14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

94. mál, iðnskólar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég býst við, að af þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar, sé hv. dm. ljóst, hvernig þetta mál stendur núna, með tilliti til afstöðu þingmanna til brtt., sem liggja fyrir.

Fyrir nokkrum dögum fluttum við hér þrír þm. þessarar d. brtt. við frv. um iðnskólalöggjöfina, og var hv. 7. landsk. þm. framsögumaður okkar í því máli. Nú kemur í ljós, að bæði hann og annar hv. þm., sem stóð að þessum brtt. ásamt mér, hafa horfið frá sínum till., og ég hef einhvern veginn týnt þeim í höndum íhaldsins, þar sem ég hafði ekki aðstöðu til þess að mæta á síðasta fundi n., og þykir mér það mjög miður. En þó að íhaldinu hafi nú einu sinni enn tekizt að mismuna til skoðun eins hægri krata og framsóknarmanns eins og innstæðu fátæks skálds í reikningum Morgunblaðsins, þá sé ég ekki, að það séu í sjálfu sér nein rök í málinu eða geti breytt afstöðu minni til málsins, eins og ég hafði markað hana í þeim brtt., sem hér voru bornar fram af mér og þessum tveimur hv. þm. En þessir meðflm. mínir að brtt. á þskj. 415 hafa nú ásamt íhaldinu gerzt fim. að tillögum á þskj. 445, þar sem segir, að í staðinn fyrir það, að í okkar brtt. var ákveðið, að iðnskólar skyldu vera dagskólar, þá komi í staðinn, að iðnskólar og iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla skuli vera dagskólar, þó megi nokkuð af kennslunni fara fram að kvöldinu, þar sem húsnæðisskilyrði og kennslukraftar gera það nauðsynlegt. Og hv. 7. landsk. þm. sagði hér áðan, að þetta fullnægði öllu réttlæti og öllum sínum óskum og kröfum í þessu máli. En ég verð að segja fyrir mig, að þessi till. minnir mig helzt á ræðu eftir núverandi útvarpsstjóra, þ.e.a.s. það, sem sagt er í byrjuninni, er tekið aftur í lokin. Og ef menn skyldu halda, að þetta væri breyting frá núverandi ástandi, þá vil ég benda á, að svo er alls ekki, því að iðnskólinn er nú að nokkru leyti þegar orðinn að dagskóla fyrir baráttu iðnnemanna sjálfra. En þegar hv. 7. landsk. þm. flutti hér framsögu fyrir tillögum okkar á þskj. 415, þá komst hann svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Við hann höfum við flm. þessarar brtt. að mestu leyti stuðzt. Þó höfum við gert þar á eina veigamikla breytingu, sem er varðandi það ákvæði laganna, að iðnskólarnir skuli vera dagskólar, og er það eitt af veigamestu atriðum þeirra brtt., sem við leggjum til og ég vænti að bráðlega liggi fyrir prentaðar. — Ég held, að það sé óþarft að fara mörgum orðum frekar en þegar hefur verið gert í þessum umræðum um nauðsyn þess, að hin bóklega kennsla iðnskólanna fari fram að deginum til, þannig að nemendum skólanna — iðnnemunum sjálfum — reynist á hverjum tíma unnt að færa sér í nyt þá bóklegu kennslu, sem ætlazt er til að skólarnir geti boðið þeim upp á. — Það má augljóst vera, að að loknum vinnudegi við margs konar erfiðisvinnu er erfitt að setjast á skólabekk í 2–3 tíma og eiga að njóta þar til fullnustu þess náms, sem iðnskólinn býður upp á, og eiga svo að loknum þeim tíma að búa sig undir bóklega námið næsta dag og í millitíðinni að .stunda sína erfiðisvinnu. Ég held, að það hljóti öllum hv. alþm. að vera ljóst, að árangurinn af slíku námi getur aldrei orðið sá, sem hann gæti orðið, ef skólinn væri stundaður að deginum, eins og gerð hefur verið þegar tilraun með í iðnskólanum hér í Reykjavík.“

Þetta var sem sagt rökstuðningur hv. 7. landsk., meðan hann stóð að brtt. á þskj. 415 með mér og hv. þm. V-Húnv., og áður en íhaldið mismunaði til skoðunum hans í þessu máli. En þegar íhaldið hefur mismunað til hans .skoðunum á þennan veg, sem nú er orðið, þá les hann upp sínu máli til stuðnings ,rök skólanefndar iðnskólans og Landssambands. iðnaðarmanna um þá brtt., sem hann hafði sjálfur flutt áður. En hinu stingur hann undir stól, þótt hann hafi í höndum sér, þ.e.a.s. áliti þeirra manna, sem hann áður hafði lagt mest upp úr að flytja málið fyrir, áður en íhaldið mismunaði til skoðun hans í málinu. Hann stingur undir stól umsögn Iðnnemasambandsins um brtt. okkar á þskj. 415. Ég ætla að lesa hana upp hér, með leyfi hæstv. forseta. Það er bréf, dags. 2. marz 1955, sem mér hefur verið sent ásamt öðrum nm. í iðnn. og hljóðar svo:

„Iðnnemasamband Íslands hefur á fundi sínum 2. marz athugað brtt. Eggerts Þorsteinssonar, Skúla Guðmundssonar og Bergs Sigurbjörnssonar, sem fram hafa komið við frv. til l. um iðnskóla. Stjórnin telur, að í þessum brtt. komi fram þau tvö aðalsjónarmið iðnnemasamtakanna, sem eru í fyrsta lagi: öll kennsla iðnskólanna fari fram að degi til, og í öðru 1agi: tekin verði upp verkleg kennsla í iðnskólunum.

