöllinn, sem byggt er á í því, sem maður telur þó einna eðlilegast koma út, matvörunum og þess háttar. Hvernig er þessi grundvöllur? Þessi grundvöllur er nú miðaður við 1939, hann er miðaður við fátækt, sem a. m. k. þorrinn af ungu kynslóðinni alls ekki gerir sér grein fyrir, hvernig hafi verið. Og vegna þess að þessi vísitölugrundvöllur er miðaður við slíka fátækt, næstum eymd, þá hefur verið miðað við það við alla tolla, við allan bátagjaldeyri og allt slíkt, sem lagt hefur verið á á síðustu árum, að láta þetta ekki lenda á þessum fáu vörum, sem inn á vísitölugrundvöllinn koma, þannig að hann skekkist allur saman. Þetta verður spémynd, sem út kemur. Ég vil aðeins minna hv. þm. á örfá dæmi í sambandi við þetta og minna um leið á, að hæstv. ráðh. hafa sagt, að það væri byggt á beztu heimildum, sem fáanlegar voru. Hvernig er í vísitölugrundvellinum, sem nú er, — við skulum taka t. d. nautakjöt? Hverju er reiknað með af nautakjöti handa fimm manna fjölskyldu? Það er reiknað með 1.33 kg á ári. Það er það, sem reiknað er í neyzlu manna viðvíkjandi nautakjöti. Við skulum taka annað dæmi í matvörunum, það eru sveskjur. Það er reiknað með 0.41 kg. þ. e. 400 g á fimm manna fjölskyldu á ári af sveskjum. Það er reiknað með svo fátæklegu mataræði, að allur þorri alþýðumanna í dag gerir sér varla grein fyrir því lengur, a. m. k. ekki þeir yngri, hvernig það var, þegar þessi vísitölugrundvöllur var raunhæfur, var rétt mynd af þeirri fátækt, sem alþýða manna bjó við á Íslandi. Hverju var reiknað með af húsgögnum í þessum vísitölugrundvelli? Það er ekki reiknað með neinum. Það er ekki reiknað með húsgögnum handa verkamannafjölskyldu 1939, enda munum við, sem höfum fylgzt með í þessu, að það þótti af hálfu vissra forsvarsmanna atvinnurekenda hneyksli, þegar verkamenn á árunum 1943–44 fóru að kaupa sér hægindastól, — að verkamaður, sá maður, sem var þreyttur eftir dagsins erfiði, skyldi eignast hægindastól til þess að hvíla sig í, það þótti hneyksli, var í frásögur færandi í samningum á milli atvinnurekenda og verkamanna. Það var ekki reiknað með húsgögnum, það var ekki reiknað með, að menn ættu almennt lak á rúmið eða ver utan um koddana. Þannig var ástatt hjá fjölda af mönnum. Og sama myndin er viðvíkjandi kröfunum til skemmtanalífsins, einhverrar lífsnautnar. Hvað er reiknað með mikilli eyðslu í kvikmyndahús í þessum vísitölugrundvelli? Það er reiknað með 8.75 kr. 1939. Það mundi samsvara því, að ein svona fimm manna fjölskylda færi máske einu sinni á ári í bíó, algengasta skemmtun fólksins nú á tímum. Og hverju er reiknað með í leikhús? Í grunntölunni 1939 er reiknað með 48 aurum á alla fjölskylduna á ári í leikhús. Þetta er það, sem mönnum er ætlað að lifa af, og þetta er það, sem allt er síðan byggt á. Svona er grundvöllurinn. Alþingi er á millitímanum frá 1939 búið að samþykkja lög um orlof og annað slíkt. Það er álitið sjálfsagt, að menn eigi að fá sumarleyfi og geti hvílt sig. Hverju er reiknað með í sumarleyfi 1939? 6.24 kr. fyrir fimm manna fjölskyldu. Þó að við segðum, að það væru 60 kr. í dag, hvað er það? Svona er þessi grundvöllur. Og svo er sagt við okkur hérna: Beztu heimildir, sem fáanlegar eru. Kaupmáttur launa hefur svo sem ekkert breytzt. — Til hvers er að bjóða mönnum upp á svona, ef á að ræða mál af alvöru?

Íslenzk alþýða bjó við slíka fátækt, að þetta var einu sinni rétt spegilmynd af hennar lífi. Hún býr til allrar hamingju ekki við þessa fátækt lengur, og það er henni sjálfri að þakka, hún hefur brotizt upp úr henni. En það þýðir ekki heldur að ætla að fara að leggja svona vísindi til grundvallar, þegar á að fara að ræða, hvort það sé hægt að finna lausn á þeim vandamálum, sem nú eru fyrir höndum. Hví hefur ríkisstj. ekki látið rannsaka, hvað hin raunverulega húsaleiga er? Það var að vísu dálítið erfitt. Það er nefnilega þannig með mjög mikið af húsaleigunni í Reykjavík í dag, að hún er bundin þagnarheiti, að það er borgaður ákveðinn hluti opinberlega, og það er ekki gefið upp, sem er þar fram yfir. Menn hafa samt ýmsar aðferðir til þess að komast að því. Menn gætu t. d. auglýst í Morgunblaðinu eftir að fá íbúð eða herbergi og séð, hvaða tilboð kæmi. En hvað er þessi leiga? Ég þekki t. d., að verkamaður, sem vinnur átta tíma á dag, Dagsbrúnarmaður, sem vinnur sinn reglulega vinnutíma, hefur ekki yfirvinnu, hefur sínar 36 þús. kr. á ári, sem sé örugga vinnu, borgar 16 þús. kr. í húsaleigu. Hvernig haldið þið að lífið verði hjá fjölskyldum, sem svona stendur á hjá? Og það er ekki einsdæmi. Þetta hefur aldrei verið rannsakað, þetta hefur aldrei fengizt rannsakað.

Það hefði mátt rannsaka, hvað hinir raunverulegu vextir eru, sem greiddir eru í bænum, hvaða kjörum þeir menn verða að sæta, sem af miklum dugnaði brjótast í því að reyna að koma upp húsum yfir sig og njóta vissrar aðstoðar frá því opinbera í því sambandi, þó takmarkaðrar.

Það mætti enn fremur rannsaka gróða vissra fyrirtækja, og ég vil benda hæstv. ríkisstj. á, að svo að segja allar ríkisstj. annarra landa láta rannsaka þessa hluti. Við getum fengið hjá sænsku hagstofunni eftir hvert ár yfirlit yfir afkomu atvinnulífsins í hverri einstakri iðngrein. Við getum séð, við skulum segja í því fagi sem snertir málmvinnsluna, hvað mikið var greitt í laun fyrir málmvinnslu á þessu ári og hvað mikill er sá gróði, sem atvinnureksturinn og hlutafélögin, sem þarna starfa, gefa upp. Við getum tekið þetta saman hvað snertir verkstæðin í Svíþjóð, og við höfum þessar tölur til, og ég get lagt þær hérna fram. Og reynslan í þessu er, t. d. hvað málmiðnaðinn snertir, að öll launafúlga verkamannanna, sem út er greidd á árinu, er álíka há og brúttógróði atvinnurekstrarins. Þetta mikill er gróðinn. M. ö. o.: Það er stórgróði og vaxandi gróði, t. d. hjá þessum sænska atvinnurekstri. Þó veit ég, að samsvarandi greinar hérna heima, við skulum segja í þessu sambandi t. d. stóru járnsmiðjurnar, eru eins vel búnar að vélum og hafa eins góða fagmenn og þær sænsku. Við höfum hins vegar enga slíka rannsókn hérna heima á þessu sviði. Og þetta er ekki aðeins hjá Svíum, við getum fengið þetta sama í Bandaríkjunum. Ár eftir ár er það birt alveg nákvæmlega, hver gróði amerísku auðfélaganna er, hver upphæð greiddra vinnulauna er. Við höfum ekki neitt af þessu hér heima, ekki neinn aðgang að því, og hvernig stendur á því? M. a. máske þannig, að svo og svo mikið af öllum gróða íslenzkrar auðmannastéttar byggist á skattsvikum og að það er oft erfitt fyrir það opinbera að eiga að komast fyrir um, hvernig þarna er. Það verður a. m. k. að hafa þá mjög harðvítug hagstofu eða skattstofu, yfirvöld, sem reyna, þó að þau fái ekki rétta mynd af því, sem ætti að greiða í skatt, að gera sér einhverja hugmynd um þann gróða, sem þarna skapast. M. ö. o.: Þetta er eitt af því, sem veldur því, að það er erfiðara að gera upp óhlutdrægt og fyrir fram, hvernig þessir hlutir standa hér á Íslandi, heldur en í ýmsum af þeim löndum, sem við þekkjum bezt til.

Ríkisstj. hefur ekkert skeytt um að breyta þarna til og láta rannsaka þetta og fela hagstofunni slíkar rannsóknir, en hún lætur birta núna tölur eins og í sambandi við vísitöluútreikninginn, sem raunverulega hafa bara þau áhrif að reyna að dylja þann gróða, sem skapast.

Það er ekki til neins að rannsaka vitlausar vísitölur og reikna út frá þeim í staðinn fyrir að reyna að komast til botns í því, hvernig er ástandið í þjóðfélaginu. Skapast gróði? Hvar skapast hann og hvernig? Í staðinn fyrir að reyna slíkt, þá kemur hæstv. fjmrh., sem mikið hefur talað þegar í þessu máli, fram með dylgjur, — sá aðilinn, sem ætti að hafa bezta aðstöðu og þar að auki er gamall skattstjóri og ætti að þekkja þetta ofur lítið. Hver er aðaluppistaðan í allri þeirri ræðu og þeim tveim ræðum, sem hæstv. fjmrh. hefur haldið í þessum efnum?

Jú, hans aðaluppistaða er þessi trúarbrögð: Mér dettur ekki í hug, að það vaki neitt annað fyrir kommúnistum en að koma af stað öngþveiti. — Hann kemur hér með fullyrðingar, sem hann náttúrlega reynir ekki að færa neinar röksemdir fyrir, og fullyrðir síðan, að allar þær kröfur, sem verkalýðurinn gerir til batnandi lífskjara, séu nokkuð, sem þessir voðalegu menn, þessir kommúnistar, — og það er auðséð, að hann á við Sósfl., — hafi komið af stað með það fyrir augum að eyðileggja þjóðfélagið og koma af stað öngþveiti. Og ég verð að segja það, að þegar fjmrh. einnar þjóðar á þeim alvöruríku tímum, sem við lifum, leyfir sér að koma fram með svona fullyrðingar og byggja alla sína afstöðu í alvörumáli þjóðarinnar á svona fullyrðingum, þá verður ekki komizt hjá því að taka fyrir hans hugmyndir í þessum efnum og rannsaka, hvað það þýðir, þegar slíkar hugmyndir fá að ráða. Og þetta er ekki nýr söngur hjá hæstv. fjmrh., að kommúnistarnir, eins og hann kallar það, séu að koma af stað öngþveiti og með vinnudeilunum eigi nú að eyðileggja þjóðfélagið. Þetta er ekki nýr söngur. Þetta er sami gamli söngurinn sem hann nú er búinn að kyrja hér í meira en 15 ár. Þessi hæstv. fjmrh. hefur á síðasta hálfum öðrum áratug ekkert lært og engu gleymt. Hann heldur enn þá, að þjóðfélagið hrynji, svo framarlega sem verkamenn hafa meira en til hnífs og skeiðar.

