31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (3247)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal mjög fúslega verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að takmarka mál mitt.

Varðandi það mál, sem hv. 1. landsk. hreyfði hér, hvort hlutafélagið Loftleiðir mundi geta losnað úr því verkfalli, sem nú er háð, og haldið áfram sinni þjónustu, vil ég aðeins segja það, að mér virðist, að því miður hafi komið í það mál einhver stífni, svo sem nokkuð kom fram í ræðu hæstv. viðskmrh.

Hæstv. viðskmrh. vildi, að því er mér heyrðist, skella skuldinni af því, að ekki hefði fengizt lausn í þessu efni, á verkalýðssamtökin eða samninganefndina. Ég er ekki nógu kunnugur gangi þessara mála til þess að geta þar um dæmt, en mér virtist þó, að þarna kæmi einmitt fram hjá hæstv. ráðh., að í þetta mál hefur því miður hlaupið of mikil stífni, e. t. v. af beggja hálfu.

Ég vil mjög taka undir það, sem hv. 1. landsk. sagði og hæstv. viðskmrh. raunar vék einnig að, að það væri mjög æskilegt, að þetta mál gæti leystst og það helzt nú þegar. Mér virðist satt að segja, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert enn sem komið er úrslitatilraun til þess að leysa þetta mál. Hygg ég, að flestir geti orðið sammála um, að þarna stendur nokkuð sérstaklega á með Loftleiðir. Hins vegar kom það fram í ræðu hæstv. ráðh., að hann hefur aðeins haldið einn einasta fund um þetta mál. Þar náðist ekki samkomulag. Önnur afskipti virðist hæstv. ríkisstj. ekki hafa haft af þessu máli enn sem komið er. Mér virðist því greinilegt, að hún mundi geta gert a. m. k. aðra tilraun til þess að leysa þetta mál, og þá mætti e. t. v. vænta þess, að á því fengist æskileg lausn, sem allir gætu sæmilega við unað.

Fyrst ég kvaddi mér hljóðs, ætla ég um leið að víkja örlitið að öðru, leyfa mér að bera hér fram fsp. til hv. formanns fjhn. þessarar hv. deildar.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt, fluttum við þm. Þjóðvfl. frv. til l. um lækkun verðlags. Það var lagt fram hér í hv. d., ef ég man rétt, 23. febr. s. l. og tekið til 1. umr. og vísað til hv. fjhn. tveim dögum siðar. Þetta mál snertir með vissum hætti þær viðtæku vinnudeilur, sem nú standa yfir, að því leyti að í frv. er fjallað um að koma á mjög viðtæku verðlagseftirliti, og ákvæði eru um það í frv., að alþýðusamtökin hafi meirihlutavald varðandi slíkt verðlagseftirlit. Ég vil spyrjast fyrir um það hjá hv. form. fjhn., hvort n. muni ekki sjá sér fært að skila áliti um þetta frv. hið allra fyrsta, og vil ég þá vænta þess, að hæstv. forseti taki það sem fyrst á dagskrá.