06.02.1956
Neðri deild: 63. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Hannibal Valdimarason:

Herra forseti. Það er ekki hæstv. ríkisstj. og ekki hæstv. forsetum deildarinnar að þakka, að hægt hefur verið að halda uppi umræðum um þetta mál, þangað til frsm. landbn. kæmi til landsins aftur. En það var auðvitað óviðeigandi að afgreiða málið út úr d., meðan hann var erlendis. En nú lagðist þetta allt saman saman, og er það í raun og veru atriði, sem ber að þakka hv. stjórnarandstöðu. Ég játa, að það er óviðkunnanlegt að hafa þurft að ræða þetta mál að formanni landbn. fjarverandi, en eina leiðin til þess að bæta úr því er það, að einhver hluti umr. geti farið fram, eftir að frsm. kemur heim, en hann hefur sennilega komið til landsins núna í dag.

Ég skal ekki svo mjög ræða efnishlið málsins núna. Ég gerði það nokkuð rækilega seinast þegar ég talaði um það við þessa umr., en þó er óhjákvæmilegt, af því að nokkuð liður nú á milli þess, að málið komi fyrir, að rifja upp helztu atriðin. Núna er skipulagið á þessum málum þannig, að ríkisstofnun fer með innflutning grænmetis og sölu á innlendum garðafurðum, að svo miklu leyti sem bændur vilja fela þessari stofnun þá sölumeðferð. Þeir hafa nú að lögum alveg fullt frelsi til að annast sjálfir sölu á öllum sínum kartöflum og öllu sínu grænmeti. En þeir eiga aðeins leið í grænmetisverzlun ríkisins með sína framleiðslu, af því að með því að láta hana fara þangað núna geta þeir fengið fúlgu úr ríkissjóði til niðurgreiðslu á kartöflum, og það er ekkert lítið fé, enda hefur svo farið, að þó að það sé alls ekki skipað með lögum, hafa bændurnir látið sína grænmetissölu fara í gegnum grænmetissöluna m. a. af þessum ástæðum.

Eftir lögunum um grænmetisverzlun ríkisins á verzlunin að sjá borgið hag bæði framleiðenda og neytenda. Meðal annars á grænmetisverzlunin að sjá um það, að nægilega sé flutt inn af grænmeti á hverjum tíma og kartöflum, þannig að landið standi ekki uppi kartöflulaust og grænmetislaust löngum og löngum. Hins vegar hefur grænmetisverzlunin ekki með mat á íslenzkum kartöflum að gera. Um þá hliðina sér framleiðsluráð landbúnaðarins nú. Þó er það upplýst hér í skýrslu frá forstjóra grænmetisverzlunarinnar, að komið hefur það fyrir, að verzlunin hefur orðið að sjá hag neytendanna betur borgið en hið lögskipaða mat hefur gert, því að stundum hefur orðið að framkvæma endurmat og flokka á ný það, sem hafði sloppið í gegnum matið, en þótti ekki vera gæðavara. Og grænmetisverzlunin hefur haft þann háttinn á að hafa tiltölulega mjög hátt verð fyrir úrvalskartöflur og nokkurn verðmun siðan á flokkunum niður eftir til þess að ýta undir framleiðendurna með að vanda sem allra bezt sína framleiðslu. Og hygg ég, að grænmetisverzlun ríkisins sé ekki ámælisverð fyrir þessa afstöðu sína og þessi vinnubrögð.

Nú hef ég viljað halda því fram, að þetta fyrirkomulag, að hafa ríkisstofnun, sem ætti að gæta hvorra tveggja hagsmunanna, framleiðendanna og neytendanna, væri sanngjarnt fyrirkomulag og að það væri að öllu leyti gott, ef forstaðan væri í höndum góðra og samvizkusamra manna. Nú er það nokkuð viðurkennt í þessum umr., að það sé ekki hægt að saka þá menn, sem grænmetisverzlun ríkisins hafa stjórnað og hjá henni unnið, um vanrækslu í störfum eða hlutdrægni, sem hafi bitnað á framleiðendunum, enda hygg ég, að slíkar ásakanir, þó að fram kæmu, fengju lítinn hljómgrunn. Hversu auðsætt mál það er, að neytendurnir telji það ærið hagsmunamál fyrir sig, að alltaf sé til nægilegt af kartöflum og grænmeti í landinu og á sómasamlegu verði og að þetta sé vönduð vara, kemur berlega fram í nál., sem ég er hérna með. Það hafa kannske einhverjir haldið, að þetta væri heilög ritning, sem ég væri kominn hérna með upp í ræðustólinn, en það er alls ekki heilög ritning, þetta eru drög að till. um skipan matjurtasölunnar, og mun vera kostað til þessarar bókar af hendi landbrn. til þess að afla upplýsinga um þetta þýðingarmikla mál.