Við skulum nú athuga þessa afstöðu hæstv. fjmrh., hans framferði í þessum hlutum, þegar hann var með svipaðan söng áður, og afleiðingarnar fyrir þjóðfélagið, ef hann hefði komizt upp með að beita þeirri sömu pólitík sem hann leggur til að beitt sé í dag.

Ég gaf með vísitölumyndinni áðan nokkra hugmynd um, hvernig verkalýður Íslands lifði 1939 og á árunum þar á eftir, og hann lifði þannig enn þá og verr í árslok 1941 og ársbyrjun 1942. Kjör verkalýðsins höfðu þá farið versnandi frá því 1939, og verkalýðurinn heimtaði kjarabætur. Stærsti atvinnurekandinn á Íslandi var þá útlendur her, og allar þær kjarabætur, sem verkalýðurinn hefði knúið fram, hefðu meira að segja þar að auki þýtt gjaldeyrisávinning fyrir þjóðina. Hvernig leit hæstv. fjmrh. þá á, að þessar kjarabætur, sem verkalýðurinn heimtaði, væru? Hann leit á það eins og nána, að kjarabætur væru stórhættulegar, að það væru ótætis kommúnistarnir, eins og hann kallar það, sem væru að koma öllu af stað í öngþveitið og væru að eyðileggja þjóðfélagið. Það virtist ekki þá frekar en nú komast inn í hans höfuð, að verkamaðurinn gæti sjálfur átt neina minnstu löngun til þess að geta borðað kjöt meira en einu sinni í viku, að þurfa ekki að hafa „tros“ 6 daga vikunnar, að verkamaðurinn vildi gjarnan eiga húsgögn, að verkamaðurinn vildi gjarnan geta keypt sér lök og ver utan um koddana sína, að hann vildi jafnvel geta kostað börnin sín í skóla. Það virtist ekki geta komizt inn í höfuðið á þessum hæstv. fjmrh., að verkalýðurinn hefði eðlilegar lífskröfur til þess að öðlast betri kjör. Nei, það virtist alltaf vera skapað af einhverjum áróðursmönnum, helzt útsendum af erlendu valdi, sem væru að æsa verkalýðinn upp, gera hann óánægðan með þessi prýðilegu lífskjör sín. Að verkalýðurinn hefði áhuga fyrir mánaðarlegri vísitölu eða 8 tíma vinnudegi eða öðru slíku, nei, það gat ekki hugsazt.

Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, hafði þá aðstöðu til þess, ekki aðeins að láta í ljós í orðum, að það væri hættulegt, sem verkamenn væru að heimta, hann hafði líka vald til þess að geta beitt sér gegn því, og hann beitti því valdi. Hann setti þá lög, sem bönnuðu allar kjarabætur verkamanna, sem bönnuðu verkföll, þannig að það lá við í þeim lögum, að ef verkamenn gerðu verkföll, yrðu sjóðir verkalýðsfélaganna gerðir upptækir og foringjar verkalýðsfélaganna dæmdir í fangelsi. Þetta var draumur hæstv. fjmrh., er hann hafði vald til þess að geta fylgt sínum vonum eftir. Þá setti hann lögbann við kauphækkunum, og kjör verkalýðsins voru þá eins og ég hafði lýst þeim áðan. En hvað gerðu verkamenn þá? Þeir brutu þessi lög. Þeir sópuðu burt þessum lögum, sem voru draumsjón Eysteins Jónssonar, og þeir sópuðu burt eymdinni, sem þessi lög áttu að viðhalda hjá þeim. Og afleiðingarnar voru þær, að á árunum á eftir sköpuðu verkamenn sér þolanleg lífskjör, — lífskjör, sem þeir þá héldu alveg fram til 1947, beztu lífskjörin, sem þeir nokkurn tíma hafa búið við.

Og það var ekki nóg með, að þeir sköpuðu sér góð lífskjör. Þeir sköpuðu líka þjóðinni grundvöll að betri lífskjörum. Allt það, sem verkamenn áunnu með skæruhernaðinum 1942, með kauphækkunum þá og 1944 og þar á eftir, skóp allar þær erlendu innstæður, sem við Íslendingar áttum í stríðslok, þær rúmar 500 milljónir, sem við áttum þá. Okkar útflutningur og innflutningur á öllum stríðsárunum stóðst alveg á endum. Það voru rúmar 1200 millj. kr. öll þau árin. Það, sem við áttum í inneignum í stríðslok, stafaði fyrst og fremst af kauphækkunum verkamanna hér innanlands, þeim kauphækkunum, sem hæstv. núverandi fjmrh. ásamt fleirum ætlaði sér að koma í veg fyrir og hann áleit vera þjóðarógæfu. Allt það fé, sem við höfðum til þess að kaupa fyrir okkar nýsköpunartæki í stríðslokin, var skapað fyrst og fremst með þeim kauphækkunum, sem verkamennirnir þá knúðu fram. Þá hafði hæstv. fjmrh. básúnað, eins og hann gerir nú, að verkamenn hefðu ætlað að eyðileggja þjóðfélagið, koma af stað öngþveiti, og þetta væru auðvitað ótætis kommúnistarnir eins og vant væri, og hefði hann haft vald, eins og hann reyndi fyrst að beita þá, til þess að framfylgja sinni pólitík, þá hefði íslenzkum verkalýð verið haldið niðri í sömu fátæktinni og hann bjó við 1939 og þjóðinni í þeirri eymd að geta ekki endurnýjað sín atvinnutæki í stríðslok. Þetta blinda ofstæki hæstv. núverandi fjmrh. á móti kaupkröfum verkalýðsins hefði orðið þjóðarógæfa, ef bak við hann hefði búið nægilegt vald, til þess að hann hefði getað haldið sinni stefnu þá til streitu.

Fyrir sigur verkamanna 1942 hrökklaðist Eysteinn Jónsson, núverandi hæstv. fjmrh., út úr ríkisstj., og hann komst ekki inn aftur fyrr en 1947, þegar ógæfan dundi aftur yfir Ísland. Á þeim tíma, sem hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, hefur verið utan ríkisstjórnar, hefur íslenzkur verkalýður lifað sitt fegursta og affarasælasta skeið. Á þeim tíma hefur hann búið við þau beztu lífskjör, sem hann hefur fram að þessu búið við á Íslandi.

Hafði nú hæstv. fjmrh. lært nokkurn skapaðan hlut, meðan hann var utan ríkisstjórnar? Nei, og það skal ég að vissu leyti segja honum til heiðurs, að það er nákvæmlega sama afturhaldið hjá hæstv. fjmrh., þá sjaldan sem hann á þessum síðustu áratugum á Íslandi hefur verið utan við ríkisstj., eins og þegar hann hefur verið í henni. Ég skal alveg viðurkenna þann heiðarleika hjá honum.

1944 gerðu verkamenn kauphækkunarkröfur aftur, og það kom aftur til átaka, þar sem núverandi hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, kom við sögu. Í sept. 1944 vofðu yfir verkföll, og á sama tíma komu fram nýsköpunartillögur Sósfl. Hvaða afstöðu tók hæstv. fjmrh. þá? Hann heimtaði kauplækkun. Hann stóð jafnvel með því, þegar tilraun var gerð til þess af utanþingsstjórninni í sept. 1944 að lögbjóða kauplækkun. Og hvaða afstöðu tók hann til þeirra till., sem Sósfl. þá flutti fram um að nota erlendu innstæðurnar til þess að byggja upp atvinnulífið? Ja, ég veit ekki nema menn séu kannske farnir að gleyma þeirri afstöðu, sem hæstv. fjmrh. þá tók. Það gerir máske ekki til a. m. k., þó að hún sé rifjuð upp. Þá vofðu yfir verkföll alveg eins og nú. Og þá sat samninganefnd að störfum um að reyna að koma á ríkisstjórn. Og hver var afstaðan, sem hæstv. fjmrh., sem nú er, og hans blað, Tíminn, tóku á þeim tíma? Ég ætla að leyfa mér að vitna ofur lítið í hann, bara til þess að menn sjái, að það er sami söngurinn sem þá kvað við eins og núna. 15. september sagði þá Tíminn í ritstjórnargrein undir fyrirsögninni „Friðarskraf kommúnista“ eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkföllin, sem nú standa yfir eða eru í undirbúningi, eru nýjasta sönnun þess, að kommúnistar meina ekkert með friðar- og samningsskrafi sinu, heldur vinna markvíst að upplausn og eyðileggingu ríkjandi þjóðskipulags með öllum athöfnum sínum. Friðar- og samningaskrafið er aðeins ætlað til að reyna að dylja þennan raunverulega tilgang.“

29. september 1944 birtist mikil grein í Tímanum undir fyrirsögninni „Friðarvilji kommúnista í verki“:

„Þeir halda áfram verkföllunum og magna kauphækkunarbaráttuna. Hvað lengi á marklaust friðarskraf þeirra að tefja viðræðurnar um stjórnarmyndun?“

Þetta er söngurinn og þannig áfram, þegar verið var að semja milli fjögurra flokka hér í þinginu þá um þær till., sem sósíalistar höfðu lagt fyrir, og um þær vinnudeilur, sem þá stóðu yfir eða vofðu yfir. Og svar hæstv. fjmrh. og þess hluta af Framsfl., sem hann réð þá, var, að það, sem þá yrði að gera, væri að lækka kaupið, og ekki að tala um að semja um neina kauphækkun og því síður um ríkisstjórn. Í grein, sem Eysteinn Jónsson skrifaði í Tímann 4. nóv., þegar prentaraverkfallinu var lokið og nýsköpunarstjórnin komin á, var hann mjög að gera gys að stjórnarmynduninni og lýsa því hruni, sem í vændum væri, og sagði, að það væri hlægilegt að gefa mönnum kost á að kaupa gjaldeyri til að auka atvinnureksturinn „við þessi glæsilegu skilyrði“, sagði hann í háðsskyni, — og segir:

„Þetta á að gerast nú rétt í stríðslokin, þegar svo að segja dag hvern er von á lækkuðu útflutningsverði.“

Og síðan, 7. nóv., staðfestir Tíminn áfram þetta með því að segja:

„Það eina, sem hægt er að gera raunhæft og mikilvægt fyrir útgerðina, er að lækka kaupgjaldið og verðlagið.“

Með öðrum orðum: Öllum till. verkalýðsins um bætt kjör fyrir sig og stórkostlegasta átaki þjóðarinnar til þess að bæta hennar lífskjör til frambúðar var svarað með því einu: Það verður að lækka kaupgjaldið, svo að segja hvað sem það kostar. — Og það hafði greinilega komið í ljós líka hjá Tímanum þá áður, að Framsfl. fannst hann þurfa að stappa stálinu í atvinnurekendur. 21. júlí 1944 sagði Tíminn í ritstjórnargrein, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef til andstöðu atvinnurekenda kæmi, mundu líka skapast verkföll og ófriður í þjóðfélaginu, sem yrði atvinnulífinu til mikils trafala. Þó er vafalaust, að slíkur ófriður væri þjóðfélaginu ekki skaðlegri en þetta algera undanhald atvinnurekenda í kaupgjaldsmálunum.“

