25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

189. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fjhn. hefur klofnað um þetta mál, og er nál. meiri hl. á þskj. 630. Leggjum við þar til, að frv. verði samþykkt, en efni þess er að hækka vextina í byggingarsjóði verkamanna um 11/2%.

Það kemur fram í nál., að innan fjhn. hefur verið rætt um það, að ástæða væri til að breyta kannske ákvæðum laga um byggingarsjóð verkamanna eða a.m.k. framkvæmd þeirra laga þannig, að kleift væri í framkvæmdinni, að fyrst og fremst sætu þeir fyrir lánveitingum, sem lægst launin hafa, þ.e.a.s. lægst launuðu verkamennirnir, og þá öðru fremur þeir, sem mesta ómegð hafa, að svo miklu leyti sem fjármagn það, sem fyrir hendi er, fullnægir ekki þörfum sjóðsins. Þetta sjónarmið kom einnig til álita innan húsnæðismálanefndarinnar, sem vann að undirbúningi þess húsnæðismálafrv., sem hér hefur verið til umræðu, og gerði hún nokkrar ábendingar í þessu sambandi til hæstv. ríkisstj. Það hefur þó ekki enn verið hnigið að því ráði að leggja fram frekari breytingar, og m.a. hefur það verið skoðun okkar í meiri hl. fjhn., að það mál þyrfti að ræðast betur í samráði við þá, sem framkvæmd þessara mála hafa haft með höndum, stjórn byggingarsjóðs verkamanna. Formaður hennar er nú og hefur verið um nokkurra mánaða skeið erlendis og ekki væntanlegur alveg á næstunni. Eins væri ástæða til að hafa þá nánara samráð í þessu sambandi við stjórnir byggingarfélaga verkamanna, a.m.k. stærstu byggingarfélaganna, eins og hér í Reykjavík og í nágrenni.

Allt þetta hygg ég að gæti komið til álita og athugunar, þegar rætt verður um það af hálfu byggingarsjóðs verkamanna og þessara félagastjórna við þá væntanlegu húsnæðismálastjórn; sem gert er ráð fyrir að setja á laggirnar, hvað sjóðurinn geti orðið mikils fjármagns aðnjótandi úr hinu almenna veðlánakerfi, eins og gerð er grein fyrir í því frv. Að sjálfsögðu ætti það að fara saman, um leið og sjóðnum er aflað meira fjár, að reyna að hagnýta það sem bezt vegna þeirra, sem erfiðasta aðstöðu hafa, vegna þeirra sérstöku lánskjara, sem þessi sjóður býður upp á og eru verulega miklu lægri vextir en gert er ráð fyrir eftir hinu almenna veðlánakerfi og allverulega miklu lengri lánstími.

Um þetta skal ég svo ekki hafa fleiri orð. Okkur í meiri hl. þótti rétt að láta þessi sjónarmið koma fram, en leggjum að öðru leyti til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.