15.03.1956
Efri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Ég þakka hæstv. forseta, að hann ætlar mér það ekki, að ég haldi hér uppi umr. aðeins til þess að tefja tíma hv. d., það hefur ekki verið mín venja, og ég vil ekki taka þá aðferð upp í þessu máli, þó að ég vildi gjarnan koma í veg fyrir framgang þess hér á hv. Alþingi.

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) kvaðst vilja leiðrétta eitthvað hjá mér af því, sem ég hefði sagt um Bændafélag Eyfirðinga. Ég gat nú ekki heyrt á ræðu hans, að hann leiðrétti neitt, sem ég leyfði mér að segja um það félag og þess samþykkt. Hann staðfesti, að í þessu félagi væru menn úr Eyjafjarðarhéraði öllu, Akureyri, líka úr Þingeyjarsýslum, og bendir það til þess, að þetta sé margmennt félag og í því séu, eins og ég sagði að mundu vera, helztu áhrifamenn um landbúnað í þessu mikla landbúnaðarhéraði. Ekki get ég séð, að það spilli, þó að þarna hafi verið Þingeyingar líka á fundi. Þingeyingar austan Eyjafjarðar eru einhverjir mestu kartöfluframleiðendur og ágætir kartöfluframleiðendur, að því er mér hefur verið tjáð, og þeir munu þá hafa vit á þessum málum ekki síður en kaupfélagsstjórinn, sem hv. þm. S-Þ. vitnaði til. Hann hefur nú fundið einn kaupfélagsstjóra á landinu, sem hann treystir sér til að benda á, sem mælir með hinu fyrirhugaða nýja skipulagi. (KK: Ég nefndi hann sem dæmi þarna.) Af mörgum? (KK: Þeir munu nú vera til.) Eru þeir finnanlegir fleiri en einn, gott væri það, en ekki hefur nú verið nefndur nema þessi eini. Þarna munu hafa verið á fundi einmitt miklir kartöfluframleiðendur, t.d. frá Svalbarðsströnd, sem eru í þessu Bændafélagi Eyfirðinga.

Mér virtist aðalrök hv. 1. þm. Eyf. í sambandi við þetta atriði vera þau, að fulltrúaval bænda í Eyjafirði til búnaðarþings og þings Stéttarsambands bænda benti til þess, að bændur í Eyjafirði væru með þessu frv. Ég efast nú um, að við fulltrúaval til þessara ágætu þinga hafi verið barizt um þetta mál, að það hafi nokkuð komið fram í fulltrúavali til þessara þinga, hver afstaða manna væri til þessa máls. Ég held því, að þetta sanni ekkert hjá hv. þm., þó að einstakir menn, tveir menn, sem hann nefndi og eru fulltrúar á búnaðarþingi, skildist mér, hefðu þá afstöðu til þessa frv. að vilja samþykkt þess.

Ég held, að það, sem er að í þessu máli, sé, að bændasamtökin hafi ekki rætt þetta mál og að það liggi því miður ekki fyrir samþykktir bændasamtakanna sjálfra. Það eru einstakir fulltrúar þeirra, sem bera fram ákveðnar kröfur, en það hefur ekki verið hægt að benda á neina bændafundi, sem hafi samþykkt áskoranir til Alþ. um breytt skipulag í þessum málum, þvert á móti. Auðvitað sannar þessi ályktun Bændafélags Eyfirðinga ekki fullkomlega neitt mitt mál í þessu heldur, það viðurkenni ég, en ég tel alveg víst, að þar hafi verið á fundi menn, sem hafa fullkomlega vit á þessu máli. Hversu margir þeir hafa verið, er mér aukaatriði. Ég tel víst, að þarna hafi verið á fundi forustumenn bændastéttarinnar í öllu Eyjafjarðarhéraði og þeir hafi sannarlega vit á þessu máli og megi um það dæma, ekkert síður en þeir tveir fulltrúar, sem búnaðarfélög í Eyjafirði kunna að hafa kosið til búnaðarþings, og þess vegna megi taka mark á áliti þessa fundar ekki síður en áliti þessara tveggja manna. En hér sem fyrr eru rökin ekki önnur en þessi: Fulltrúar bænda í framleiðsluráði vilja þetta, þeir vilja fá þetta. — Og þó að engin rök séu færð fyrir því, að hér sé breytt um til hins betra um skipulag, eins og hv. þm. S-Þ. komst nú að orði, engin rök færð fyrir því, hvorki af honum né öðrum, heldur aðeins stagazt á því, að framleiðsluráðið vilji þetta, þá sannar það auðvitað ekkert um ágæti þess fyrirhugaða skipulags, þó að framleiðsluráðið vilji það. En hitt veit maður, að vissir menn verða alltaf hræddir, ef ákveðin samtök, stór samtök, gera samþykktir og krefjast einhvers, og halda, að það sé ekki hægt annað en fylgja því, hvernig sem það er. Og svo getur komið fram frv. eins og þetta, sem er einsdæmi að öllum frágangi og er þannig, að ég veit, að sumir mætir hv. þm. kinoka sér við að lesa það, áður en þeir samþykkja það. Þeir halda, að þeir verði að samþykkja það, en þeir geta ekki lagt það á sig að lesa það, því að þeir vita, að það er svo illa orðað og illa frá því gengið að formi til, að það er þeim ekki samboðið að samþykkja það.

