02.03.1956
Efri deild: 79. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er von, að margt skollst á langri leið, þegar menn verða fyrir því eins og hér, að á ekki lengri leið en yfir hálfan deildarsalinn er alveg rangfarið með þau orð, sem berast. Ég lýsti því yfir í þeim fáu orðum, sem ég mælti áðan, að ég væri ekki búinn að taka fullnaðarákvörðun um afstöðu mína til þessa máls. Þetta var alveg skýr og ótvíræð yfirlýsing. Svo kemur hv. 6. landsk. (FRV) og ræðst hér harkalega á mig fyrir það, að ég hafi lýst fullum og eindregnum stuðningi við málið, þvert ofan í það, sem ég gerði. Það mun koma í ljós á sínum tíma, hvernig ég greiði atkv., og það mun fara eftir þeim rökum, sem fram eru flutt. Ég lýsti hér eftir því, að á það væri bent, á hvern veg sú skipun, sem ráðgerð er í þessu frv:, yrði óhentugri neytendum en sú skipun, sem verið hefur, og ég tók alveg skýrt fram, að ef sýnt væri fram á, að hallað væri á neytendur frá því, sem nú er í lögum, þá mundi ég ekki styðja það. Það var vegna þess, að ég heyrði hv. þm. í gær ekki geta sýnt fram á þetta, sem ég varð fyrir vonbrigðum af hans málflutningi, og vonleysi hans um að geta sýnt fram á, að hallað sé á neytendur frá því, sem verið hefur, kemur fram í því, að þegar ég lýsi eftir þessum rökum og segi, að afstaða mín í málinu muni fara eftir því, hvort þau muni koma fram eða ekki, þá skilur hv. þm. það svo eða segist skilja, að ég hafi talað eindregið með frv.

Ræða hans nú staðfesti í einu og öllu þá skoðun, sem ég lét uppi hér áðan, að það er síður en svo, að frv. þetta horfi í meiri einokunar- eða einræðisátt en sú lögskipun, sem nú er. Breytingin er sú, að það, sem nú er í hendi eins manns, forstjóra þessarar einkasölu, á að koma í hendur margra manna, sem valdir eru úr hópi og af einni fjölmennustu stétt þjóðarinnar. Út af fyrir sig þarf það ekki að lýsa neinu vantrausti á núverandi forstjóra einkasölunnar, þótt menn telji það einræðisvald, sem hann hefur, betur komið í höndum fjölmenns ráðs, framleiðsluráðsins, en í hans eigin höndum. Hann hefur nú í hendi sér fullnaðarákvörðunarvald um, hvort flytja megi nokkurt nýtt grænmeti til landsins. Hann þarf ekki að spyrja neinn um það, hvaða ákvörðun hann tekur um þetta. Hann hefur um þetta úrslitavald. Sú breyting, að nú eigi að leita samþykkis framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem á að fá yfirstjórn þessarar einkasölu, er því engin önnur en sú, að margir menn eiga að taka ákvörðun um það, sem einn maður hefur tekið ákvörðun um fram að þessu.

Það er svo að vísu rétt, sem hv. þm. sagði, að einokunarforstjórinn er ábyrgur gagnvart landbrh., og landbrh. getur þá vikið honum frá, ef honum sýnist þessi einokunarherra fara ranglega með sitt vald. En alveg á sama veg getur Alþ., hvenær sem er, breytt þessum lagaákvæðum og tekið valdið úr höndum framleiðsluráðsins, ef meiri hl. Alþ. telur, að það hafi misbeitt sínu valdi. Hér er í hvorugu tilfellinu um neina endanlega ákvörðun að ræða. Vissum aðilum er fengið ákveðið vald, en í báðum tilfellum er það Alþ., sem verður að lokum að meta, hvort réttilega er með valdið farið, og ef framleiðsluráð landbúnaðarins heldur þannig á þessu valdi, að meiri hl. Alþ. telji óviðunandi, þá verður valdið vitanlega af því ráði tekið, alveg eins og meiri hl. Alþ. gæti knúið landbrh. til þess að setja einokunarforstjórann frá, ef hann færi mjög ranglega með sitt vald, og er vald Alþ. í báðum tilfellum mjög hliðstætt og þó raunar öllu beinna um að taka aftur með löggjöf það vald, sem veitt hefur verið með löggjöf, heldur en þau óbeinu áhrif, sem það getur haft á landbrh.

Það er því alger misskilningur hjá hv. þm., og ég veit, að hann veit betur, þegar hann er að tala um þetta sem eitthvert einræðisfrv. og að menn vilji beita hér valdi og kúgun. Í þessu felst ekkert í þá átt. Það má auðvitað deila um, hvort þessi skipun sé hagkvæm. Ég lýsti þeirri skoðun minni, að ég tel alla þessa þvingun vera óhagkvæma og óskynsamlega. Ég mundi telja miklu réttara að losa hér verulega um og veita stóraukið frjálsræði frá því, sem verið hefur.

Og þau mótmæli, sem fengizt hafa frá neytendum gegn þessu frv., byggjast einmitt eingöngu á því, að menn eru á móti þvinguninni. En þá gleyma menn því, að þvingunin er til í núverandi löggjöf og er einmitt enn harkalegri en hún á að verða, þar sem nú er það einn maður, sem fer með það vald, sem hér eftir á að verða í höndum fjölmenns hóps. Það var einmitt mjög eftirtektarvert, að í grein, sem fulltrúi neytendasamtakanna ritaði um þetta mál, sagðist hann alveg sleppa því að minnast á grænmetiseinkasöluna eins og hún væri, heldur fór og rakti einungis gallana á frv. eins og það er séð frá neytendum. En það tjáir ekki að nálgast málið á þann veg. Það, sem á ríður frá sjónarmiði neytenda, er að bera saman þá skipun, sem er, og frv. Eins og ég hef sagt áður: Ef hægt er að sýna mér fram á, að frv. leiði til óhagkvæmari skipunar fyrir neytendur en nú er, þá mun ég verða á móti þessu frv. En ef breytingin er ekki önnur en sú að færa vald úr höndum einkasöluforstjóra, eins manns, í hendur fjölmenns ráðs fulltrúa bændastéttarinnar, þá tel ég það horfa til aukins frjálsræðis og svo langt sem það nær þó vera til bóta, þó að ég telji það ekki til fullra bóta.

Ég vildi beina því til hv. frsm. mínni hl., hvort hann mundi ekki telja réttara að taka aftur sínar brtt. til 3. umr., þannig að það gefist kostur á að athuga þær betur í einstökum atriðum. Hv. þm. ræður því auðvitað, hvort hann gerir það eða gerir það ekki. Það getur farið fram betri íhugun málsins, ef það verður gert nú, en hann um það.