05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

94. mál, iðnskólar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hæstv. viðskmrh. Ráðherrann hélt því fram, að það væri stefna frv. að gera iðnskólana að dagskólum. Það er ágætt, að þessi hæstv. ráðh. skuli lýsa yfir, að þetta sé stefna frv. En við höfum engar sannanir fyrir því, að svo verði í framkvæmd, og ekkert öryggi. Skólastjórn iðnskólanna ákveður það, hvort kennslan skuli fara fram að kvöldinu til og að hve miklu leyti, en ekki nemendurnir sjálfir. Þeir hafa engin áhrif og enga aðstöðu til að ráða neinu um það. Og hverjir eru það, sem ákveða það, hvort einhverjar ástæður eða aðstæður séu þannig, að kennslan þurfi að fara fram að kvöldinu til? Það er skólastjórn iðnskólanna líka, sem ákveður það. Þannig gæti hún til eilífðar stefnt að því, að iðnskólar yrðu gerðir að dagskólum, án þess að þeir yrðu nokkurn tíma raunverulega gerðir að dagskólum. Þetta er því alls ekki nóg.

Í sambandi við það, sem ráðh. sagði, að það væri óeðlilegt af mér að vilja afnema heimild til handa iðnskólanum í Reykjavík að ráða þessu, hvort kennslu skyldi haldið áfram eins og verið hefur eða iðnskólanum breytt í dagskóla, og taldi tormerki á því, að það væru tök á því á næstunni að breyta iðnskóla Reykjavíkur í dagskóla, þá vil ég taka fram, að iðnnemarnir sjálfir, sem gerst þekkja þessi mál, miklu betur en bæði ég og hæstv. viðskmrh., telja á því að breyta iðnskólanum í Reykjavík í dagskóla engin þau tormerki, sem valdið gætu því, að ekki mætti ákveða það nú þegar í þessu frv., að iðnskólinn í Reykjavík skyldi gerður að dagskóla. Og ég sé ekki betur en að þetta frv. geti nægilega stefnt að því að gera iðnnám að dagnámi áfram, þó að sú undantekning yrði ger, að það yrði ákveðið, að iðnskólinn í Reykjavík skyldi vera dagskóli, eins og ég hef lagt til í brtt. minni. Þá eru eftir allir aðrir iðnskólar landsins, allar iðnnámsdeildir gagnfræðaskóla, sem væntanlega rísa upp mjög margar, og enn þá er þess vegna nægilega mikið til að stefna að fyrir hæstv. viðskmrh. og iðnmrh. í þessum efnum.