Þetta eru þær höfuðbreytingar, sem gera þarf á kennslufyrirkomulagi iðnskólanna í dag. Þess vegna lýsum við yfir fullum stuðningi við þessar brtt. og treystum því, að hið háa Alþingi samþykki þær. Áð öðru leyti vísast til þeirrar álitsgerðar, sem Iðnnemasamband Íslands hefur sent hv. iðnn. neðri deildar Alþingis, dags. 18. febr. 1955; um fram komið frumvarp..

Það bréf las hv. 2. þm. Reykv. (EOl) upp hér í umræðum fyrir nokkru, svo að ég þarf ekki að gera það. Þetta er sem sagt álit og þetta eru óskir iðnnemanna sjálfra, og ég segi það eins og er, að ég met þær meira en allt hv. 7. landsk. þm., eftir að íhaldið hefur mismunað til skoðun hans í málinu.

Í öðru lagi rökstuddi hv. 7. landsk. þm. sinn núverandi stuðning við þessa loðnu till. og einskis verðu till. iðnn. eða meiri hl. hennar, eins og hún liggur hér fyrir, með því, að það vantaði húsnæði til að taka upp verklega kennslu og það vantaði fé til að taka upp verklega kennslu í iðnskólunum og breyta þeim í dagskóla að öllu leyti, og bæði hann og hv. 7. þm. Reykv. sögðu, að það væri ómögulegt að gera iðnskólana að dagskólum, vegna þess að ýmsir kennarar — meistarar skildist mér — væru bundnir við vinnu á daginn og yrðu þess vegna að kenna að kvöldinu til.

Nú vil ég til þess vitna, að við höfum hér á ýmsum árum átt við örðugleika að stríða, bæði hvað fé og húsnæði snertir, í skólamálum okkar. Þegar lögin um Háskóla Íslands voru sett, þá bjó hann á hrakhólum með húsnæði. Hann notaðist við eitt versta og lélegasta húsnæði, sem nokkur skóli hefur nokkurn tíma notazt við. Hann var að þvælast hér niðri í þinghúsi og uppi í Þingholtum með hluta af kennslunni o.s.frv. Þá datt þó engum manni í hug að miða háskólalögin við þetta húsnæði. Háskólalögin voru sett án tillits til þess, hvernig húsnæðisástæður voru í það skipti. Þau voru við það miðuð, að húsnæðisástæður breyttust og það yrði afleiðing af lögunum, að þjóðfélagið neyddist til að búa betur að háskólastúdentum en það hafði gert. Það hefði líka verið hlegið að því þá og mundi vera hlegið að því enn í dag, ef væri sagt: Nú verður að taka það inn í háskólalögin, að það skuli fara fram kennsla að kvöldinu til, vegna þess að prófessorarnir við landsspítalann þurfa að vinna sitt verk á daginn og geta ekki kennt fyrr en á kvöldin. — Það yrði bara hlegið að þeirri röksemdafærslu. Og það á ekki frekar að miða löggjöf um iðnskóla við þetta heldur en löggjöf um Háskóla Íslands eða hvern annan skóla sem vera skal. Ef kennararnir við menntaskóla, t.d. eðlisfræðikennarar við menntaskólann í Reykjavík, fyndu upp á því að ráða sig til starfa hjá atvinnudeild háskólans og segðu svo: Ja, það verður að breyta lögunum um menntaskóla. Við getum ekki kennt fyrr en á kvöldin, því að við þurfum að vinna hér uppi á atvinnudeild á daginn — hvað margir ætli yrðu til að hlusta á svoleiðis röksemdafærslu?

Nei, þetta eru ekki rök, og ég vænti þess fastlega, að hv. þdm. taki ekki tillit til svona hluta, þegar þeir eru að undirbúa framtíðarskólalöggjöf fyrir landið að því er varðar iðnskóla, að þeir fari ekki að miða þá löggjöf við það, hvort það er til húsnæði eða ekki til húsnæði eða hvort eftir sé að innrétta húsnæði fyrir kennslu í skólunum. Ég verð að segja það eins og er, mér þætti það mjög leitt, ef þessi hv. d. gerði sér það til niðurlægingar að taka slíkt til greina sem röksemdir í málinu eða þótt hún vildi taka það til greina sem röksemdir, að þá þyrfti endilega að binda kennslu í iðnskólunum við það, hvað einhverjum meisturum úti í bæ kemur bezt, — hvort þeir geta skapað sér aukavinnu í iðnskólanum á kvöldin með því að halda nemendunum þar eftir langan og erfiðan vinnudag og við þau skilyrði, er hv. 7. landsk. lýsti hér áðan, búnir að vinna 8–9 stunda erfiðisvinnu, eiga svo að setjast á skólabekk 2–3 tíma að kvöldinu til, sem yrði þá eftir þessu, undirbúa sig svo þar á eftir undir námið næsta dag, fara svo í vinnu í millitíðinni og þrífa sig upp og hreinsa sig til úr erfiðis- og óþrifalegri vinnu, áður en þeir setjast á skólabekkinn: Þegar við vorum að ræða þetta mál í n., þá var hv. 7. landsk. algerlega á því, að það væri jafnmikið réttlætismál að breyta iðnskólunum í dagskóla eins og það var á sínum tíma að löghljóða 12 stunda hvíld á togurum.

Ég vil svo aðeins að lokum taka það fram, þó að óþarft ætti að vera, að ég er enn flm: að till. á þskj. 415 og mun krefjast þess, að hún verði borin upp til atkv.