Á bls. 5 í þessari ritningu segir, með leyfi hæstv. forseta: „Matjurtaræktun er þriðja þýðingarmesta búgreinin í landbúnaðinum, kemur næst á eftir mjólk og kjöti, og er kartaflan þýðingarmesta matjurtin. Fleiri framleiða kartöflur en nokkra aðra framleiðslu. Kartöflurækt er aðalatvinnuvegur í nokkrum landshlutum, en í fleiri aukagrein og í kaupstöðum mest tómstundavinna til heimilisnota. Þjóðin borðar meira af kartöflum en af nokkurri annarri fæðutegund, að mjólk undanskilinni. Kartöflur eru daglega á borði flestra heimila í landinu tvisvar sinnum á dag alla daga ársins: Þetta sýnir, að höfundur þessa nál. viðurkennir, að neytendurnir hafi allmikilla hagsmuna að gæta í sambandi við meðferð þessara mála. Um það verður ekki villzt. En þetta frv. allt fer þó fram á það, að sá réttur, sem nokkurn veginn er nú samkvæmt lögum jafnt til verndar framleiðendum og neytendum, á nú að skerðast, í raun og veru að afnemast að því er snertir rétt neytendanna, og siðan á að færa allan réttinn og yfirráðin yfir þessum málum í hendur framleiðendum einum. Það virðist ekki vera jafnvægisráðstöfun.

Með nál. um þetta frv. eru, eins og margvitnað hefur verið til, birtar umsagnir frá ýmsum kaupfélagsstjórum, 6 eða 7 talsins, og einum kaupmanni. Nú skyldi maður kannske halda, að þessir kaupfélagsstjórar væru þaðan af landinu, sem lítið væri ræktað af kartöflum, og það væri þannig lítið leggjandi upp úr þeirra umsögnum. En þetta eru einmitt kaupfélagsstjóri í Akureyrarkaupstað, kaupfélagsstjóri á Akranesi, kaupfélagsstjóri á Hvolsvelli og kaupfélagsstjóri í Vík í Mýrdal og á Svalbarðseyri. Nú stendur hér í kartöflubiblíunni, sem við leyfum okkur að kalla svo, að það sé mjög misjafnt, hvar kartöflur séu ræktaðar, en svo vel vill til, að þar sem hann víkur að því, hvar mest sé ræktað af kartöflum, þá er það nákvæmlega einmitt á sölusvæðum eða kaupsvæðum þessara kaupfélaga, sem þarna hefur verið leitað umsagna hjá. Með leyfi hæstv. forseta, segir höfundur nál.: „Mest er framleitt í nágrenni Reykjavíkur, í Þykkvabæ, Eyrarbakka, Stokkseyri og Akranesi. Kartöflurækt hefur lengi verið mikil í Austur-Skaftafellssýslu og á Akureyri og báðum megin Eyjafjarðar, einkum á Svalbarðsströnd.“ Þ.e.a.s., leitað hefur verið af grænmetisverzlun ríkisins umsagna kaupfélagsstjóranna í öllum mestu kartöfluræktarhéruðum landsins, þær eru allar á þá lund, að mælt er á móti því, að núverandi skipulagi þessara sölumála verði breytt, og sérstaklega mælt á móti þeirri skipan, sem hið nýja frv. gerir ráð fyrir.