Hv. 1. þm. Eyf. talaði mikið um, að kröfur Stéttarsambands bænda í þessu múll væru nú ekki sambærilegar við það, að Alþýðusamband Íslands fengi hjá löggjafanum vald til þess að ákveða sínum meðlimum kaup og kjör, og taldi, að verð á þessum framleiðsluvörum væri í höndum gerðardóms. Verðákvörðunin á þessum vörum á samkvæmt þessu frv. að vera í höndum framleiðsluráðs f.h. Stéttarsambands bænda, matið á þessum vörum á að vera í höndum framleiðsluráðs og ákvörðunin um og sölumeðferð öll á þessum vörum í heildsölu á að vera í höndum framleiðsluráðs, eins stéttarsambands, sem þó getur alls ekki talað í nafni allra framleiðenda, allra þeirra stétta, sem að framleiðslunni vinna. En auk þess á svo þetta framleiðsluráð að fara með einkasölu, nákvæmlega sömu einkasölu og ríkið hefur áskilið sjálfu sér og haft um tugi ára. Þessi aðstaða er að mínum dómi fullkomlega sambærileg við það, að Alþýðusambandið fengi með löggjöf rétt til þess að ákveða verð á vinnu sinna meðlima. Það er vitanlegt, að innlend framleiðsla á kartöflum og grænmeti hrekkur ekki til, það verður að flytja inn. Sá, sem fer með innflutninginn, ræður miklu bæði um verðið og hvers konar vara hlýtur að vera á markaðnum og ganga út. Allt þetta á að vera í höndum framleiðsluráðs. Það er óhæfa, og hafa engin rök verið færð fyrir því til að verja það. Það er hægt að færa gild rök fyrir því, að ríkið geti tekið í sínar hendur einkasölu á þessum vörum til þess að vernda jafnt framleiðendur og neytendur, en það hafa engin rök verið færð fyrir því, að þetta sama vald beri einni stétt að fá.

Hv. þm. S–Þ. sagði, að ég hefði faríð rangt með það, að landbrh. hefði ásakað forstöðumenn grænmetisverzlunar ríkisins fyrir lélegan eða slæman rekstur á grænmetisverzlun ríkisins. Það var ekki um þetta að ræða. Ég hef aldrei sagt slíkt, ég hef sagt og styðst þar við bæði þingtíðindi og blaðaumsagnir, þótt ég heyrði ekki sjálfur orð hæstv. ráðh., að hæstv. ráðh. hafi borið grænmetisverzlun ríkisins þeim sökum, að hún hefði látið undir höfuð leggjast eitt höfuðverkefni, sem henni var fengið með lögunum um grænmetisverzlun ríkisins, að stuðla að ræktun úrvalskartaflna, sem er stórt atriði í lögunum, sem þessi ríkisstofnun á að fara eftir. Það var svo upplýst, að þessi ásökun var röng, úr lausu lofti gripin, og mun þetta vera einsdæmi, að ráðh. beri stofnun, sem undir hann heyrir, þeim sökum, að hún hafi látið undir höfuð leggjast að framfylgja þeim lögum, sem hún á að starfa eftir undir hans stjórn, og þetta benti mér til þess, ég fór nú ekki um það harðari orðum en það, að það væri ekki allt með felldu í þessu máli, það væru hér einhver persónuleg eða pólitísk atriði, sem ekki styddust við málefnaleg rök.