Og þannig gæti ég haldið áfram endalaust. Þetta var afstaðan 1944 hjá Eysteini Jónssyni, hæstv. núverandi fjmrh., þegar fyrir lágu frá verkamönnum annars vegar kröfur um nokkra kauphækkun, hins vegar tillögur um svo stórfellda breytingu á íslenzku atvinnulífi, að það gæti borið ekki aðeins þá kauphækkun, heldur líka kauphækkanir í framtíðinni. Inn í koll Eysteins Jónssonar komst ekkert annað en að þetta væri allt saman hrekkjabrögð og vélabrögð kommúnista, að þetta miðaði allt saman að því að eyðileggja þjóðfélagið. Og út frá þessu tekur hann þessa fjandsamlegu afstöðu gegn því og lætur í blaði sínu boða atvinnurekendum það, að þeir skuli nú vera sem harðsvíraðastir, bara ekki láta undan verkamönnum, bara ekki semja við verkamenn, það geri ekkert til, þó að atvinnulífið stöðvist í einn mánuð, tvo mánuði, sex mánuði, það geri ekkert til, þó að þjóðin verði að éta út allar útlendu innstæðurnar, sem hún átti þá, meðan hún stæði í vinnudeilunum hérna innanlands. Álit þetta átti að leiða yfir þjóðina út frá þessu sama blinda ofstæki. Meira að segja sjálft orðalagið í sumu af þessu kom þannig fram eins og hann gerði sér stundum vonir um, að það væri lækkandi útflutningsverð, sem Íslands biði, þannig að það gæti ekki sýnt sig, að sú trú, sem við þá höfðum á hækkandi útflutningsverði, ætti við rök að styðjast, sem reyndist þó vera það rétta. M. ö. o.: Ef hæstv. núverandi fjmrh. hefði með þessu blinda ofstæki sínu gagnvart kaupkröfum verkamanna fengið að ráða þá, þá hefði Ísland misst af öllum þeim möguleikum, sem það þá hafði til þess að skapa sér öruggan efnahagslegan grundvöll með þeirri nýsköpun sjávarútvegsins, sem þá var framkvæmd. En gæfa þjóðarinnar var það mikil á þeim tíma, að Eysteinn Jónsson svo að segja vék sjálfum sér til hliðar, fór út úr íslenzkri pólitík í svipinn, tilkynnti 3. okt. hinum þrem flokkunum, að hann væri hættur öllum tilraunum til samninga, og bauð nokkru seinna Sjálfstfl. upp á að mynda ríkisstj. með honum einum, þar sem Framsfl. eðlilega minntist ekki á neina nýsköpun sjávarútvegsins eða neitt slíkt. Þá dæmdi hæstv. núverandi fjmrh., Eysteinn Jónsson, Framsfl. út úr íslenzkri pólitík í sinni blindu trú á hrunið, í sínu ofstæki gegn kauphækkunarkröfum verkamanna. Þá brauzt Framsfl. frá sókn hinna vinnandi vega, og ég býst við, að seinna meir hafi sá flokkur máske séð það, að hann gerði einhverja mestu pólitíska vitleysu, sem hann hefur gert á sinni ævi. En íslenzkur verkalýður aftur á móti gekk þá braut, sem var þjóðinni til heilla, og skapaði sjálfum sér þau beztu lífskjör, sem hann hefur átt við að búa.

En hvað var það, sem hæstv. núverandi fjmrh. vildi í september 1944 og október 1944? Hann vildi þá mynda stjórn með Sjálfstfl. um að lækka kaupið, um að fara í allsherjar stéttabaráttu hér á Íslandi. Þetta mistókst. Það tókst að koma á sættum milli atvinnurekenda og verkamanna. Og það tókst með samstarfi af þeirra hálfu að leggja grundvöll að miklu framfaraskeiði í sögu íslenzks atvinnulífs. Núna prédikar hæstv. fjmrh. nákvæmlega sama ófriðinn og eyðilegginguna og hann vildi koma á þá. Nú er tekin nákvæmlega sama fjandsamlega afstaðan gagnvart öllum kaupkröfum verkamanna. Nú er sagt, að allar þessar kaupkröfur verkamanna séu ekkert annað en tilraunir frá hálfu Sósfl. til þess að koma þjóðfélaginu í öngþveiti. Er nú ekki hv. Alþ. búið að sjá á þessum undanförnu áratugum nógu rækilega, hvernig þessi árátta hjá hæstv. fjmrh. leiðir til ófarnaðar, ef hann hefur vald til þess að koma henni í framkvæmd, en ef hann fær ekki að ráða í þessum efnum, hvernig hægt er þá að tryggja batnandi lífskjör verkalýðsins, öruggan efnahagslegan grundvöll þjóðarinnar og vinna að því, sem mun sýna sig að vera gæfa fyrir allt þjóðfélagið? Ef hæstv. fjmrh. gæti gert sér sjálfur grein fyrir því, væri það gott, en a. m. k. er tími til þess kominn, að Framsfl. fari að gera sér grein fyrir því: Kemur Framsfl. til með að dæma sig út úr íslenzkri pólitík með tímanum með svona afstöðu gagnvart verkalýðnum?

Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, talaði af nokkru yfirlæti út af því, sem hv. 3. landsk. (HV) talaði um Hitler, hvað óviðeigandi væri að hafa nokkurn samanburð í þeim efnum. En finnur ekki hæstv. fjmrh. sjálfur, að bakterían, sem eitrar honum allt útsýni í íslenzkum stjórnmálum, er ein af þeim, sem runnar eru frá nazismanum og blinduðu Hitler og þá, sem réðu þýzku þjóðinni, þessi starblindi andkommúnismi að sjá djöfulinn í hverju horni og hans vélabrögð í hverri viðleitni verkalýðsins til bættra lífskjara, þessi óforbetranlega, ofsatrúarkennda blindni og ofstæki, sem sviptir menn allri rökréttri hugsun? Svona afstaða leiðir hvern flokk, sem er heltekinn af henni, fyrr eða seinna til pólitísks sjálfsmorðs. Ég vil vara Framsfl. við því að láta svona afstöðu, sérstaklega ef hún er athuguð í ljósi staðreyndanna frá undanförnum áratugum, ráða gerðum sínum nú. Það á ekki að heyrast, að þeir staðlausu stafir, sem hæstv. fjmrh. hefur leyft sér að hafa um hönd hér í þessum umr., heyrist á þessum vettvangi, og það ætti sízt af öllu að koma fyrir með hliðsjón af þeirri reynslu, sem við þegar höfum í þessum efnum. Þetta vildi ég segja út frá því, sem hæstv. fjmrh. sagði, af því að ég veit, að það er þessi firra, sem hefur markað afstöðu haus gagnvart þessum vinnudeilum, sem nú eru, og meðan slíkri firru er haldið og hún er hjá ráðandi mönnum, þá er ómögulegt að finna neina lausn af skynsemi.

Þá skulum við koma að þeirri spurningu, sem eðlilega kemur hvað eftir annað inn í þessa umr., og það er spurning, sem hæstv. forsrh. alveg sérstaklega hefur komið með hvað eftir annað. Það er spurningin um gjaldeyrinn og gengi íslenzku krónunnar.

Fyrsta málið, sem við verðum að rannsaka í þeim efnum, er: Hlýtur gengi íslenzku krónunnar að falla, ef laun verkamanna eru hækkuð? Og við verðum að reyna að kryfja það til mergjar í þessu sambandi, á hverju íslenzkur gjaldeyrir byggist og hans gengi og hvernig hann verður bezt tryggður. Það hefur verið talað mikið um hótanir í þessu efni, um hótanir m. a. frá hæstv. forsrh., og sagt, að hann hafi verið með hótanir um að lækka gengið, ef kaup yrði hækkað. Slík hótun er alls ekki frá hæstv. forsrh. Slík hótun er upprunalega fram komin frá allt öðrum og jafnvel voldugri aðilum. Í frv. til laga um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o. fl., sem lagt var fyrir Alþ. 1950, í 2. gr., eins og það frv. var lagt fyrir, er svo hljóðandi ákvæði, eftir að í 1. gr. er ákveðið, hvernig gengið skuli vera; þar stendur í síðari málsgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Landsbanka Íslands er skylt að taka sérstaklega til athugunar gengisskráningu íslenzkrar krónu, þegar almenn breyting verður á kaupgjaldi, önnur en sú, sem kveðið er á um í þessum lögum. Skal bankinn, svo fljótt sem kostur er, gera ríkisstjórninni grein fyrir niðurstöðum sínum.“

Þarna kom fyrsta hótunin fram um að tengja gengi íslenzks gjaldeyris við launabreytingar innanlands. Þetta frv. var samið af amerískum sérfræðingi. Þetta frv. var sent til þáverandi hæstv. ríkisstjórnar frá Ameríku með dr. Benjamín Eiríkssyni, og þessi grein sýndi vilja Alþjóðabankans, Efnahagsstofnunarinnar og þeirra aðila, sem um þetta höfðu fjallað. Hún sýndi vilja þeirra til að tengja gengi íslenzks gjaldeyris við laun verkamanna á Íslandi. Þarna var hótunin beint sett fram. Þarna átti að taka valdið af Alþ. að ákveða gengið, flytja það yfir í Landsbankann og fyrirskipa landsbankastjórninni að taka það til endurskoðunar í hvert skipti, sem launabreyting yrði hér heima. M. ö. o.: Ameríska auðvaldið, sem á bak við þetta stóð, gerði kröfu til þess, að svo framarlega sem íslenzkir verkamenn hækkuðu sitt kaup, þá skyldi gengi íslenzkrar krónu verða lækkað. Og þetta ameríska auðvald, sem gerði þessa kröfu í þessu frv. þá, var það sama auðvald sem var að búa sig undir að verða stærsti atvinnurekandi hér á Íslandi, það sama auðvald sem var þá orðið og er enn stærsti viðskiptavinur Íslands. Það var sá aðili, sem annars vegar sem komandi atvinnurekandi hafði mesta hagsmuni af því að halda niðri kaupgjaldi íslenzkra verkamanna og lækka gengi íslenzku krónunnar, og hins vegar sá aðili, sem selur eins mikið til Íslands og hann gerir, hafði mesta hagsmuni af því, að íslenzka krónan væri sem lægst, en dollarinn sem hæstur.

Þarna koma í fyrsta skipti fram þessar hótanir, sem síðan er oft verið að tala um. Þá var verið að taka upp þá efnahagspólitík á Íslandi, sem raunverulega efnahagssamvinnan svokallaða, Marshallsamvinnan, hefur byggzt á. Þá var verið að byrja á að framkvæma þá stefnu, þ. e. burt með allar hömlur á auðsöfnun einkaaðilanna, burt með allar hömlur á auðsöfnun auðmannanna, frjálsa braut fyrir gróðaþorstann, en um leið engar kauphækkanir hjá verkamönnum. Og svo framarlega sem átti að verða kauphækkun hjá verkamönnum, þá átti að svara með gengislækkun.