Skýrsla, sem greinir frá framleiðslumagninu á kartöflum innanlands, miðað við það, hvort þær séu framleiddar í sveitum eða kaupstöðum og kauptúnum, greinir hér frá því hjá forstjóra grænmetisverzlunarinnar, að á þremur árum, 1950–1953, hafi framleiðslan í kauptúnum og kaupstöðum hækkað um 38.9%, nærri 40%, og sé árið 1953 orðin 50.9%, meira en helmingurinn er nú ræktaður í kaupstöðum og kauptúnum, en innan við helming í sveitum. Þessar tölur eru þó sízt af öllu kaupstöðum og kauptúnum í vil, því að með kaupstöðum og kauptúnum eru hér einungís taldir hreinir kauptúnahreppar, en kauptún, sem eru hluti af hreppi, eru öll talin með sveitunum. Samt verða kauptún og kaupstaðir með meiri hluta af framleiðslumagninu af kartöflum samkvæmt þessari skrá. Ef menn treysta ekki þessum upplýsingum, og þær voru eitthvað vefengdar, það var verið að tala mjög mikið um það, að upplýsingar hagstofunnar um þessi mál væru ekki áreiðanlegar, þá er þar með verið að vefengja einmitt framtalsskýrslur bænda, því að hagstofan byggir á þeim, og hygg ég, að menn vilji ekki halda því til streitu eða vekja neinar grunsemdir um það, að framtalsskýrslur bænda séu þó ekki plögg, sem séu nokkuð áreiðanleg. Eins gott er a.m.k. að hafa það ekki í hámæli við bændurna sjálfa, því að það yrði ekki vinsælt kosningamál.

En höfundur kartöflubiblíunnar segir á bls. 32, með leyfi hæstv. forseta: „kartöfluuppskeran virðist hafa aukizt tiltölulega lítið að magni til í sveitum, en mikið í kaupstöðunum á undanförnum árum. Hlutur kaupstaðanna í heildaruppskerunni hefur vaxið verulega, bæði að magni og hlutfallslega, en hlutur sveitanna minnkað verulega hlutfallslega, en aukizt lítillega að magni til.“ Þetta er þróunin óumdeilanlega, að kartöfluræktun fer minnkandi hlutfallslega í sveitum, en vex stórkostlega á seinustu árum í kaupstöðum og kauptúnum.

Á öðrum stað hér einhvers staðar getur höfundur kartöflubókar þess til skýringar sínum niðurstöðum, að kaupstaðir eins og Sauðárkrókur og Akranes og fleiri kaupstaðir, sem orðið hafa til á seinni árum, séu taldir með sveitunum í þessum töflum, af því að þeir voru hluti af sveitarfélögum fyrir nokkrum árum, og þá kom samræmið betur út í skýrslunum. En þetta gerir það að verkum, að við komumst að þeirri niðurstöðu, að kartöfluframleiðslan í kauptúnum og bæjum sé raunverulega miklu meira en helmingurinn af allri framleiðslunni, þegar búið væri að flokka upp á nýtt bæjarfélögin, sem hafa orðið til á síðustu árum, og telja þau auðvitað, eins og vera ber nú í opinberum skýrslum, með kaupstöðum landsins. Allt þetta bendir til þess, að þá ætti miklu fremur að taka meira tillit til kaupstaðabúanna sem neytenda og framleiðenda í senn en gert er í núgildandi löggjöf. En þá er farið alveg hina leiðina, að það er gengið á rétt kaupstaðabúanna, eftir því sem framleiðslumagn þeirra hefur vaxið og margfaldazt, og hagur neytendanna í raun og veru fyrir borð borinn þar að auki.

Í minni fyrri ræðu vék ég að því, hversu óeðlilegt það væri og óviðunandi í sambandi við smiði frv. sjálfs efnislega, að þar væri gert ráð fyrir, að landbrn. ætti að fá einkasölurétt til að flytja inn allar kartöflur og grænmeti, en svo virðist ekki vera neitt ráð fyrir því gert, hvaða aðill eigi að annast verzlunina sjálfa. Líklegast á ekki að vera grænmetisverzlun í landbrn.? Ég geri ekki ráð fyrir því, og þá dettur manni helzt í hug, að landbrn. eigi að framselja einhverjum aðila verzlunarréttinn. En sá aðili er hvergi tilgreindur í frv. Hins vegar er fastlega gert ráð fyrir því, að núverandi eignir grænmetisverzlunar ríkisins skuli seldar, en í frv. er ekki stafur eða stafkrókur um það, hverjum skuli selja. Því síður er nokkur stafur um það í frv., fyrir hvað eigi að selja eignirnar, og er þó vafalaust þarna um milljónafúlgur að ræða, ekkert um sölumeðferðina, hvort það eigi að vera á uppboði selt eða á frjálsum sölumarkaði eða samkv. mati, — ekkert um það, bara nóg, ef það gæti heitið sala. Þetta finnst mér efnislega vera svo mikil gloppa í frv., að það sé gersamlega ómögulegt fyrir hv. landbn. að leggja til, að frv. með svona gati sé samþ., og því síður fyrir Alþ. að fara ekki fram á það við n., að upp í þetta gat sé fyllt á einhvern hátt.

