07.02.1955
Sameinað þing: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 4. þm. Reykv., hvaða ráðstafanir ríkisstj. hefði gert eða hefði í hyggju að gera út af ummælum nokkurra brezkra blaða, vil ég upplýsa eftirfarandi:

Brezki sendiherrann, Mr. Henderson, var hjá mér í morgun, og hann sagði mér, að hann hefði þegar borið fram mótmæli — eða beðið utanríkisráðuneytið brezka að bera fram leiðréttingar í brezkum blöðum út af ummælum þeirra, því að hann sagði, að sér væri allra manna ljósast, hvað blöðin færu hér með rangt mál. Enn fremur bar ég fram við hann umkvörtun í morgun út af þessum ummælum og afhenti honum ekki beint mótmæli, heldur nótu, þar sem tekin voru upp ummæli brezku blaðanna og sýnt fram á, hversu þau væru óréttmæt og á allan hátt ranglát.

Hann sagðist búast við, að komið gæti fram fsp. í brezka þinginu út af þessu máli, en eins og hann orðaði það, væri erfitt að fá brezk blöð til þess að taka aftur það, sem þau hefðu einu sinni sagt. En hitt taldi hann vafalaust, að þau mundu fús til þess að birta leiðréttingar á þessum ummælum.

Það má geta þess, að brezka ríkisstj. hefur borið fram þakklæti til íslenzkra aðila fyrir tilraunir þeirra til björgunar, eins og tilkynnt hefur verið í blöðunum. Enn fremur hafa vátryggjendur og eigendur togaranna, sem fórust, borið fram þakklæti til Slysavarnafélagsins, en mér er ekki alveg kunnugt um, hvort það hefur komið fram í íslenzkum blöðum.

Ég hygg, að það sé óhætt að segja, að brezka ríkisstjórnin harmi þessi ummæli blaðanna.