Þessi grein, sem Ameríkanarnir höfðu sett inn í gengislækknnarfrv., komst ekki í gegn hér á Alþingi. Alþ. vildi ekki algerlega missa valdið yfir þessu. En er þessi forsenda, sem þarna var byggt á og kemur stundum fram enn þá, rétt; er það rétt, að gengi íslenzku krónunnar verði að falla, ef kaupgjaldið hækkar? Þetta er rangt. Á hverju byggist gengi íslenzks gjaldeyris? Það byggist á því, að afköst framleiðslunnar séu mikil, alveg sérstaklega framleiðslunnar fyrir útflutninginn. Það byggist á því, hve mikið við framleiðum til útflutnings og hvaða verð við fáum fyrir þær afurðir, sem við flytjum út. Og það byggist á því, hvaða hóf og hvaða hagsýni þau máttarvöld, sem stjórna innflutningnum til landsins, sýna í sínum innkaupum fyrir þjóðina. M. ö. o.: Hér á okkar landi eru þess vegna aukin afköst í sjávarútveginum, þ. e. margir togarar og fleiri togarar, margir vélbátar og fleiri vélbátar, hraðfrystihús og fleiri hraðfrystihús, höfuðundirstaðan undir öruggum gjaldeyri og undir velmegun almennings.

Hitt spursmálið, hvernig verkamenn og auðmenn eða aðrir aðilar innanlands skipta andvirði hinnar seldu vöru á milli sin, er algert innanlandsmál, sem hefur engin bein áhrif á gengi krónunnar. Þetta er atriði, sem við verðum að gera okkur ljóst, og þetta er atriði, sem mér finnst satt að segja liggja alveg í augum uppi. Það, að við rækjum allan okkar útflutning án þess að hafa t. d. nokkra auðmenn í landinu, að verkamenn ættu þetta allt saman sjálfir og rækju það með samvinnusniði, þjóðnýtingu eða hvernig sem þeir vildu, væri vel mögulegt. Það væri líka mögulegt fyrir auðmennina, ef þeir væru sterkir, að halda niðri kaupi verkalýðsins og hafa það mjög lágt, en verðið á útflutningsafurðunum, magnið, sem flutt er út, og annað slíkt væri það sama, allt eftir því, hvers konar efnahagspólitík væri rekin.

Það, hvernig verkamenn og auðmenn skipta á milli sín afrakstrinum af vinnunni, er innanlandsmál. Það er mál, sem við gerum upp hér okkar á milli. En gjaldeyrisframleiðsla og gengi okkar krónu byggist á því, að við aukum okkar útflutning nógu mikið, að við einbeitum okkur af því að geta framleitt til útflutnings, að við höfum afköstin þar sem mest, að við högum okkur skynsamlega í innflutningnum og að við getum um leið sem allra skynsamlegast hvað vinnuafl snertir og tæki framleitt hér innanlands það, sem eðlilegast er að framleiða hérna innanlands, — eðlilegast frá sjónarmiði þjóðarbúskaparins, ekki endilega alltaf gróðavænlegast frá sjónarmiði eins einstaklings.

Þegar við tölum um að undirbyggja gengi okkar íslenzku krónu, þá hefur það mikla þýðingu fyrir okkur, hvort við hindrum t. d., að það verði verkfall eða verkbann í heilan mánuð. Við vitum, að t. d. á vertíðinni framleiðum við a. m. k. 3 millj. kr. á dag eða meira. Á heilum mánuði getum við tapað 90–100 millj. kr., ef við stöndum í allsherjarverkföllum og verkbönnum. Þó að við hækkuðum um 100 millj. kr. til verkamanna kaupgjaldið innanlands, án þess að nokkur verkföll yrðu, þá gæti þjóðin staðið sig við það, en hitt væri beint tjón fyrir hana. Ef framleiðslan fellur niður hjá okkur, ef atvinnutækin stöðvast um lengri tíma, við skulum segja eins og var núna í Vestmannaeyjum í vetur, þá rýrir það okkar gjaldeyri, þá falla burt kannske 25, kannske 30 millj. kr., sem við gátum framleitt í útlendum gjaldeyri. Það veikir íslenzku krónuna, hitt ekki, þótt þessar 25–30 millj. kr. hefðu farið til íslenzkra verkamanna sem aukið kaupgjald. Ef við ræðum þetta af einhverju viti og sanngirni, þá hljótum við að geta komið okkur niður á þetta, og þá kemur í ljós, að það er alger villukenning og vitleysa, að kaupgjald íslenzkra verkamanna og gengi íslenzku krónunnar þurfi að breytast saman eða fara saman.

Við verðum að geta gert okkur grein fyrir, hvað er grundvöllurinn, sem við byggjum okkar íslenzka gjaldeyri á. Til þess að vernda gjaldeyrinn, til þess, eins og hæstv. forsrh. komst að orði, að slá skjaldborg um íslenzku krónuna og tryggja um leið hagsmuni íslenzks almennings, þurfum við að efla útgerðina, auka sjávarútveginn, fjölga togurunum og vélbátunum, samtímis því sem við aukum aðrar heilbrigðar atvinnugreinar, og þetta hlýtur að vera verkefni hverrar góðrar ríkisstj., að tryggja, að fjármunir þjóðarinnar séu fyrst og fremst festir í því, sem þjóðarþarfir heimta. Ríkisstj., sem ætlar að undirbyggja jafnt gengi krónunnar og velferð landsmanna, hlýtur þess vegna að haga efnahagsmálum þjóðarinnar þannig, að menn hafi áhuga og helzt líka hag af því að leggja fé í togara, í vélbáta, í hraðfrystihús og annað, sem þjóðinni er nauðsyn á, en síður í annað, sem henni er ekki eins mikil þörf á. Hvernig hafa nú þær ríkisstj., sem setið hafa að völdum á síðustu árum, rækt þessa skyldu hverrar góðrar ríkisstj.?

Hæstv. fjmrh. og hæstv. dómsmrh. sögðu báðir, að aldrei hefði meiri fjárfesting farið fram en nú á þessum síðustu árum, sem sérstaklega hafa eiginlega markazt af þeirra samvinnu og þeirra sameiginlegu áhrifum í íslenzkri pólitík. En það er ekki nóg, að það sé bara mikil fjárfesting. Það er ekki sama, í hverju fjárfestingin fer fram. Það er ekki sama, hvort fé er fest í milljóna króna birgðum af óseljanlegum „gæjabindum“ eða einhverjum tízkuvörum eða hvort það er fest í togurum. Það er ekki sama, hvort fé er fest í því að útbúa einhverja fína „bara“ hérna í Reykjavík, sem kostar kannske ½ millj. kr. að innrétta eða slíkt, eða hvort það er fest í vélbátum. Það er ekki sama, hvort fé er fest í „lúxusbílum“ eða hvort það er fest í hraðfrystihúsum.

Síðustu 6–7 árin hefur það verið pólitík þeirra ríkisstj., sem hafa setið að völdum á Íslandi, að gefa hamslausri gróðalöngun einstakra manna lausan tauminn á efnahagssviðinu og láta þessa gróðalöngun ráða fjárfestingunni að mestu leyti, en þjóðfélagslegu viti og fyrirhyggju um þjóðarþarfir hefur ekki verið leyft að komast að nema í hverfandi litlum mæli. Í þessi 6–7 ár hefur okkar efnahagslíf og alveg sérstaklega útflutningurinn þess vegna byggzt á þeim framleiðslutækjum, togurum, vélbátum, hraðfrystihúsum og öðru slíku, sem keypt voru á árunum 1944–48, og af þeim máttarvöldum verzlunarauðvaldsins, sem hafa stjórnað á þessum tíma, hefur verið litið á sjávarútveginn eins og mjólkurkú, sem hefur jafnan verið svo þurrmjólkuð og svelt, að það hefur legið við, að hún hafi næstum drepizt, næstum kiknað. En það varð þó að hindra, að þessi mjólkurkýr dræpist alveg, því að það var hún, sem skapaði allan gjaldeyrinn, sem verzlunarauðvaldið og bankarnir höfðu allan sinn gróða af. Og einungis að svo miklu leyti sem verzlunarauðvaldinu og bankayfirvaldinu var þetta nauðsynlegt, var sjávarútveginum haldið uppi, alltaf á heljarþröminni.

Meðan verkalýðurinn hafði áhrif á ríkisstjórn á Íslandi á árunum 1944–47, á meðan báðir verkalýðsflokkarnir sátu í stjórn með núverandi hæstv. forsrh. sem forsætisráðherra, voru unnin stórvirki í því að efla sjávarútveginn, í því að leggja grundvöll að gengi íslenzku krónunnar, í því að tryggja framtíðargrundvöll íslenzks gjaldeyris og velmegunar landsins. Hæstv. dómsmrh. talaði nú að vísu að nokkru leyti fagurlega um það tímabil, en vildi auðsjáanlega frekar fara að draga úr því. Það er náttúrlega dálítið skiljanlegt, það er ekki von, að honum finnist að öllu leyti gott, að 32 af þeim togurum, sem við nú byggjum okkar efnahagslíf á, og meginið af þeim vélbátum, sem við byggjum á, skuli hafa verið keypt inn þá, og hann minntist nokkuð á þá 10 togara, sem keyptir voru 1948, og vildi nú reyna að tileinka Framsókn að einhverju leyti heiðurinn af því, hún hefði verið að batna það mikið, að það hefði a. m. k. verið hægt að fá hana til að kaupa dýrari togara, þótt seint væri, heldur en ódýrari áður. Ég er nú hræddur um, að hæstv. dómsmrh. hafi verið að ræna fjöðrunum frá þeim, sem frekar áttu þær. Það var held ég áreiðanlega sjútvmrh. þáverandi hæstv. ríkisstj., Emil Jónsson, sem tilkynnti fyrst um þau kaup í ræðu, sem hann hélt á sjómannadaginn, og ég er hræddur um, ef ég þekki mína Framsókn rétt, að hún hafi ekki verið farin að breytast neitt, og hæstv. núverandi fjmrh. hafi þá enn þá skoðað togarana sem „gums“ eins og áður. En hitt getur verið, að Austfirðingar hafi verið farnir að gera nokkuð sterkar kröfur, þannig að þingmaðurinn í honum hafi verið farinn að láta eitthvað undan.

