28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

94. mál, iðnskólar

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé þörf á því að halda langa ræðu hér í dag út af þessu máli. Það hefur verið nokkra daga hér í deiglunni og umr. töluverðar orðnar um það. Veit ég því, að hv. þdm. hafa þegar gert sér fulla grein fyrir því, hvað hér er um að ræða, og að þeir þarfnast ekki nýrra raka frá mér um það, að frv. í heild er bezt í því formi, sem það er, og miklu hagkvæmara en ef till. meiri hl. væru samþykktar.

Fyrst þegar þetta mál var til 2. umr., var eins og það væri einhver fjarstæða, sem ég hélt hér fram, að það væri meginmunur á brtt. meiri hlutans og á frv. Þá vildu forsvarsmenn meiri hlutans halda því fram, að munur væri í rauninni sáralítill á frv. og brtt. og þess vegna væri hættulaust að samþykkja brtt., en stór kostur að fá þær inn í frv., af því að þær væru skýrari, betur orðaðar og næðu betur þeim tilgangi, sem ætlazt væri til. En brtt. á þskj. 664 virðast sannfæra mig og aðra um það, að umr. hafi þó orðið til nokkurs árangurs og að meiri hlutinn hafi sannfærzt um eftir þessar umræður, að það var þörf á því að gera hér nokkrar umbætur á og breytingar, og gleður það mig sannarlega, að meiri hl. hefur þó viðurkennt þetta og talið ástæðu til að koma á móti þeim, sem vildu hafa frv. óbreytt, eins og hv. frsm. meiri hl. komst hér að orði áðan. Ég er þakklátur frsm. meiri hl. fyrir að hafa viljað ræða við mig um þetta mál í bróðerni og hafa viljað sýna nokkurn samstarfsvilja í þessu máli og ganga nokkuð á móti mér og öðrum, sem vilja hafa frv. með sem minnstum breytingum. En ég verð þó að segja, að brtt. á þskj. 664 er ekki nóg fyrir mig og minn málstað og hún nær ekki, þótt hún verði samþykkt, því, sem ég vil ná og hafa í löggjöf um iðnskóla, og ég skal í eins stuttu máli og ég kemst af með færa nokkur rök fyrir því.

Hv. þm. Str. talaði hér áðan og ræddi um 1. gr. frv. og brtt. meiri hl. og taldi, að eins og 1. gr. frv. væri, þá væri ákveðið það, sem hann og meiri hl. n. vildi fá, það væri að gera öðrum en þeim, sem eru á námssamningi hjá meisturum, kleift að hefja iðnaðarnám og fá sveinsbréf. Ég hef aldrei neitað því, að eins og 1. gr. frv. er, þá væri þessi möguleiki fyrir hendi. En það er sá reginmunur á 1. gr. frv. og brtt. meiri hl., að eins og 1. gr. frv. er, þá er þetta í heimildarformi, en eins og brtt. er, þá er það gert að skyldu, og þetta hefur meiri hl. viðurkennt með því að flytja hér till. um bráðabirgðaákvæði, sem kveða svo á, að bókleg og verkleg kennsla í skólunum skuli miðuð við það, hvað veitt er til þessa á fjárlögum hverju sinni. Verði 1. gr. frv. samþ. í því formi, sem hún er, þá er engin þörf fyrir þetta bráðabirgðaákvæði, því að þá hafa þeir, sem stjórna þessum málum, það í sinni hendi, hversu miklu þeir vilja kosta til iðnfræðslunnar í þessu skyni. Verði till. meiri hl. samþ., þá er skylt að koma upp verkstæðum og vinnustofum í skólunum og taka þar upp verklega kennslu í stórum stíl, og hefði það í för með sér óbærilegan kostnað, ef það ætti að bera jafnört að og ákveðið er í þessum till. Eins og 4. gr. frv. ber með sér, þá er sagt þar: „Skylt er að taka við öllum iðnnemum úr umdæmi skólans, ef þeir hafa löglega námssamninga og fullnægja að öðru leyti settum skilyrðum.“ En það er einnig heimilt og mögulegt að taka við öðrum nemendum, sem vilja hefja iðnnám til sveinsprófs á vinnustöðvum, sem skólarnir hafa ráð á.

Það er þetta, sem er meginmunurinn, og ég er ánægður með það, að hv. meiri hl. hefur viðurkennt það með flutningi sinnar brtt. um bráðabirgðaákvæði. En það segir sig sjálft, hvort það er ekki betra að sniða löggjöfina þannig, að með reglugerð sé mögulegt fyrir þá, sem stjórna skólanum og iðnfræðslu í landinu, að sniða sér stakk eftir vexti hverju sinni, heldur en að þurfa að vera að klína aftan við bráðabirgðaákvæði, sem ég verð að segja að er vægast sagt ósmekklegt. Bráðabirgðaákvæðið segir vitanlega ekkert til um það, hvar eða hvernig niðurskurðurinn eigi að fara fram, og hlýtur það í alla staði að vera dálítið vandaverk, sem þeir, sem stjórna þessum málum, vildu gjarnan vera lausir við með því að skapa löggjöfina þannig, að menn viti hverju sinni, að hverju þeir eigi að ganga.

