28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

143. mál, almenningsbókasöfn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að leggja fram brtt. skriflega við 2. og 3. gr. frv. frá okkur hv. 8. þm. Reykv. og mér. Sú brtt. gengur út á það, að breytt sé 1. liðnum í 2. gr. um bókasafnshverfin.

Þar er ákveðið, að Reykjavík og Kjósarsýsla skuli vera eitt bókasafnshverfi. Það virðist nú svo sem Reykjavík ætti að standa undir því að vera bókasafnshverfi út af fyrir sig, og fæ ég ekki séð, hvaða rök mæli með því, að Kjósarsýsla sé þarna með. Það mundi þýða m.a., að eðlilega ætti Kjósarsýsla að fá að hafa þátt í stjórn þess bókasafns, sem væri fyrir Reykjavík, núverandi bæjarbókasafns, og ég býst við, að það mundi bæjarstjórn Reykjavíkur og Reykvíkingum þykja að ýmsu leyti undarlegt, að þeirra afskipta þyrfti við. Ef Kjósarsýsla væri gerð að sérstöku bókasafnshverfi, þá þyrfti hún að vísu að eiga einhverja miðstöð, hins vegar munu þar vera allmörg bókasöfn. Það munu vera bókasöfn bæði í Kópavogi og uppi í Kjós og vafalaust viðar. Nú virðist vera ákaflega mikill áhugi hér á Alþ. fyrir að gera Kópavogshrepp að sérstökum kaupstað, og það virðist þá máske ekki óeðlilegt, að miðstöðin fyrir Kjósarsýslu sé Kópavogur. Við höfum þess vegna leyft okkur að leggja til í fyrsta lagi, að sú breyting yrði gerð á 2. gr., að í stað þess, sem nú er nr. 1, Reykjavík og Kjósarsýsla, kæmi nr. 1: Reykjavík, nr. 2: Kjósarsýsla, og í 3. gr., þar sem miðstöðvar bókasafnshverfanna eru taldar upp, komi fyrst Reykjavík og nr. 2 verði svo Kópavogur. Ég fæ ekki betur séð en að öll rök mæli með því, að þetta verði þannig, og ég held líka, að mér sé óhætt að fullyrða, að þó að við séum ekki fleiri af þingmönnum Reykvíkinga þarna flm., þá muni flestir þeirra vera þessu hlynntir.

Ég vil nú segja það viðvíkjandi þessu frv. í heild frá eigin brjósti, að ég held, að það sé yfirleitt ekki rétt með svona umfangsmikið frv., þó að það sé ákaflega margt, sem er til framfara í því, að afgreiða það á fyrsta þinginu, sem það liggur fyrir. Ég álít, að þetta frv. hefði átt að sendast til hinna ýmsu aðila, sem þarna hafa hagsmuna að gæta, og þeir hefðu átt að fá að segja sitt álit á þessu. Mér finnst líka og það bara við fljótlegan yfirlestur á þessu frv., að það þurfi að laga þarna ýmislegt um orðalag og jafnvel stefnu.

Í 4. gr. t.d., þar sem er verið að ákveða með lögum, hvert skuli vera hlutverk þessara bókasafna og hvaða bóka skuli aflað til hvers bókasafns, — það hefur aldrei verið sett í lög áður á Íslandi, hvaða bóka skuli aflað til bókasafns, — þá er mælt svo fyrir, þegar búið er að tala um innlendu bækurnar: „Leggja skal og áherzlu á öflun merkra erlendra bóka, eftir því sem kostur er á, og einkum þeirra, sem varða atvinnulíf og almenna menntun.“ Hver er meiningin með þessu orðalagi? Það mundi þýða, eins og það er skrifað, að það ættu að vera bækur, sem eru um atvinnulíf og um almenna menntun, sem sagt um skólafyrirkomulag og uppeldismál og annað slíkt. Ég býst alls ekki við, að það sé meiningin með þessu orðalagi. Ég býst við, að meiningin hljóti að vera sú: og þá einkum þeirra, sem varða atvinnulíf, og bóka, sem verða til þess að auka almenna menntun. — Eitthvað slíkt. (Gripið fram í: Og varðar það þá ekki almenna menntun?) Jú, þær varða það. En mér finnst þessi orð gefa svo skakka hugmynd að segja: „þeirra, sem varða atvinnulíf og almenna menntun .“ Mér finnst, að meiningin, sem þarna hafi hlotið að vaka fyrir, hafi verið sú, að þetta væru bækur, sem væru annars vegar um atvinnulíf og hins vegar bækur, sem yrðu almennt til þess að efla almenna menntun, en meiningin geti ekki verið, að það séu bækur sérstaklega um skólamál eða uppeldismál eða annað slíkt. Það er bara sjálft orðalagið á þessu, sem ég held að gefi ranga hugmynd af því, sem hlýtur að hafa vakað fyrir þeim, sem þetta sömdu.