En það kom fram í sambandi við þau togarakaup, sem fram fóru 1948, kaupin á þeim 10 togurum, sem voru eitt á þeim óskalista, sem ríkisstj. þá setti upp, þegar Marshall-samstarfið byrjaði, að Alþjóðabankinn og Ameríkanarnir voru á móti þessum togarakaupum, að Marshallstofnunin og þeir neituðu að veita fé að láni til þess að kaupa þessa 10 togara. Seinna kom í ljós, þegar till. dr. Benjamíns Eiríkssonar voru lagðar fram, þær sem ég gat um áðan, að hefðu þær till. gilt hér á Íslandi 1944, hefðu aldrei verið keyptir þeir 32 togarar, sem þá voru keyptir, það hefðu aldrei verið keyptir meira en máske í hæsta lagi sex. M. ö. o.: Afstaða þeirra amerísku máttarvalda, sem tóku við efnahagsstjórninni á Íslandi á bak við tjöldin þá, var, að Íslendingar ættu ekki að festa fé í togurum, að íslenzka þjóðin ætti ekki að efla sinn sjávarútveg, að hún ætti að sleppa því að kaupa togarana, sem keyptir voru 1948, þá tíu, að hún hefði ekki heldur átt að kaupa hina, m. ö. o. það, sem ég hef reynt að sýna fram á að er grundvöllurinn að gjaldeyri Íslendinga og gengi þess gjaldeyris, grundvöllurinn að velmegun þjóðarinnar. Þessi amerísku máttarvöld voru á móti því, að það væri gert. Hvernig stóð á því? Ég skal ekki fara að gera því neinar getsakir, en ég skal fullyrða, að þeir hafa verið á móti því að skapa öruggan gjaldeyri, öruggan grundvöll að íslenzka gjaldeyrinum og að þetta ameríska auðvald hefur viljað gera íslenzka gjaldeyrinn háðan hernaðarvinnunni einvörðungu, eins og hefði orðið, ef við hefðum aldrei keypt nýsköpunartogarana 1945 og ekki haldið áfram með það 1948. Og þá getum við séð nokkurn veginn heildarmyndina af þeim áhrifum, sem hafa komið til greina á íslenzkt efnahagslíf á síðustu 6–7 árum, þegar það ameríska auðvald, sem þarna hefur getað beitt sínum áhrifum, hefur lagzt á móti togarakaupunum, hefur neitað stjórninni, sem sat hér 1948, um lán til þess að kaupa togara, og hefði þessari pólitík ameríska auðvaldsins verið fylgt út í æsar bæði 1945 og 1948, þá hefði það þýtt, að íslenzkur gjaldeyrir væri eingöngu kominn undir hernaðarvinnunni svo að segja, og hefði þessum lögum, eins og ameríska auðvaldið lagði þau fyrir, verið framfylgt, þá hefði þar að auki gengi íslenzks gjaldeyris verið lækkað jafnóðum sem kaupið við hernaðarvinnuna hefði verið hækkað, þannig að það hefði alltaf komið út á það sama fyrir það ameríska auðvald. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu, vegna þess að 1945 vorum við að skapa sjálfstæðan efnahagslegan grundvöll fyrir íslenzkt atvinnulíf og fyrir velmegun íslendinga, en 1947 og 1948 var að seilast hér til áhrifa óheillastefna amerískra auðmanna, sem auðsjáanlega hefði, ef hún hefði haft vald til þess, kippt grundvellinum undan efnahagslífi Íslendinga og gert íslenzkan gjaldeyri og gengi hans háðan sér einvörðungu og þeirri vinnu, sem hún stofnaði hér til.

Til allrar hamingju, eins og ég hef oft tekið áður fram, var sú gæfa með okkur 1945 og áhrif þeirrar stefnu, sem þá var tekin upp, það rík enn þá 1948, meðan togararnir streymdu hér inn nýir hver á eftir öðrum, að það tókst að skapa þó þennan grundvöll, og ég vona, að öllum þm. sé það ljóst í dag, að helmingurinn af öllum þeim útflutningi, sem Ísland nú hefur, er togurunum einum að þakka, og að helmingurinn af öllum þeim gjaldeyri, sem þjóðin og bankarnir og heildsalarnir hafa til þess að vinna úr, er togurunum einum að þakka. En síðan 1948 hefur verið vanrækt að halda þessu áfram. Síðan 1948 hefur verið vanrækt að halda þessum togarakaupum áfram. Og skyldi það ekki að neinu leyti standa í sambandi við það, að það hefur komizt til áhrifa á íslenzkt atvinnulíf okkur fjandsamleg stefna, fjandsamlegt erlent vald, sem stendur á móti því, að við Íslendingar getum byggt upp sjálfstæðan efnahagsgrundvöll fyrir okkar lífi, fyrir okkar velmegun?

1944–47 var fjárfesting Íslendinga skynsamleg og hagsýn, svo langt sem áhrif verkalýðshreyfingarinnar náðu, og ég vil út af því, sem hæstv. dómsmrh. var að tala um, hve mikið væri byggt nú á síðasta ári hér, minna hann á, að enn þá stendur árið 1946 með fleiri fullgerð hús á einu ári heldur en árið 1954. Enn þá er það svo, að á þeim árum var byggt meira á Íslandi en byggt hefur verið á nokkru ári síðan. Verkalýðurinn hefur öll þessi 6–7 síðustu ár lagt til, að haldið væri áfram nýsköpun sjávarútvegsins, að nýir togarar væru keyptir, að vélbátar væru byggðir og annað slíkt, en ríkisstjórnirnar hafa hindrað það. Þær hafa vanrækt að styrkja eins og hægt hefði verið undirstöðu íslenzks atvinnulífs og þar með undirstöðu íslenzks gjaldeyris, þó að á mörgum sviðum hafi orðið framfarir; því ætla ég alls ekki að neita.

Það er þess vegna á ábyrgð þessara ríkisstjórna, hvernig er komið viðvíkjandi því, að meginhlutinn af allri gjaldeyrisframleiðslu Íslendinga skuli enn þá verða að byggjast á togurunum, sem keyptir voru inn 1945–48. Verkalýðurinn getur ekki tekið að sér að bera byrðarnar, bera afleiðingarnar af þessari pólitík. Þær verður auðmannastéttin sjálf að bera af hennar vanrækslu á þessum síðustu 6–7 árum. Það, sem er að bíða skipbrot í dag á Íslandi, er efnahagspólitík þessara 6–7 ára. Það er sú tilraun, sem var gerð, sumpart af hagfræðingum, sem lítið vit höfðu á þörfum íslenzks atvinnulífs, til að yfirfæra á okkar íslenzku staðhætti, til að yfirfæra á okkar unga þjóðfélag, sem er í örum vexti, efnahagspólitík gamalla, ríkra, staðnaðra auðvaldsþjóðfélaga, - – yfirfæra á okkar þjóðfélag efnahagspólitík, sem var í þágu slíkra auðvaldsríkja, en hvorki átti við okkur né var í okkar hag.

Við skulum nú athuga á grundvelli þessa, sem ég nú hef rætt, kröfur verkalýðsins í dag til bættra lífskjara, þær réttlætiskröfur, sem verkamenn nú gera um bætt kaup. Við hæstv. dómsmrh. erum yfirleitt ekki sammála um margt, en einstaka sinnum erum við þó sammála. Við erum sammála um það, að bætt lífskjör þurfi að rísa upp á grundvelli aukinnar framleiðslu. Hæstv. dómsmrh. var að prédika yfir mér um þetta. Hann þarf nú ekki að kenna mér mikið í því. Ég held ég hafi alveg eins reynt máske að kanna honum einhvern tíma. En um þetta erum við þó a. m. k. sammála. En það er ekki sama, hvernig sú aukna framleiðsla er. Sú aukna framleiðsla, sem gefur grundvöll að bættum lífskjörum, þarf að vera aukin framleiðsla á þeim sviðum, þar sem vinnuaflið gefur mest af sér, þar sem íslenzkur verkamaður eða verkakona afkastar mestu úr íslenzkum auðlindum með því að vera sett til að vinna við það. Það er ekki sama, hvort íslenzkur sjómaður dregur á einum togara 70 tonn, máske upp í 200 tonn, eins og á beztu togurum, á ári úr sjó, og menn geta unnið úr þessum íslenzku auðlindum, þessum íslenzku auðsuppsprettum í landi og gert þetta að dýrmætri vöru til að flytja út, eða hvort sami maður pakkar inn andlitspúðri úr stórum poka í lítinn bauk. Það er ekki sama. Ef við ætlum að byggja upp okkar þjóðfélagslíf, þá verðum við að ráðstafa okkar vinnuafli þar, sem það gefur mest af sér fyrir þjóðfélagið í heild, — ekki þar, sem það kann að gefa einhverjum, sem kaupir þetta fyrir það, svo og svo margar krónur út frá einhverri sérstakri aðstöðu í þjóðfélaginu á því augnabliki.

Við höfum hag af að framleiða þær afurðir, sem við seljum og fáum gjaldeyri fyrir. En við höfum ekki hag af að hrúga hér upp því, sem er óseljanlegt, eða kaupa inn það, sem er óseljanlegt. Og við hæstv. dómsmrh. erum sammála um, að stórfenglegustu ráðstafanir íslenzkrar sögu, sem gerðar hafa verið til slíkrar aukinnar, praktískrar framleiðslu, hafi verið gerðar á árunum 1944–46. Og við erum þá vonandi líka sammála um, að þessar stórfelldu ráðstafanir lögðu eðlilegan efnahagslegan grundvöll að bættum lífskjörum. Og nú segir hæstv. dómsmrh. og aðrir ráðh. með honum, að síðan 1947 hafi líka orðið gífurleg aukning á framleiðslunni. Hvað sú aukning hefur orðið, hefur verið undir stefnu ríkisstjórnarinnar komið. Við skulum þá gera ráð fyrir, að í fyrsta lagi hafi á grundvelli stefnunnar 1944–46 skapazt mjög mikill og góður grundvöllur fyrir bætt lífskjör íslenzkrar alþýðu, og við skulum segja, að síðan 1947 hafi líka farið fram mikil aukning framleiðslunnar, þó að við séum máske ekki alveg sammála um, hvort henni hefur verið beint alls staðar inn á réttar brautir. 1947, í desember, stendur verkalýðurinn í hámarki þeirra lífskjara og þeirra launa, sem hann hefur haft. 1947 eru raunveruleg laun verkalýðsins á Íslandi, miðað við 1939, um 50% hærri. Ef við setjum 1939 sama sem 100, þá verður í desember 1947 hvað kaupmátt tímakaupsins snertir sama sem 56. Það er hámarkið, sem verkalýðurinn þá hefur náð. Og nú skulum við skjóta fram þeirri spurningu: Þoldi íslenzka þjóðfélagið í desember 1947 þessi launakjör verkalýðsins? Já, íslenzka þjóðfélagið þoldi þessi launakjör. Meira að segja Framsfl. hélt því fram, að þá, þegar verkalýðurinn hafði þessi launakjör, hafi auðmannastéttin í Reykjavík grætt þannig, að hún hafi aldrei grætt annað eins. Og Framsfl. hélt því fram, að það hefði verið stórgróði hjá auðmannastéttinni á þessum tíma. Ein aðaládeila Framsfl. á öllum þessum árum á okkur sósíalista var: Þið létuð auðvaldið græða allt of mikið. — Og það vill líka svo til, að við höfum staðreyndir frá des. 1947 um, hvort íslenzka auðmannastéttin þoldi það kaupgjald, sem verkalýðurinn hafði þá. Eignakönnunin fór fram í þeim mánuði, og það sýndi sig þá, að 100 ríkustu menn og félög í Reykjavík áttu 88 millj. kr. þá í skuldlausum eignum, eins og talið er fram til skatts. Og það er vaninn hjá hagfræðingunum að tólffalda þessa tölu, vegna þess að þarna er átt við fasteignamat og fasteignamatið er jafnvel oft allt að því tvítugfaldað, þannig að ef maður bindur sig við þessa tölu, þá áttu 100 ríkustu menn og félög í Reykjavík 1056 millj. kr. í skuldlausum eignum. Eignasöfnunin hafði verið gífurleg. Og samt var ástandið þannig þá, að 1/10 hluti Reykvíkinga átti meiri hlutann af allri skattskyldri eign og 100 skattskyldir Reykvíkingar áttu 14% af allri skattskyldri eign, en 2/3 Reykvíkinga áttu þá ekki svo mikið, að þeir kæmust í eignarskatt. M. ö. o.: Það er engum efa bundið, að launakjör verkalýðsins í desember 1947, þau hæstu sem hann nokkurn tíma hefur haft, voru ekki nema hófleg hvað það snerti, að auðmannastéttinni var eftirskilinn mikill gróði og að gífurleg auðsöfnun hafði farið fram. Og þetta er eiginlega eina árið, þar sem við höfum það skjalfest, hve mikil auðsöfnun íslenzkra auðmanna var, vegna þess að eignakönnunin fór fram í lok þess árs. Síðan 1947 — og þar vorum við sammála, ég og hæstv. ráðherrar, sem talað hafa — hefur þjóðarframleiðslan í heild aukizt og aukizt stórum. Síðan 1947 hafa allir nýsköpunartogararnir og öll nýsköpunartækin komið í gagnið. Togararnir voru að byrja að koma, sá fyrsti í febrúar 1947, og héldu áfram að koma 1948 og 1949. Síðan 1947 hefur Ísland fengið allar Marshallgjafirnar. Síðan 1947 hefur Ísland fengið stór lán, sem vafalaust eiga að geta borið bætt lífskjör. Þjóðartekjurnar hafa þannig aukizt, og verkalýðurinn á sínar þakkir skilið fyrir að hafa knúið fram, meira að segja gegn vilja afturhaldsins, mikið af aukningu þessara þjóðartekna. Verkalýðurinn, eins og ég hef áður sagt, knúði fram gegn vilja þáverandi afturhalds allar launahækkanir á árunum 1942–44, sem skópu þann útlenda gjaldeyri, sem við áttum 1945. Verkalýðurinn knúði fram þá stefnu, sem tryggði, að erlendu innstæðurnar væru, að svo miklu leyti sem hans áhrif náðu til, hagnýttar til kaupa á stórvirkum framleiðslutækjum, sem þjóðin nú byggir atvinnulífið á.

