25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég þarf að gera örstuttar athugasemdir út af ummælum þeirra þriggja hv. þm., sem hér hafa talað.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði um, hvort þær 12 millj., sem ég nefndi sem lið í hækkunum útgjalda ríkissjóðs vegna grunnkaupshækkana, væru eingöngu hækkun á kaupi til verkamanna hliðstæðra þeim, sem nú ættu í kaupdeilu. Svo er ekki. Það er rétt til getið hjá honum, að það er einmitt gert ráð fyrir, að kauphækkanir þyrftu að fara fram til starfsmanna ríkisins, og þær eru innifaldar í þessum 12 millj.

Hann spurði í öðru lagi: Er gert ráð fyrir í þessum útreikningum, að tryggingar hækki að sama skapi? Það er gert ráð fyrir, að tryggingar hækki. Hvort það yrði að sama skapi og grunnkaupshækkanirnar, þori ég ekki alveg að staðhæfa, en það er gert ráð fyrir að þær hækki, enda hefur sú verið venjan, að tryggingar hafa hækkað, þegar kaupgjald hefur hækkað.

Í þriðja lagi spurði hann: Getur ríkisstj. ekki sett á verðlagseftirlit til þess að tryggja, að vörur hækki ekki? Það er nú kannske of langt mál til þess, að ég fari að ræða það hér, en ríkisstj. hefur verið að afla sér upplýsinga um verðlagið í landinu, meðan eftirlit var og síðan því var létt af, og það verður væntanlega hægt að gefa um það skýrslu, áður en langt um líður, og sé ég þess vegna ekki ástæðu til að ræða það nú. En ég vil aðeins geta um það, að sú hækkun á vísitölunni, sem nefnd var, er að dómi þeirra, sem bezta yfirsýn hafa yfir þetta mál, mjög varlega áætluð og gerir þess vegna ekki ráð fyrir neinni óeðlilegri vöruverðshækkun í þessu sambandi.

Þá minntist hv. þm. í fjórða lagi á það, hvort ekki væri hægt að gefa eftir tolla. Þetta er spurning, sem alltaf rís, þegar ríkið beitir sér fyrir einhverjum framkvæmdum, hvort ríkissjóður eigi þá að taka tolla af þeim innflutningi, sem stendur í sambandi við þær framkvæmdir. Ég segi það sem mína einkaskoðun, að ég tel það mjög hála braut fyrir ríkið að leggja út á, ef farið er að gefa eftir tolla af vélum eða efni, sem flutt er inn til framkvæmda á vegum ríkisins, fremur en til framkvæmda, sem þegnar þjóðfélagsins hafa með höndum. Við skulum taka dæmið, sem hv. þm. nefndi, hann var að tala um Sogsvirkjunina. Á ríkið að gefa eftir tolla af vörum og vélum í Sogsvirkjunina, sem Reykjavíkurkaupstaður hefur svo og svo mikla meðgerð með? Á það þá kannske ekki líka að gefa eftir tolla af innflutningi á vélum til frystihúsa, af því að frystihúsin eru nauðsynleg, og ýmislegt svona? Allt er þetta æskilegt út af fyrir sig, að hægt væri að gera. En hvar á að taka fé til þeirra þarfa, sem við allir vitum að á ríkissjóðs herðum hvílir að fullnægja? Og það er þá líka venjulega það, sem ber á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, jafnvel stundum án hliðsjónar af því, hver í stj. er og hver í stjórnarandstöðu er, að stjórnarandstaðan geri enn harðari kröfur á hendur ríkissjóði en stjórnarliðið á hverjum tíma, en hún má þá ekki að sama skapi bera fram kröfur um, að niður falli þær tekjur ríkissjóðsins, sem eiga að rísa undir greiðslum til þessara þarfa.

Hv. þm. sagði að lokum, að til þess að fullnægja þeim útgjaldaauka fyrir ríkissjóðinn, sem ég gat um að gæti orðið allt upp í 60 millj., án þess þó að ríkið hefði nokkur afskipti af niðurgreiðslu vísitölunnar, þyrfti ekki að leggja á neina nýja skatta. Ég tel þeirri staðhæfingu svarað í minni fyrri ræðu, þar sem fram kom, að það er ekki ætlað nema 5% fyrir umframgreiðslum á fjárlögum 1955, ef ætlað er, að tekjur verði á árinu 1955 jafnmiklar og 1954, en umframgreiðslur hafa aldrei orðið minni en 7% á síðustu 30 árum eða jafnvel lengur.

Hv. 1. landsk. lagði — og það sjálfsagt alveg réttilega — áherzlu á, að upplýsa þyrfti um þjóðartekjur Íslendinga nú og hver hækkun hefði á þeim orðið á undanförnum árum, og hann taldi, að ríkisstj. bæri að upplýsa þetta ekki síður en aðrar hliðar málsins, sem hún hefði verið að upplýsa. Ég leyfi mér að leiða athygli að því, að ríkisstj. miðar sínar upplýsingar fyrst og fremst við að gera grein fyrir, hvernig hún sem forsvarsmaður ríkissjóðsins stendur að vígi til þess að taka við þeim auknu kvöðum, sem á ríkissjóðinn verða lagðar, jafnvel þó að afskipti ríkisins verði engin önnur en þau beinu útgjöld, sem leiðir af kauphækkunum í landinu.

Hitt er alveg rétt hjá hv. 1. landsk., að náttúrlega er það veigamikil upplýsing, ef menn ætla að reyna að ráða viturlega fram úr þeirri kjaradeilu, sem nú stendur yfir, hverjar eru þjóðartekjurnar og hver er vöxtur í þjóðartekjunum á undanförnum árum, og eins og hann sjálfur réttilega gat um: af hverju sá vöxtur stafar. Og ég get sagt hv. 1. landsk. það og þá í rauninni líka svarað hv. 8. landsk. því, sem hann beindi til mín af sinu máli, að það voru einmitt slíkar upplýsingar sem þessar, sem ríkisstj. taldi að auðið yrði að afla, og þá með þeim hætti, að Alþ. mundi síður vefengja, ef kostur gæfist á að skipa það sem var kallað rannsóknarnefnd til þess að rannsaka gjaldgetuna og annað það, sem máli skiptir í sambandi við kauphækkunarkröfur, og þá í því skyni að girða fyrir, að kaup hækkaði, ef ekki fælust í kauphækkuninni raunverulegar kjarabætur verkalýðnum til handa, en hins vegar færði kauphækkunin þann voða yfir alþjóð manna, að krónan yrði valtari í sessi.

Ég hygg, að með þessu hafi ég svarað því, sem hv. þm. gáfu mér tilefni til að geta um, en ég tek það náttúrlega fram, að ríkisstj. telur sér skylt og er ljúft að reyna að afla sérhverra þeirra gagna, sem mættu auðvelda mönnum að komast að réttum niðurstöðum í þessu efni, og þá engu síður þeirra gagna, sem mættu verða til þess að renna stoðum undir það, að auðið yrði að verða við kröfum þeirra, sem nú telja sig bera skarðan hlut frá borði, og þá náttúrlega fyrst og fremst kröfum þeirra, sem lægst eru launaðir. Það hlýtur hverri ríkisstj. að vera ljúft að afla slíkra gagna, og ég segi fyrir mig, að ég skal með glöðu geði taka á móti leiðbeiningum frá þeim hv. þm., sem hér hafa um þetta getið.