Það er aðeins hægt að renna grun í það samkv. frv., að framleiðsluráð landbúnaðarins muni eiga að taka við framkvæmdinni á einkasöluréttindum landbrn. og annaðhvort verzla sjálft með þessar vörur eða fela einhverjum verzlunarréttinn. Það örlar á þessum yfirráðum framleiðsluráðsins á þessari nýju stofnun gegnum það orðalag, að framleiðsluráðið á að skipa eða ráða hinni nýju grænmetisverzlun landbúnaðarins framkvæmdastjóra.

Þeim, sem líta á málið frá sjónarmiði neytendanna, finnst sá réttur, sem nú er í lögum, að framleiðsluráð landbúnaðarins á að sjá um verðlagningu á þessum vörum og sjá um flokkun þeirra, vera ærinn réttur í höndum framleiðendanna, og til þess þarf ekki að breyta einum einasta lagastaf. En að framleiðendur sveitanna og umboðsmenn þeirra, sem nú er upplýst að framleiða minni hlutann af kartöflum, sem ræktaðar eru hér á landi, eigi líka að sjá um og fara með verzlun á allri þessari vöru, ákveða, hvort eða hvenær skuli fluttar inn kartöflur og grænmeti, og gets þannig ráðið því til þess að halda uppi verðiagi, að kartöflulaust væri í landinu tímunum saman, finnst okkur vera of mikið vald á hendi einnar stéttar og stéttarsamtaka, enda er það þetta tvennt, sem forstöðumaður núverandi grænmetisverzlunar ríkisins minntist á og segir alveg réttilega að sé ekki meðmælavert fyrirkomulag.

Um fyrra atriðið segir hann, með leyfi forseta:

„Löggjafinn getur trauðla veitt einum þau fríðindi, sem hann mundi synja öðrum um. En þá vandast málið, ef hver stétt fær einkarétt á innflutningi þeirra vörutegunda, sem hún framleiðir eða vinnur að, og verður að teljast miður hyggilegt eða heppilegt að fara inn á slíka braut.“

Um seinna atriðið segir hann:

„Er landbúnaðarráðuneytinu samkvæmt þessu ætlaður sýnu minni réttur en framleiðsluráðinu. Hversu góð sem einstök stéttarsambönd eða stéttarfélög eru og stjórnendur þeirra nú réttsýnir á hag allra landsmanna, er lagt á fulltæpt vað að veita þeim slík völd, að ríkisvaldið sjálft verði að lúta.“

Ég held, að flestir muni undirstrika það, að þetta séu réttmætar aðvaranir hjá forstjóra grænmetisverzlunar ríkisins, og held ég, að þetta hljóti fyrst og fremst að verka sem aðvörunarskot á hv. sjálfstæðismenn, í fyrsta lagi út frá því, að ríkisvaldið á þarna að vera máttarminna en framleiðsluráð landbúnaðarins. Hvað ætli hæstv. dómsmrh. segi um þann skorna rétt ríkisvaldsins? Og í annan stað hafa sjálfstæðismenn þótzt vera á móti einkasölum, og það þætti mér undarlegt, ef þeir nú allt í einu gætu verið með einkasölu einstakra stétta og stéttarsamtaka, yrðu kannske með því innan stundar, að Alþýðusamband Íslands sem stéttarsamband verkalýðsins fengi einkasöluréttindi á ýmsum vörutegundum, sem verkalýðinn varðaði miklu að væru í höndum hófsamra og hlynntra aðila. En því aðeins hefur þetta mál möguleika til þess að fara í gegnum þingið, að hv. sjálfstæðismenn ætli að greiða þessum atriðum hvoru tveggja atkvæði sitt, sem væri þá á móti þeirra yfirlýstu stefnu að því er bæði atriðin snertir.