En þá kemur þarna sú spurning inn í: Eigum við að setja svona ákveðin fyrirmæli viðvíkjandi því, hvaða tegunda bóka skuli aflað? Upprunalega þegar bókasöfnin eru mynduð hér á landi, þá er það fyrir forgöngu mikilla áhugamanna, og þessi bókasöfn í upphafi — ég tala nú ekki um brautryðjendabókasöfn eins og þessi gömlu í Flatey, Stykkishólmi, Húsavík — mótast allmikið af áhugamálum þeirra manna, sem gangast fyrir því að mynda þessi söfn. Og það skapast þó nokkur fjölbreytni um þessi söfn, — fjölbreytni, sem mér finnst satt að segja vera skemmtileg. Ég er ekki ákaflega hrifinn af því að ætla að steypa allt endilega í sama mót með svona löggjöf. Ég skal taka sem dæmi bókasafnið á Húsavík, það bókasafn, sem Benedikt á Auðnum fyrst og fremst hefur forgöngu um, safnar til og mótar mikið af sínum persónulegu áhugamálum. Það, sem fyrst og fremst er í þessu bókasafni, eru skáldrit, alveg sérstaklega Norðurlandaskáldritin, þau róttæku skáldrit realistanna frá síðustu áratugum 19. aldarinnar, og enn fremur ákaflega mikill og merkilegur bókakostur um þjóðfélagsmál. Að minnsta kosti þegar ég fyrir ég held eitthvað tveim áratugum athugaði bókasafnið á Húsavík, þá var það hvað snerti þjóðfélagsmál og félagsmálastefnur bókasafn, sem hafði meira til að bera en jafnvel sjálft landsbókasafnið í Reykjavík. Ég álít það vera slæmt, að það eigi nú of mikið að fara að steypa þetta í sama mót með lagafyrirmælum um, hvers þarna skuli aflað. Og hvað snertir útlendu bækurnar, þá er ég alls ekki viss i, að þetta sé það, sem við ættum að leggja höfuðáherzluna á. Ég held, að það, sem mundu vera aðaláhugamálin hjá almenningi eftir mínum kynnum hvað útlendu bækurnar snertir, — og þetta er allt takmarkað, eins og þarna stendur, við öflun merkra erlendra bóka, — mundi vera fyrst og fremst skáldrit; enn fremur alls konar sagnrit. Það hefur alltaf verið við bókasöfn mikill áhugi fyrir slíku, ævisögum, ég tala nú ekki um ferðabókum og ekki beint kannske sagnfræðilegum ritum, en ritum, sem eru allt að því. Og þá fyrst kæmu raunverulega rit um atvinnulíf. Ég hefði álitið heppilegt að orða seinni hlutann í 4. gr. í 2. málsl. 2. mgr. þannig, að á eftir orðunum þarna: „Leggja skal og áherzlu á öflun merkra erlendra bóka, eftir því sem kostur er á“ — þá kæmi: og þó einkum skáldrita, sagnrita og rita um atvinnulíf og annarra rita, er stuðla að því að efla almenna menntun. Ég held, að þetta hefði verið bæði réttara orðalag og líka efnislega nær því, sem áhugi alþýðumanna mundi vera í þessum efnum, og raunar líka í meira samræmi við það, sem tekið er fram viðvíkjandi íslenzku bókunum.

Þar eru tekin sérstaklega þau þjóðlegu fræði, skáldrit og annað slíkt, og ég held það mætti vera dálítið samsvarandi um þetta.

Ég skal gera hlé á minni ræðu. Ég á aðeins eftir að mæla með einni till., sem ég hef flutt, en um þessar tvær þyrfti að leita afbrigða. [Frh.]