08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

1. mál, fjárlög 1955

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Hv. þm. Dal. (ÁB) og ég flytjum brtt. á þskj. 250,II um 300 þús. kr. fjárframlag til Heydalsvegar eða Hnappadalsvegar yfir Heydal að Bíldhóll, eins og hann er nefndur í vegalögunum. Til vara flytjum við tillögu um 200 þús. kr. framlag í þessu skyni.

Á undanförnum árum hefur mikið verið um það rætt að hraða vegarlagningu yfir Heydal að Bíldhóli á Skógarströnd og tryggja þannig öruggan vetrarveg yfir Snæfellsnesfjallgarðinn. Heydalur liggur aðeins rúma 150 m yfir sjávarmál, en Kerlingarskarð og Bröttubrekka yfir 300 m. Það gefur því auga leið, að Heydalsvegurinn mundi haldast fær bifreiðum, þó að vegurinn yfir Kerlingarskarð og vegurinn yfir Bröttubrekku lokuðust vegna fanna. Heydalsvegurinn var tekinn upp í tölu þjóðvega 1943, en því miður hefur lítið verið unníð að þeirri vegargerð, nema lítils háttar í Kolbeinsstaðahreppnum upp í Hnappadalinn.

Það er mikil fjárhæð, sem eytt er árlega af viðhaldsfé þjóðvega til að standast kostnað við snjómokstur á Bröttubrekkuveginum og í Kerlingarskarði til þess að halda þessum leiðum opnum. Ef áherzla yrði lögð á vegargerð yfir Heydal, mundu þær fjárfúlgur, sem eytt er árlega af viðhaldsfé þjóðvega í snjómokstur í Kerlingarskarði og Bröttubrekku, hverfa úr sögunni og yrðu í stað þess nýttar til að bæta vegakerfi Dalasýslu og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Það er því áríðandi að flýta þessari vegagerð, og af þeim ástæðum er þessi brtt. fram borin.

Ég vil geta þess, að hér er ekki einvörðungu um samgöngumál að ræða, sem snertir kjördæmi mitt og kjördæmi hv. þm. Dal., því að sú samgöngubót, sem myndast við lagningu þessa vegar, er engu síður mikilsverð fyrir Vestfirði og Norðurland til að tryggja íbúunum þar örugga leið með bifreiðum um vetrarmánuðina. Þetta vil ég biðja hv. alþm. að hafa í huga og þar með ljá brtt. okkar hv. þm. Dal. atkv. sín.

Í raun og veru hef ég ástæðu til að flytja fleiri brtt. og mun gera það við 3. umr. fjárlaganna.

Ég get ekki annað en látið í ljós, að ég er ekki alls kostar ánægður með vinnubrögð hv. fjvn. að þessu sinni hvað kjördæmi mínu viðvíkur, og ég lifi enn þá í þeirri trú, að hv. fjvn. muni gera lagfæringu í þessu efni.

Ég geri ráð fyrir, að við flm. þessarar brtt. tökum hana aftur til 3. umr.