Ég hygg, að hv. þdm. hafi gert sér fulla grein fyrir þessu og það sé þess vegna óþarft fyrir mig að vera að fjölyrða mikið um þetta atriði.

Þá er önnur brtt. meiri hl., sem ég ræddi allýtarlega við hv. frsm., og satt að segja gerði ég mér vonir um, þegar hann fór frá mér, að hann mundi a.m.k. beita áhrifum sínum til þess, að hún yrði felld niður eða dregin til baka. En það er ekki að sjá eftir þeirri brtt., sem meiri hl. hefur flutt, að samkomulag hafi fengizt um það, enda veit ég ekki heldur, hvort hv. frsm. hefur beitt sér fyrir því. En sú till. á að mínum dómi ekki þarna heima, og eins og áður hefur verið víkið að, þá ætti hún og fleiri brtt. meiri hl. frekar heima í iðnlöggjöfinni en í þessu frv.

Hv. frsm. sagði hér síðast þegar rætt var um þessi mál, að ef hæstv. forseti úrskurðaði ekki, að þessar brtt. gætu ekki átt heima í lögum um iðnskóla, þá væri það sönnun fyrir því, að till. gætu verið þannig. Nú hefur hæstv. þáverandi forseti, sem er hæstaréttarlögmaður og þekkir því þingsköpin, lögin og stjórnarskrána, sagt það alveg skýrt og ákveðið, að það væri ekki unnt fyrir forseta að kveða upp úrskurð í þessu efni, og þess vegna er það óhrakið,sem ég sagði hér áður, að þessar brtt. eiga betur heima í iðnlöggjöfinni, ef Alþingi vildi fá þetta fram, en í lögum um iðnskóla.

Það, sem hér er um að ræða, er það, að brtt. meiri hl. eru vægast sagt óþarfar frá sjónarmiði þeirra, sem vilja líta á brtt. með þeim velvilja, sem sjálfsagt er. En af þeim, sem annars hafa gert sér grein fyrir meiningu þeirra og borið þær saman við frv. sjálft, verður ekki hjá því komizt að úrskurða, að brtt. eru mjög vafasamar, hæpnar og óheppilegar í iðnskólalöggjöfina eins og nú standa sakir. Og eftir því sem hv. þm. Str. talaði hér áðan, sem taldi, að það væri hyggilegt að fara sér hægt og rólega í þessum málum og farsælla væri og bezt reyndist það, sem þroskaðist tiltölulega hægt, þá ætti hann að geta verið ánægður með 1. gr. frv. eins og hún er og þá möguleika, sem í henni felast, að veita öðrum en þeim, sem eru á ráðningarsamningi hjá iðnmeisturunum, fræðslu, eftir því sem mögulegt er, eftir því sem rúm er fyrir slíka menn í skólunum, eftir því sem fjárhagslegir möguleikar eru fyrir hendi hverju sinni. Þess vegna er það ekki einungis óþarft að vera að koma með brtt. við 1. gr., það er óhyggilegt að þessu sinni, og þm. Str. raunverulega viðurkenndi það hér áðan. Hann talaði um, að eins og 1. gr. væri, fælust í henni möguleikar til þess að kenna öðrum en þeim, sem eru hjá meisturum, en 1. gr. er þannig, að það er ekki skylt að ganga lengra í þessu efni en hyggilegt er fjárhagsins og annarra möguleika vegna.

Um aðrar brtt. er raunverulega óþarfi að ræða meira núna, því að hv. frsm. kom ekki að þeim í sinni ræðu. Hv. þm. Str. hélt sér aðallega við 1. gr. frv., og ég tel þess vegna ekki ástæðu til þess að fjölyrða öllu meira um hinar aðrar brtt. meiri hl. en gert var hér síðast.

Ég er samþykkur því, sem sagt var hér áðan, að íslenzkir iðnaðarmenn eru vel að sér í sínu fagi, vel færir, og ég hygg, að þeir þoli fyllilega samanburð við iðnaðarmenn nágrannalandanna. En hvers vegna er það? Það er vegna þess, að þeir hafa notið góðrar tilsagnar, ekki aðeins í skólunum, heldur einnig hjá meisturunum. Ég hygg, að það hafi nokkuð mikil þroskandi og bætandi áhrif á unglinga, sem hefja iðnaðarnám, að vera undir stjórn og handleiðslu góðs meistara, það geti haft ákaflega þýðingarmikil uppeldisleg áhrif á þessa menn, og ég hef tekið eftir því, að einmitt margir iðnaðarmenn, sem hafa eytt fjórum árum í iðnaðarnám, eru þannig að mörgu leyti í framkomu, sjálfstjórn og öðru slíku, að þeir skara fram úr ýmsum öðrum, sem hafa ekki átt þess kost að stunda slíkt nám. Þetta er ekki aðeins hin bóklega fræðsla, sem menn njóta, það er sú reynsla og handleiðsla, sem unglingarnir hafa fengið undir stjórn góðra, vel færra manna. Þess vegna ætla ég, að það sé hollt að halda sig í meginatriðum við þetta fyrirkomulag í iðnaðarkennslunni. En eins og frv. er núna, þá er ekki ætlazt til þess, að það sé gert endilega í öllum atriðum, en það er ætlazt til, að það sé gert í meginatriðum.

