28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (3234)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú þegar augljóst mál, að skýrsla sú, sem hæstv. ríkisstj. gaf hér í sambandi við verkfallsmálin fyrir helgina, er síður en svo til þess að greiða fyrir lausn vinnudeilnanna, sem nú standa yfir. Og það er líka komið í ljós, að þessi skýrsla er í verulegum atriðum röng, og þó hefur ríkisstj. ekki séð ástæðu til þess að gefa fullnægjandi skýringar á þeim tölum, sem fram komu í skýrslunni.

Þegar skýrslan var gefin hér á þingfundi fyrir helgina, var upplýst, að með 7% grunnkaupshækkun til verkamanna mundu launaútgjöld ríkissjóðs hækka um 12.2 millj. Og þó að um það væri spurt á þeim fundi, hvernig þessi útgjaldahækkun væri fundin, þá komu engar skýringar við því, og það var látið liggja á milli hluta, hvað mikið af þessum 12.2 millj. mundi ganga í hækkað kaup til ríkisstarfsmanna og hvað til verkamanna og ef til vill einhverra annarra. En nú þegar fjmrh., sem án efa er höfundur að þessari skýrslu, sem flutt hefur verið á vegum ríkisstj., hefur komið hér til svars í sambandi við þetta mál, þá játar hann, að þessi útgjaldahækkun, 12.2 millj. kr., eigi að fara nær öll til ríkisstarfsmanna. Nú hefði verið fróðlegt líka, að þær skýringar hefðu fylgt þessu máli, hvernig þessari launauppbót til ríkisstarfsmanna á að haga. Það liggur fyrir, að margir ríkisstarfsmenn hafa fengið 10% grunnkaupshækkun nú um síðustu áramót, nokkrir aðeins 3%. Er þessi launahækkun fengin þannig, að svo sé þessum sömu aðilum, sem þá fengu 10% grunnlaunahækkun, ætluð nú 7% grunnlaunahækkun eins og verkamönnum og þar að auki 5–6% launahækkun með vísitölubreytingu, með því að sú vísitöluskerðing, sem nú er í gildi, verði einnig afnumin? Ég hygg, að þessu sé svona farið. Ef með öðrum orðum hæst launuðu embættismenn ríkisins eiga að fá samkvæmt þessum útreikningi ríkisstj. 10% grunnlaunahækkun um áramót, 7% grunnlaunahækkun nú til jafns við verkamenn og þar að auki á milli 5 og 6% launahækkun, sem kemur fram þeim til handa, vegna þess að vísitöluskerðingin, sem verið hefur í gildi, á nú að afnemast, — ef þessir launahæstu starfsmenn ríkisins eiga að fá nú á stuttum tíma 22% launahækkun, þá er eðlilegt, að um það sé spurt, hvort á þennan hátt hafi verið reiknað, þegar þessar 12.2 millj. voru fundnar út, eða eftir hvaða reglum var annars farið.

Það er mitt álit, að svona hafi verið á málunum haldið og þessar 12.2 millj. í auknum launagreiðslum til starfsmanna ríkisins í sambandi við 7% launahækkun séu fundnar á þennan hátt, að mismuna mönnum eins og ég hef gert nokkra grein fyrir.

Það er því skýlaus krafa allra, sem vilja vinna að lausn þessara hörðu deilna, sem nú standa yfir, að ríkisstj. í sambandi við þá skýrslu, sem hún hefur gefið, leggi nú gögnin á borðið og skýri málið alveg undanbragðalaust. Hvernig eru þessar 12.2 millj. kr. í auknum ríkisútgjöldum til starfsmanna ríkisins fundnar? Hvað er gert ráð fyrir miklum launahækkunum t. d. til þeirra starfsmanna ríkisins, sem eru í hinum hærri launaflokkum? Og nákvæmlega sama krafan verður vitanlega upp á teningnum líka í sambandi við aðra útgjaldahækkun hjá ríkissjóði, sem minnzt var á í þessari skýrslu, þar sem talað er um, að útgjöld ríkisins í sambandi við tryggingar og ýmislegt annað muni hækka í kringum 5 millj. kr. Það er alveg skýlaust farið fram á það, að ríkisstj. upplýsi, hvernig þessi tala er fundin, hvaða hækkanir ættu þá að koma fram, t. d. í sambandi við tryggingarbætur, — eða er þetta allt saman eintóm blekking?

