08.12.1955
Neðri deild: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

118. mál, ný orkuver og orkuveitur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að ræða efnið í þessu frv., a.m.k. ekki að svo stöddu, en ég vildi gjarnan mega ræða ofur lítið fráganginn á því. Ég held, að við eigum ekki að afgreiða frumvörp í þessu formi, sem hérna er lagt fyrir, heldur að bæta ofur lítið þetta form, og ég sé, að það er nú ekki fjhn. sjálf, sem hefur útbúið þetta frv., heldur eitt ráðuneytið.

Þetta er um breytingu á tvennum lögum, frv., sem breytir sem sé tvennum lögum, og í staðinn fyrir að taka þessi gömlu lög, og seinni lögin, lögin frá 1954 eru breyting á þeim fyrri, og steypa þessu um og orða þetta um, þannig að út úr komi eitt frv. í heild, þá er nú bætt hér einu nýju lagafrumvarpi við, svo að nú eru það orðin þrenn lög, sem menn verða að leita í frá mismunandi árum til þess að hafa hugmynd um, hvað sé gildandi um raforkulögin á landinu og þessi stórmál, sem eru nú eitt höfuðmál ríkisstjórnarinnar.

Okkur hefur alltaf verið illa við bandorma hér á Alþingi, ekki bara vegna þess, að venjulega hafa þeir haft slæmt innihald, heldur líka vegna hins, að þetta er sú ólýðræðislegasta aðferð, sem hægt er að hugsa sér gagnvart alþýðu manna, ef hún á yfirleitt að skilja þau lög, sem koma frá Alþingi. Þess vegna eru þessi lög um að breyta einstökum greinum í tvennum lögum og því ruglað hvað innan um annað. Og svo að síðustu 7. gr.: Með lögum þessum er numin úr gildi 2. gr. laga nr. 55 1954. — Það er að vísu skárra en eins og það hefur verið í sumum öðrum lögum, sem ég hef verið að átelja, að efnisinnihaldið eða vissir hlutar úr vissum greinum væru numdir úr gildi.

Ég álít, að fjhn. ætti á milli þessara umræðna að útbúa þetta frv. þannig, að lögin frá 1952 yrðu endurnýjuð og það lægi fyrir okkur við 2. umr. hér alveg í heild eins og þau lög eru með breyt., sem á urðu 1954 og nú er lagt til að verði þarna á, þannig að almenningur hafi, þegar hann vill fara að ræða þetta mál, fyrir sér lagafrumvarp um, hvernig þessar veitur eiga að verða. Ég verð að segja, að ég er satt að segja hissa á ráðuneytunum að ganga svona frá þessum málum, og það nær ekki nokkurri átt, að við látum þetta fara svona frá okkur. — Innihaldið ætla ég sem sé ekki á þessu stigi að ræða.