Ég skal þá þessu næst leyfa mér að víkja nokkrum orðum að búnaði frv. Um efnislegu götin á því er ég búinn að ræða, og því verður ekki á móti mælt, að það vantar inn í frv. ákvæði um svo þýðingarmikil atriði, eins og yfirtöku eigna núverandi grænmetisverzlunar ríkisins og ákvæði um sölu á þeim og meðferð alla, að það eitt út af fyrir sig er óviðunandi. En svo kemur bara að hinni hliðinni, sem Alþ. má nú ekki láta sér alveg á sama standa um og sízt af öllu þetta Alþ., sem ræðir af miklum móði um málspillandi áhrif ættarnafna. Þó að það kunni að vera, að mannanöfn geti verkað í þá átt að spilla móðurmálinu, þá er enginn vafi á því, að almennt málfar á frumvörpum og lögum er ekki síður háskalegt til áhrifa á tungu okkar. Einstök orð gera það miklu síður en samfellt mál, og þeir, sem hæst tala um nauðsyn á því að afnema ættarnöfn, af því að af þeim séu málspjöll, ættu að lesa yfir sér til sálubótar frv. eins og þetta og segja til um það, hversu ánægðir þeir séu eftir lesturinn að því er þá hlið málsins snertir. Þetta er þó búið að vera í höndum ýmissa manna. Það er búið að vera í höndum þess sérfræðings, sem samdi kartöflubiblíuna, og hann er sennilega frumhöfundurinn. Það er búið að vera í höndum stjórnar Stéttarsambands bænda ein tvö eða þrjú skipti, og þau samtök hafa gert þetta mál að sínu hjartans máli, að því er manni skilst, því að bændastéttin almennt hefur ekki gert það. Frá henni hefur ekki heyrzt nokkurt kvak um, að hún hafi áhuga á þessu máli. Og svo er þetta búið að vera í höndum landbn. í tvö ár. Nefndin í fyrra gerði athugasemdir við málfarið á frv., benti á, að það væri alveg óviðunandi. En samt var ekki hróflað við því. Og nú er það flutt enn og þá með nokkrum efnislegum breytingum. Það voru nefnilega fleiri göt á frv. áður, þó að stærstu götin séu ófyllt enn. En málfarið er eftir sem áður eins, og við því var alltaf að búast, því að það virðist ekki vera fyrir slys eintóm. Þessi bók hérna, sem ríkið hefur borgað fyrir dýrum dómum, er öll með þessu markinu brennd. Hérna á 1. bls. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Söluskipulagið er þýðingarmikill hlekkur í keðju vandamála garðræktarinnar.“ — Það er anzi gott mál þetta ! — „Það hefur verið leitazt við,“ segir höfundurinn, „að gera yfirlit yfir þróun garðyrkjunnar, einkum kartöfluræktina.“ „Rækt“ og „ræktun“ á að þýða hvort tveggja það sama og er notað til skiptis, án þess að nokkur regla sé í því. — Þessi bók, „hún er samin í því skyni að fá yfirsýn yfir samhengi þeirra og til að draga af ályktanir í stað þeirra upplýsinga, sem skortur er á.“ Þetta er alveg metfésetning: til þess að fá yfirlit yfir samhengi þeirra og til þess að draga af ályktanir í stað þeirra upplýsinga, sem skortur var á.

Um búnaðarskýrslur hagstotunnar, sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, segir, að þær séu „ekki nákvæmar varðandi einstök ár, en gefi að líkindum gagnlegri mynd af þróuninni yfir lengri tíma“. Og í framhaldi af þessu segir: „Þær,“ þ.e. skýrslur hagstofunnar, „eru byggðar á framtölum framleiðenda, sem hreppstjórar safna og hagstofan fær.“ Hvað ætli hún hafi fengið marga hreppstjóra eftir þessu? (Forseti: Ég vil leyfa mér að benda hv. ræðumanni á, að við erum að ræða um frv., en ekki efni eða málfar þessarar bókar.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir ábendingar hans, en ég er hér ekki óafvitandi með neinn útúrdúr. Ég er hér með álit um matjurtaræktina og drög að tillögum nm skipan matjurtasölunnar, og þetta er aðdragandinn að samningu þess frv., sem við erum að ræða hér. Og í sambandi við það, sem ég ætla nú innan örlítillar stundar að víkja að, þ.e. málfarið á frv., er ég að víkja að nokkrum málsatriðum viðvíkjandi málfari á opinberu skjali, sem ríkissjóður hefur borgað.

Á bls. 5 segir: „Þýðing kartöfluræktar og kartöfluvandamálið sýnist vera sögulegt vandamál.“ Ja, það fer núna að verða sögulegt vandamál !

