16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

1. mál, fjárlög 1955

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 297 brtt. við fjárlagafrv., tölulið XIII, sem hljóðar um, að fjárveitingin á 15. gr. frv. til tónlistarskólans á Siglufirði verði hækkuð úr 10 þús. kr., eins og hún hefur verið að undanförnu, í 15 þús. kr. Út af þessari till. vil ég taka fram, að ég skrifaði hv. fjvn. bréf á sínum tíma, þar sem ég þóttist leiða rök að því, að tónlistarskólinn á Siglufirði væri þess fyllilega maklegur, að fjárveiting til hans yrði hækkuð úr 10 þús. kr., eins og hún hefur verið að undanförnu, í 15 þús. kr., en það litur út fyrir, að hv. n. hafi ekki tekið rök mín gild að þessu leyti, því að hún hefur ekki breytt till. sínum til samræmis við það, sem ég óskaði eftir.

Um tónlistarskólann á Siglufirði er það annars að segja, að hann er starfræktur af karlakórnum Vísi, sem um langt skeið hefur lagt drjúgan skerf til söng- og tónlistarmenningar í landinu, enda fyrir löngu orðinn þjóðkunnur fyrir ágæta frammistöðu utan lands og innan. Hefur kórinn ráðið ágætan ungan tónlístarfræðing, vel menntaðan og í alla staði hæfan, til þess að kenna í skólanum og veita honum forstöðu. Eru laun þessa kennara nú 35 þús. kr. á árí, og að sjálfsögðu er margvíslegar annar kostnaður af skólahaldinu. Sýnir rekstrarreikningur um skólahaldið, að á skólaárinu 1953–54 hefur orðið 10 þús. kr. halli á rekstrinum. Er það vitanlega kórnum gersamlega um megn að halda áfram starfsemi sinni, ef slíkur hallarekstur yrði áfram, og væri mjög illa farið, ef reksturinn legðist niður af þessum sökum, aðeins vegna þess, að Alþ. fengist ekki til að leggja fram til hans nokkur þúsund króna hærra framlag en verið hefur. Ég vil geta þess, að bæjarsjóður Siglufjarðar hefur af vanefnum sínum lofað að hækka sitt framlag til skólans um jafnháa upphæð og væntanlegt ríkisframlag yrði hækkað um, ef til kæmi.

Aðeins til að sýna fram á, að það er engin málamyndastarfsemi, sem tónlistarskólinn á Siglufirði heldur uppi, vil ég geta þess, að í ár stunda 36 nemendur nám í skólanum, og er það allt ungt fólk, sem á þess engan kost að afla sér slíkrar menntunar utan kaupstaðarins.

Þá vil ég loks geta þess, að á þessu ári keypti karlakórinn vandað hljóðfæri, sem kostaði 30 þús. kr., og er það til afnota fyrir nemendur skólans og karlakórinn Vísi.

Að öllu athuguðu trúi ég því ekki að óreyndu, að hv. alþm. finnist það nein ofrausn, þótt Alþ. hækkaði styrk sinn til þeirrar menningarstarfsemi, sem þessi skóli heldur uppí, um 5 þús. kr., þegar sýnt er, að skólinn getur ekki haldið áfram þessari starfsemi sinni nema með hækkuðum styrk ríkis og bæjar.

Viðkomandi brtt. hv. 4. landsk. (GJóh) á þskj. 305 við 22. gr. fjárlfrv., þar sem farið er fram á, að ríkisstj. heimilist að leggja fram allt að 4 millj. kr. til uppbyggingar atvinnulífsins í kaupstaðnum, vil ég taka fram, að það er rétt hermt, sem hv. 4. landsk. þm. tók fram í ræðu sinni áðan, að bæjarstjórn Siglufjarðar gerði á sínum tíma samþykkt lútandi að því, að ég og hv. 4. landsk. flyttum till. þessa efnis, sem till. hv. 4. landsk. hljóðar um. Út af þessu erindi bæjarstjórnarinnar skrifaði ég bæjarstjórninni og leiddi rök að því, sem ég taldi frá mínu sjónarmiði vera fullgild, að ég teldi ekki eðlilegt fyrir mitt leyti, að sú till. yrði borin fram, meðan til athugunar væru hjá ríkisstj. till. um að veita Siglufjarðarkaupstað mikla og margvíslega hjálp í hinum miklu vandræðum, sem nú steðja að þeim kaupstað. Hefur bæjarstjórn Siglufjarðar eða a.m.k. meiri hluti hennar fallizt á rök mín hvað þetta snertir og breytt fyrri samþykkt sinni til samræmis við það, sem ég gat um í bréfi mínu.

Hv. 4. landsk. vék aðeins að stjórn núverandi meiri hl. bæjarstjórnar Siglufjarðar á málum kaupstaðarins. Ég tel ekki ástæðu til að hefja á þessum vettvangi deilur við hann um stjórn núverandi meiri hl. á bænum, en get þó ekki látið hjá líða að geta þess, að fyrir forgöngu þess meiri hluta er hafinn undirbúningur að alhliða viðreisn atvinnulífsins á staðnum.

Þrátt fyrir það að flutningur till. hv. 4. landsk. er eftir breytingu á fyrri samþykkt bæjarstjórnar óþarfur að mínum dómi, þar sem hún tekur fram, að hún óski ekki endilega eftir. að þessi till. verði flutt, þá þarf ég naumast að geta þess, að ég mun greiða atkv. með þeirri till. svo og öðrum till., sem hv. 4. landsk. hefur borið fram við fjárlfrv. varðandi málefni Siglufjarðar.