Og þá vil ég spyrja: Hvað hefur svo verkalýðurinn fengið af bættum lífskjörum frá því 1947 í krafti hinnar stórauknu framleiðslu, sem hann lagði grundvöllinn að? Hvar hefur nú verkalýðurinn uppskorið ávextina af allri nýsköpuninni, sem hann átti sinn stóra hlut í að afla inn í landið, og af allri aukningu þjóðarteknanna síðan? Hefur hlutdeild íslenzks verkalýðs í þjóðartekjunum aukizt frá því 1947? Þetta er spurning, sem við verðum að leggja fyrir okkur hér á Alþ. og svara. Og hvert er svarið? Þar eru hagskýrslurnar alveg tæmandi, alveg réttar og alveg óvefengjanlegar. Hlutdeild verkalýðsins hefur minnkað frá því í des. 1947. Hún hefur minnkað í þjóðartekjunum, hún hefur minnkað hvað snertir kaupmátt tímakaupsins. Aðeins til þess að hafa það sama og verkalýðurinn hafði 1947 þyrfti a. m. k., þegar ekki væri reiknað með húsaleigunni, eitthvað í kringum 20% hækkun. Og ef reiknað væri með húsaleigunni, þá, eins og ég gat um áðan, brjálast öll vísitalan. Vísitalan, eins og hún er núna, þyrfti að hækka þá um 47.5%. Staðreyndirnar eru sem sé þær: Frá því 1947 hefur hlutdeild verkalýðsins minnkað.

En hefur nú hlutdeild auðmannastéttarinnar á Íslandi vaxið eða minnkað síðan 1947? Hvað segir lífið í Reykjavík um þann hlut, ef við bara lítum í kringum okkur hérna í Reykjavík, — hvort íslenzka auðmannastéttin hefur tekið upp sparnaðarhætti og lífsvenjubreytingu síðan. Nei, bararnir, lúxusbílarnir og allt saman þetta sýnir okkur, að lífskjör auðmannastéttarinnar og „lúxus“ hennar hefur vaxið. Hlutdeild hennar í þjóðartekjunum hefur vaxið. Frá 1947 hefur hlutdeild verkalýðsins minnkað, og það þrátt fyrir það að öll nýsköpunargögnin séu komin í gagnið síðan að heita má og öll þessi mikla fjárfesting, sem ríkisstj. stærir sig af, hafi farið fram síðan.

Hver er þess vegna réttlætiskrafa verkalýðsins í dag? Hún er í fyrsta lagi eðlilega sú, að hann nái því, sem hann hafði 1947, fái þá hækkun, hver sem hún nú er, eitthvað um 20 eða 30%, eða hvar sem hún kann að vera, ef það er reiknað nákvæmlega út, þegar tillit væri tekið til húsaleigunnar og annars slíks líka. Og í öðru lagi, að hún fái sinn hluta í aukningu þjóðarteknanna síðan. Sem sé í fyrsta lagi, að hann fái að uppskera það, sem hann sjálfur hjálpaði til að sá með nýsköpuninni 1944–47, og í öðru lagi, að hann fái eitthvað af því, sem ríkisstjórnirnar á síðustu 6–7 árum segjast hafa gert svo mikið af, að auka framleiðslu þjóðarinnar, að festa fé á skynsamlegan hátt og annað slíkt. Þetta eru réttlætiskröfur verkalýðsins. Og hæstv. ráðherrar hafa lýst því yfir, að það eigi að fara fram kauphækkun eins og framleiðsluafköstin frekast þoli. Ég þykist hafa gert nokkra grein fyrir, að verkalýðurinn eigi réttlætiskröfur á kauphækkunum, að hann sé að gera upp sakirnar við efnahagspólitík síðustu 6–7 ára, hann sé að gera kröfurnar í að fá að uppskera sjálfur það, sem hann hjálpaði til að sá með nýsköpuninni.

Og þá skulum við nú örlítið reyna að taka fyrir, þó að það sé nú sá hlutur, sem erfiðastur er: Stendur íslenzkt þjóðfélag og stendur íslenzk yfirstétt undir því að verða við réttlætiskröfum verkalýðsins í þessum efnum? Hæstv. forsrh. spurði okkur: Hvar á að taka þetta, sem verkalýðurinn á að fá? Það er oft látið líta svo út sem það raunverulega vanti ekki, að menn vilji verða við kröfum verkalýðsins, — en hvar á að taka þetta? Og ég skal vissulega viðurkenna, að það getur oft verið dálítið erfitt, því að sá, sem hefur það, sem verkalýðurinn átti að fá, heldur stundum nokkuð fast um það.

Við skulum athuga nokkra þætti í bákni íslenzku yfirstéttarinnar í þessu efni, atvinnurekendurna og aðra. Við skulum fyrst taka fyrir stærsta atvinnurekandann. Stærsti atvinnurekandinn á undanförnum árum hefur verið sjálft ameríska auðvaldið og hervaldið hér á Íslandi, Hamilton og þeir hermangarar, sem standa í sambandi við það. Kaup íslenzkra verkamanna var 1947, reiknað í dollurum, 1.40 dollarar um tímann. Það var sama kaup og hafnarverkamaður hafði þá í New York. Íslenzkur verkamaður hafði þá sama kaup og amerískur hafnarverkamaður. Amerískur hafnarverkamaður hefur í dag 2.10 dollara, og það mun e. t. v. ekki vera mjög mikil raunveruleg launahækkun, en hækkun í samræmi við vaxandi dýrtíð þar. Kaupgjald íslenzks verkamanns, sem var 1.40 dollarar 1947, er nú um 90 cent. M. ö. o.: Það hefur lækkað um helming síðan, og hefði þó verið lægra, ef ameríska auðvaldið hefði alveg, án mótspyrnu verkalýðssamtakanna, komið sínu fram. Gróðinn í þessum atvinnurekstri hefur verið slíkur, að meira að segja stjórnarflokkarnir hafa séð sérstaka ástæðu til þess að fara að bítast um hann, að meira að segja stór framlög hafa verið lögð fram úr ríkissjóði til þess að mynda hlutafélög til þess að taka þennan gróða. En allan þennan tíma hefur verið séð til þess, að viðkomandi amerískt auðvald hefur fengið að stórgræða á vinnu íslenzku verkamannanna. Þarna lá alveg beint við, hvernig gróðinn var, og ef á að rannsaka gróðann á þessu sviði, þá mætti gefa verkalýðssamtökunum aðgang að bókum þeirra félaga, sem hafa haft með vinnuna á Keflavíkurflugvellinum að gera. Skattayfirvöldin virðast hvort sem er ekki hafa skeytt svo mikið um það. Stærsti atvinnurekandinn hefur áreiðanlega þess vegna breitt bak til að bera hækkanirnar, enda hefur hann beinlínis knúið fram launalækkanir á þessum tíma. Og ég vil aðeins geta þess um leið, að þær launalækkanir, sem voru knúðar fram af hálfu ameríska auðvaldsins, jafngilda því, að ef ameríska auðvaldið hér á Íslandi hefði orðið að borga á Keflavíkurflugvelli á þessum árum sömu laun og það hefur orðið að borga í Ameríku, þá hefur það grætt jafnmikið og nemur öllum Marshallgjöfunum. Það hef ég reiknað út og sett fram á prenti áður, og ég ætla ekki að vera að lesa það hér upp. Ég get gert það, ef einhver vefengir það. Ég miðaði þá við 2500 og 3000 verkamenn á Keflavíkurflugvelli ár eftir ár, og ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að allar þær gjafir, sem mest var gumað af, voru teknar til baka af ameríska auðvaldinu með því einu að lækka gengi íslenzku krónunnar.

Þá skulum við athuga með ríkið sjálft. Ég ætla hér ekki að fara að ræða um það, sem við höfum nú margrætt, um þær 100 millj. kr., sem teknar eru fram yfir þarfir ríkissjóðs á ári af íslenzkri alþýðu, og annað slíkt, það hefur verið gert af öðrum, — en mig langar til þess að reyna að gefa hv. Alþ. eina smámynd af því, þegar talað er um atvinnureksturinn og kaupgjald verkamanna, hvernig hlutirnir líta út. Ég er orðinn svo vanur, að það sé alltaf sagt við okkur í hvert einasta skipti, sem verkamenn gera kröfu um kaupgjald: Þetta setur allt á hausinn — að ég gæti stundum jafnvel trúað, að hv. þingmenn gerðu sér ekki sjálfir grein fyrir, hvað þetta er fjarri lagi. Og ég ætla að taka hérna dæmi einmitt af einum af stærstu mannvirkjunum, sem unnin hafa verið á undanförnum árum, og hvernig kaupgjald verkalýðsins og afskipti ríkisvaldsins koma þar fram, og það er af Sogsvirkjuninni. Ég skal fyrst geta þess, að Sogsvirkjunin átti að kosta, þegar áætlanirnar voru gerðar um hana, 67 millj. kr. Vegna gengislækkunarinnar kostar hún 195 millj. kr., og meginið af þessari hækkun fellur í skaut amerísku auðhringanna, sem selja okkur vélarnar. Ég þarf ekki að taka fram, hvað það þýðir fjárhagslega, að í staðinn fyrir að reikna með 67 millj. kr., eins og Sogsvirkjunin upprunalega átti að kosta, verður við verðlagningu á rafmagninu að reikna með 195 millj. kr. sem kostnaði vegna gengislækkunarinnar, og hvað þetta hefur þýtt í gróða fyrir ameríska auðvaldið. En við skulum hverfa að öðru.

