06.12.1954
Efri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

4. mál, hegningarlög

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til afgreiðslu, er samið af tveimur dómurum hæstaréttar og prófessor í refsirétti við Háskóla Íslands. Kvaddi hæstv. dómsmrh. menn þessa í júlímánuði 1952 til að endurskoða hin almennu hegningarlög. Hafa þeir síðan unnið að þessu verki, en ekki lokið því. Við slíku er ekki heldur að búast, þar sem hér er um mikið og vandasamt verk að ræða, sem án efa tekur langan tíma. Sjötta kafla hegningarlaganna hafa þeir hins vegar lokið við að endurskoða og sent dómsmrn. brtt. sínar við hann. Eru þessar brtt. frv. það, sem hér liggur fyrir til umr.

Við samanburð á frv. og þeim kafla hegningarlaganna, sem það fjallar um, kemur í ljós, að þessi kafli laganna er saminn algerlega um. Frv. sjálft og grg., sem því fylgir, ber og með sér, að höfundarnir hafa ekki kastað höndunum til verksins. Grg. er ýtarleg, gerir glögga og skilmerkilega grein fyrir málinu, og sjálft virðist frv. ná yfir þau atvik öll, sem nauðsynlegt er að fram komi, til þess að marki því verði náð, sem að er stefnt, án þess að eiga það á hættu, að upp kunni síðar að koma tilvik, sem ákvæði vantar um og fylla þurfi því upp með réttarvenjum.

Megintilgangur frv. er sá að stíga nýtt og myndarlegt spor í þá átt, að ríkisvaldið geri meiri gangskör að því en raun hefur orðið á hingað til að bjarga mönnum, sem afbrot hafa framið, út af afbrotabrautinni og gera þá að hæfum samfélagsþegnum. Þessi viðleitni er að sjálfsögðu ekki einskorðuð við ungt fólk, þó að hún beinist einkum að unglingum.

Hugmyndir manna um refsingar fyrir unnin afbrot hafa jafnan verið mjög breytilegar. Sú var tíðin, að megináherzla var lögð á, að refsingin ætti að vera ekki hvað sízt öðrum til viðvörunar og hinum brotlega réttmætt endurgjald. Síðar ruddi sú skoðun sér braut í vaxandi mæli, að það væri ekki síður veigamikið atriði að beina afbrotamanninum sjálfum inn á réttar brautir, samhæfa hann sjálfan þjóðfélaginu og reyna að bjarga honum.

Refsivistin og refsidómurinn voru hér erfiður Þrándur í Götu. Refsivist og refsidómur er slíkt áfall að öllum jafnaði, að tilhneiging hjá þeim, er fyrir slíku verður, er nokkuð rík til að kasta voninni fyrir borð og telja sig kominn í þá aðstöðu, að lítil von sé til afturhvarfs. Þess vegna er langt síðan farið var að þreifa fyrir sér um að komast fram hjá þessu tvennu án þess þó að stofna öryggi samfélagsborgaranna í hættu.

Tvær leiðir hafa verið farnar í þessum efnum. Önnur er sú að fresta refsivist, en hin að fresta málshöfðun fyrir unnið afbrot. Hvort tveggja er að fullnægðum víssum skilyrðum, bæði að því er varðar hegðun sakbornings, eftir að brot var sannað, og eins áður en það var framið.

Íslenzk refsilöggjöf hefur til þessa farið þá leið að heimila að fresta fullnustu refsingar með dómsorði. Hefur refsingin þá ekki komið til framkvæmda, ef dómfelldur hefur ekki gerzt sekur um brot í tiltekinn tíma, og að þeim tíma liðnum fallið alveg niður. Frv. því, er hér liggur fyrir, er ætlað að gera breytingu á þessu. Það heimilar dómsmrh. að fresta ákæru til refsingar um tiltekinn tíma og þegar sérstaklega stendur á. Það heimilar einnig að fresta ákvörðun um refsingu, þótt dómur gangi um sakarefni að öðru leyti. Og loks heimilar það að fresta fullnustu refsingar. Er því hér horfið inn á þá braut að opna leið til skilorðsbundinnar frestunar á málshöfðun, ákvörðun um refsingu og fullnustu refsingar, eftir því sem líklegast þykir til góðs árangurs fyrir sökunaut hverju sinni.

Þessar till. virðast orð í tíma töluð. Sá tími er löngu liðinn, er refsivistin var fyrst og fremst réttmætt endurgjald til hins seka eða viðvörun til þeirra, sem enn höfðu ekki brotið. Hugmyndir manna um siðgæði og þýðingu einstaklingsins fyrir samfélagið eru nú á því stigi, að athyglin beinist nú meira að því að bjarga elnstaklingnum vegna hans sjálfs og vegna samborgara hans, þó að ekki megi gleyma því, að stundum er slíkt óvinnandi verk og þá ekki um annað að ræða en fjarlægja slíka menn.