Í upphafi 2. kaflans segir: „Frosthætta er minni á Suðurlandi og fer eftir legu landshluta.“ — Á bls. 10 stendur þetta: „Frosthættan er öðruvísi viðfangs en ofviðrin, en á það er bent, að aðrar þjóðir vinna gegn þeim vanda.“ — Orðið „ávaxtaekrur“ kemur oft fyrir hér í bókinni. Á bls. 13 segir, „að garðræktin geti fullnægt þörfum þjóðarinnar fyrir kartöflur í venjulegu árferði“. — Á bls. 14 segir höfundurinn: „Vöntunarsjúkdómar t.d. verða bættir með því að bæta í jarðveginn efnum, sem hann skortir.“ Um að bæta sjúkdóma hefur maður nú heyrt hingað til litið talað. — Á bls. 15 segir höfundurinn: „Landbúnaðurinn verður að styðjast við handverkfæri. — Útsæði var handahófsval einstakra framleiðenda.“

Ég skal nú ekki þreyta hæstv. forseta með sýnishornum af þessu tagi miklu lengur, en þó kemst ég ekki hjá að nefna þá að síðustu, að — ég veit ekki, hvað ég á að nota að síðustu, því að það er svo margt, sem um er að ræða. Orðið afurð er notað mjög í eintölu. Það hef ég nú venjulega heyrt notað í fleirtölu. Svo er alveg ruglað saman eignarfallinu á „vegur“ í orðinu „braut“, þ.e. „vegs“, en svo aftur öfugt „vegar“ notað í þeirri mynd orðsins, þegar eignarfallið á að vera „vegs“, og hefur alveg snúizt við, og er ekki í eitt skipti, sem það kemur fyrir, ég hef séð, að þetta kemur fyrir hvað eftir annað í nál.

Þá ætla ég, af því að annars hefði þetta komið eins og skollinn úr sauðarleggnum, að sýna fram á, hvernig málfarið er á frv., næst að víkja að því. Og það má nú segja, eins og hæstv. forseti hefur verið að minna mig á, að það komi deildinni bókstaflega við.

Í 2. gr. frv. er talað um „gróðurhúsaframleiðslu“, og gróðurhúsaframleiðsla er annaðhvort grænmeti eða blóm eða hvort tveggja. Hliðstæða við þetta ætti náttúrlega að vera fiskibátaframleiðsla, það gæti komið í staðinn fyrir afli eða eitthvað því líkt. Eitt og annað er til nota fyrir þennan og þennan. „Innflutningur á landbúnaðarvörum fari því aðeins fram, að inniend framleiðsla fullnægi ekki notkunarþörfinni.“ Þetta er allt saman í þessari sömu grein.

Í niðurlagi 3. gr. stendur: „Á öðrum tímum árs skal ákveða verðið með tilliti til geymslukostnaðar og vaxtarauka.“ Hvað er vaxtarauki? Ég fyrir mitt leyti hef verið að brjóta heilann um það. Ég kemst að engri niðurstöðu.

„Gróðurhúsaframleiðslan“ gengur aftur í 4. gr. og í gegnum allt frv. Í þeirri sömu gr. segir um framleiðsluráðið: „Það getur haft eftirlit með meðferð matjurta.“ Í lagamáli virðist nú vera aðeins tvennt til, annaðhvort er um heimildir að ræða eða að aðill skuli gera eitthvað. Hvað hann geti gert, er lítið talað um í lögum og lítið gagn að í lagasetningu. Framleiðsluráðið getur haft eftirlit með meðferð matjurta, getur líka látið það vera að hafa nokkurt eftirlit með matjurtum. Og það væri dálaglegt fyrirkomulag. Eða hér í sömu grein: „Enginn má verzla með kartöflur, gulrófur, gulrætur né hvers konar gróðurhúsaframleiðslu.“ Það má enginn verzla með hvers konar gróðurhúsaframleiðslu. Þarna á auðvitað að vera: neins konar gróðurhúsaframleiðslu. „Hvers konar“ er þarna ambaga, sem gerir alla setninguna óskiljanlega.

Af því að þessu máli hafði seinkað mjög, var flutt seinna brtt. um gildistökuna. Það var upphaflega ætlunin, að frv. tæki gildi 1. jan 1956, og var svo flutt brtt. um það. En í 4. gr. er aftur talað um, að undir starfssvið framleiðsluráðs falli frá 1. jan. 1956 öll sú starfsemi, sem grænmetisverzlun ríkisins hafi haft með höndum varðandi ræktun og sölu íslenzkra matjurta. Þetta stendur enn þá í frv., eftir því sem ég bezt veit. Það er nú samt ekki á kostnað höfundarins að því er málfarið snertir.