Við skulum taka bygginguna sjálfa. Ef ég man rétt, urðu tvisvar sinnum almenn verkföll, á meðan Sogsvirkjunin var í byggingu, og í bæði skiptin var auðvitað sagt: Það er ekki hægt að verða við kröfum verkamanna. Þær eru svo ósvífnar, og það eru kommúnistarnir, sem koma á öngþveiti og steypa þjóðfélaginu o. s. frv. — Hvað var allt kaupgjald, greitt öllum íslenzkum verkamönnum, sem unnu við Sogsvirkjunina, þetta mikla mannvirki, mannvirki, sem kostaði 195 millj. kr.? Allt kaupgjald íslenzkra verkamanna var rúmar 40 millj. kr., allt kaupgjald allra þeirra manna, sem boruðu þessi miklu göng, settu niður þessar miklu vélar, fluttu þetta og allt saman slíkt. Hvað tók ríkið sjálft í söluskatt og tolla af gjöfunum til Sogsvirkjunarinnar, og hvað tók það sjálft í vexti af lánunum til Sogsvirkjunarinnar þessi þrjú ár, á meðan hún stóð yfir? Ríkið tók í kringum 25 millj. kr. í söluskatt og tolla af vélunum, og það tók 9 millj. kr. í vexti af peningum þennan tíma, sem byggingin stóð yfir. Það voru 33–34 millj. kr., sem ríkið stakk í sinn vasa af þessum 195 millj. kr., sem Sogsvirkjunin kostaði. En 40 millj. kr. voru það, sem allir þeir verkamenn, sem unnu við þetta, fengu greitt í laun allan tímann. Og þá var talað um, eins og alltaf: Verkamenn gera ósvífnar kröfur um kauphækkun. — En það var ekki talað um ósvífnar kröfur frá hæstv. fjmrh. Það var ekki talað um, að hann væri að setja neitt í öngþveiti. Það var ekki verið að tala um, að hann væri að skapa dýrtíð í landinu, þó að hann innheimti söluskatt upp á 25 millj. kr. af þessu sama. Og rekstur þessa fyrirtækis, hvernig er hann? Á ári borgar Sogsvirkjunin upp undir 10 millj. kr. í vexti. En öll vinnulaun í sambandi við hana eru 1.8 millj. kr. Þetta vil ég taka fram til þess að reyna að gefa mönnum ofur litla hugmynd um, hvernig verðmyndunin í íslenzku þjóðfélagi fer fram nú, hvernig fjármálaauðvaldið hrifsar til sín þorrann af öllu því, sem skapað er, og hvað kaup verkamannsins er oft og tíðum hverfandi lítill þáttur í þessu sambandi. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi viðvíkjandi afskiptum ríkisvaldsins.

Við skulum þá koma að sjálfri íslenzku auðmannastéttinni. Og ég vil þá fyrst segja það, af því að það er á hendur henni, sem verkalýðurinn gerir sínar kröfur um bætt lífskjör, að mikill hluti af íslenzku auðmannastéttinni kann sér ekki hóf í dag, að óhóflega mikill hluti af gróða íslenzku auðmannastéttarinnar fer í daglega eyðslu, í vitlausa eyðslu eða glatast í braski, í villtu kapphlaupi, sem veldur stórkostlegu þjóðhagslegu tjóni. Mikill hluti af íslenzku auðmannastéttinni hefur grætt stórkostlega, en hún hefur ekki kunnað að ráðstafa þessum gróða og því veltufé, sem hún hefur, af viti. Og hún verður sjálf að bera afleiðingarnar af því. Það þyrfti að fara fram rannsókn á atvinnufyrirtækjunum og hve mikið stjórnendurnir hafa tekið til persónulegrar neyzlu af þeim. Það þyrfti að fara fram rannsókn á því, hvernig það getur verið, að gömul og gróin verzlunarfyrirtæki t. d. séu komin á heljarþröm nú meðfram vegna vitlausrar stjórnar. Og hver hefur svo verið afstaða ríkisstj. á undanförnum árum til þessarar íslenzku auðmannastéttar? Hafa ríkisstj. reynt að halda aftur af henni? Hafa þær reynt að takmarka hennar gróða og hennar eyðslu, eða hafa þær hvatt hana til þess? Á undanförnum árum hafa verið afnumdar allar hömlur, sem voru á gróðamyndun, allar hömlur á verðlagningu og allar hömlur á húsaleigu. M. ö. o.: Ríkisstj. hefur beinlínis með sínum aðgerðum sagt við auðmannastéttina: Leikið ykkur, hver sem betur getur. Reynið að hamstra til ykkar gróða með hverju móti sem er. — Á sama tíma hefur hverfandi lítið verið gert til þess að tryggja, að þessi gróði væri lagður í þau fyrirtæki, sem tryggðu efnahagslegan grundvöll þjóðfélagsins.

Hæstv. forsrh. sagði við okkur, að það væri afli íslenzku skipanna og það væri markaðsverðið, sem við fengjum, sem réði því, hvernig stæði um íslenzka sjávarútveginn, og þetta væru hlutir, sem við gætum ekki ráðið við. En við getum ráðið við tvennt. Við getum ráðið við annars vegar, hvað togararnir og vélbátarnir eru margir, sem stunda þessar veiðar. Og við getum ráðið við það, hvað mikið er tekið af þessari togara- og vélbátaútgerð handa yfirstéttarbákninu einu, hvað mikið er tekið í vexti, hvað mikið er tekið í olíugróða, hvað mikið er tekið í vátryggingagjöld, hvað mikið er tekið handa hraðfrystihúsunum. Við getum ráðið því, hvort við látum eitt hraðfrystihús í Vestmannaeyjum græða 3 millj. kr. á einu ári eða hvort við látum vélbátana og togarana gera það. Þessu getum við ráðið hér á Alþingi með þeirri skipun, sem við höfum á þessum málum. Og það hefur sýnt sig, að stjórnirnar, sem ráðið hafa undanfarin ár, hafa viljað ráða á þann hátt, að það væri ekki togaraútgerðin og ekki vélbátaútvegurinn, sem græddi, nema með einhverjum sérstaklega óeðlilegum ráðstöfunum af hálfu ríkisins, heldur aðrir aðilar, eins og ég hef svo oft tekið fram og ég ætla ekki að fara að ræða einu sinni enn þá. Enginn ber á móti því, að Landsbankinn hafi grætt sínar 30–40 millj. kr., að hann eigi sínar 200 millj. kr. bara í varasjóðunum. Enginn ber á móti því, að olíufélögin græði sínar 20–30 millj. og fá að afskrifa allar þær eignir, sem þau staðsetja meira eða minna vitlaust, svo að segja á örfáum árum. Enginn ber heldur á móti því, að Eimskip og skipafélögin græði. Hin gífurlega fjárfesting í skipum sýnir það bezt, hve mikill sá gróði er. En við hefðum getað ráðið því, hvort við létum borga þessi um 10 sterlingspund í fragt fyrir hvert tonn af hraðfrystum fiski, m. ö. o., að við létum borga kannske 23 millj. kr. fyrir að flytja út 51 þús. tonn af hraðfrystum fiski til skipafélaganna einna. Við gátum ráðið, hvort eitthvað af þessu fór heldur til útgerðarinnar sjálfrar.

Menn bera ekki heldur á móti því, að þessi flutningaskipafélög hafi safnað stórkostlegum eignum, að jafnvel Eimskipafélagið eigi kannske 150 millj. kr. í skuldlausri eign. Menn bera ekki heldur á móti því, að vátryggingafélögin séu mikil gróðafyrirtæki, og menn bera ekki heldur á móti því, að heildverzlanirnar í Reykjavik hafi grætt, þó að menn kunni að vera hissa á, hvernig sumar þeirra hafa ráðstafað sínum peningum. Ég skal nefna eitt dæmi um þennan gróða, dæmi, sem ég nefndi hér í fyrra og hefur ekki verið vefengt — endurtaka það — og það af einni aðalnauðsynjavörunni, þ. e. sementi, vöru, sem ríkisstj. kaupir inn með milliríkjasamningum, vöru, sem ríkisstj. skiptir upp á milli þriggja aðila samkvæmt helmingaskiptunum, þeirri einu heilögu meginreglu í íslenzku efnahagslífi. Sementið kostaði í fyrra 200 kr. tonnið f. o. b. í austur-þýzkri höfn. Flutningsgjaldið, sem skipin tóku þá, var 130 kr. Þá kostaði 200 kr. að flytja þetta tonn af sementi frá skipshlið upp í pakkhús. Þangað gátu þeir, sem keyptu það, komið og tekið við því. Það var lagt 200 kr. á það af hálfu heildsalanna að flytja sementið þennan spöl, jafnmikið og það kostaði að framleiða það á framleiðslustaðnum. Og þá kostaði sementið þannig út um 530 kr. niðri í pakkhúsi. Svona var verðlagningin á þennan hlut. Svona var auðsöfnunin á þessum hlut, og þetta er ein brýnasta nauðsynjavara almennings. Þetta er vara, þar sem ekki er neitt spursmál um, hvort það séu hæf og hentug innkaup, eða neina samkeppni í innkaupi, viturlegar ráðstafanir eða annað slíkt. Þetta er allt keypt inn af ríkisstjórninni. Og má ég nú spyrja: Ef svona er með sementið, svona nauðsynjavöru, hvernig er þá eiginlega álagningin á öðrum hlutum? — En þó að þessir einokunarherrar ríkisstjórnarinnar taki svona gróða af sementinu, er þá samt enginn gróði af því að byggja? Það hefur verið fullyrt hér og því ekki verið mótmælt, að fokheld hús, byggð úr sementi, sem byggingarvöruverzlanirnar græða svona á, hafi verið seld hér í Reykjavík með 80% álagi, og það hafa sagt kunnugir menn.

Þannig mætti taka hvert sviðið á fætur öðru, en það yrði of langt mál að ætla að rekja það. Ég veit, að t. d. í iðnaðinum hérna, í fyrirtækjum eins og súkkulaðigerðunum, er gróði máske upp á eina millj. kr. á ári á einni lítilli súkkulaðigerð. Ég veit um járniðnaðarfyrirtækin hérna, að lítil járniðnaðarverkstæði hafa boðið lægra en stærstu fyrirtækin hérna niðri við höfnina í aðgerðir og haft góðan gróða upp úr því, svo að þá getum við hugsað okkur, hvað stóru fyrirtækin hafa af þeim verkum, sem þau venjulega taka. Þannig gætum við tekið hvert svið atvinnurekstrarins á fætur öðru, alls staðar er gróðamyndun, hvernig svo sem þeim gróða er ráðstafað. Ég ætla ekki að fara hérna út í að rekja t. d. gróðann á vefnaðarvöruverzlunum, — það hefur verið gert hérna af öðrum, sem þekkja það betur en ég, — álagninguna, sem var fyrst eftir að verzlunin var gefin frjáls, sem kallað er, hvers konar ægilegur gróði þá var á almennri vefnaðarvöru. En ég ætla að taka einn hlut út úr, því að þar kemur inn í sjálf pólitík ríkisstjórnarinnar, og það er gróðinn í sambandi við húsaleiguna og pólitíkin, sem þar er verið að reka.

