22.11.1955
Neðri deild: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Eins og frsm. hv. landbn., hv. þm. DaI., tók fram, var ég ekki meðflm. að þessu frv. Þó að það væri talið, að ég gæti verið meðflm., en áskildi mér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja þeim, vildi ég það ekki, af því að ég var og er á móti frv.

Hv. frsm. gerði dálítið úr þessum breytingum, sem hafa orðið á frv. síðan í fyrra. Ég var ekki á þingi, þegar þær umr. fóru fram, og veit því ekki, hvað þar hefur komið fram. En ef maður lítur á frv. eins og það var í fyrra og undirbúning þess, þá er það Stéttarsambandið, sem hefur ákveðið að breyta þessum lögum, og þeir hafa verið svo sannfærðir, þegar þeir voru að breyta þeim, og enginn annar komið þar að, og nefndinni hefur ekki virzt, að það væri neitt, sem þyrfti að breyta, til þess að það næði fullkomnun eins og þeir vildu hafa það, annað en það, að framleiðsluráð ætti að fá einkainnflutning á jarðarávöxtum, og þá sé öllu náð. En þeim er svo vel ljóst, að það sé ekkert annað, að þeir nefna hvergi nokkurs staðar í lögunum grænmetisverzlun ríkisins, eignirnar eða það allt, sem þar er, það sé eins og hver annar sjálfsagður hlutur, að þeir geti bara gengið þar inn, þegar þeir eru búnir að fá einkasölu á innflutningi grænmetis, þá geti þeir bara labbað inn í þessa ríkisstofnun, og ekki er gert ráð fyrir, að þeir verði að kaupa hana. Þegar þessir menn koma svo aftur til annarra manna, sem ekki hafa eingöngu stéttarsjónarmið eða félagssjónarmið, eins og t.d. hjá mönnum, sem eru að gera kröfur til kaups eða einhvers svoleiðis, þá kemur það, að það sé nú athugandi, að það sé eign þarna, sem þeir verði að fá, og þá breyta þeir því. Fyrsta aðalbreytingin er sú, að ríkisstj. sé heimilt að selja grænmetisverzlunina Stéttarsambandinu eða þessari nýju stofnun. Og þá kemur annað, sem þeim þykir dálítið erfitt við að eiga og sé ekki alveg ugglaust, að þeir skuli fá innflutningsleyfi, og þá kemur í frv., sem núna er, í breytingum, sem eru komnar fram, að ríkinu sé heimilt að selja grænmetisverzlun landbúnaðarins fasteignir grænmetisverzlunar ríkisins og þá verði þeir að kaupa það. En það eru svolitlir aurar, sem það kostar, sem þeir hafa ekki gætt að. Og það er tekinn af þeim einkarétturinn á innflutningnum. Nú er það landbúnaðarráðherra, sem má flytja inn, ekkert nefnt, hver á að selja. Svo getur landbrh. sagt: Ja, látið Sambandið eða kaupmenn flytja inn. — Þá eru þeir búnir að eignast grænmetisverzlun ríkisins, húsin og alla verzlunina, en búið að sleppa eftirlitinu með innflutningnum. Það er ekki einn stafur um það, hver á að verzla með þetta, það er ekki stafur um það í lögunum. Og mér finnst nú ekki undarlegt það, sem nefndin segir hérna í þessari mjög svo stóru grg., eins og þið sjáið fyrir þessu frv. núna, sem sýnir, að það hefur komið einhver deyfð fyrir áhugann um málið, að grg. skyldi ekki vera eitthvað svolítið ýtarlegri, en það segir hérna, með leyfi hæstv. forseta:

„Tillögur þessar hafa verið bornar undir nefnd þá, er samdi frv., og í bréfi til ráðuneytisins, dags. 28. f.m., segir meiri hluti hennar, þeir Sverrir Gíslason, Jón Sigurðsson, Unnsteinn Ólafsson og Helgi Pétursson, að þrátt fyrir það, að þeir telji ákjósanlegast, að frv. þeirra yrði samþ. óbreytt, þá geti þeir eftir atvikum fallizt á breytingar meiri hl. landbn., þar eð þeir telji þær til bóta frá því, sem nú er.“

Mig skal nú ekkert undra, þó að þeir séu nú ekki alveg ginnkeyptir fyrir þessari breytingu, þar sem þeir verða að kaupa grænmetisverzlunina og í öðru lagi innflutningurinn á grænmeti er tekinn úr höndum þeirra um leið. Mér finnst ekki undarlegt, þó að þeir séu óánægðir yfir því.

Svo er nú eitt í þessu máli. Ég veit ekki um það. Ég hef bara lesið þessi plögg, sem hafa komið hérna fram. Ég held og ég veit ekki annað en að framleiðsluráð verðleggi allt grænmeti og að bændum og þeim, sem hafa framleitt kartöflur og grænmeti öll undanfarin ár, að einu ári undanteknu, hafi grænmetisverzlunin borgað alveg þetta ákveðna verð að fullu nema 1953, en framleiðslan var þá svo mikil, að hún var ekki seljanleg.

Það er einn maður þarna með, Björn Jóhannesson, sem hefur verið á öðrum meiði og hefur ekki átt neinna beinna hagsmuna að gæta í þessu máli. Hvað hefur hann sagt um þessar breytingar núna, eða var þetta aldrei borið undir hann? Var það aldrei borið undir alla nefndina, eða sagði hann ekkert um þetta? Eins og ég tók fram í byrjun, finnst mér þetta allt vera ákaflega hættuleg leið, sem farið er inn á.

Það er hægt að segja, að það sé sérstakt með garðávexti og annað, sem flutt er inn. Hv. frsm. tók fram, að bændurnir hefðu sölu á kjöti, mjólk og öllu því, og hefur það aldrei verið öðruvísi. En það er bara dálítið annað, þegar hér um bil alltaf á hverju ári er töluvert stórt magn, stundum tveir þriðju og helmingur og minnst einn fjórði, sem þarf að flytja inn frá útlandinu. Þá fer dálítið að vandast málið. Það eru þó nokkrir aðilar hér á landi, sem framleiða úr íslenzku efni. Við getum hugsað okkur einhvern góðan veðurdag, að mönnunum, sem framleiða tau úr íslenzku efni, væri veittur svona réttur eins og þessum mönnum, líka mönnum, sem búa til skó, og það er ekki háð því, hvort það væri rétt eða ekki rétt, það er háð því, hvort mennirnir hafa pólitískt vald til að koma því fram, og þá mega mennirnir bara gæta að sér að gera ekki svona firru og mynda svona fordæmi. Út frá þessum forsendum er ég algerlega á móti þessu. Hv. frsm. sagði, að hann óskaði eftir, að málið færi til 2. umr. og svo áfram, en ég óska eftir, að n. taki það aftur og ég fái rétt til þess a.m.k. að vita, hvað menn hafa lagt til málanna, t.d. minni hluti nefndarinnar, sem þarna er, og í öðru lagi, hvað þeir menn leggja til málanna, sem eftir mánuð eiga að skila af sér milljónafyrirtæki eins og grænmetisverzlun ríkisins er. Mér fyndist, að það væri ekki undarlegt, að þeir fengju eitthvað um það að segja, og á þessum forsendum mun ég greiða atkvæði á móti þessu máli.