Allshn., sem hefur haft frv. til athugunar, hefur fallizt á þessi sjónarmið og mælir með þ~i, að frv. verði samþykkt.

Aðalákvæði frv. eru í 3. og 4. gr. þess. Hinar greinar þess eru nánari ákvæði um útfærslu á þeim tveim höfuðreglum, sem fram koma í þessum tveim nefndu greinum.

Í 3. gr. frv. eru ákvæði um, hvenær fresta megi um tiltekinn tíma að höfða refsimál. Er það ófrávíkjanleg regla, að ákvæði þessarar greinar koma því aðeins til framkvæmda, að rannsókn máls sé ekki aðeins lokið, heldur einnig, að fyrir liggi játning sakbornings um, að hann hafi framið refsiverðan verknað. Þegar svo er ástatt, getur dómsmrh. frestað ákæru um tiltekinn tíma, er sé ekki skemmri en eitt ár og ekki lengri en fimm ár. Fyrir þessum fresti setur ráðh. skilyrði um hegðun sakbornings, á meðan fresturinn er í gildi. Séu skilyrðin haldin, fellur málshöfðun niður að fresti liðnum. Séu þau ekki haldin, ber að rannsaka ástæður þess, og fer eftir niðurstöðum þessarar rannsóknar, hvort mál verður höfðað eða ekki. Skilyrðin miða öll að því að gefa sakborningi færi á að bæta ráð sitt og sýna vilja sinn til slíks, án þess að refsidómur hindri hann í slíkri viðleitni. Ákvæðum þessarar gr. verður því aðeins beitt, að í hlut eigi unglingur á aldrinum 15–21 árs, eða þegar högum sakbornings er þannig háttað, að umsjón með honum teljist vænlegri til árangurs en refsing, enda sé brotið ekki svo vaxið, að almannahagsmunir krefjist rannsóknar.

Í 4. gr. frv. er svo ákvæði um frestun ákvörðunar um refsingu og frestun fullnustu refsingar. Hvort tveggja er heimilað. Fresturinn skal ákveðinn í dómsorði og vera 1–5 ár og bundinn skilyrðum, sem í lögunum greinir. Ákvæðið um frestun ákvörðunar refsingar er, eins og ég gat um áður, nýmæli, en frestun fullnustu refsingar hefur verið í lögum á Íslandi nú um langt skeið.

Í 5., 6., 7., 8., og 9. gr. frv. eru síðan ákvæði, er kveða nánar á um ýmis atvik í sambandi við skilorðsbundna frestun ákæru og skilorðsbundna dóma. Sé ég ekki ástæðu til að rekja þessi atriði, enda virðist frv. mjög vel samið, eins og við er að búast af þeim ágætu sérfræðingum, sem hér hafa verið að verki. Þó þykir mér rétt að benda á, eins og fram kemur á fleiri en einum stað í grg. frv. sjálfs, að það eitt út af fyrir sig að fresta málshöfðun, ákvörðun refsingar eða fullnustu dóms er ekki fullnægjandi til þess að hjálpa afbrotamanni á rétta braut aftur. Til slíks þarf frekari aðgerða við. Er á það bent í grg. frv., að hjá öðrum þjóðum, sem hafa tekið upp hjá sér í lög ákvæði eins og þau, sem lagt er til að nú verði tekin íslenzka löggjöf, hefur fyrir löngu verið farið inn á þá braut, að ríkisvaldið hefur gert sérstakar ráðstafanir til að láta fylgjast með hinum ógæfusömu mönnum og ráðstafanir til þess að hjálpa þeim til að koma sér þannig fyrir í þjóðfélaginu, að síður sé hætta á því, að þeir haldi áfram á þeirri braut, sem þeir voru komnir inn á. Verður óhjákvæmilegt, þegar farið verður að framkvæma þessi ákvæði hér, að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir í því efni, og er þess að vænta, að dómsmrn. hafi vakandi auga fyrir þessu og athugi og undirbúi þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, ekki aðeins til þess að fylgjast með þeim, sem í slíkum fresti situr sem frv. þetta gerir ráð fyrir, heldur að einnig verði gerðar ráðstafanir til þess að búa þannig að þessum mönnum, að þjóðfélaginu verði færðir þar nýir, endurbættir þegnar og ekki þurfi til þess að koma, að hinir ógæfusömu menn haldi áfram á sinni braut, ef nokkur von er til að bjarga þeim.

Allshn. leggur til, að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, og getur lokið miklu lofsorði á þá menn, sem frv. hafa samið, fyrir það, hvað vel þeir hafa leyst sitt verk af hendi.