Hér er þrástagazt á því, að þetta frv. sé borið fram samkvæmt óskum framleiðsluráðsins f.h. Stéttarsambands bænda. Ég hef margsagt og segi enn: Ég get vel skilið þessar óskir af hálfu þessa stéttarsambands. En það eru líka til óskir frá öðrum aðilum, og það, sem vantar í undirbúning þessa máls, er, að það hafi verið litið á óskir og rétt annarra aðila, neytendanna í landinu, þeir eru líka til, og það verður aldrei góð meðferð á þessum málum, nema þar eigi sér stað samvinna milli framleiðenda og neytenda, seljenda og kaupenda, og enn fremur þeirra, sem fara með söluna. Hér á að fara eingöngu og einhliða eftir óskum nokkurs hluta framleiðenda, langt frá því að vera allra, en virða að vettugi mótmæli neytenda og jafnvel líka mótmæli verzlunarstéttarinnar, sem hefur farið með sölu þessarar vöru. Og það má ómögulega líta á óskir þessara aðila og taka þá til samstarfs og undirbúnings á breytingum, ef breytinga er þörf á því skipulagi, sem verið hefur. Það liggur ekki fyrir, að þessi stofnun, grænmetisverzlun ríkisins, sé óhæfilega rekin, heldur þvert á móti. Hér er lýst yfir af hv. þm. S-Þ. og fleirum, að þetta sé vinsæl stofnun, hún hafi aflað sér vinsælda með tuttugu ára starfi, jafnvel almennra vinsælda. Þegar það liggur ekki fyrir, að þessi stofnun, þessi einkasala, hafi verið illa rekin eða hafi brotið af sér gagnvart framleiðendum né neytendum, mætti þá ekki þola það um nokkurra mánaða skeið, að þessi stofnun væri til í höndum þeirrar sömu ríkisstj. og undir eftirliti þeirrar ríkisstj., sem hún hefur verið, og málið væri tekið til endurskoðunar, litið á óskir framleiðenda, framleiðsluráðsins f. h. Stéttarsambandsins og óskir neytenda og álit verzlunarstéttarinnar, hæði kaupmanna og kaupfélaga, sem hafa farið með söluna á þessum vörum? Það er þetta, sem ég legg til með minni rökstuddu dagskrá, og ég get ekki fallizt á, að það sé ekki sanngjörn tillaga, eftir að staðið hafa deilur um þetta mál og stefnt að ófriði um þessi mál, að þá sé ekki heppilegra að bíða nokkra mánuði, leyfa þessum fulltrúum þessara aðila, sem sannanlega eiga hlut að máli, að koma saman. Þeir hafa ekki gert það. Það hefur ekki verið kallað á fulltrúa neytenda né heldur smásalanna til undirbúnings þessa máls. Ég held, að þó að það geti verið skiptar skoðanir bæði meðal framleiðenda og meðal kaupsýslumanna um það fyrirkomulag, sem er, og einhverjir geti fundið því eitthvað til foráttu, sem er furðulega lítið, þar sem nm ríkiseinkasölu er að ræða, þá gætu þessir aðilar allir sætt sig við það um nokkurra mánaða skeið, að málið væri tekið til endurskoðunar, og þá kæmi fram skýrt fyrir hv. Alþ. álit fulltrúa þessara aðila.

Það er því mín megin- og aðaltillaga í þessu máli, að þessu máli verði frestað og ekki stefnt út í ófrið um þessi mál, sem öllum hlýtur að vera til skaða, bæði framleiðendum og neytendum, og gerðar ráðstafanir til þess, að fulltrúar þessara aðila geti fjallað um málið og veitt því betri undirbúning en liggur fyrir með þessu frv.