Það, sem er að gerast í dag, er, að það er verið að knýja þá kynslóð, sem nú er uppi, til að greiða upp öll húsin, sem byggð eru á Íslandi, á 10–15 árum. Það er verið að knýja hana til þess að neita sér um svo og svo mikið af öllum gæðum lífsins til þess að geta borgað hús, sem standa í 100–200 ár, niður á skömmum tíma. Það er verið að gera þetta með rangri banka- og fjármálapólitík, og það er verið að gera þetta með þeim afleiðingum, að alltaf öðru hverju hlýtur verkalýðurinn að rísa upp, einmitt vegna þessarar húsaleigu, hvort sem hann borgar hana sjálfur í eigin húsum eða hann borgar hana í húsum, þar sem hann verður að leigja, vegna þess að þessa fjármálapólitík þolir hann ekki. Hún er að brjóta þessa kynslóð niður efnahagslega. Við erum að vinna stóra hluti hér á Íslandi, þessi kynslóð, við erum að húsa land, sem á tímum okkar afa var að heita mátti húsalaust hvað varanleg hús snerti. Og okkar eftirkomendur eiga að taka á sig svo og svo mikið af þessu, og við getum ekki gert þetta með öðru móti en því að tryggja þannig fjármálapólitík, að það séu með lánum hér innanlands sköpuð þau skilyrði, að það verði hóflegur sá þungi, sem lendir á núverandi kynslóð.

Nú skal ég reyna að gera ofur litla grein fyrir, hvaða byrði það er, sem þessi kynslóð er að bera í þessum efnum. Brunabótamat allra húseigna á Íslandi, bæði íbúðarhúsa og annarra, er 1. jan. í ár í Reykjavík 3300 millj. kr., eða 3.3 milljarðar, úti á landinu, miðað við 15. okt. í haust, 2721 millj. kr., eða 2.7 milljarðar; til samans sex milljarðar kr. Þetta er brunabótamat allra húseigna á Íslandi núna, sem sé endurbyggingarkostnaður þeirra, sex milljarðar. Og ég þori að fullyrða, að helmingurinn af öllum þessum húsum er byggður á síðustu 15 árum. Þetta gífurlega verðmæti, sem okkar kynslóð hefur skapað bara hvað hús snertir, er upp á sex milljarða kr. Og hvað eru lánin út á þessar húseignir? Öll lán í veðdeildum Landsbankans eru 38 millj. kr., — 38 millj. kr. út á húseign, sem er 6000 milljónir. — Ég veit ekki, og það hefur ekki verið gerð nein athugun á að rannsaka það, hvað öll veðlán eru út á allar þessar húseignir. Kannske eru það 300 millj., kannske 400 millj., kannske 600 millj., en ég efast um, að það nái 10% af verðmæti þessara húseigna. Hvað er að gerast með þessu? Það er að gerast það með því, að það er verið að láta þessa kynslúð greiða upp verðmæti í húseignum einum upp á 5–6 milljarða kr. á nokkrum árum eða áratugum. Og hvað þýðir þetta? Það þýðir, að þeir smáu og tekjurýru, sem eru að reyna að eignast hús, eru að brotna undir því, og ef þeir eiga að eignast húsin, ef þeir eiga að standa undir hárri húsaleigu, sem þeir reikna sjálfum sér, eða hárri húsaleigu, sem aðrir reikna þeim, sem kannske eru líka að pína sig til að eignast hús, þá verða þeir annaðhvort að taka þriðjunginn eða helminginn af öllu því, sem þeir vinna sér inn, eins og maðurinn, sem ég tók dæmi af áðan, og borga í húsaleigu, eða þá að þeir verða að hækka kaupið.

Ég vona, að mönnum sé ljóst, að sú fjármálapólitík, sem rekin er viðvíkjandi húseignum á Íslandi, er úrslitaþáttur í því að skapa þá aðstöðu fyrir verkalýðinn í dag, að hann verður að knýja fram stórfellda hækkun á sínu kaupgjaldi; menn verða að gera sér ljóst, að þegar verkalýðurinn er að heimta þetta kaupgjald, þá er hann að berjast fyrir því, ekki aðeins að hafa til að bíta og brenna, heldur líka til þess að verða efnahagslega sæmilega sjálfstæður, jafnvel að geta eignazt smákofa yfir höfuðið á sér eða eignazt þátt í lítilli íbúð. Og þess vegna er í sambandi við kaupkröfur verkalýðsins óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir allri efnahagspólitíkinni, því að hún kemur öll inn í þetta. Og hver verður svo afleiðingin af því, að ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa rekið svona pólitík hvað fjármálin snertir, eru að knýja þessa kynslóð til þess að borga svona hratt upp, eru að skapa þessa gífurlegu húsaleigu? Afleiðingin verður sú, að með þessum svokallaða frjálsa markaði á peningum, sem ríkisstj. hefur gert að sinni aðalreglu, skapast mestu gróðamöguleikarnir af peningum ekki með því að gera út og afla íslenzku þjóðinni gjaldeyris, heldur með því að lána fé út á svörtum markaði og taka okurvexti af því, lána mönnum, sem eru í vandræðum með húsin, seinustu 30–40 þúsundirnar, lána mönnum, sem búast við að geta tekið fljóttekinn gróða í sambandi við verzlun og flækjast svo smám saman í þessu okri. Ríkisstj. hefur innleitt það, sem hún kallar frjálsa pólitík, frjáls viðskipti í verzlunarmálunum, en hún hefur innleitt á sama tíma svörtustu haftapólitík, ef ég svo má segja, á peningamarkaðnum, og afleiðingarnar af þessu misræmi í allri pólitík ríkisstj. eru þær, að það skapast svartur markaður á peningum, slíkur sem íslenzkt þjóðfélag hefur aldrei þekkt áður.

Ég fullyrti hér og hef fullyrt í þskj., sem ég ásamt tveim öðrum hv. þm. hef lagt hér fyrir, að þessi svarti markaður sé orðinu svo gífurlegur, að það þekkist, að teknir séu 5% vextir á mánuði, jafnvel 6% vextir á mánuði. En eins og nærri má geta, er þetta gert með slíkum aðferðum, með lækkun á verðbréfum, afföllum, með því að kaupa verðbréf eða víxla fyrir svona og svona lágt verð, að þetta er náttúrlega aldrei reiknað út sem vextir, til þess að það kæmi þannig beint við lög. M. ö. o.: Það eru alltaf nógu „sniðugir“ menn, sem framkvæma þessa hluti, til þess að það varði máske ekki við lögin og þess vegna verði erfitt að taka á því. Hæstv. dómsmrh. skoraði á mig að nefna dæmi um þetta. Ég veit ekki, hvort mér sérstaklega ber að hafa svo mikla trú á óhlutdrægni hæstv. dómsmrh. Ég mundi í þeim efnum máske vísa honum til hans ágæta samstarfsflokks, að hann skyldi spyrja hann um traustið og hvernig honum litist á að fela honum að rannsaka öll þau mál, sem Framsókn hefur verið að skrifa mest um undanfarið, bæði fiskmálin og önnur slík, áður en ég færi beint að fela honum rannsókn á okurmálunum. Hins vegar hef ég, eins og ég ætlaði ekki að ræða hér, lagt fram till. ásamt tveim af hv. þm. um rannsóknarnefnd hér í þingi, og ef hún verður sett, sem ég vona, þá gefst tækifæri til þess að yfirheyra m. a. hæstv. dómsmrh. um, hvort meira að segja hæstv. ríkisstj. hefur ekki einhverja bugmynd um, að það hafi átt sér stað einhverjar þess háttar verzlunarframkvæmdir hér í Rvík, þar sem slíkir okurvextir hafi verið teknir, að þeir hafi gleypt allar tekjur þeirrar verzlunar, sem lent var í greipum okraranna.

Ég efast þess vegna ekki um, að gróði íslenzkrar auðmannastéttar, ekki sízt sá, sem framkvæmdur er á þessum svarta markaði, er gífurlegur. Íslenzk auðmannastétt rís þess vegna undir því nú að borga verkalýðnum hærra kaup, og verkalýðurinn á þessar kaupkröfur inni. Hitt verður svo spursmálið: Fær hann þessu framgengt, þannig að auðmannastéttin láti undan þessum réttlætiskröfum, án þess að það þurfi að kosta þjóðfélagið tugi milljóna króna? Og þó hef ég hér ekki tekið og ætla ekki að taka þær kröfur, sem verkalýðurinn ætti í viðbót við það, sem ég hef rætt og reynt að rökstyðja, — verkalýðurinn ætti meiri kröfur en þessar. Framleiðsla þjóðfélagsins og þjóðartekjurnar gætu í dag verið miklu meiri en þær eru, svo framarlega sem farið hefði verið að ráðum verkalýðsins, svo framarlega sem það hefðu verið keyptir t. d. fleiri togarar til landsins, eins og hann hefur lagt til ár eftir ár hér á Alþingi, og verkalýðurinn á ekki að bera byrðarnar af því, að það hefur ekki verið farið að þessum ráðum. Íslenzk yfirstétt hefur stjórnað framleiðslunni illa á undanförnum árum. Hún hefur látið framleiðsluna stöðvast mánuðum saman, hún hefur kastað svo að skiptir tugum og jafnvel hundruðum milljóna kr. á ári í ekki neitt. Verkalýðurinn hefði líka getað gert henni reikning fyrir þessari óstjórn hennar á atvinnulífinu, og verkalýðurinn á ekki að bera afleiðingarnar af slíkri óstjórn yfirstéttarinnar. Og síðast, en ekki sízt: Sú íslenzka yfirstétt, sem nú er, er allt of stór, hún er allt of fjölmenn, hún er allt of heimtufrek. Hún á að byrja á því að spara. Verkalýðnum ber engin skylda til þess að bera á sínum herðum allt þetta bákn, of stórt, of dýrt og of þungt. Íslenzk yfirstétt má gjarnan þrengja að sér, svo að ég ekki tali um, hvað útlenda yfirstéttin tekur af okkur. Þess vegna verður það óhjákvæmilega svo, að hver vinnudeila verður uppgjör íslenzkrar alþýðu við yfirstéttina, við hennar efnahagspólitík, við hennar gróða, við hennar stjórnarlag. Þess vegna hef ég reynt hér að setja fram, hvernig slíkar vinnudeilur eins og nú eru í aðsigi hljóta að setja upp vandamálið um alla efnahagspólitíkina, hvernig við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það verður að breyta til um efnahagspólitík, ef í fyrsta lagi á að bæta verkalýðnum upp allt það tjón, sem búið er að vinna honum á þessum undanförnum 6–7 árum, ef á að veita honum aftur þau lífskjör, sem hann hafði 1947, og í öðru lagi, ef á að láta hann fá sinn eðlilega hlut í þeim þjóðartekjum, sem skapazt hafa síðan. Verkalýðurinn á stóran og mikinn reikning á hendur þjóðfélagsins og á hendur yfirstéttar þess að leggja fram, og hann leggur hann fram nú. Við skulum vona, að sá reikningur verði borgaður, án þess að það þurfi að koma til stórfelldra og dýrra átaka í þjóðfélaginu.

Það hefur aldrei verið ósk Sósfl. og ekki heldur verkalýðssamtakanna að knýja fram það réttlæti, sem verkalýðurinn á kröfu á, með harðvítugum aðgerðum. Og þegar tillit hefur verið tekið til okkar ráðlegginga í íslenzkum stjórnmálum, þá hefur tekizt að gera þetta með blessun fyrir alla þjóðina, og það hefur sýnt sig, að íslenzkt þjóðfélag hefur alltaf getað boríð allar þær kauphækkanir, sem menn hafa orðið við.