Ég held ég hafi vikið að því um daginn, að illa væri hægt að koma þessu saman, sem er upphaf d-liðar í 4. gr.: „Ríkisstj. hefur einkarétt til að flytja til landsins kartöflur og nýtt grænmeti.“ Svo kemur: „Bann þetta nær þó ekki til skipa, sem koma í landhelgi og hafa innanborðs kartöfiur.“ Þegar í upphafi setningar er talað um einkarétt og svo vitnað til þess sem banns, þá kem ég ekki málfarinu saman og hvaða þörf er á því að tala um, að skip hafi þetta eða hitt innanborðs, það sem þau flytja, utanborðs flytja þau það nú varla. — Í næsta málslið stendur: „Grænmetisverzlun landbúnaðarins velur sér umboðsmenn víðs vegar um landið til að annast móttöku á kartöflum og öðrum garðávöxtum, og skulu samvinnufélög og aðrar verzlanir, sem umboð hafa nú fyrir grænmetisverzlun ríkisins, sitja fyrir sem umboðsmenn.“ Ég læt nú vera orðalagið „að sitja fyrir“. Það er kannske hægt að láta það slarka þarna, en þýðir þó fyrst og fremst annað. En „samvinnufélög og aðrar verzlanir“ — samvinnufélag þarf nefnilega alls ekki að vera nein verzlun. Nær hefði verið, ef það hefði verið: kaupfélög og aðrar verzlanir, en samvinnufélag getur verið allt annars eðlis en verzlun.

Í 5. gr. frv. er í a-lið sagt á þessa leið: „Greiða skal sérstakt verðmiðlunargjald af öllu kindakjöti, sem nota skal til verðmiðlunar.“ Það skal greiða sérstakt verðmiðlunargjald af öllu kindakjöti, sem nota skal til verðmiðlunar. Hvernig hægt er að nota kindakjöt til verðmiðlunar, — því er dálítið erfitt að koma heim og saman.

Ég held, að þessi dæmi nægi til þess að sýna það, að svo illa sem vandað er til efnis frv. og vantar veigamikil atriði í, þá er þó enn verr og háðulegar vandað til þess málbúnings, sem frv. hefur fengið, og fer þá allt saman í sambandi við málið. Þetta allt virðist mér benda til þess, að það sé engum til óþurftar eða vansæmdar, þó að sú yrði nú niðurstaðan, að fallizt væri á, að málinu yrði frestað, bæði til þess að athuga betur um efni þess og innihald og þann réttlætisgrundvöll, sem hinu nýja skipulagi væri ætlað að hvíla á, og einnig til þess að endurskoða málfarið á frv., en fyrst og siðast til þess, að leitað yrði samkomulags milli Stéttarsambands bænda og Alþýðusambands Íslands um að finna, svo framarlega sem ástæða þykir til að breyta frá núverandi skipulagi, nýja lausn á málinu, sem gæti fullnægt hagsmunum neytenda og framleiðenda í senn. Það er alveg áreiðanlegt, að það verður aldrei friður um það, að þetta mál sé eingöngu leyst út frá sjónarmiðum framleiðandans eingöngu, þegar í hópi neytendanna eru þá einnig framleiðendur meiri hlutans af allri kartöfluframleiðslu landsins. Þeirra réttur þarf því að tryggjast, bæði sem neytenda og framleiðenda, og frá þeirra hlið virðist svo sem um sinn hefði verið unað fyllilega við það skipulag, sem nú er í lögum.

Ég skal svo með þessu láta staðar numið við þessa umræðu málsins, en vænti þess, að þó ég hafi nú talað tvisvar sinnum, gefist mér kostur á, ef mér sýnist ástæða til, að taka þátt í umr., eftir að hv. frsm. landbn. hefur komið til landsins og tekið hér sæti á ný, því að það sýnist eiginlega vera sjálfsagður hlutur, að einhver hluti umr. fari fram þannig, að hann geti verið þátttakandi í henni.

En vænst þætti mér um, að tilmælum mínum um, að málinu verði frestað á þessu þingi, yrði komið til réttra aðila og þau helzt tekin til greina.