Það var ekki óeðlilegt, að menn byggjust við því, að eftir að báðir aðilar í þessari vinnudeilu höfðu gengið nokkuð til móts hvor við annan og allmiklar líkur bentu til, að það mætti fá báða aðila enn þá lengra til móts hvor við annan en komið var, að ríkisstj. hefði reynt að stuðla að því, að samkomulag næðist, en ekki að hún hefði brugðið við á þann hátt, sem hún gerði, að birta þessa skýrslu, sem beinlínis kastar frá þeim litlu vonum, sem stóðu til þess, að lausn gæti orðið á málinu.

En í sambandi við þessi verkfallsmál er vitanlega margt annað, sem fléttast inn í þetta og er ómögulegt annað en að minnast á í sambandi við þessa skýrslu.

Það hefur nokkuð verið rætt um það, að aðkallandi væri til lausnar á verkfallsmálunum að reyna að hafa hemil á verðlaginn í landinu. Enn hafa ekki komið frá hálfu hæstv. ríkisstj. nein loforð í sambandi við þá hlið málsins, sem snýr að verðlagningunni í landinu, sem gætu kannske greitt að einhverju leyti fyrir því, að samkomulag næðist í deilunni. En í sambandi við verðlagsmálin langar mig til að minnast á það um þá aðila, sem oft hefur verið minnzt á bæði af mér og öðrum að mundu sennilega geta lagt eitthvað fram af hagnaði sínum til þess að leysa þessa deilu, olíufélögin, að mér er kunnugt um, að það er þó nokkuð langt eða meira en víka síðan olíufélögin heimtuðu að fá að hækka allt olíuverð í landinu, alla þá olíu, sem gengur til bátaflotans, alla þá olíu, sem menn verða að kaupa til þess að kynda upp hús sín og til annars rekstrar í landinu, um 60 kr. tonnið. Og ég veit ekki betur en hæstv. ríkisstj. hafi aðeins legið á þessu bréfi og gefið þeim fyllilega í skyn, að þegar búið væri að leysa vinnudeiluna, mætti hækka olíuna. Ég vildi nú spyrjast alveg hiklaust fyrir um það, hvort það er meiningin að verða við þeim kröfum, sem liggja nú á borðinu frá olíufélögunum, að hækka alla hráolíu í landinu um 60 kr. á tonn. En hitt veit ég svo um hina olíutegundina, sem allmikið af rekstrinum í landinu verður við að búa, hina svonefndu svartolíu, þá olíu, sem togararnir byggja allan sinn rekstur á og mikið af verksmiðjum í landinu, að olíufélögin hafa ekki verið að spyrja neinn um það, en eru búin að tilkynna verulega hækkun á henni einmitt núna þessa dagana, meðan á verkfallinu stendur. Og þau eru að heimta það, að sú olía verði hækkuð í verði um 38 kr. á tonn, en sú verðhækkun jafngildir því, að útgjöld á meðaltogara hækki á ári í kringum 76 þús. kr., en það er heldur meira en helmingurinn af t. d. 10% grunnlaunahækkun, sem talað var um hér á tímabili. M. ö. o.: Olíufélögin í landinu þurftu ekki að spyrja neinn um það, og það hefur enginn þurft að fjargviðrast neitt út af því, þó að þau skelltu t. d. á togaraútgerðina í landinu og verksmiðjureksturinn í landinu verðhækkun á olíu, sem jafngildir 5% kauphækkun hjá þeim. Það hefur enginn verið um þetta spurður. Þetta hefur verið látið ganga í gegn viðstöðulaust. En til viðbótar vilja þau svo fá að hækka almenna hráolíu um 60 kr. á tonn, og bréfið um það liggur væntanlega hjá hæstv. ríkisstj. (BÓ: Er þetta ekki vegna hækkunar á flutningsgjöldum?) Jú, það vantar ekki, að það eru alltaf til rök hjá olíufélögunum fyrir því, af hverju þau þurfi að hækka, þau eru svo illa stödd, vesalingarnir, að þau þurfa að verja sig fyrir hverri smábreytingu, sem kann að verða. Það er alveg rétt, að flutningsgjöld á olíu til landsins hækkuðu nokkuð nú á tímabili, en þau hafa aftur lækkað mikið og eru verulega fallandi, og þau flutningsgjöld, sem hafa komizt upp í 115 kr. á tonn á olíunni, eru nú komin niður í 93 kr. á tonn aftur. Verði smáverðsveifla einhvern tíma á flutningsgjöldum upp á við, þá stendur ekki á því, að olíuhringarnir knýja fram sína hækkun og láta hana svo gjarnan standa hitt tímabilið, þegar flutningsgjöldin eru lægri. En ég hygg, að þeir séu fleiri en ég, sem álíta, að olíuhringarnir í landinu hefðu sannarlega haft efni á því að taka á sig smáverðlagsbreytingar á olíu nokkurn tíma. En í sambandi við þennan mikilvæga þátt í verðlagsmálunum í landinu hefur ekki komið fram af hálfu ríkisstj., að það ætti að tryggja, að verðlagið yrði óbreytt, heldur hefur hitt viðgengizt, að þetta verðlag hefur verið látið hækka þessa dagana, og kröfur liggja enn fremur fyrir um verulega hækkun.

