22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

25. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við þessar umr., en þykir þó rétt að taka fram fáein atriði.

Hv. 1. þm. Eyf. vildi gera lítið úr óskum hlutaðeigenda austan Vaðlaheiðar í læknamálunum og benti á það, að þeir væru fleiri vestan heiðar, sem óskuðu annarrar skipunar. Ef þetta væri rétt, þ.e.a.s. að hægt væri að líta á málið á þennan hátt, þá er það alveg gefið, að öll 2. gr. frv. er út í hött, því að hún er yfirleitt um þetta, að tryggja tilteknum litlum svæðum rétt til læknisþjónustu, þar sem þeim er það hentugra að dómi íbúanna sjálfra, og vitanlega gerist það á kostnað þess hverfis, sem næst liggur lækninum, því að alltaf getur það komið til, að hann teppist. En sennilega kæmi það miklu meira að sök í flestum öðrum tilfellum en þarna, vegna þess að á þeim fjölmenna stað, Akureyri, er þó hægt til annarra að leita í neyðartilfellum.

Ég legg ekki trúnað á það, að læknar á Akureyri hagi sínum störfum þannig, að þeir í neyðartilfellum neiti aðstoð út um sveitir Eyjafjarðar. Því trúi ég ekki.

Nei, hér stendur það eftir, að læknaskipunarlöggjöfin reynir til hins ýtrasta að haga læknisþjónustu og læknaskipun þannig, að menn eigi sem greiðastan aðgang að læknishjálp í nauðsyn.

En hver er tilgangurinn með till. hv. 1. þm. Eyf.? Hvað vakir fyrir hv. flm.? Mér skilst, að hann sé fyrst og fremst sá að bæta læknisþjónustuna í Akureyrarlæknishéraði, sem nær yfir Akureyrarkaupstað, mikinn hluta Eyjafjarðarsýslu og einn hrepp í Þingeyjarsýslu. Með því að losa héraðslækninn undan þeirri kvöð að gegna læknisþjónustu í Háls- og Illugastaðasóknum með sárafáu fólki, við skulum segja um 200 manns, á að bæta verulega ástandið í Akureyrarhéraði. Mér finnst hér vera lotið að litlu. Ég er ekki að vefengja það, að hér sé um stórmikið vandamál að ræða, læknisþjónustu í þessu héraði, en ég held það sé óhugsandi að bæta hana, svo að nokkru nemi, með því að svipta þá fáu menn, sem þarna eiga hlut að máli, þeim rétti, sem þeir hafa haft og lagt er til í frv. að þeir haldi áfram.

Vandamálið er miklu stærra en svo, að það verði leyst á þennan hátt. Ég legg til enn sem fyrr að þessi till. verði felld.

Út af ummælum hv. 1. þm. N-M. vil ég segja örfá orð. Eins og ég gat um í framsögu, hafði heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. aðgang að áliti mþn. um heilbrigðismál og kynnti sér það að sjálfsögðu. En það álit fjallaði ekki nema að litlu leyti um læknaskipan í landinu, og n. taldi ekki mikið á því að græða í því sambandi. Það er satt, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ekkí gert ráð fyrir neinni gerbyltingu á læknaskipunarkerfinu, þvert á móti. Eins og ég gat um í framsögu, þá eru skiptar skoðanir um þetta mál í heild. Margir álíta, að nú sé tímabært í mjög stórum stíl að stækka læknishéruðin, koma upp heilsugæzlu- eða lækningastöðvum með góðum aðbúnaði og fleiri en einum lækni staðsettum. Það má vel vera, að þetta sé rétt í sjálfu sér. En ég er alls ekki viss um það. Það er ósköp auðveit að segja það hér í þingsölum, að nú séu allar samgöngur breyttar, menn geti farið á bíl á svona og svona stuttum tíma, svona og svona marga tugi og hundruð km. En þetta verður bara allt annað, þegar út í reyndina kemur, um vetrardag í íslenzkri veðráttu og færð. Hún er enn þá söm við síg þrátt fyrir okkar að mörgu leyti ágætu samgöngur. Ég er þess vegna alls ekki viss um, að það sé tímabært nú að gerbreyta læknishéraðaskipuninni í þessa átt, þó að sjálfsagt sé að taka þetta mál allt til gaumgæfilegrar athugunar áfram. Heilbr.- og félmn. hefur ekki gert tillögur í þessa átt, og ég held þess sé tæpast að vænta, að hún geri till. um gerbyltingu á læknaskipun landsins nú á milli 2. og 3. umr.