Hv. þm. Str. minntist hér áðan á iðnskóla í sveit, sem hann hefur flutt frv. um áður. Það er mál út af fyrir sig, og ég ætla ekki að ræða það mál hér að þessu sinni, enda á það ekki heima við þetta frv. En ég vil þó segja það, jafnvel þó að sá skóli væri settur á fót og gæti gert nokkurt gagn, — og ég efast ekkert um, að ef þeim skóla væri stjórnað vel, þá gæti hann gert nokkurt gagn, — að þá mundi hann tæplega fullnægja þeim kröfum, sem nauðsynlegar væru til þess, að iðnaðarmenn um land allt gætu notið kennslu frá honum, því að mér hefur skilizt á því frv., sem þessi hv. þm. flutti, að það væri gert ráð fyrir að stofna aðeins einn iðnskóla. Það er ekki við því að búast, að menn af öllu landinu gætu sótt hann og notið þar nauðsynlegrar kennslu. Hitt er svo annað mál, að sá skóli gæti gert gagn, það sem hann nær, en væri náttúrlega á engan hátt fullnægjandi.

Ég get nú stytt mál mitt og stuðlað þannig að því að verða við óskum hæstv. forseta, að umr. um þetta mál, a.m.k. 2. umr., verði lokið í dag.

Hv. frsm. varpaði nokkrum fyrirspurnum fram til mín í ræðulokin og spurði mig um það, hvort ég mundi vilja draga frv. til baka, eins og ég hefði haft orð á, ef það yrði samþ. í því formi, að brtt. meiri hl. yrðu felldar inn í frv. Ég sagði hér, þegar þetta frv. var til umr. síðast, að ég teldi þessar brtt. þannig vaxnar, að þær mundu spilla frv. það mikið, ef þær væru settar inn í það, að ég teldi ólíklegt, að frv. yrði þá að l. á þessu þingi. Ég sagði þá einnig, að ég byggist við, að ég mundi ekki stuðla að því, að það næði fram að ganga. Hins vegar vil ég segja það, að ég vona, að þessi hv. d. afgr. frv. í því formi, að það sé talið eðlilegt og æskilegt, að frv. verði að lögum. Og ég vil enn fremur segja það við hv. frsm., að ef svo illa fer, að þessi d. samþykkir brtt. við frv., sem ég tel og iðnaðarmenn og aðrir, sem stjórna iðnskólanum og iðnfræðslunni, óheppilega, þá mun ég vitanlega reyna að beita mér fyrir því, að frv. verði aftur breytt í Nd. í líkingu við það, sem það er nú, og koma frv. í gegn á þessu þingi, þótt fáir dagar séu eftir, í því formi, að þeir, sem eiga að njóta laganna, geti við það unað. — Það er þetta, sem ég vil segja, en ég ber svo mikið traust til hv. Ed., að til þess þurfi ekki að koma, að endilega þurfi að festa allt sitt traust á Nd.

Þá var önnur spurning, hvernig yrði um rekstur nýja iðnskólans, ef ekki yrði neitt úr lagasetningu að þessu sinni. Ég geri ráð fyrir því, að það færi nú einhvern veginn, jafnvei þó að ekki yrðu sett lög á þessu þingi, en áreiðanlega yrði það slæmt. Og ég er samþykkur hv. frsm., hæstv. forseta, að það væri mjög slæmt, ef frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi. En samt yrði við það að una og reyna svo á næsta þingi að flytja frv. á ný og fá það fram í því formi, sem viðunandi er. En ég vil ekki hugsa á þá leið, að frv. verði spillt svo mjög, að ekki verði við það unað. Ég vil alls ekki reikna með því, og ég hef ekki ástæðu til þess að reikna með því. Ég hef miklu frekar ástæðu til þess, eftir að frv. hefur verið hér til umr. og athugunar í þessari d. nú í meira en mánuð, að hv. þdm. hafi gert sér fulla grein fyrir því, hvað hér er um að ræða, og ég veit, að ég þarf ekkert að vera að leiðbeina hv. Ed. í þessu efni meira, og þess vegna skal ég verða við óskum hæstv. forseta og ljúka máli mínu.