Svo er eitt atriði enn, sem ég vildi minnast á hér í sambandi við þessi verkfallsmál.

Eins og kunnugt er, hefur svo tekizt til í sambandi við olíumálin, að olíufélögin hafa kosið þá leið að lenda í harðri deilu við verkfallsmenn í sambandi við afgreiðslu á sínum olíuskipum. Það er auðvitað mál út af fyrir sig, hvor aðili hefur rekið það af meira kappi að hafa sitt fram í þeim efnum, en olíufélögin hafa gengið svo langt í þessu, að þau hafa tekið þau olíuflutningaskip, sem voru frjáls til að flytja olíu út á landsbyggðina, þar sem ekkert verkfall var, og þau hafa vísvitandi sett þá olíu í þessi skip, sem var bannað að flytja til staðanna úti á landi, og þannig lokað fyrir þeim, sem búa úti á landi, möguleikanum til að fá olíu flutta til sín með þessum skipum. Þannig hafa tvö af olíuskipum olíuhringanna verið tekin úr leik í rauninni, en þriðja skipið, sem er olíuskip ríkisins, vitanlega annar þessu mjög knapplega, að sinna öllum stöðum úti á landi. En ríkið á fleiri skip en olíuskipið Þyril, sem hefðu þá átt að sinna þessu. Ríkið á þar að auki hin miklu strandferðaskip sín, bæði Herðubreið, Skjaldbreið, Heklu og Esjuna, og þessi skip hafa æði oft bjargað stöðum úti á landi með olíuflutninga og geta það, en þau hafa sáralítið sem ekkert verið notuð til þess mína, þegar verst hefur staðið á. Ég álít, að það sé fyllilega verkefni fyrir hæstv. ríkisstj. að skerast í þennan leik og reyna að hlutast til um, að þeir staðir, þar sem nú er svo komið úti á landi, að þeir geta ekki einu sinni haldið í gangi rafstöðvum sínum og eru orðnir rafmagnslausir og geta ekki kynt upp hús sín, geti fengið olíu, þá olíu, sem er frjáls til flutnings út á land af hálfu þeirra, sem í verkfallinu standa. Það er lítill greiði við olíulausa staði úti á landi að bjóða þeim olíu úr þeim skipum, sem eru í banni verkfallsins, því að það er skiljanlegt mál, að þeir staðir, sem eru utan við verkfallið og vilja halda sér fyrir utan það, kæra sig ekki um að sogast inn í deilur þessara aðila og lenda í þeirra banni. Ég vildi því í sambandi við þetta alvarlega verkfallsmál beina því til hæstv. ríkisstj., að hún geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að í fyrsta lagi olíuflutningaskip ríkisins, Þyrill, verði einvörðungu notað nú á næstunni til að birgja upp staði úti á landi, þar sem leyfi er til þess, að það skip starfi þannig, en að Þyrill verði ekki tekinn eftir viku, eins og áætlað er, burt úr olíuflutningunum og látinn taka að sér að fara að flytja lýsi til Englands, og enn fremur að ríkisstj. hlutist til um, að strandferðaskip ríkisins verði notuð líka til hins ýtrasta til þess að flytja olíu til þeirra staða, sem eru utan við verkfallið og engin ástæða er til að draga inn í verkfallið. Þar að auki væri svo auðvitað full ástæða til þess, að ríkisstj. léti beinlínis taka hin skipin, sem olíufélögin hafa látið í bann, en það vissu þau mætavel, þegar þau gerðu það, sem þau gerðu í sambandi við þau skip, að þau voru að stefna þeim í stöðvun. Ríkið ætti einnig að taka þau skip og reyna að koma olíunni héðan úr birgðastöðvunum til þeirra staða, sem raunverulega þurfa á henni að halda. Verkfallsmálin eru auðvitað alla vega kostnaðarsöm og erfið, en það sýnist ekki ástæða til þess að breiða verkfallið meira út en þörf er á, og ríkisstj. verður þó a. m. k. að vera hlutlaus í þessum málum, en ekki hafa þannig áhrif á gang málanna, hvorki með birtingu skýrslna né með ráðstöfun sinna skipa, að það geti heitið svo, að það jafngildi því að framlengja stöðvunina eða blanda fleirum inn í þetta en þörf er.