16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það var hér í kvöld rætt um till., sem borin er fram af nokkrum hv. þm. um styrk til neytendasamtakanna. Ég held, að ég segi ekki frá neinu leyndarmáli, þó að ég skýri frá því, að ég stend í þeirri meiningu, að fjvn. hafi ætlað að afgreiða þá till. jákvætt, en hún hafi verið lögð til hliðar í bili og síðan hafi n. aldrei tekið þessa till. fyrir aftur. Ég hygg því, að það sé rétt, sem ég nú segi, að hv. fjvn. hugðist afgreiða þetta mál jákvætt.

En ég kvaddi mér þó hljóðs aðallega til þess að ræða um annað mál, í sambandi við 18. gr., sem hér bar mjög á góma rétt áðan í umr. Og það, sem ég vildi í sambandi við 18. gr. segja, var ekki um að bera fram till. um neina fjárveitingu til neins einstaklings í viðbót við það, sem þegar er gert, heldur vildi ég freista þess að tryggja, að þær upphæðir, sem mönnum hafa verið veittar á 18. gr., yrðu ekki skertar, heldur staðið við þau verk, sem fjvn. hefur látið frá sér fara um fjárveitingar til manna samkv. þessari gr. En nú mun það vera þannig um þá, sem fá ýmsar smáupphæðir samkv. 18. gr. og eiga jafnframt að fá einhverjar greiðslur samkv. lögum um almannatryggingar, t.d. ellilífeyri eða örorkulífeyri, að smáupphæðin, sem viðkomandi á að fá á 18. gr., er dregin frá þeim greiðslum, sem hann á að fá samkv. tryggingalöggjöfinni, og hann fær þannig í raun og veru ekkert út úr smáupphæðinni, sem hann hefur fengið á 18. gr. Þetta finnst mér vera alveg óviðunandi ranglæti og ástand, sem verði að leiðrétta, og hugðist gera það með svo hljóðandi tillögu:

Við greinina komi svo hljóðandi athugasemd: Nú á einhver aðili, sem styrks nýtur samkv. 18. gr., að fá bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, og má þá ekki skerða þær greiðslur, ef styrkupphæðin á 18. gr. er ekki hærri en 8 þús. kr.

Mér finnst alveg óviðunandi, að niður falli lögmæt greiðsla úr tryggingunum við það, að ætlunin sé hjá Alþingi að heiðra einhvern mann fyrir langa þjónustu með einhverri smáupphæð á 18. gr. fjárlaga, og sé ekki neina skynsemd í því. Ætlaði ég þess vegna að fyrirbyggja þetta með þeirri till., sem ég nú las, en nú hefur mér verið bent á, að þetta misrétti byggist á atriði í tryggingalöggjöfinni sjálfri, í 13. gr., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir, sem við gildistöku laga þessara njóta lífeyris eða eftirlauna af opinberu fé eða úr opinberum sjóðum, er sé a.m.k. jafnmikill og lífeyrir samkv. 15. gr., eiga ekki rétt á ellilífeyri. Ef ellilífeyrir eða eftirlaun ná ekki þeirri fjárhæð, á hlutaðeigandi rétt á því, að Tryggingastofnunin greiði það, sem á vantar, enda hafi hann náð tilskildum aldri.“

Eftir að mér hefur verið bent á þetta, þá er mér ljóst, að það fæst ekki leiðrétting á þessu misrétti nema með því að bera fram till. í sambandi við tryggingalöggjöfina, — en hún mun væntanlega koma hér til umr. á morgun í hv. Nd., — og þá á þann veg, að niður falli þetta ákvæði. Að vísu segir þarna, að aðeins þeir, sem við gildistöku tryggingalaganna njóti lífeyris eða eftirlauna, skuli missa réttar, ef þeir fá greiðslur úr öðrum opinberum sjóðum, en þetta mun hafa verið túlkað þannig af stjórnarráðinu, að það ætti að ná til allra.

Ég hverf því frá að bera fram þessa brtt., sem ég hafði ætlað mér að leita hér afbrigða fyrir og freista að fá samþykkta til þess að fyrirbyggja þetta misrétti á framkvæmd 18. gr., og læt þar með lokið máli mínu, en mun hins vegar reyna að bera fram brtt. við tryggingalöggjöfina, þegar hún kemur hér á dagskrá á morgun. Ég held, að þó að ákvæði séu sett til þess að vernda þessar smáupphæðir á 18. gr., þá geti það ekki skakkað stórri upphæð hjá Tryggingastofnuninni, enda má hún ekki spara sér fé á hlutum eins og þessum, þó að hún auðvitað verði að gera það meðan ákvæði eru um það í lögum.